13.12.1957
Sameinað þing: 19. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 384 í B-deild Alþingistíðinda. (360)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1958

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þessar umr., sem þegar eru orðnar nokkuð langar. Ég ætla aðeins að víkja örfáum orðum að einu atriði, sem hv. þm. N-Ísf. (SB) gerði að umtalsefni. Ég mótmælti því hér alveg, að dvöl varnarliðsins á Íslandi hefði nokkru sinni verið blandað inn í samninga um lántökur eða efnahagsmál. Hv. þm. N-Ísf. vildi véfengja þetta, og hann sagðist hafa vitni og vitnið var blað Sósíalistaflokksins, Þjóðviljinn. Vill nú ekki þessi hv. þm. N-Ísf. lesa sér ofur lítið til um það, sem Þjóðviljinn sagði um Bjarna Benediktsson, Marshallaðstoðina og dvöl varnarliðsins á Íslandi á sínum tíma, og leggja síðan ofur lítið út af því?

Þá sagði þessi hv. þm., að stjórnin hefði nú lotið svo lágt að leita nú lána meðal NATO-þjóða. Ja, þvílíkt ódæði, að stjórnin skuli hafa leyft sér að leita lána hjá NATO-þjóð eða NATO-þjóðum. Langt eru menn nú komnir í villunni og vandræðunum, þegar svona lagað heyrist frá hv. stjórnarandstæðingum.

Þá sagði þessi hv. þm. loks, að hv. þm. Benedikt Gröndal hefði einhvers staðar verið að skrifa um aukið samstarf NATO-þjóðanna í efnahagsmálum og öðrum málum. Þetta þótti hv. þm. tíðindi. Þó veit hv. þm. það vel, að á undanförnum árum hefur verið unnið að auknu samstarfi NATO-þjóðanna í efnahagsmálum, og það er ekkert leyndarmál, það vita allir, að Íslendingar hafa á undanförnum árum notið góðs af auknu samstarfi NATO-þjóðanna í efnahagsmálum, og er það vitanlega engin uppgötvun. Meðan hv. núverandi stjórnarandstæðingar voru í stjórn, voru þeir mjög hrifnir af þeirri hugmynd, að NATO-þjóðirnar ættu að vinna meira saman í efnahagsmálum og öðrum þess háttar málum. Þetta læt ég nægja til þess að sýna fram á, hvílíkar fjarstæður hv. stjórnarandstæðingar hafa fram að færa í sambandi við þessi efni.