21.10.1957
Efri deild: 6. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 284 í C-deild Alþingistíðinda. (2136)

8. mál, vegalög

Flm. (Sigurður Bjarnason) :

Herra forseti. Með frv. þessu er lagt til, að upp í vegalög verði teknir fimm nýir þjóðvegir í Norður-Ísafjarðarsýslu. Í fyrsta lagi, að af Ármúlavegi verði lagðar þjóðvegaálmur að bæjum í Skjaldfannadal, Laugalandi og Skjaldfönn. Í öðru lagi, að nýr vegur verði tekinn í þjóðvegatölu, Grunnavíkurvegur, frá Sandeyri um Snæfjallaheiði að Sætúni í Grunnavík, Í þriðja lagi, að Laugardalsvegur af Ögurvegi hjá Laugardalsárbrú fram Laugardal að Efstadal verði tekinn í þjóðvegatölu. Enn fremur er lagt til, að tveir vegarspottar í Hólshreppi, yzta hreppnum við sunnanvert Ísafjarðardjúp, verði teknir í þjóðvegatölu. Það er Reiðhjallavegur, af Bolungavíkurvegi í mynni Syðridals að Reiðhjallavirkjun, orkuveri því, sem nú er unnið að að reisa þar, og í öðru lagi Skálavíkurvegur, frá Bolungavík til Skálavíkur ytri.

Frv. þetta er, eins og segir í grg. þess, flutt skv. ósk hreppsnefnda í héraðinu. Það er alkunna, að mjög brestur á það, að sæmilegar samgöngur á landi hafi skapazt við Ísafjarðardjúp. Hefur þó á síðustu árum verið unnið markvisst að því að bæta úr í þessum efnum. En engu að síður á það alllangt í land, að akvegasamband skapist um sunnanvert Ísafjarðardjúp við Ísafjarðarkaupstað, höfuðstað Vestfjarða, og þorpin utar með Djúpinu, Bolungavík og Hnífsdal.

Mér er fyllilega ljóst, að þeim framkvæmdum verður ekki hraðað eingöngu með því, að frv. eins og þetta verði samþykkt og nýir vegir teknir í þjóðvegatölu. Að því máli verður að vinna á öðrum vettvangi, nefnilega við fjárveitingavaldið, og stuðla að því, að auknar fjárveitingar fáist til þess að ljúka þeim vegagerðum. En þeir vegir, sem lagt er til með þessu frv. að teknir verði upp í þjóðvegatölu, eru einnig mjög nauðsynlegir fyrir sveitir héraðsins. Þess vegna er lagt til, að breyting verði gerð á vegalögum og þessir vegir teknir í þjóðvegatölu,

Síðan vegalög voru síðast opnuð munu liðin nú um tvö ár. Það hefur verið venja undanfarið, hér á hv. Alþ. að opna vegalög, eins og það er kallað, með tveggja, þriggja ára millibili. Ég hygg, að tími sé þess vegna kominn nú til þess, að hv. þm. komist að með brtt. við vegalög í samræmi við óskir og þarfir héraða sinna. Vænti ég þess vegna, að þetta frv. hljóti lagagildi á þessu þingi, og vil leyfa mér að beina þeirri eindregnu ósk til hv. samgmn., sem fær þetta mál til meðferðar, að hefja þegar, svo sem háttur hefur verið undanfarin ár, samvinnu við samgmn. hv. neðri deildar um þinglega meðferð vegalagabreytingar.

Ég leyfi mér svo að óska þess, að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. samgmn.