22.10.1957
Efri deild: 7. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 552 í B-deild Alþingistíðinda. (425)

7. mál, útflutningssjóður o. fl.

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Ég hef á þessu stigi málsins engar athugasemdir að gera við það frv., sem hér liggur fyrir og hæstv. sjútvmrh. hefur nú mælt fyrir. En af því tilefni, að hér liggur fyrir frv. til l. um breyt. á lögum um útflutningssjóð o.fl., vildi ég leyfa mér að beina þeirri fsp. til hæstv. sjútvmrh., hvernig afkoma þessa sjóðs hafi orðið á yfirstandandi ári?

Það er ástæða til þess að beina slíkri fsp. til hæstv. ráðh., sérstaklega vegna þess, að nokkuð misjafnar sögur hafa gengið um það, jafnvel af munni hæstvirtra ráðh., hvernig hagur þessa þýðingarmikla sjóðs standi. Hæstv. fjmrh. hefur bæði á fundi í flokksfélagi sínu hér í Rvík og einnig í ræðu sinni við 1. umr. fjárlaga vikið að því, að verulegur greiðsluhalli mundi verða hjá sjóðnum á þessu ári. Hins vegar hefur annar hæstv. ráðh., hæstv. félmrh., í útvarpsræðu frammi fyrir alþjóð látið að því liggja, að allt væri í stakasta lagi með fjárreiður sjóðsins, hann stæði í fullkomnum skilum við þá aðila, sem hann á fyrst og fremst að starfa fyrir, og óþarfi væri að gera því skóna, að mér skildist, að greiðsluhalli yrði hjá honum á árinu.

Af þessu tilefni vildi ég leyfa mér að óska þess, að hæstv. sjútvmrh. gæfi nú glögg og greinargóð svör um það, sem treysta mætti þá væntanlega, hver hin raunverulega afkoma útflutningssjóðs hafi verið í ár til þessa.