26.02.1958
Sameinað þing: 30. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 219 í D-deild Alþingistíðinda. (2597)

85. mál, sjálfvirk símastöð í Vestmannaeyjum

Flm. (Karl Guðjónsson):

Herra forseti. Till., sem við þm. Vestm. leyfum okkur að flytja hér um sjálfvirka símstöð í Vestmannaeyjum, er þess efnis, að Alþ. skori á ríkisstj. að láta landssímann koma upp sjálfvirkri símstöð í Vestmannaeyjum hið fyrsta, er verða má.

Það er alþm. kunnugra en svo, að það þurfi að rekja það mál sérstaklega, að á hverju Alþ. eru, um leið og fjárl. eru afgr., áætlaðar verulegar fjárfúlgur til handa landssímanum til eignaaukningar hjá sér, til byggingar símahúsa, pósthúsa, sömuleiðis til þess að ná fram nokkrum framförum, fylgjast með tækninni og stuðla að því, að landssíminn geti orðið fullkomnari stofnun frá ári til árs. Nú á síðustu árum hefur sú fjárfúlga, sem Alþ. hefur þannig heimilað landssímanum að verja til sinnar fjárfestingar, numið rúmlega 10 millj. kr. Þetta fé er sumpart tekið af ágóða af rekstri landssímans, en sumpart er það tekið af ríkisfé, og þá að sjálfsögðu kemur það í hlut Alþ. að ákveða, hvernig tekna skuli aflað til þess, svo að það er ekki nema eðlilegur hlutur, að Alþ. hafi einnig rétt á að segja sitt orð um það, hvernig því finnst réttlátast að verja fé í þessum efnum. Það má máske segja, að það geri Alþ. líka um leið og það afgr. fjárl., en þó er nú raunin sú, að þar er olnbogarúm Alþ. nokkuð takmarkað. Þegar búið er að leggja fram fjárlagafrv. með áætlunum um að gera þetta og hitt á þessum og hinum staðnum, þá kannast þingmenn við, að það er nokkrum erfiðleikum bundið að strika út þær áætlanir, sem þar eru fram komnar, og setja allt aðrar í staðinn. En að sjálfsögðu eru ekki tök á því að hækka þessar upphæðir takmarkalaust.

Till., sem við flytjum hér, er flutt að áeggjan bæjarstjórnar Vestmannaeyja, sem — eins og bæjarbúar þar almennt - er orðin mjög langþreytt eftir því, að komið verði þar á sjálfvirkri símstöð. Fyrir um það bil 10 árum hóf póst- og símamálastjórnin þar byggingu á nýju húsi til afnota fyrir póst og síma, og var það hús byggt, og eru nálægt 8 ár síðan það var fullgert. Verulegur hluti af þessu stóra, dýra, mikla og vandaða húsi var upphaflega ætlaður fyrir sjálfvirka símstöð, og stendur sá hluti hússins auður æ síðan. Vestmannaeyjar eru hins vegar sá kaupstaður landsins, sem stærstur er af þeim, sem ekki hafa enn fengið sjálfvirka símstöð. Nú stendur hins vegar svo á, að landssíminn hefur pantað og ég vænti þess, að hann hafi þegar lagt út fé til kaupa á sjálfvirku símakerfi í ýmsa kaupstaði sem smærri eru en Vestmannaeyjar, og stendur nú aðallega á að koma þeim sjálfvirku stöðvum fyrir, — stendur það aðallega á því, að þar vantar húsrými fyrir þær. Ég fyrir mitt leyti get ekki talið mig ánægðan með það, að landssíminn verji þannig fé skipulagslítið eða a.m.k. með skipulagi, sem ekki er hafið yfir gagnrýni, án þess að það komi þegnunum að þeim notum, sem annars gæti verið. Ég tel þess vegna, að allt of lengi hafi dregizt að koma sjálfvirkri símstöð fyrir í Vestmannaeyjum.

Þess skal getið, að símasambandi við Vestmannaeyjar er svo háttað, að lengstan hluta leiðarinnar til Vestmannaeyja fara þessi símtöl þráðlaust á milli sendistöðva, sem staðsettar eru önnur í Eyjum, en hin á Selfossi. Nú hefur hins vegar verið ákveðið, að Íslendingar endurnýi sitt sæsímasamband við umheiminn, og verður væntanlega lagður nýr sæsímastrengur til útlanda á komandi sumri. Þá verður jafnframt hætt við það að láta sæsíma Íslands til annarra landa liggja út frá Austfjörðum, og sæsími sá verður færður til Vestmannaeyja og kemur til með að liggja á milli Vestmannaeyja og Færeyja. Við þessa framkvæmd liggur í augum uppi, að enn ríkari nauðsyn ber til þess að fullkomna símakerfið í Vestmannaeyjum, og þó að segja megi, að bæjarkerfið þar muni nú ekki verka beint í þessu sambandi, þá verða miklar framkvæmdir hjá landssímanum af þessum sökum í Vestmannaeyjum, og væri einmitt mjög ákjósanlegt, að um leið og þær fara fram eða samhliða því, sem þær fara fram, yrði undinn bráður bugur að því að koma þar upp sjálfvirkri símstöð.

Þótt segja megi, að það sé svolítið vafasamt, hvort það heyrir undir það dagskrárefni, sem nú er hér á dagskránni, þá vil ég samt leyfa mér að vekja athygli á því, að lögn þessa væntanlega sæsíma á milli Vestmannaeyja og Færeyja heimtar að sjálfsögðu, að það verður þar um slóðir á ferðinni sérstakt skip til kapallagninganna, og með því að hér var á dagskrá rétt áðan önnur till., sem fjallaði um væntanlega lögn á rafstreng, særafstreng milli Vestmannaeyja og lands, þá fyndist mér ekki ótilhlýðilegt að vekja athygli á því, að máske væri hægt að komast ódýrar út úr kostnaðinum við þessar lagnir, ef hægt væri að koma því saman að nota eitt og sama kapalskipið til þessara tveggja kapallagna, þó að það sé mál, sem að sjálfsögðu þarfnast verulegrar athugunar og ég geti auðvitað ekkert fullyrt um hvort henta mundi.

En nú, að þessum ástæðum röktum, þykir mér hlýða að óska eftir því, að Alþ. skoði þetta mál og sjái að athugun lokinni ástæðu til þess að brýna það fyrir ríkisstj. og jafnframt fyrir póst- og símamálastjórn, að hér er um að ræða mál, sem þegar hefur beðið of lengi.

Ég vil leyfa mér að leggja til við forseta, að að þessari umr. lokinni verði máli þessu vísað til fjvn.