18.03.1958
Neðri deild: 68. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 95 í C-deild Alþingistíðinda. (1790)

153. mál, eftirlit til varnar ofeyðslu hjá ríkinu

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson) :

Herra forseti. Það er eðlilegt, að menn leiti að leiðum til þess að minnka umframgreiðslur, því að þær eru mjög hvimleiðar og orrustan út af þeim stendur sífellt, eins og kunnugt er. Það er þess vegna sjálfsagt að mínu viti, að hv. Alþingi og allir, sem hér eiga hlut að máli, íhugi hleypidómalaust allar uppástungur, sem fram kunna að koma og miðaðar eru við að reyna að minnka umframgreiðslur á fjárlögum.

Nú er hér ein slík hugmynd á ferðinni í þessu frv. og frá hv. þm. A-Húnv. Áður en ég vík að henni sérstaklega, vil ég fara örfáum orðum almennt um þetta mál, sumpart af tilefni, sem gefið er í grg. frv., sem hv. þm. hafa séð.

Ég hef heyrt því haldið fram undanfarið, þótt ekki sé tekið svo til orða í grg., að Alþingi væri í þann veginn að missa fjárveitingavald sitt og það bæri brýna nauðsyn til þess, að Alþingi endurheimti fjárveitingavaldið, eins og sumir hafa komizt að orði. Þó að það kæmi ekki fram núna hjá hv. þm. A-Húnv., hef ég séð þetta undanfarið, að menn hafa kastað þessu nokkuð á milli sín. Út af þessu hef ég athugað þetta mál allgaumgæfilega, hvernig saga þess er, og ég hef reynt að gera samanburð á því, hvernig til hefur tekizt með fjárlög og framkvæmd þeirra síðan 1924.

Það er dálítið erfitt að finna fullkominn samanburð, þannig að hann verði alveg öruggur. En ég ætla, að tilhneiginguna í þessu efni sé bezt að sjá með því að miða við rekstrarreikning ríkissjóðs. Það er vegna þess, að á sjóðsyfirlitinu og eignahreyfingayfirlitinu eru svo margir viðskiptaliðir, sem rugla þennan samanburð, að það þyrfti mjög nákvæma rannsókn, til þess að hægt væri að bera þær tölur saman. Ég held því, að það gefi langréttasta mynd af þessu máli eða a. m. k. hlutfallsmynd að skoða annars vegar fjárveitingar á fjárlögum og hins vegar útgjöld á rekstrarreikningi ríkissjóðs.

Ég hef skipt þessu tímabili í fernt. Ég tek í einu lagi tímabilið 1924–34, og þá kemur í ljós, að umframgreiðslur á rekstrarreikningi umfram fjárlög eru 31.48% að meðaltali, sem er náttúrlega ákaflega há fjárhæð. Síðan tek ég árin 1935–39, og þá fara þessar umframgreiðslur niður í 13.64% að meðaltali. Síðan tek ég enn saman árin 1940–49, þ. e. a. s. 10 ár, og þá hafa umframgreiðslur á rekstrarreikningi að meðaltali verið 55.5%. Loks tek ég árin 1950 og síðan, sem fyrir liggja, 1950–56, og þá kemur í ljós, að umframgreiðslur hafa orðið að meðaltali 10.07%, eða m. ö. o., að umframgreiðslur hafa síðustu árin, frá 1950–56, verið tiltölulega einn fimmti af því, sem þær voru næstu 10 árin á undan.

Það er þess vegna tvímælalaust nokkuð villandi að tala um það, eins og sumir hafa gert, að það bæri sérlega brýna nauðsyn nú til þess að endurheimta fjárveitingavaldið til Alþ. Að því leyti er þetta alveg villandi, að nú upp á síðkastið hefur þó þróunin eindregið verið í þá átt, að bilið á milli fjárlaga og landsreiknings hefur farið svo ört minnkandi, að umframgreiðslur á rekstrarreikningi eru sem sagt um 1/5 hluti þess, sem þær voru 10 næstu árin á undan að meðaltali.

