10.02.1958
Neðri deild: 49. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1910 í B-deild Alþingistíðinda. (3036)

Bréfaskipti forsætisráðherra Sovétríkjanna og Íslands

Ólafur Thors:

Herra forseti, Þessari hólmgöngu er nú að verða lokið, — Hæstv. ráðh. sagði, að um haustið 1946 hefði það verið vitað, að ég hefði gengið á eftir kommúnistunum til að fá að endurreisa stjórnina. Ég hafði fengið mitt fram í deilunni við þá, og ég get vel skilið það, að menn, sem höfðu unnið með mér alveg heiðarlega, væru reiðir við mig að vissu leyti út af því, hvernig ég hélt á málum og hve fast ég hélt við þá stefnu, sem þeir voru algerlega andvígir. Og mér fannst, að það minnsta, sem ég gæti sýnt þessum mönnum eftir ánægjulegt samstarf, væri leita hófanna um það, hvort okkar samstarf gæti tekizt áfram, þannig að þeir sættu sig við, að ég fengi að ráða utanríkisstefnu, en ég var þá bæði forsrh, og utanrrh. Þegar mér varð ljóst, að þess arna varð ekki auðið, þá stóð ég upp og tilkynnti þeim, að samstarfinu væri slitið. Þetta skeði þannig, að stjórnarflokkarnir allir voru á fundi uppi í stjórnarráði til samninga um hugsanlega slíka möguleika, og ég held, að ég segi það með góðri samvizku, að ég hafði ekki neitt umboð frá neinum til þess að lýsa því yfir, að nú væri þessu lokið, þegar ég stóð upp úr herbergi því, sem kommúnístarnir höfðu þá til umráða, gekk niður og talaði við sjálfstæðismenn og Alþýðuflokksmenn, kallaði síðan alla flokkana saman á fund þá þegar og lýsti yfir, að mínum tilraunum væri lokið, því að mér væri ljóst, að þau skilyrði, sem ég gerði að aðalatriði, að Sjálfstfl. réði stefnunni í utanríkismálunum, mundu ekki blessast, a. m. k. ekki til langframa. Þetta er það, sem skeði. (Forsrh.: Þetta hefur verið geysilega tilkomumikil stund.) Já, hún var það, enda allir þeir, sem áttu hlut að máli, hefðarmenn og enginn saknaði núverandi hæstv. forsrh. (Fjmrh.: Spursmálið var, hvort þetta var fyrir eða eftir hárreytinguna.) Ég veit það nú ekki. En ég sé, að það hefur líka minnkað hárið á mínum elskulega fjmrh., og er hann þó yngri en ég, og ef hann vill snúa að mér bakinu, þá sé ég, að það hefur bara verið reytt talsvert upp á síðkastið, og þau hafa gránað líka og gleraugun eru með á myndinni og öll ellimerki, sem ég hef. — Ég hef verið að spyrja hæstv. forsrh. um, í hvers umboði hann talaði. Utanrrh. og hans blað segja: Hann talar í umboði allrar stjórnarinnar. — Stærsta stjórnarblaðið segir: Þetta er ósatt, — Og forsrh. af hlífð við kommúnista og gegn betri vitund staðfestir það. Það vita líka allir, að Hermann Jónasson er sá fyrirhyggjumaður, að hann hefur haft samráð við ráðh. kommúnistanna um svarið við þessu bréfi.

Þá sagði hæstv. forsrh. að lokum: Hvar er vikið frá yfirlýstri stefnu Íslendinga í mínu svari? — Ég segi: Væri þá ekki hyggilegra að spyrja Alþingi fyrst og svara svo? Hér er alveg sama fyrirhyggjan á ferðinni eins og þegar samþykkt var 28. marz 1956, að þrátt fyrir gefið loforð til NATO-ríkjanna um að taka ekki ákvörðun um að senda varnarlið úr landi án þess að hafa áður borið sig saman við þau, þá skyldi samt sem áður tafarlaust og án þess að hafa haft samráð við NATO-ríkin tekin ákvörðun um að senda varnarliðið úr landi. Því var að vísu bætt við, að svo mætti vel spyrja hina á eftir, hvað ætti að gera. Ég hef áður lýst yfir, að þetta voru viðlíka hyggindi eins og dómari dæmdi mann fyrst til dauða og léti hengja hann, en ákvæði svo á eftir að láta rannsaka, hvort hann hafi verið sekur.

Ég vil að lokum segja hæstv, forsrh., að þó að hann geti ekki mikið af mér lært vegna hans yfirburða vitsmuna á öllum sviðum, þá vildi ég nú samt kenna honum það að spyrja fyrst til ráða og svara síðan eftir að hafa fengið ráðin. Það mundi ekki hafa sakað hann, hvorki í þessu né ýmsu öðru.