12.12.1957
Efri deild: 38. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 68 í B-deild Alþingistíðinda. (145)

35. mál, útsvör

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Eins og kemur fram í nál., lýstum við hv. þm. Vestm. (JJós) því yfir í n., að við fylgdum brtt. hv. þm. V-Sk, (JK) um að fella hámarkið alveg niður og því aðeins að sú brtt. yrði samþ., mundum við styðja frv.

Má að sjálfsögðu deila um það, hvort það eigi að hafa slíka takmörkun eins og nú er í lögum eða hefur verið í lögum, þessi 10%, eða ekki. Ef ætti að lækka það eitthvað, sýndist eðlilegra að færa það þá niður í t.d. 5% eða þá að fella það alveg niður. Sú tala, sem í frv. er nefnd, virðist vera nokkuð út í hött, og í rauninni má segja, að eðlilegast sé að hafa ekki takmörkun á þessu, heldur leyfa þeim mönnum, sem eru ekki ánægðir með sítt útsvar og vilja kæra það áfram, að gera það án tillits til þess, hvort þar muni skakka 10% eða 3%, eins og í frv. segir,

Það eru önnur ákvæði í útsvarslögunum, sem ég hefði talið miklu meiri þörf á að endurskoða og breyta heldur en þetta, en meiri hl. n. vildi ekki fallast á að taka önnur atriði til meðferðar eða afgreiðslu í sambandi við útsvarslögin nú, svo að það var sýnilegt, að það mundi ekki tjóa á þessu stigi að flytja aðrar brtt., þó að þar sé um nauðsynjamál ýmis að ræða, sem þyrfti að breyta og endurskoða.

Eins og málin því liggja fyrir, teljum við hv. þm. Vestm. rétt að fallast á frv., ef brtt. hv. þm, V-Sk. er samþ., en ella ekki, og teljum sem sagt þessa breytingu miðað við 3% nokkuð út í hött.

Ég skal ekki ræða efnislega það mál, sem ég hreyfði í n., þær breytingar, sem ég teldi æskilegar, en gefst þá væntanlega tækifæri til að flytja um það sérstakt frv.