12.02.1958
Sameinað þing: 26. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 97 í D-deild Alþingistíðinda. (2442)

54. mál, aðsetur ríkisstofnana og embættismanna

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Það er að vísu deila um orð og er ástæðulaust að fjölyrða um það, en ég vil þó ekki láta því ómótmælt, að ég hafi farið rangt með það, sem ég sagði um efni tili. áðan. Með leyfi hæstv. forseta, þá hljóðar seinni partur hennar svo: „Gefa skal fulltrúum, tilnefndum af fjórðungsþingum Austfirðinga, Norðlendinga og Vestfirðinga, einum frá hverju fjórðungsþingi, kost á að taka þátt í endurskoðuninni svo og einum fulltrúa frá fjórðungsþingi Sunnlendinga, ef stofnað verður.“ Það skiptir í raun og veru engu máli, hvort þessir menn, 3 eða 4, eru kallaðir nefnd eða ekki, en slíkir tilnefndir fulltrúar eru einmitt það, sem venjulega í mæltu máli er nefnd, og þarf ekki frekar um það að fjölyrða. Efni málsins var það, sem ég sagði.

Ég vil vekja athygli á því, að hv. þm. tók því ekki vel, að Reykjavík fengi þarna að tilnefna sérstakan fulltrúa, en gaf í skyn, að hún gæti komið með Sunnlendingafjórðungi. Ég hygg, að ef slíkt fjórðungsþing yrði stofnað, þá sé mjög hæpið, hvort Reykjavík ætti þar fulltrúa, vegna þess að hagsmunir Reykjavíkur og byggðarinnar að öðru leyti í þessum efnum eru auðvitað ólíkir, að svo miklu leyti sem við getum talað um ólíka hagsmuni í þessu sambandi. En það er vitað mál, að t.d. maður búsettur í Vestur-Skaftafellssýslu hefur varðandi staðsetningu embætta töluvert önnur sjónarmið, en maður búsettur í Reykjavík. Þetta gefur auga leið. Hann hefur að því leyti ekkert líkari sjónarmið manninum í Reykjavík heldur en maður, sem á heima á Snæfellsnesi, en vegalengdin er álíka löng frá Reykjavík í báðum tilfellum, þó að oft mundi hin rétta skoðun leiða til þess, að embættið væri bezt sett í Reykjavík hjá þeim, sem liti á málin með sannsýni. En hv. þm. taldi sem sagt óþarft, að Reykjavík hefði nokkurn fulltrúa, en sagði, að auðvitað yrði leitað til ýmissa manna, sem væru búsettir í Reykjavík. Ja, hv. þm, er nú búsettur hér og hv. þm. N-M., en mér þætti gaman að sjá þann Reykvíking, sem vildi kjósa þá menn fyrir sína fulltrúa.