05.03.1958
Sameinað þing: 32. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 400 í D-deild Alþingistíðinda. (2815)

65. mál, hlutdeildar- og arðskiptifyrirkomulag í atvinnurekstri

Flm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Ég hef ásamt hv. 6. þm. Reykv. og hv. 2. þm. Eyf. leyft mér að flytja till. til þál. um hlutdeildar- og arðskiptifyrirkomulag í atvinnurekstri Íslendinga. Með þessari till. er lagt til. að Alþ. feli ríkisstj. að láta rannsaka og gera till. um, hvar og hvernig megi bezt koma á hlutdeildar- og arðskiptifyrirkomulagi í atvinnurekstri Íslendinga og á hvern hátt þing og stjórn geti stuðlað að eflingu slíks fyrirkomulags. Skal ríkisstj. hafa samráð við fulltrúa frá samtökum atvinnurekenda og launþega um þetta undirbúningsstarf, er skal lokið eins fljótt og möguleikar eru á.

Um það verður naumast deilt með rökum, að eitt þýðingarmesta vandamál okkar þjóðfélags í dag er það, hvernig sætta megi vinnu og fjármagn, þ.e.a.s. koma á friði milli þeirra, sem atvinnufyrirtækjunum stjórna, og verkalýðs og launþega, sem við þau vinna. Reynsla síðustu áratuga í okkar þjóðfélagi sýnir, að mikil átök hafa staðið yfir milli þessara aðila og að þessi átök hafa á marga lund haft mjög óheillavænleg áhrif fyrir þjóðfélagið. Enda þótt skipulagsbundið samstarf verkalýðs innan verkalýðsfélaga hafi að mörgu leyti verið eðlilegt og sjálfsagt í okkar landi eins og fjölmörgum öðrum löndum, hafa átökin milli þessara samtaka annars vegar og eigenda atvinnutækjanna hins vegar gengið það langt, orðið það mikil, að til mikils óefnis hefur stefnt fyrir þjóðfélagið. Þetta er ekki aðeins saga liðins tíma, heldur allt fram á síðasta ár hafa staðið yfir átök, sem segja má að mjög hafi haft mikil og óheillavænleg áhrif á efnahagslíf þjóðarinnar.

Á það má t.d. benda, að á síðasta sumri urðu lengstu verkföll, sem um getur í sögu þessarar þjóðar, og þúsundir og jafnvel tugir þúsunda launþega áttu þá í átökum bæði við ríkisvaldið sjálft og atvinnurekendur um kaup og kjör. Niðurstaðan er svo sú í dag, að ef til vill er efnahagsgrundvöllur þessarar þjóðar veikari nú, en oftast áður, þrátt fyrir það að þjóðin á nú betri tæki til þess að stunda með framleiðslu sína og atvinnu, en nokkru sinni fyrr.

Það er skoðun okkar flm. þessarar till., að það sé nú — og hafi raunar verið miklu fyrr — fyllilega tímabært að reyna að gera sér ljósar nýjar leiðir til þess að bæta sambúð verkalýðs og vinnuveitenda, til þess að sætta vinnu og fjármagn og til þess að tryggja það, að þjóðin miði eyðslu sína og kröfur til lífsins gæða við þá raunverulegu möguleika, sem fyrir hendi eru á hverjum tíma.

Ein leiðin, sem mönnum hefur komið til hugar í þessu efni, er sú, sem þessi till. fjall- ar um, nefnilega sú, að komið verði á hlutdeildar- og arðskiptifyrirkomulagi, sem á því byggist, að verkamenn, sjómenn, iðnaðarmenn og annar verkalýður fái ekki aðeins hlutdeild í stjórn atvinnufyrirtækjanna, sem þeir vinna við, heldur og hlutdeild í arði þeirra og gerist jafnvel meðeigendur þeirra síðar.

Í þessu fyrirkomulagi felst þá í stuttu máli sagt þetta: Í fyrsta lagi, að verkamennirnir fái auk sinna föstu launa við fyrirtækið einhvern hluta í arði þess. Í öðru lagi, að þeim gefist kostur á því að safna arðhluta sínum eða einhverjum hluta hans til þess með honum síðar að eignast hluta í fyrirtækjunum. Og í þriðja lagi, að þeir fái hlutdeild í stjórn fyrirtækjanna, annaðhvort með því að eignast hlutafé og verða á þann hátt aðnjótandi réttinda venjulegra hluthafa eða með því, að nefnd verkamanna þess fyrirtækis hafi íhlutun um rekstur þess.

Þetta er meginatriði þess fyrirkomulags, sem við flm. þessarar till. teljum athugandi að reynt verði hér á landi. Við sláum engu föstu um það, að þessu skuli komið á, og við flytjum ekki frv. til l. um, að þetta skuli lögbundið. Hins vegar leggjum við til, að ríkisvaldinu verði falið að gera tillögur um það, hvar og hvernig helzt sé hugsanlegt að koma slíku skipulagi á. Við leggjum enn fremur til, að haft sé fullt samráð við fulltrúa frá samtökum atvinnurekenda og launþega um þetta undirbúningsstarf. Við leggjum áherzlu á slíkt samstarf, því að án þess er ákaflega hætt við því, að til átaka komi og tortryggni skapist gagnvart slíku skipulagi.

Við viljum að lokum leggja áherzlu á, að það er skoðun okkar, að ríka nauðsyn beri til þess að vinna í vaxandi mæli og meira, en gert hefur verið, áður að því að skapa samúð og velvild í samstarfinu milli verkalýðs og vinnuveitenda og reyna á þann veg að skapa gagnkvæman skilning, á því mikla grundvallarvandamáli, sem hér er vissulega um að ræða. Ég vil svo láta að lokum í ljós þá von, að þetta mál, þessi merka hugmynd til lausnar á miklu þjóðfélagsvandamáli fái nú betri undirtektir og skjótari afgreiðslu, en hún hefur fengið á undanförnum árum.

Eins og getið er um í grg, till., var till. um þetta fyrst flutt á Alþ. árið 1937 af þeim Jóhanni heitnum Möller og Thor Thors. Þá mun hafa verið skipuð fimm manna milliþinganefnd til þess að rannsaka og gera till. um það fyrirkomulag, sem í till. greindi. Þessi n, var kosin, en upp úr starfi hennar kom lítið. N. hélt aðeins einn fund, og engar till. komu frá henni.

Við flm. þessarar till. höfum flutt hana, að mig minnir, tvívegis áður, en hún hefur ekki orðið útrædd. Þar sem ég geri nú ráð fyrir, að nokkrar vikur séu eftir af setu þess Alþ., sem nú situr, er það von mín og okkar flm., að þeirri hv. n., sem fær hana til meðferðar, gefist tækifæri til þess að athuga hana gaumgæfilega, jafnvel leita álits einhverra aðila um hana, og síðan afgreiða hana til þingsins á ný, þannig að Alþ. geti nú samþykkt þessa till. og sú tilraun verði gerð, sem hún fjallar um. — Ég leyfi mér svo að óska þess, að till. verði vísað til hv. allshn.