18.12.1957
Efri deild: 45. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 244 í B-deild Alþingistíðinda. (326)

67. mál, fasteignamat

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Þetta stjórnarfrv. er ekki að efni til eins einfalt og hv. frsm. meiri hl. vill vera láta, og bera ummæli hans um það m.a. vott um, að hann er ekki fyllilega eða nægilega inni í málinu. Hér er um að ræða löggjöf, sem snertir öll opinber gjöld til sveitarsjóða um land allt, þau gjöld, sem miðuð eru við fasteignamat. Nú hefur þetta frv. tekið miklum stakkaskiptum í meðförum þingsins, var gerbreytt í Nd, Það var tekið fyrir á fundi fjhn. þessarar deildar í gær. Það var ekki einu sinni lesið í gegn, eins og venja er til um frv. Það var farið yfir frv. eins og það liggur nú fyrir, ekki lesin grg. þess. Ég fór fram á, að veittur yrði frestur til næsta fundar til þess að athuga málið, en því var synjað af meiri hl.

Ég vildi fyrst taka það fram, að það er alveg rangt hjá hv. frsm. meiri hl., að þó að slíkur frestur hefði verið veittur, eins og sjálfsagt og þinglegt er, þegar beiðni kemur fram um það, gat málið vel náð afgreiðslu á þessum þinghluta, því að næsta fund hefði mátt halda í n. annaðhvort síðar í gær eða í dag, og er þessi ástæða því fyrirsláttur einn. Ég vil taka það fram, vegna þess að þetta mál hefur sætt nokkuð óvenjulegri meðferð, að ég veit þess ekki dæmi og hef þó setið allmörg ár á þingi og m.a. verið formaður þingnefnda árum saman, að þegar mál hefur verið tekið fyrir í fyrsta skipti á nefndarfundi og einhver nm. hefur óskað eftir frestun til næsta fundar til að afla upplýsinga, að því hafi verið neitað, og ég tel, að þessi meðferð meiri hl. fjhn. sé algerlega óþingleg, og átaldi hana því og mótmælti á fundinum og geri hér enn.

Það, sem hefði þurft að athuga og upplýsa í n., er m.a. það, og það kom ekki orð fram í þá átt hjá hv. frsm, til skýringar á því, hvað er átt við með þeim breytingum, sem fjhn. Nd. gerir á frv., en eins og ég tók fram, þá er það mjög veruleg breyting.

Í frv. upphaflega var m.a. svo ákveðið, að l., sem gilt hafa frá 1952 um heimild fyrir sveitarstjórnir til að innheimta með álagi fasteignaskatta til sveitarsjóða, falli úr gildi. Þessi l. hafa verið notuð af sumum sveitarfélögum, öðrum ekki. Þau hafa verið notuð af sumum sveitarfélögum til fulls, af öðrum aðeins að nokkru leyti. Með ákvæði frv., eins og það var lagt fyrir af hæstv. ríkisstj., var því mjög gengið á rétt sveitarfélaga og átti að taka af þeim þessar heimildir, sem þær höfðu haft undanfarin ár. Með frv., eins og það nú liggur fyrir, er gerð breyting á þessu, lögin eru að nafni til látin standa, en í stað þess sett orðalag, sem reyndar er ekki alveg skýrt, en þar sem segir, að innheimta megi gjöld með álagi samkvæmt því, sem ákveðið var í þessum lögum. Þetta getur vafalaust orkað tvímælis, hvernig nánar eigi að túlka þetta, en þó virðist þarna vera heldur fært í réttara horf, en var með frv. upphaflega.

Varðandi önnur gjöld, en þessa fasteignaskatta, sem lögin frá 1952 fjalla um, er svo ákveðið, að þau skuli öll innheimt á sama hátt og var fyrir gildistöku fasteignamatsins, þar til nýjar reglur hafa verið settar um slík gjöld. Með þessu er verið að lögbinda hendur sveitarsjóða um ýmsa hluti, og ég hefði talið það alveg sjálfsagðan hlut að fá það nánar upplýst og sundurliðað, hvaða gjöld það eru varðandi hin ýmsu sveitarfélög, sem hér falla undir og nú er bara ákveðið með einu pennastriki að lögbinda um ófyrirsjáanlegan tíma. Ég tel enn fremur alveg óforsvaranlegt að afgreiða þetta mál án þess að bera það undir Samband íslenzkra sveitarfélaga eða stjórn þess, og yfirleitt allan þennan málatilbúnað tel ég mjög svo óþinglegan. Þar sem málið hefur ekki fengizt athugað neitt að ráði í þeirri n., sem það heyrir undir, en hins vegar er hér um yfirgripsmikið og flókið mál að ræða, þá mun ég ekki taka þátt í afgreiðslu þessa máls, en ég tel rétt og undirstrika það hér aftur, eins og ég gerði í n., að ég mótmæli þessum vinnubrögðum meiri hl. fjhn.