Nú þyrftu þessar umframgreiðslur auðvitað að verða miklu minni, en þær eru enn þá, þó að þær hafi minnkað svona stórkostlega frá því, sem áður var, því að það mátti segja, að fjárveitingavaldið væri óðfluga dregið úr höndum Alþ., t. d. á árunum 1940–49, þegar umframgreiðslur á rekstrarreikningi voru að meðaltali 55%, og eitt árið fóru þær upp í 216%. En þó að þetta hafi lagazt verulega síðan, þá er þó þess að gæta, að þetta þyrfti að breytast enn til bóta.

Þá vil ég víkja aðeins örlítið að samanburði í þessu efni, sem er í grg. frv. og er að mínu viti þannig, að hann hefur ekki mikla raunverulega þýðingu, en þar er rætt um umframgreiðslur árin 1950–56 og byggt á niðurstöðum fjáraukalaga síðustu ára, 1950–54. Þessar tölur eru vafalaust rétt teknar upp, en þær gefa bara ekki rétta mynd af þessum málum. Það er ekki hægt að fá neina samanburðarmynd af þessum málum með því að taka með ýmsa af þeim viðskiptaliðum, sem eru á 20. gr., eða byggja á fjáraukalögunum, því að það hefur verið á reiki, hvernig Alþ. hefur gengið frá þeim.

Til dæmis um þetta vil ég bara taka fram, að t. d. 1950 eru fjáraukalögin upp á 122.7 millj., og þar eru taldar umframgreiðslur í samanburðinum í grg., 122.7 millj., en í þessari tölu eru t. d. taldir liðir eins og niðurgreiðslur á lausaskuldum ríkissjóðs. Það er náttúrulega ekki undir neinum kringumstæðum hægt að kalla það umframgreiðslur, að greiddar séu niður lausaskuldir ríkissjóðs. Enn fremur eru taldar í þessu sambandi 1950, — ég hef sérstaklega athugað þetta atriði, af því að þetta var í grg. og mér komu þessar tölur svo ókunnuglega fyrir, — þarna er líka 1950 talið fé, sem lagt er út vegna togarakaupa, mest af því til bráðabirgða, og nam hvorki meiru né minna en 41½ millj. kr. Fleiri viðskiptaliðir eru þarna, sem eru þannig vaxnir, að það gefur enga mynd af umframgreiðslunum eða þróun þeirra mála að bera saman við fjáraukalögin. Það verður að bera saman við reikninginn sjálfan, annaðhvort við rekstrarreikninginn, sem er tvímælalaust langgleggst, því að þar koma engir svona viðskiptaliðir inn í, eða þá að fara líka í 20. gr. og taka þá nákvæmlega út, hvað teljast þar raunveruleg útgjöld og hverjir eru þá aðrir viðskiptaliðir, sem ekki geta talizt til útgjalda í því sambandi.

En samanburðurinn verður áreiðanlega gleggstur og gefur nokkuð glögga mynd a. m. k. um þróunina, eins og ég gerði hann hérna áðan, þegar ég upplýsti um umframgreiðslur síðan 1924, dregið saman í fáar tölur.

Þá vil ég ræða ofurlítið um ástæðurnar fyrir umframgreiðslunum, því að ég held, að menn misskilji nokkuð stundum, hverjar þessar umframgreiðslur eru.

Umframgreiðslurnar eru margvíslegar. Þar eru t. d. lögboðnar greiðslur, sem reynast hærri, en áætlað hefur verið. Þótt slíkar greiðslur séu inntar af höndum, er ekki með því verið að draga fjárveitingavaldið úr höndum Alþ. Þarna kemur aðeins til, hvernig ríkisstj. og Alþ. hefur heppnazt að sjá fyrir, hversu miklar þessar lögboðnu greiðslur mundu verða. Ef því á að athuga þetta nánar og sjá, að hve miklu leyti veitt er fé án heimilda, yrði að fara fram nákvæm rannsókn á öllum landsreikningunum og samanburður.

