18.02.1958
Sameinað þing: 27. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 70 í D-deild Alþingistíðinda. (2373)

63. mál, heymjölsverksmiðja

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég skal út af fyrir sig ekki vera neitt að spilla fyrir þessari till. Þó langar mig til að benda á einstök atriði í þessu sambandi.

Sá maður hérlendis, sem mest hefur átt við þetta mál, er dáinn fyrir nokkrum árum. Það var Eggert sálugi Jónsson frá Nautabúi. Þegar hann keypti Kirkjubæ á Rangárvöllum, vakti fyrir honum tvennt, annars vegar heymjölsverksmiðja, eins og hér hefur verið rætt um, og hins vegar reiðhestabú. Hann lét gera ákaflega víðtækar tillögur erlendis um heymjölsframleiðslu, og það eru til margs konar verksmiðjur. Þær eru til margar af misjafnri gerð, sem það framleiða. Og eftir að vera búinn að kryfja það eins og hann gat bezt, bæði hérlendis og erlendis, komst hann að þeirri niðurstöðu, að aðal annmarkinn á því hér á landi væri sá að geta alltaf haft hæfilegt hey — hæfilegt sprottið gras. Það er rétt, sem frsm. sagði, að með því að búa til heymjöl af töðu, þegar grasið er svona þriggja þumlunga hátt og í ákaflega örum vexti, þá er hægt að fá heymjöl, sem hefur miklu meiri bætiefni, en önnur fóðurefni flest, en að öðru leyti er það ekki öðruvísi en hey, og slíkt heymjöl er gefið til uppbóta til þess að bæta fóður, sem bætiefni vantar í. En ef á að fá þetta úr venjulegu grasi, t.d. okkar töðu, eins og þegar hún er orðin fullsprottin eða þegar menn slá hana venjulega, þá er það ekkert annað en hey, sem um er að ræða, og ekki betra að hafa það, en hvert annað hey, sem vera skal, þó að búið sé að mala það. Og það, sem strandaði á hjá Eggert, var þetta: Verksmiðjan þurfti að hafa sem lengstan starfstíma að hægt væri. Hún var dýr. Ég man nú ekki, hvað hún átti að kosta á sínum tíma, — það var ekki neitt líkt togaraverði, því að það var ekki nema eitthvað — ja, ég man ekki, hvað það var, en tili. þessar eru nú til hér á landi allar saman og hægt að athuga það. En hún var svo dýr, að það töldu allir og hann sjálfur, að verksmiðjan yrði að hafa langan tíma til að geta unnið. Og þá er spurningin þetta: Hvernig eigum við alltaf að geta fengið sprettandi gras frá því einhvern tíma seint í maí, þegar hægt var að byrja að slá, til þess að fá gott heymjöl úr því, og langt fram í september, er hann vildi fá heymjöl líka, og hvernig eigum við að geta tryggt það, að grasið, sem er slegið allan þennan tíma, sé með svipuðu næringarefni, svo að heymjölið, sem búið sé til, verði „konstant“ vara, ekki vara, þar sem annað sé með helmingi meiri bætiefni en hitt, heldur allt svipað? Það var þetta, sem gerði það að verkum, að hann kiknaði algerlega á því.

Þar næst kom málið fyrir búnaðarþing á sínum tíma að frumkvæði Gunnars Bjarnasonar, sem hafði hugsað sér að gera mikinn hluta af einhverju landi í kringum hveri að einu samfelldu túni og slá það. Hann var að tala til dæmis um allan Reykholtsdalinn og hafa verksmiðjuna við Deildartunguhver eða í Reykholti eða einhvers staðar, þar sem væru hverir, og geta notað hitann þaðan til þess að þurrka heyið, áður en það væri malað og gert að heymjöli. Og það var talað um það, en ekkert í málinu gert sérstakt, af því að menn fundu þá, alveg eins og Eggert, að það mundi verða mjög erfitt að geta tryggt, að það, sem verksmiðja framleiddi svona lagað, væri alltaf eins. Erlendis er þetta nokkuð annað. Þar var og er ekki búið til heymjöl nema helzt „alfa alfa“ og ekki til að flytjast neitt til af öðru, en „alfa alfa“, sem hefur upp undir tvöfalt eggjahvítumagn, miðað við gras hér á landi, og það er þess vegna allt öðruvísi heymjöl, sem við fáum, þegar við flytjum það inn.

