07.05.1958
Sameinað þing: 43. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 282 í D-deild Alþingistíðinda. (2641)

33. mál, afnám áfengisveitinga á kostnað ríkis

Frsm. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Nefndin hefur rætt efni þessarar till. á mörgum fundum, en meiri hl. hennar, eða allir nm. nema einn, getur ekki fallizt á, að rétt sé eða viðeigandi að binda hendur ríkisstj. á þann hátt, sem gert er ráð fyrir í till., meðan í landinu er fullt frjálsræði um sölu og veitingu áfengra drykkja.

Þetta álit n. á ekkert skylt við hugmyndir manna um það, hvort bindindissemi almennt sé sjálfsögð og eðlileg. Um það hygg ég að séu yfirleitt ekki skiptar skoðanir. En meðan vínbann er ekki í landinu, getur það ekki talizt viðeigandi fyrir Alþingi að taka ríkisstj. eina út úr og banna henni risnu, sem öllum öðrum í landinu er heimil.

Hins vegar er ekki nema eðlilegt og sjálfsagt, að þess sé krafizt af Alþingi, að ríkisstj. og stofnanir hennar sýni fulla hófsemi í veitingu áfengra drykkja sem og annarri risnu, sem talin er nauðsynleg til að sýna þá gestrisni, sem með eðlilegum hætti er hægt að krefjast af ríkisvaldinu.

Ríkisstj. á því að vera í sjálfsvald sett, eins og málum er hér háttað, hvort hún veitir vín í veizlum og að hve miklu leyti, en slíkt verður að sjálfsögðu að fara eftir ástæðum.

Ég tel það lofsverðan hátt, sem upp hefur verið tekinn, að ríkisstj, veitir ekki áfengi í almennri móttöku 17. júní og hefur því engar vínveitingar á boðstólum þann dag.

Á hinn bóginn er þess ekki að dyljast, að mönnum þykir oft nóg um, ef einstakir ráðh. bjóða til víndrykkju, hversu lítilfjörlegt tilefni sem gefst, ef svo mætti segja, og verður það út af fyrir sig að teljast ofrausn, ef ríkissjóður er látinn greiða stórfé fyrir almennar drykkju- og matarveizlur, sem ráðh. telja sig þurfa að halda, vegna þess að haldnir eru hér í Reykjavík ársfundir ýmissa félagsheilda, sem í starfsemi sinni heyra undir valdsvið einhvers ráðherra. En það er vitanlegt, að allar slíkar félagsheildir heyra undir starfssvið einhvers ráðherra. Það er að öllu leyti eðlilegt og sjálfsagt, að Alþingi beini því til ríkisstj., að hún sýni hófsemi og varúð í allri opinberri risnu, og þess vegna leggur nefndin til, að samþykkt sé hin rökstudda dagskrá á þskj. 449.