21.10.1957
Efri deild: 6. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 289 í C-deild Alþingistíðinda. (2140)

8. mál, vegalög

Jón Kjartansson:

Herra forseti. Það er engu líkara en hv. þingmenn viti ekki, hvernig háttað er flokkun vega hér á landi eins og stendur. Ég veit ekki betur, en flokkunin sé einmitt þannig, að það séu þrír flokkar vega: þjóðvegir, sýsluvegir og hreppavegir, — þjóðvegir, sem eru að öllu leyti kostaðir af ríki, — sýsluvegir, margar sýslur og líklega meiri hluti sýslna á landinu hafa myndað með sér sýsluvegasjóði og leggja ærið mikið fé á fasteignir innan sýslunnar til þess að rísa undir þessum vegum og fá svo lögboðin framlög úr ríkissjóði, hreppavegir, sem eru eingöngu kostaðir af hreppunum og e. t. v. styrktir eitthvað af sýslusjóði. Hitt er algerlega rangt, að ég hygg, að heimreiðir séu kostaðar sem þjóðvegir. A. m. k. þekki ég ekki til þess. Hitt getur verið, að þjóðvegir liggi fast við bæi. En ég veit ekki betur, en það sé í öllum sýsluvegasamþykktum, þar sem ákveðið er, að heimreiðir skuli kostaðar eingöngu af viðkomandi bónda, en ekki af ríki eða sýslu. Þetta getur hv. 1. hm. N-M. fengið upplýsingar um hjá vegamálastjóra, ef hann trúir mér ekki. Ég hygg, að gallinn sé sá, að margar sýslur hafa vanrækt að koma upp hjá sér sýsluvegasjóðum, því að með hví verða þær út undan.

Það er ekki til neins fyrir okkur hér að fara að deila um, hvernig eigi að skipta vegafé, því að bað er svo margt, sem kemur þar til greina, bæði samgöngur á landi og sjó. Sum héruð hafa engar samgöngur á sjó. Til þessa alls verður að taka tillit, ef á að fara að deila um, hvernig vegakerfið er í heildinni. En ég vildi aðeins láta það koma fram, að skipting vega er, eins og hv. þingmaður tók fram, þegar orðin þrír flokkar.