08.05.1958
Neðri deild: 89. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1628 í B-deild Alþingistíðinda. (1584)

150. mál, atvinna við siglingar

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég skal ekki vera fjölorður og tek hér til máls nú aðeins að gefnu tilefni.

Út af því, sem ég sagði um afstöðu samtaka útgerðarmanna til þessa frv. og mér virtist eitthvað vera dregið í efa hér áðan, þá vil ég geta þess, að sjútvn. sendi frv. til umsagnar Landssambandi ísl. útvegsmanna, og henni barst svar sem er dags. 17. apríl s. l. Í þessu svari segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Mál þetta var tekið til afgreiðslu á fundi stjórnar Landssambands íslenzkra útvegsmanna í dag, og var þar samþykkt að mæla með þeim höfuðsjónarmiðum, sem fram koma við flutning á téðu frv., þ. e. að færa gildandi ákvæði laga um réttindi vélstjóra, sem starfsmenntun sína hafa fengið á mótornámskeiðum Fiskifélags Íslands, meira til samræmis við það, sem nú er í framkvæmd.“

Auk þess eru svo í þessari umsögn nokkrar hugleiðingar um einstök ákvæði frv., og það, sem þar er lagt til, er, að gengið verði lengra í því að auka réttindi vélstjóra, en gert var í frv.

Það fer því ekkert á milli mála um afstöðu Landssambandsins til þessa frv., og ég vil segja það, að það hefur haft mikil áhrif á afstöðu mína til þessa máls, að þannig er undir það tekið af samtökum útvegsmanna.

Hv. þm. A-Húnv. gerði hér að umræðuefni brtt. mína á þskj. 476, og sýnist mér, að hann hefði átt að spara sér þá athugasemd, því að hún sýndi aðeins, að hann hefur ekki kynnt sér það mál, sem hér liggur fyrir, eða gert sér ljóst, hvert efni brtt. er. Ég þóttist taka það glöggt fram í ræðu minni hér áðan, en vera má, að hv. þm. hafi ekki tekið eftir því, að í sambandi við menntun og réttindi vélstjóra er um tvenn lög að ræða, önnur, sem fjalla um menntun vélstjóra, og hin, sem fjalla um atvinnu við siglingar á íslenzkum skipum. Þetta frv. fjallar aðeins um breytingu á öðrum þessara laga, þ. e. á lögunum um atvinnu við siglingar á íslenzkum skipum, en brtt. mín um endurskoðun fjallar um það, að endurskoðun verði látin fara fram á þessum tvennum lögum samtímis og þau samræmd. Þó að það sé gert, þá þarf ekki að vera neitt því til fyrirstöðu, að nú fyrst um sinn sé sú ráðstöfun gerð, sem frv. felur í sér, að veita ýmsum mönnum aukin réttindi. En að sjálfsögðu mundu þá ný lög, ef sett verða, gilda um réttindi eftirleiðis. Það er vitanlega ekkert því til fyrirstöðu, að hægt sé að framkvæma þessa endurskoðun, eins og hér er gert ráð fyrir henni, á milli þinga.