21.10.1957
Efri deild: 6. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 37 í C-deild Alþingistíðinda. (1687)

19. mál, tollskrá o. fl.

Flm. (Gunnar Thoroddsen) :

Herra forseti. Hagnýting jarðhitans er eitt hið mesta hagsmunamál Íslendinga. Reynsla er þegar fengin af nokkrum hitaveitum hér á landi, sem hafa sýnt það, að þær hafa sparað gjaldeyri stórkostlega fyrir þjóðina, orðið fjárhagslega góð og nýt fyrirtæki og til mikilla þæginda og hagsbóta fyrir þá landsmenn, sem þeirra hafa notið. Enn eru geysilegar auðlindir ónotaðar og ókannaðar eða litt kannaðar í þessum efnum.

Allir landsmenn munu á einu máli um, að kosta beri kapps um að kanna þessar auðlindir og hagnýta þær til hagsbóta fyrir allan landslýð. En grundvallarskilyrði þess, að svo megi verða, er það, að hingað séu fengnir til landsins hagkvæmir jarðborar til þess að bora eftir heitu vatni og gufu.

Í fyrra sömdu ríkisstj. og bæjarstjórn Reykjavíkur um það að fá hingað til landsins í samlögum mjög stórvirkan gufubor til þess að kanna helztu jarðhita- og gufusvæðin hér á landi, eins og Krýsuvíkursvæðið, Námaskarð og þar í grennd, Hengilssvæðið o. fl. En það er ekki eingöngu, að á þessum stórvirka bor þurfi að halda, heldur þarf á næstu árum vafalaust að kaupa fleiri jarðbora af ýmsum gerðum til þess að rannsaka jarðhitann víðs vegar um land.

Nú er það svo, að í gildandi lögum eru allhá aðflutningsgjöld lögð á slík tæki, og virðist ekki fullkomið samræmi milli þess, hversu há aðflutningsgjöld eru lögmælt af slíkum tækjum, og þess, sem tekið er í aðflutningsgjöld af ýmsum öðrum nauðsynjatækjum vegna framleiðslunnar og hagnýtingar orkulindanna. M. a. er svo ákveðið í tollskránni, að fjrmn. eru veittar margvíslegar heimildir til þess að gefa eftir eða lækka aðflutningsgjöld af ýmsum nauðsynlegum tækjum vegna sjávarútvegs, landbúnaðar og iðnaðar, og enn fremur eru í sjálfri tollskránni lágir tollstigar fyrir ýmis slík tæki. Það er hvort tveggja í senn, að tollar og aðflutningsgjöld eru yfirleitt lægri á slíkum nauðsynjatækjum fyrir atvinnu og framleiðslu, heldur en öðrum og auk þess veittar margvíslegar undanþáguheimildir í tollskránni.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir og flutt er af hv. 1. landsk. og hv. 4. þm. Reykv. ásamt mér, fer fram á það, að fjmrn. sé veitt heimild til þess að fella niður eða lækka aðflutningsgjöld af jarðborum, sem notaðir eru til að bora eftir gufu eða heitu vatni, og tækjum til þeirra.

Ég gat um það, að slíkar heimildir væru margar í lögum, og má m. a. nefna þær heimildir, sem einnig hafa verið notaðar, að verulegar lækkanir á tollum hafa átt sér stað varðandi vélar og tæki í skip og báta, sem smíðaðir eru innanlands. Landbúnaðarvélar og áhöld eru í tiltölulega lágum flokki aðflutningsgjalda. Vélar til veiðarfæragerðar, margvíslegs iðnaðar eru einnig ýmist í lágum flokki eða undanþáguheimildir.

Ég vænti þess, að hv. þdm. geti fallizt á, að eðlilegt sé að veita slíkar lækkunarheimildir varðandi þessi þýðingarmiklu tæki til hagnýtingar jarðhitans, og legg til, að frv. sé vísað til 2. umr. og hv. fjhn.