14.12.1957
Efri deild: 39. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 68 í B-deild Alþingistíðinda. (147)

35. mál, útsvör

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Við 2. umr. um þetta mál hér í deildinni kom fram brtt. frá þm. V-Sk. (JK), sem ég þá mælti á móti. Ég tel, að sú brtt., sem hann var með, muni verða þess valdandi, að mörgum sinnum fleiri menn kæra til yfirskattanefndar og ríkisskattanefndar sín útsvör heldur en ella, og það mun þess vegna út af fyrir sig auka starf nefndanna og tilkostnað við þær. Það er þó ekki aðalatriðið, heldur hitt, að með því móti fá þeir menn, sem hafa löngun til endalausra smáýfinga, möguleika til að taka þær upp, og nefndirnar, sem eiga að dæma um þetta, eru ekkert staðkunnugar. Það eru yfirskattanefndir fyrir heila sýslu, sem eiga að dæma um það, hvort einhverjir tveir menn í Mýrdalnum rífast um 20 kr. á útsvarinu sínu eða ekki, eða menn í Vatnsdalnum, svo að ég nefni staði, þar sem kærur koma svipaðs eðlis eins og þessar til ríkisskattanefndar, þær sem ekki er litið á, — það gefur þeim tækifæri til þess endalaust og stöðugt að kæra og skapa öðrum mönnum og sjálfum sér erfiðleika og fyrirhöfn og óánægju út af því.

Nú leit ég að vísu svo á, að úr því að búið var að samþykkja þetta inn hér, mundi ekki vera hægt að taka greinina upp aftur í því formi, sem hún upprunalega var. En mér er bent á það af gömlum þm. og skrifstofustjóranum, að samkvæmt 32. gr. þingskapa má ekki bera brtt. um atriði, sem búið er að fella í deild, upp aftur á sama þingi í sömu deild, en með því að greinin í upprunalegu formi hefur í raun og veru aldrei verið felld, heldur samþykkt önnur, þá hefur þetta ákvæði í þingsköpunum ávallt verið skýrt svo, að það sé heimilt í þessu tilfelli að taka upp aftur till., sem óbeint hefur fallið við samþykkt annarrar till. Það hefur verið gert, og þess vegna leyfi ég mér að leggja fram hér þá brtt., að 1. gr. orðist svo, að í stað 10% í 2. málslið 26. gr. l. komi 3%.

Það orkar ekki tvímælis, að ef takmarkinu er sleppt alveg burt, verður það til stórkostlegs óhapps fyrir alla, því að það segir sig sjálft, að yfirskattanefndin, — ja, það kann að vera á einstaka stað, við skulum segja t.d. Ólafsfirði, að yfirskattanefndin þar hafi þau persónulegu kynni af högum manna, að hún geti gert greinarmun á því, hvort útsvar sé 5% eða 10% eða eitthvað ósköp lítið, nokkrum krónum hærra, en það eigi að vera. En þegar komið er í heilar sýslur, eins og t.d. Norður-Múlasýslu eða í Reykjavíkurbæ, þá er bæði yfirskatta- og ríkisskattanefnd gersamlega ókunnugt um þær persónulegu aðstæður, sem geta verið til staðar til þess að niðurjöfnunarnefnd heima í hreppnum hafi haft eitt útsvarið 1% eða 2% yfir einhvern skala, sem hún hefur myndað sér, og annað ögn undir. Ríkisskattanefnd er alveg ókunnugt um það. Það eru ekki nema þeir staðkunnugu menn heima í sveitinni eða á viðkomandi stað, sem geta dæmt um það, og þess vegna er vitleysa — hrein og bein vitleysa — að ætla æðri nefndum, sem vantar staðarkunnugleika, að skera úr um það. Það er komið nógu langt niður með 3%, þó að það sé ekki farið að afnema það alveg.

Ég leyfi mér að afhenda forseta þessa brtt., og eftir því sem skrifstofustjóri Alþ. og fleiri segja mér, á hún að geta staðizt, enda þótt mér fyndist fyrst, að hún mundi ekki geta það. En við nánari athugun man ég að minnsta kosti eftir einu eða tveimur tilfellum, þar sem þingsköp hafa verið skýrð á þennan hátt og framkvæmd á þennan hátt í þinginu, t.d. af Gísla Jónssyni, er hann var þingmaður Barðstrendinga og forseti þessarar deildar.