27.11.1957
Sameinað þing: 15. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 370 í D-deild Alþingistíðinda. (2753)

44. mál, strandferðaskipið Herðubreið

Flm. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja á þskj. 71 till. til þál. um, að hlutazt verði til um, að hætt verði við að láta strandferðaskipið Herðubreið snúa við á Austfjörðum í strandferðum austur um land frá Reykjavík. Þessa till. flutti ég einnig á síðasta þingi. Það var orðið nokkuð áliðið þings, þegar hún kom fram, og varð ekki tekin til meðferðar.

Eins og hv. þm. er kunnugt, eru í strandsiglingum á vegum Skipaútgerðar ríkisins aðallega fjögur skip, tvö stærri og tvö minni. Minni skipin, sem eru Skjaldbreið og Herðubreið, voru frá öndverðu einkum ætluð til viðkomu á þeim höfnum, þar sem skilyrði til afgreiðslu eru slæm, og þar sem stærri skipin geta ekki lagzt að bryggju. Skjaldbreið hefur einkum annazt flutninga til Vesturlands og vesturhluta Norðurlands, en Herðubreið til Austur- og Norðausturlands.

Nú hafa í seinni tíð borizt kvartanir um það fyrirkomulag, sem tíðkazt hefur, að strandferðaskipið Herðubreið er mjög oft látið snúa við á Austfjörðum, þannig að það fer ekki norður fyrir Langanes og kemur ekki við á höfnum þar í þeim ferðum. Þetta kemur sér að sjálfsögðu einkum bagalega á þeim höfnum, þar sem stærra skipið getur ekki lagzt að bryggju, og er ekki í samræmi við þann tilgang, sem um var að ræða, þegar þetta skip var byggt.

Ég skal geta þess í þessu sambandi til skýringar, að ég hef athugað ferðaáætlunina á þessu ári, þ.e.a.s. á árinu 1957, fyrir strandferðaskipið Herðubreið, með sérstöku tilliti til þessa, sem ég hef nú nefnt. Á þessu ári var gert ráð fyrir, að skipið færi samtals 30 ferðir frá Reykjavík austur um land, en í 16 af þessum ferðum, eða meira en helmingi ferðanna, er gert ráð fyrir, að skipið snúi við á Austfjörðum, einhvers staðar sunnan Langaness, ýmist á Fáskrúðsfirði, Seyðisfirði, Vopnafirði eða Bakkafirði. Við þetta vilja menn á höfnunum fyrir norðan Langanes ekki lengur una, sem ekki er heldur eðlilegt, og vegna tilmæla, sem ég hef um það fengið, hef ég leyft mér að flytja þessa till.

Ég tel, að það sé sjálfsagt að reyna að haga ferðum skipanna þannig, að minna skipið, sem er Herðubreið, komi fyrst og fremst við á þeim höfnum, sem hafa hin lakari hafnarskilyrðin, þar sem stærra skipið getur ekki lagzt að bryggju, og að flutningar til þeirra hafna, sitji fyrir að því er við kemur því skipinu. Stærra skipið, Esja, ætti þá að annast vöruflutninga til annarra hafna, og gerði þá minna til, þó að það flytti ekki vörur til lakari hafnanna. En aðalatriðið fyrir þær er, að minna skipið komi þar við, það skipið, sem getur lagzt að bryggju. Hér er um svo mikið sanngirnismál að ræða, að mér þykir ólíklegt annað, en að við nánari athugun verði talið rétt og óhjákvæmilegt að taka tillit til þess, sem nú hefur komið fram.

Ég vil leyfa mér að leggja til, að till. verði vísað til nefndar, nú þegar umr. verður frestað, sem væntanlega verður, og ætti það þá að vera um að ræða annaðhvort hv. allshn. eða hv. fjvn. Ég vil leggja það á vald hæstv. forseta að gera tillögu um það efni.