En svo eru vitaskuld líka til aðrar umframgreiðslur, og þær eru þannig vaxnar, að rekstrarkostnaður ýmiss konar, verður meiri en hann hefur verið veittur á fjárl. Þetta eru þær hreinu umframgreiðslur, sem vitanlega eru allt of miklar í ríkisrekstri okkar og þjóðarbúskap, og engum ætti að vera það ljósara, en mér með þá reynslu, sem ég hef haft í fjmrn., hvernig það er að glíma við þann draug. Í því sambandi vil ég t. d. minna á eitt atriði, vegaviðhaldið, sem er geysilega stór liður í ríkisreikningnum. Það hefur jafnvel komið fyrir, að vegaviðhaldið hafi farið 9 milli. kr. fram úr áætlun, sem er alveg gífurleg fjárhæð samanborið við fjárveitinguna. Stundum hefur umframgreiðslan á vegaviðhaldinu komizt miklu neðar, en ævinlega hefur verið einhver umframgreiðsla. Hvernig sem fjmrn. hefur knúið á með að halda vegaviðhaldinu alveg innan ramma fjárveitingarinnar, hefur það aldrei tekizt á síðari árum. Þetta er alls ekki fyrir það, að vegamálastjóri hafi viljað svíkja fjmrn. í þessu eða Alþ. Hann hefur verið að reyna að halda eftir, þangað til síðari hluta ársins, svo og svo háum fúlgum og áætlað, að þær ættu að duga til þess að komast með vegaviðhaldið alla leið að áramótunum. En svo hafa alltaf komið fyrir alls konar atvik á árinu, sem hafa raskað þessu. Vegamálastjóri hefur sem sé aldrei talið sér fært að taka frá nógu háa fjárhæð á vorin til þess að mæta óhöppunum síðari hluta ársins, snjómokstri og öðru slíku, þannig að vegaviðhaldið hefur ævinlega farið fram úr áætlun. Þannig er þetta með fleiri liði, og ég veit satt að segja ekki, hvernig á að lækna þetta. Menn hika við að setja nógu háar fjárhæðir í fjárl. Sennilega læknast þessi mein samt aldrei, nema ríkisstj. eða þeir tveir ráðherrar, sem eiga hér hlut að máli, annars vegar sá ráðherra, sem hefur „fag“-ráðuneytið, og hins vegar fjmrh., tækju rögg á sig og neituðu algerlega að greiða nokkurn eyri umfram fjárveitingarnar, hvernig sem á stæði, þó að það kostaði það t. d., að vegir yrðu algerlega ófærir síðast á árinu, og þá í því trausti, að þetta yrði svo alvarlegur atburður, að þeir, sem stýra þessum málum, mundu næst leggja nógu mikið til hliðar til að mæta kostnaði síðari hluta ársins. Þá mundi það vitanlega aftur þýða, að það yrði minna til ráðstöfunar í vegaviðhaldið á vorin.

Svipað er með strandferðirnar, þennan geysistóra lið, og er skemmst að minnast ársins 1955. Þá urðu mjög miklar umframgreiðslur á strandferðunum. Það kom margt til. Það kom til, að orðið höfðu miklar kauphækkanir og verðhækkanir. Við slíkar aðstæður kemur upp spurningin: Á að stöðva strandferðirnar, þegar fjárveitingin er búin, eða á að reyna að halda gangandi með því minnsta fjármagni, sem hlutaðeigendur telja sig geta komizt af með, en það þýðir þá umframgreiðslur? Þessu stendur stjórnin frammi fyrir, bæði ráðh., sem fer með strandferðirnar. og fjmrh.

Þó að endurskoðendur landsreikninganna yrðu kvaddir til, til viðbótar, eins og hér er stungið upp á, mundu þeir lenda alveg í nákvæmlega sama vandanum og ráðherrarnir. Það mundi verða kallað á þá eða öllu heldur þeir yrðu að vera hér í bænum alla tíð til að ráðgast um þessi mál, vera eins konar viðbótarráðherrar. Þeir yrðu að fylgjast með öllum ríkisrekstrinum til þess að geta dæmt um, hvort umframgreiðslur kæmu til greina, og þeir mundu lenda í alveg nákvæmlega sama vandanum og ráðh., hvort það ætti að hætta að borga út vegaviðhaldið og láta vegina lokast eða hvort það ætti að stöðva t. d. strandferðir o. s. frv., o. s. frv. Þannig er það vitanlega engin lausn í sjálfu sér, þó að einhverjum tveimur mönnum eða þremur væri bætt við til ráðuneytis um, hvernig með skyldi fara. Vandinn er þar eftir sem áður, og þarf að taka afstöðu til hans.

