17.12.1957
Efri deild: 44. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 74 í B-deild Alþingistíðinda. (161)

35. mál, útsvör

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Ég sé, að við meðferð málsins hér í hv. deild hefur verið gerð breyting á frv. í þá átt að fella niður þá lágmarkstölu, sem í frv. var upphaflega. Ég hef látið í ljós við 1. umr. í tilefni af framkominni slíkri till., að mér væri það ekkert mikið kappsmál, hvort lækkuð væri lágmarkstalan, sem í frv. var, eða jafnvel, eins og fram hefði komið, verði felld niður. En nú er komin fram till. um hækkun á þeirri lágmarkstölu, sem í frv. felst, og hún liggur nú fyrir í hv. deild, að lágmarkstalan verði ekki 3%, heldur 31/2%. Mér er illa við, að lágmarkið sé hækkað, og er andvígur því, að slík breyting sé á frv. gerð. Auk þess er nú komið fast að því, að fundum þings verði frestað. Þess vegna er mér enn fremur illa við breytingu á frv. og legg því til, að lágmarkstalan verði ákveðin 3% eins og upphaflega var í þessu frv. og einróma var samþ. í hv. Nd. Yrði sú till. samþ., getur málið hlotið fullnaðarafgreiðslu frá þinginu með þessari umr. og þarf þá ekki að fara aftur til Nd. Ég legg því áherzlu á það, að úr því sem komið er, þegar till. hefur komið fram og verið hér samþ. um að fella lágmarkstöluna niður og síðan komin fram till. um að hækka lágmarkið, þá vil ég óska þess af hv. deild, að lágmarkstalan sú hin sama, 3%, sem í frv. var upphaflega, verði hér samþ. og frv. þannig afgreitt.