23.10.1957
Sameinað þing: 5. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 171 í D-deild Alþingistíðinda. (2551)

17. mál, eftirgjöf lána

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Eftir réttum þingsköpum á ég fulla heimild til að bera af mér sakir, og ég vil mjög mótmæla þeim órökstudda sleggjudómi hæstv. forseta, að ég sé líkur hv. 1. þm. N-M. í orðbragði. Margt hefur verið misjafnt um mig sagt, en fátt því líkt. En ég vil aðeins vekja athygli hans á því, að það er hann, hæstv. forseti, sem hefur tekið á sig þá skyldu að vera hér forseti, og það er hans að gæta þess, hvort réttum þingsiðum og þingháttum er fylgt. Og ég vil bara spyrja hann enn: Er það í samræmi við rétta þinghætti að hans eigin skoðun, að það sé borið hér fram að tilefnislausu, að þingmaður segi eitthvað beinlínis gegn betri vitund? Við skulum láta alveg vera, hvað hann álítur, hvað ég telji um þetta eða aðrir þingmenn, heldur: Telur hann það sjálfur sem forseti vera rétt eða ekki?