Í sambandi við þetta dæmi, sem ég tók um Skipaútgerðina og strandferðirnar, þykir mér fróðlegt að benda á það aftur, að það varð mikil umframgreiðsla hjá strandferðunum 1955. Endurskoðendur landsreikninganna gerðu athugasemdir við það eftir á, eins og hv. þm. A-Húnv. veit.

Þegar þeir svo voru búnir að fá miklar útskýringar á því, hvernig á þessari miklu útgjaldahækkun stóð, var úrskurður þeirra svofelldur:

„Forstjóri Skipaútgerðarinnar hefur gefið allýtarlegar upplýsingar um ýmisleg mikilvæg fjárhagsleg atriði stofnunarinnar, er sýna þörf hennar fyrir mikið fé að óbreyttu fyrirkomulagi á starfi hennar.“

Ég dreg það alls ekki í efa, að menn, sem úrskurða að lokum svona eftir á án þess að standa í vandanum, mundu hafa úrskurðað, ef þeim hefðu verið falin þessi störf, eins og hlutaðeigandi ráðh. hafa gert, að það yrði að halda Skipaútgerðinni gangandi til áramóta, og umframgreiðslan hefði sjálfsagt orðið nákvæmlega sú sama, þó að það hefði þurft að tala við þá árið 1955.

Þetta er bara til þess að benda á, hversu þetta umframgreiðsluvandamál er margþætt og erfitt viðfangs. Það kemur að lokum að því, að það verður aldrei hægt að koma í veg fyrir umframgreiðslur, nema ráðherrarnir eða þeir, sem til þess verða settir með þeim, tækju þá ákvörðun að stöðva þann rekstur, sem ekki getur komizt af með það, sem Alþingi skammtaði. Og ef til vill verður það þetta, sem þarf að gera til þess að koma þessum málum í mun betra horf, en þau eru.

Ég er mjög óánægður með þróun þessara mála á undanförnum árum, þó að umframgreiðslurnar hafi stórlega lækkað og ekki orðið nema 1/5 af því, sem þær voru áður. Ég er mjög óánægður með, hvað ráðuneytin hafa mörg verið hirðulítil, að ég ekki segi hirðulaus um það að halda útgjöldum þeirra stofnana í skefjum, sem undir þau heyra.

Oft og tíðum hafa ráðuneytin sjálf og einstakir ráðh. stofnað til stórútgjalda án þess að tala um það einu orði við fjmrn. og stofnað til skuldbindinga á hendur ríkissjóði, og svo hefur bara verið komið með reikningana á eftir. Og svo er stundum bætt gráu ofan á svart með því að senda menn til þess að skammast út af þeim umframgreiðslum og þeirri gjaldaaukningu, sem þannig er til komin.

Ég hef margoft bent á það hér á Alþingi, að ráðuneyti og stofnanir leggja allt of litla vinnu í að vanda áætlanir sínar vegna fjárlaga, en fjmrn. hefur ekki mannafla til þess að fylgjast nákvæmlega með hverri einustu starfsgrein eða hverjum einasta manni svo að segja, sem vinnur í þjónustu ríkisins, og verður að treysta á stofnanir og önnur ráðuneyti um áætlanirnar. En hvernig sem hamazt er í því ár eftir ár að fá öruggar áætlanir t. d. um lögboðin útgjöld, þá er ómögulegt að fá þessar áætlanir gerðar tryggar. Ég vil nefna dæmi eins og um kennaralaun. Það hefur ekki ár eftir ár, með hversu miklum eftirgangsmunum sem eftir hefur verið gengið, fengizt áætlun um kennaralaun, sem hefur verið nálægt því að standast. Manni sýnist þó, að það ætti að vera hægt að reikna eitt ár fram í tímann svona hér um bil, hvað muni þurfa að fjölga kennurum í landinu. En það hefur ekki tekizt. Svo sýpur fjmrn. seyðið af þessu, verður að borga launin auðvitað langt umfram áætlun og hlýtur svo í þokkabót ádeilur óhlutvandra manna um það, að það sé fjmrn., sem efni til umframgreiðslnanna. Og þannig mætti því miður lengi telja.

