22.04.1958
Neðri deild: 82. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1556 í B-deild Alþingistíðinda. (1472)

162. mál, útflutningur hrossa

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Mér hefur komið í hendur erindi til landbn. Alþingis frá Dýraverndunarfélagi Íslands, sem mér þykir rétt að skýrt sé frá hér í umr., og leyfi mér því, með samþykki hæstv. forseta, að lesa það upp. Það er dags. 18, apríl 1958 og hljóðar svo:

„Stjórn Dýraverndunarfélags Íslands leyfir sér að mótmæla eftirfarandi atriðum í frv. til l. um breyt. á lögum nr. 50 frá 23. júní 1933, um útflutning hrossa:

1) Styttingu þess tíma, sem eigi má flytja út hross (ákvæði í 2. gr.).

2) Hámarksaldri hrossa þeirra, sem má flytja út (ákvæði í 2. gr.),

Stjórnin leyfir sér að mælast til þess við hv. Alþingi, að á tímanum 15. okt. til 1. júní sé útflutningur hrossa undantekningarlaust bannaður.

Rök félagsins fyrir þessum mótmælum eru þessi, að haustveður eru oft hörð og sjólag þá oft hvað verst að dómi margra reyndra sjómanna. Hestar verða sjóveikir, svo að þeir fá hrossasótt, sem oft leiðir til dauða. Hinar þrjár ólöglegu hrossasendingar til Þýzkalands, sem áttu sér stað á þessum vetri, hafa ótvírætt leitt hættu þessa í ljós, þar sem nokkur hrossanna drápust, sbr. upplýsingar Dýraverndunarfélags Hamborgar.

Rétt er að geta þess í þessu sambandi, að aldrei hafa verið lögð fram vottorð frá dýralæknum í Hamborg um ásigkomulag hrossanna, er þangað kom, þó að slík vottorð væru tilskilin af ráðuneytinu og lofað væri að útvega þau.

Varðandi síðara mótmælaatriðið skal bent á, að eftir því sem hross eldast og verða hagvanari, er heimþrá — strok — þeirra meiri, og sama gildir um þá sem manninn, að þeim er þá erfiðara að breyta um störf. Vill því stjórn félagsins mælast til þess, að hámarksaldurinn sé ekki hækkaður frá „11 vetra“, eins og er í gildandi lögum. Helzt er það ósk stjórnar félagsins, að hámarksaldurinn sé lækkaður í „9 vetra“.

Með lögum um dýravernd, sem samþ. voru á Alþ. 5. apríl 1957, var stigið merkilegt spor í þá átt að veita dýrum lagavernd vegna þeirra sjálfra, en horfið frá því stigi að miða alla meðferð dýra við ímyndaða hagsmuni almennings.

Nái breytingar umrædds frv. fram að ganga, þá verður af löggjafans hálfu snúið við og stigið til baka á þeirri þróunarbraut um lagavernd dýranna, sem Alþ, vék svo markvisst inn á 1957. Sú dýraverndunarlöggjöf var sett vegna dýranna sjálfra, til verndar lífi þeirra og líðan.

Umrætt frv. er runnið frá þeim, sem líta fyrst og fremst á þann hagnað, sem kann að verða af útflutningi hrossa. Hesturinn er það dýr, sem hvað lengst hefur staðið í nánustum tengslum við okkur Íslendinga. Samrýmist það því illa fyrrnefndri lagaþróun eða samúðarkennd manna, að skert sé lagavernd að því er líf og líðan hestsins snertir til þess að auðvelda sölu hans erlendis.“

Nú skilst mér, að með brtt. á þskj. 432 sé komið móts við eitt atriði í þessum ábendingum, þ.e.a.s. að útflutningsaldurinn er lækkaður úr 12 vetrum niður í 10 vetur, og virðist mér það því hljóta að vera til bóta frá sjónarmiði þeirra, sem þetta bréf hafa skrifað. Aftur á móti hefur hv. landbn. ekki treyst sér til að breyta um heimildina til útflutnings, lætur ákvæði frv. vera ósnert um það efni, og vildi ég því mega óska nokkru nánari skýringar hennar á því, af hverju ekki er hægt að verða við tilmælum Dýraverndunarfélagsins, og þar með, hvaða ástæður knýja til þess að gera breytingar frá því, sem verið hefur ákveðið í lögum nú um aldarfjórðungsskeið.

Í þessu sambandi vildi ég leyfa mér að beina þeirri spurningu til hæstv. landbrh., sem ég harma að ekki skuli vera viðstaddur, en vona, að hv. n. komi þá áleiðis og málið verði ekki afgreitt héðan, fyrr en svar hæstv. ráðh. liggur fyrir: Er það rétt, að á s.l. vetri eða þeim vetri, sem nú er að líða, hafi verið veitt leyfi til útflutnings hrossa þvert ofan í gildandi lagabókstaf, að það sé engin undanþáguheimild til, sem leyfi útflutning hestanna á því tímabili, sem hann var leyfður? Og ef slík undanþáguheimild er ekki til í lögum, eftir hvaða heimild hefur hann þá verið leyfður? Ef nauðsyn var til þess að gera þessar ráðstafanir, — og inn í það mál skal ég ekki blanda mér á þessu stigi, — af hverju var þá ekki lagabreytingin fengin áður, en ekki leitað hennar fyrst nú eftir á? Og ef of langan tíma tók að leita samþykkis Alþ., sem væntanlega mundi nú ekki verið hafa, var þá ekki mögulegt að gefa út brbl. í eins og hálfs mánaðar jólafríinu, svo sem stundum hefur verið gert? Þetta er atriði, sem ég tel brýna nauðsyn að fá úr skorið, áður en málið verður afgreitt héðan frá deild. Helzt kysi ég, að hæstv. forsrh. yrði sjálfur viðstaddur, þannig að þetta mál væri hægt að ræða við hann, en væntanlega hefur landbn. nú þegar kynnt sér þetta og getur gefið einhverjar upplýsingar um það. Hafi hún ekki gert það, þá vil ég mjög eindregið fara þess á leit, að umr. verði frestað.