Nú er málið enn á döfinni, ekki bara hér hjá hv. ræðumanni, heldur var fyrir tveimur árum eða kannske þremur samþykkt hér á Alþingi tillaga og veitt fé til að rannsaka heyverkunaraðferðir. Ein heyverkunaraðferð er það að breyta heyinu í heymjöl. Það var falið vélanefnd, sem Ólafur Guðmundsson á Hvanneyri er starfsmaður fyrir og aðalmaður í, að gera rannsókn í þá átt. Hún er búin með ýmsar sínar athuganir. Hún sendi einn af sínum starfsmönnum til Englands til að kynna sér heyþurrkunaraðferðir í vélum og heymjölsaðferðir í sambandi við það. Um það er komin opinber skýrsla í einni skýrslu vélanefndarinnar sem fyrsta athugun á þessu máli, og ef þetta á að rannsakast nánar, þá mætti náttúrlega ýta á þá nefnd eða láta hana hafa meira starfsfé, en hún núna hefur. Það liggur alveg beint fyrir. Málið er hjá henni í athugun, eins og aðrar heyverkunaraðferðir, sem hún er með.

Ég er sjálfur persónulega ekki trúaður á það, að við búum til heymjöl hér á landi til þess að spara verulega innflutning á fóðurbæti. Það getur verið, eins og ræðumaður sagði, að undir víssum kringumstæðum vanti okkur bætiefni, og ef við þá gætum haft heymjöl, sem væri gott og slegið af kornungu, hálfsprottnu grasi, þá gætum við sparað okkur þó nokkuð af klíðkaupum, sem við nú einmitt kaupum til að setja saman við fóðurbætinn, og kaupum það ekki í öðru skyni, því að það er of dýrt til að blanda því í fóðurbætinn, nema þegar við þurfum að fá í hann sérstaklega mikið af bætiefnum, og þá kaupum við líka einstaka sinnum „alfa-alfa“-heymjöl, sem litið er flutt inn af, en svolítið samt, einmitt þegar svoleiðis stendur á, og til að blanda í hænsnafóður.

Þess vegna er málið náttúrlega allrar athugunar vert. En ég hygg, að ef till. væri samþykkt, sem ég hef ekki neitt á móti, þá sé það eðlilegi gangurinn að fela það þessum mönnum, sem byrjaðir eru á þessari rannsókn, sem búnir eru að láta mann fara út til að skoða þessar verksmiðjur, sem þar eru, og athuga, hvað þar er gott, að hún sé látin halda áfram sínu verki. Það eru víst 100 þús. kr. tvisvar sinnum, sem búið er að veita í fjárlögum í þessu skyni og nefndin hefur haft til að vinna með, held ég sé. Ekki er ég nú víss um þá tölu, en ég held það séu 100 þús. kr. tvisvar sinnum. Þá er bara að auka við hana starfsfé og í staðinn fyrir að láta mann fara snöggvast út til að skoða verksmiðjurnar, þá á að láta hann vera lengur og athuga það, og þá þarf náttúrlega að ákveða margt fleira, hvaða verksmiðjutegund og hvaða aðferð á að nota til að þurrka heyið eða hvað hentar okkur bezt o.s.frv. En ég vildi benda á þetta — og sérstaklega þetta: Það eru hér til í landinu áætlanir, — ég skal ekki segja, hvar þær eru núna, þær voru fyrir nokkrum árum í vörzlu Búnaðarfélags Íslands, lánaðar þangað frá ekkjunni þá, — hvar þær eru núna, veit ég ekki, en það er til sem sagt töluvert mikil athugun á þessu, gerð að tilhlutun Eggerts Jónssonar, bæði af íslenzkum og erlendum mönnum.