Það þarf að fá betri áætlanir í þessum efnum, og útgjaldaráðuneytin verða sannarlega að búa öðruvísi að fjmrn. og Alþingi í þessum málum en þau hafa gert á undanförnum árum, ef takast á að minnka umframgreiðslunnar. Og það vil ég segja, að ef ekki er hægt að koma inn nýjum anda að þessu leyti, ef ekki er hægt að lemja það inn í hlutaðeigendur, að það þurfi að gera áætlanirnar betur úr garði, ef það tekst ekki, en það eitt væri gert að fela endurskoðendum landsreikninganna að meta það, hvort umframgreiðslur eigi sér stað eða ekki, þá yrði það bara til þess að setja hv. þm. A-Húnv. í nákvæmlega sama vandann að þessu leyti eins og ég hef verið á undanförnum árum, og félaga hans, nákvæmlega sama vandann og leiða yfir hann að þurfa að standa ábyrgan fyrir umframgreiðslunum, því að hann yrði vitanlega í mjög mörgum dæmum að samþykkja þær, eins og ráðh. hafa orðið að gera. En úr umframgreiðslunum drægi sú skipan ekkert. Hv. þm. A-Húnv. yrði eins konar yfirráðherra að þessu leyti ásamt tveim öðrum yfirendurskoðendum landsreikninganna. Þeir mundu svo auðvitað ekki treysta sér til að láta loka vegunum, þeir mundu ekki treysta sér til að láta loka sjúkrahúsunum, og þeir mundu ekki treysta sér til þess að láta hætta strandferðunum o. s. frv., þó að fjárveitingarnar væru búnar, og þeir mundu sem sagt eiga allt sitt undir því, hvort áætlanirnar í fjárlögunum hefðu verið nægilega háar eða ekki. Og þeir mundu ekkert frekar ráða við þá, sem gera þessar áætlanir, en fjmrn. hefur gert eða hv. Alþ. hefur gert.

Varðandi umframgreiðslur almennt vil ég taka dæmi 1955, af því að það er reikningurinn, sem liggur hérna fyrir hv. Alþ. og kemur hér bráðum til meðferðar í hv. d. Það eru talsvert miklar umframgreiðslur 1955, þó að þær séu litlar, samanborið við það, sem tíðkaðist hér á árum áður og þeir töldu gott þá, skilst mér, sem nú eru óánægðir eða láta í ljós óánægju með umframgreiðslur. Ég vil í þessu sambandi benda á, að 1955 eru umframgreiðslur á langflestum liðum fjárl., og þá er aðalástæðan sú, að á því ári var hækkandi dýrtíð yfirleitt og á því ári voru gerðar ráðstafanir til þess að afnema ýmsar skerðingar á launum embættismanna, sem höfðu verið í gildi undanfarin ár, og þetta hafði mjög mikil áhrif til hækkunar á fjárl. í framkvæmdinni. Sumt af þessu var ákveðið, eftir að gengið var frá fjárl. Annað hafði verið áætlað of lágt. Þetta er aðalástæðan til þess, að útgjöldin fóru talsvert mikið fram úr áætlun.

Þá fóru útgjöldin til þess að greiða niður afurðir rúmar 5 millj. fram úr áætlun, og þó voru niðurgreiðslur á afurðir ekkert auknar 1955, alls ekkert auknar. Þetta var vegna þess, að neyzlan varð meiri en þeir, sem áttu að áætla þessa liði, höfðu gert ráð fyrir. Rúmar 5 millj. bara þessi eini liður. Og þá var einnig ákveðið eftir á af þáverandi ríkisstj. að beita sér fyrir því, að greiddar væru 3½ millj. úr ríkissjóði til uppbóta á útflutning Suðurlandssíldar á árinu 1955, Þetta var ákveðið, eftir að fjárl. voru gerð, og síðan staðfest af Alþ., og svona mætti telja.

