26.03.1958
Sameinað þing: 37. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 27 í D-deild Alþingistíðinda. (2282)

154. mál, vegakerfi landsins

Kjartan J. Jóhannsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir það með hv. frsm. fjvn., að þessi skýrsla, sem borizt hefur og birt er hér með nál. frá hendi vegamálastjóra, er mjög fróðleg, sérstaklega er það fróðlegt fyrir okkur, sem svo er ástatt um, að við erum ekki enn þá komnir í samband við aðalvegakerfi landsins, að sjá það, hve langt er í land með, að úrbætur fáist á því.

Það er að vísu talað um það, að Vestur- og Norður-Ísafjarðarsýslur eigi að komast í vegasamband eftir fjögur ár með svipuðum framlögum og verið hafa undanfarið til þeirra vega, sem þar er um að ræða. Það er þó nokkur misskilningur í þessu, sem kemur að vísu ekki fram hér hjá vegamálastjóra, en hann er í því fólginn, að hér er aðeins miðað við það, að samband náist suður á Barðaströnd, í Vatnsfjörð á Barðaströnd, en tekur hins vegar ekkert tillit til þess, að enn er ólagður vegur yfir Þingmannaheiði og verður sennilega ekki lagður þar, því að meiningin er, að vegurinn liggi þar með sjó fram. Þeir, sem hafa farið þennan veg undanfarið, telja, að hann sé öldungis ófær, ef vætur ganga, og sé þess vegna langt frá því, að viðhlítandi samband sé komið, þó að vegurinn sé kominn að vestan í Vatnsfjörð, fyrir utan það, að stór hluti af Vestfjarðakjálkanum og sá hlutinn, þar sem flest fólkið býr, milli 4 og 5 þús. manns, á yfir að sækja fjallveg, sem er nokkuð yfir 600 m á hæð og þannig ástatt um að öðru leyti, að það er ekki lagður vegur, heldur að mestu leyti ruddur vegur, og þannig ástatt um hann, að það hefur komið fyrir í hverjum einasta mánuði ársins, líka sumarmánuðina, að hann hefur verið ófær vegna snjóa. Ástandið er þannig í raun og veru miklu verra en fram kemur í þessari skýrslu hér, ef við hugsum um þann hluta Vestfjarða, sem mest fjölmenni byggir, því að í hina áttina, norður á bóginn og síðan yfir Þorskafjarðarheiði, á vegasambandið enn þá miklu lengra í land, eða allt til 1979, að gert er ráð fyrir, að sá vegur komist í samband. Og þó eru upphæðirnar, sem um er að ræða, ekki stórkostlegar. En samkvæmt því, sem fært hefur verið talið undanfarið að veita til þessara vega, tekur þetta samt svona langan tíma. Það er kannske ekki óeðlilegt, að skipting vegafjárins hafi verið á þann veg, sem hún hefur verið. En aðstæðurnar þarna fyrir vestan eru allt öðruvísi, en víðast hvar annars staðar á landinu, sérstaklega vegna þess, að það er tiltölulega nýtilkomið, að farið er að leggja þarna vegi, og verkefnið hefur þess vegna verið miklu stórkostlegra, en víðast annars staðar á landinu, þar sem búið er að vinna að vegalagningunni miklu lengri tíma.

Ég vil taka undir það með hv. þm. Mýr., að ég fagna því, að þessi grg. er hér komin fram, og vil vænta þess, að hún megi stuðla að því, að hv. þm. hafi enn betri skilning á vandamálum Vestfjarða í þessu efni heldur en hingað til hefur verið.