16.04.1958
Sameinað þing: 39. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 37 í D-deild Alþingistíðinda. (2301)

77. mál, rafveitulína frá Hvolsvelli til Vestmannaeyja

Frsm. (Karl Guðjónsson):

Herra forseti. Fjvn. hefur haft til meðferðar þáltill., 77. mál þingsins, varðandi rafveitulínu frá Hvolsvelli til Vestmannaeyja, ásamt með nokkrum brtt., sem við hana hafa komið fram. Eðli málsins, bæði aðaltillögunnar og breytingartillagnanna, er þannig, að í framkvæmd er, svo sem þm. mun mjög kunnugt, svokölluð 10 ára áætlun um rafvæðingu landsins, og hefur þar verið gert ráð fyrir einstökum rafveitum í tímaröð, og allar till., sem hér um ræðir, bæði aðaltill. og brtt., miða að því að fá fram áherzlu Alþingis eða viljayfirlýsingu Alþ. um það, að tilteknar virkjanir verði látnar ganga sem fyrst til framkvæmda.

N. hefur athugað till. og gert sér fullkomlega ljóst, að miklir erfiðleikar eru á því, að Alþ. hlutist til um marga þætti rafvæðingaráætlunarinnar, án þess að um heildarendurskoðun hennar sé að ræða.

Þær till., sem hér liggja fyrir, hefur raforkumálastjórnin gefið n. sérstakt álit um, og í áliti hennar er skýrt frá því, að tiltölulega mjög miklu fé hafi verið eytt til framkvæmdanna á fyrstu árum áætlunarinnar, en nú sé í rauninni um fjárskort að ræða, og að heildaráætlunin sé núna, að því er telja megi, um það bil hálfu til einu ári á eftir áætlun.

Eftir að n. hafði fengið sínar upplýsingar um þau málefni, sem hinar einstöku till. fjalla um, varð hún sammála um þá afgreiðslu málsins að leggja til, að sú till., sem varðar sérstaklega rafveituna til Vestmannaeyja, verði samþ. hér á Alþ. með þeirri brtt., sem gerð er í nál., þannig að tímabindingin í henni verði tekin í burtu, en að öðru leyti verði hún samþ. sem viljayfirlýsing Alþingis um þetta langstærsta byggðarlag, sem enn þá er utan rafveitusvæðanna, Vestmannaeyjar, að lagningu rafveitulínu þangað verði hraðað sem mest má verða, og hefur n. gert sína brtt. þannig, að ef hennar brtt. yrði samþykkt, yrði ályktun sú, sem Alþingi samþykkti, á þessa leið:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að hraða svo sem unnt er lagningu rafveitulínu frá Hvolsvelli til Vestmannaeyja samkv. heimild í lögum nr. 65 1956, sbr. lög nr.53 1954 og lög nr. 5 1956.“

Öðrum till., sem hér liggja fyrir varðandi raforkuáætlunina, hefur n. ekki séð sér fært að mæla með samþykki á.