Þá var líka efnt til umframgreiðslu í flugmálum, stofnkostnaði við flugið, upp undir 2 millj., án þess að það væri ráðgazt um það við fjmrn. einu einasta orði, og stórfelldar skuldbindingar teknar í því sambandi.

Það, sem ég hef sagt um umframgreiðslur almennt, sýnir, að þær eru sumpart fyrir það, að lögleg útgjöld eru ekki nægilega hátt áætluð í fjárl., og hvernig sem fjmrn. hefur brýnt það fyrir þeim, sem hér eiga hlut að máli, að gæta sín vel í þessu efni, hefur það ekki tekizt til fulls. Þó hefur minnkað bilið milli fjárl. og landsreiknings.

Þá koma þær umframgreiðslur, sem eru vegna óhappa, sem mjög erfitt er við að glíma og líka mundi verða mjög erfitt við að fást, þó að endurskoðendur landsreikninganna yrðu þar að vera með í ráðum. Og ég spyr í því sambandi: Eru meiri líkur fyrir því, að yfirskoðunarmenn landsreikninganna geti staðið á móti umframgreiðslum heldur en ráðherrarnir? Ég dreg mjög í efa, að svo sé.

Þá er eitt atriði í sambandi við þetta frv., sem ég vil benda á og er þannig vaxið, að það þarf að skoða vel, hvort þar er ekki fólgin hætta á því, að umframgreiðslurnar aukist stórkostlega frá því, sem verið hefur. Það eru ekki smáræðis óskir um umframgreiðslur, sem ráðherrarnir hafa neitað með skírskotun til þess, að það væri ekki fé til þeirra hluta í fjárl. og þeir hefðu ekki fjárveitingavald. Það er nærri því daglegur viðburður, að ráðh. neiti greiðslum og framlögum með þessum rökstuðningi. En ef búið væri að setja í lög, eins og hv. flm. gerir ráð fyrir, að það sé heimilt að greiða úr ríkissjóði án samþykkis Alþ., en með samþykki yfirskoðunarmanna landsreikninganna, ef þeim er afhent fjárveitingavaldið á þann hátt, sem ég get ekki litið öðruvísi á, en meiningin sé að gera með þessu frv., ef þeim er bókstaflega afhent fjárveitingavaldið á milli þinga, og þeir geta þess vegna ekki borið það fyrir sig, að þeim sé algerlega meinað að verða við þessari og þessari ósk, heldur þvert á móti hægt að sýna fram á, að þeir hafi heimild í lögum til að verða við henni, ef þeir vilji, er þá ekki hætta á því, að raunverulegar umframgreiðslur, þ. e. a. s. þær umframgreiðslur, sem hættulegastar eru, stóraukist? Ég kasta þessari spurningu fram, því að hér er sannarlega mál á ferðinni, sem þarf að íhuga vandlega.

Enginn mundi verða ánægðari, en ég með það að fá aukið aðhald um umframgreiðslurnar, því að þar er vitanlega allur vinningurinn fyrir fjmrn., að það sé sem allra erfiðast að fá umframgreiðslurnar, og þar í fer mikið af starfi fjmrn. að reyna að halda öðrum í skefjum, sem vilja ekki leggja sig fram um að hafa umframgreiðslurnar sem minnstar og sækja á. Ég hef því auðvitað áhuga fyrir öllu, sem raunverulega gæti orðið til þess að standa á móti kröfum um umframgreiðslur. En ég bendi á þessa hættu. Ég bendi á, að þarna er í 2. gr. gert ráð fyrir því, að það sé heimilt að greiða fé úr ríkissjóði utan fjárlaga, ef samþykki yfirskoðunarmannanna komi til. M. ö. o.: Alþ. framselur þá til þeirra fjárveitingavaldið. E. t. v. er þetta til komið hjá hv. þm. A-Húnv. vegna þess, að hann hugsi sem svo: Alþ. er búið að missa fjárveitingavaldið hvort sem er. Umframgreiðslurnar eru svo miklar. Það er ekkert tekið tillit til þess, hvort fjárveiting er fyrir þessari og þessari fjárhæð eða ekki. — En þetta er byggt á mjög alvarlegum misskilningi hjá hv. þm. A-Húnv., vegna þess að ríkisstj. ver sig stórkostlega umframgreiðslum einmitt með því að vísa til þess, að Alþ. hefur fjárveitingavaldið, og langsamlega mestur hlutinn af umframgreiðslunum er lögboðin útgjöld og þess vegna alls ekkert verið að fara fram hjá Alþ. með því að greiða þau umfram fjárlög. Hitt er hverfandi hluti umframgreiðslnanna, sem er þannig, að það sé hægt að segja, að þær séu fjárveitingar, án þess að Alþ. sé spurt.

