21.10.1957
Efri deild: 6. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 286 í C-deild Alþingistíðinda. (2138)

8. mál, vegalög

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Hv. 1. þm. N-M. benti hér á, að þörf væri á skýrslu frá vegamálastjórninni yfir það, hvernig vegirnir í landinu væru á sig komnir. Ég vil taka undir þetta með honum. Það er full þörf á því. En það var aðeins vegna þess, sem ég kvaddi mér hljóðs, að hann hélt hér fram skoðun, sem ég hef oft heyrt hjá honum áður, þ. e., að flokka beri alla vegi í landinu, og benti hann á, hvernig mætti réttilega flokka þá, í fyrsta lagi í ríkisvegi, sem ríkið kostaði að öllu leyti, væru aðallega milli héraða og þéttbýlis, í öðru lagi vegi, sem ríkið kostaði að hálfu t. d., væru innan sýslna eða þess háttar, og í þriðja lagi vegi, sem ríkið ætti ekki að kosta að neinu leyti.

Ég vil ekki láta hjá líða við þessa 1. umr. að benda á það, að mjög held ég að það sé varhugavert að fara að taka upp þessa flokkun núna, þegar svo langt er komið, að heil héruð eru búin að fá svo að segja alla vegi í þjóðvegatölu. Út yfir hverja ætli þetta mundi nú ganga? Fyrst og fremst út yfir þau héruð, sem hafa orðið aftur úr og út undan og vantar mikið af vegum. Ef ég á að fara að flokka það, sem eftir er, og setja einhvern hluta þeirra vega yfir á héruðin alfarið, þegar önnur héruð, sem urðu á undan, eru búin að fá kannske alla sína vegi lagða á ríkiskostnað, þá finnst mér þetta talsvert varhugavert. En þetta verður vafalaust betur athugað í nefndinni. En ég vil þó ekki láta hjá líða að benda á það misræmi, sem kynni þarna að koma fram. Mér er kunnugt um það, að á Vestfjörðum er svo háttað um vegi almennt, að það væri ekkert happ fyrir það hérað eða þann landsfjórðung að fá slíka flokkaskiptingu nú, þegar önnur héruð eru búin að fá í þjóðvegatölu og lagða sína vegi, sum að mestu leyti og önnur kannske að öllu leyti. En að því leyti teldi ég þessa skýrslu mjög nauðsynlega, að hún væri sannarlega þörf bending fyrir hv. fjvn. um það, hvernig ætti að skipta því vegafé, sem í heild er lagt til vega í landinu. Og þá yrðu þau héruð betur úti í þeirri skiptingu, sem hefðu orðið of mikið út undan hingað til. Ég tel því, að þessi skýrslusöfnun frá vegamálastjórninni sé nauðsynleg, eins og hv. þm. benti á, en ég vara við að flokka vegina, fyrst það var ekki gert fyrir nokkur hundruð árum.