Það þarf að skoða mjög vandlega málið allt, áður en lagt er út í það að opna þarna leið til þess, að menn geti fengið nýjar fjárveitingar á milli þinga.

Þá vil ég einnig alveg sérstaklega benda á, að mér finnst það fjarstæða að ætla yfirskoðunarmönnum landsreikninganna að úrskurða um, hvort það megi greiða einhverjar fjárhæðir eða ekki umfram fjárlög. Þetta mundi að mínu viti vera hliðstætt því að fela framkvæmdastjóra í fyrirtæki endurskoðunina eða fela endurskoðanda í fyrirtæki framkvæmdastjórnina, Vitaskuld leiðir það alveg af sjálfu sér, að ef hér ættu að koma til nýir menn, þá ættu það allir aðrir fremur að vera, en endurskoðunarmennirnir, því að vitanlegt er það, að þessir endurskoðunarmenn mundu þurfa að leggja dóm á gerðir þeirra manna, sem þarna ættu hlut að máli, ekkert síður, en gerðir ráðherra. Það virðist helzt gert ráð fyrir því, að þessir yfirskoðunarmenn landsreikninganna hljóti að vera gæddir einhverjum yfirnáttúrlegum hæfileikum og að það komi ekki til greina, að þeirra verk þurfi að leggja undir nokkurt álit eða gagnrýni. Ef hér ætti að bæta við yfirmönnum, þá koma náttúrlega allra sízt til greina yfirskoðunarmennirnir, sem ættu þá að endurskoða sjálfir sín eigin verk. Þeir ættu sem sé að endurskoða umframgreiðslurnar, eins og þeir hafa gert undanfarið, og fella dóm um, hvort þeim sjálfum hefði tekizt rétt að meta, hvort það hefði átt að leyfa umframgreiðslu í einhverju falli eða ekki. Þetta er svo augljóst, að ég er alveg steinhissa á því, að svona uppástunga skuli koma fram, og enn meira hissa var ég, þegar hv. þm. A-Húnv. lýsti því yfir, að upp á þessu væri stungið í samráði við Sjálfstfl. Í þessu er veila, sem veldur því, að þetta skipulag, að fela yfirskoðunarmönnum þetta starf, mundi aldrei vera mögulegt að taka upp. Það hljóta allir að sjá.

Þá er sýnilegt, að með þessu frv. er ekki bara verið að miða við umframgreiðslur, því að þarna er líka gert ráð fyrir því, að þessir aðilar skuli vera með í því að skipta einstökum liðum á fjárl., sem ekki eru sundurliðaðir, eins og t. d. fjárveitingum til vegaviðhalds og hafnarbóta.

Ég skal ekki fjölyrða meira um þetta mál. Eins og ég sagði í upphafi þessara orða, álít ég sjálfsagt að athuga hleypidómalaust allar uppástungur, sem koma fram um það að reyna að standa á móti umframgreiðslum, en mér sýnist alveg augljóst, að á þessu frv. eru stórfelldir gallar.

Vil ég ekki sízt minna í því sambandi á það, sem ég sagði um 2. gr. frv., og svo hversu fráleitt væri að fela yfirskoðunarmönnum þetta starf.