05.12.1957
Neðri deild: 33. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 562 í B-deild Alþingistíðinda. (442)

7. mál, útflutningssjóður o. fl.

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Mál það, sem hér liggur fyrir, er nokkuð sérstæðs eðlis og meðferð þess öll sýnist mér vera með þeim hætti, að ástæða sé til að gera frekar að umtalsefni.

Eins og fram kemur í nál. fjhn. Nd., höfum við tveir fulltrúar Sjálfstfl. þar skrifað undir nál. með fyrirvara. Við inntum eftir því í fjhn., hvað raunverulega fælist í þessu frv. og hvort engar frekari skýringar, væri hægt að gefa, heldur en frv. sjálft bæri með sér, sem eru nánast engar, og þar sem ekki heldur hefðu komið fram við 1. umr. málsins neinar efnislegar skýringar á málinu af hálfu hæstv. ríkisstj.

Þar voru ekki aðrar upplýsingar, sem nm. aðrir og fulltrúar stjórnarliðsins töldu sig geta gefið en þær, að með þessu móti væri verið að heimila að leggja yfirfærslugjald á skipaleigur og það væri eðli málsins samkvæmt eigi önnur ráðstöfun, en sú að afla útflutningssjóði nokkru frekari tekna. Þar sem fátækt hefur verið mikil af málum á þinginu og oft ekki nema eitt á dagskrá, þá töldum við ekki ástæðu til að tefja, að málið fengi að ganga úr nefndinni, en höfðum fyrirvara, eins og kemur fram í nál., og gerðum grein fyrir því í fjhn., að afstaða okkar til málsins mundi fara eftir því, hvaða nánari skýringar væru á þessu máli gefnar, — einhverjar hlytu að vera fyrir hendi, — og óskuðum þess sérstaklega, að einhver ráðh. hæstv. ríkisstj, yrði viðstaddur, þegar málið yrði rætt, og yrði við þeim óskum, sem við settum fram í fjhn., að skýrgreina þetta mál nánar. Ég bjóst því við því, að málið mundi fá nánari efnismeðferð hér, en raun hefur borið vitni um, og af hálfu hæstv. ríkisstj, hafa engar frekari skýringar komið aðrar en þær, sem vitnað var til hér, að hæstv. sjútvmrh. hefði sagt í Ed., að með þessu frv. væri útflutningssjóði aflað nokkurra tekna, og mér skilst, að í skjóli þess ætti aðstaða íslenzkra skipa að verða nokkru betri í samkeppni við erlend skip varðandi flutninga til og frá landinu.

Svona liggur þetta fyrir, og málið er komið til Nd., og annað liggur ekki efnislega fyrir um það. Ég tel í fyrsta lagi alveg vítavert, að borin séu fram eða samþykkt bráðabirgðalög eins og þessi lög á sínum tíma, með nákvæmlega engum skilgreiningum á efni málsins. Og þegar þau nú koma fyrir þingið, þá er bara endurprentað sem fskj. venju samkvæmt, hvaða rök hafi verið færð fyrir nauðsyn bráðabirgðalaganna, og af því er ekkert hægt að ráða, nema að vísu þetta eina, að ríkisstj. sé heimilt að leggja yfirfærslugjald á erlendar skipaleigur. En hvers vegna er ríkisstj. að leita þessarar heimildar? Er það vegna þess, að útflutningssjóð vanti tekjur? Þá á að gera grein fyrir því og enn fremur hvað þetta mundi leiða til mikillar tekjuöflunar fyrir útflutningssjóð, og nú er tímabært að spyrja um það: hvað hefur útflutningssjóður haft miklar tekjur af þessu, frá því að byrjað var að framkvæma þessi lög, en brbl. voru gefin út 11. sept. 1957?

Þetta er önnur hlið málsins. Hin er svo sú, sem ómögulegt er að ráða af efni þessa máls eða frv. né brbl., eins og þau liggja fyrir, að með þessari löggjöf sé verið að gera tilraun til að bæta aðstöðu íslenzkra skipafélaga til rekstrarins, sem á þá að vera til þess að bæta upp þann aukinn tilkostnað, sem þessi sömu skipafélög hlutu af hinu langa verkfalli á s.l. sumri og með þeirri lausn, sem þar endanlega fékkst.

Nú vil ég ekki gagnrýna þetta mál eða það, að skipafélögunum sé bætt eitthvað aðstaðan út af fyrir sig vegna aukins tilkostnaðar, sem á þau er lagður. En ef það er meginefni þessa máls, hversu óverjandi er þá ekki af hæstv. ríkisstj. að gera ekki Alþingi grein fyrir því raunverulega efni málsins? Ég fæ ekki séð, hverjum það á að vera til góðs að halda stöðugt áfram að leysa vinnudeilur hér á landi með þeim hætti, að raunveruleg atriði, sem mestu máli skipta við lausn þeirra, eru hulin almenningi og ekki aðeins almenningi, heldur á að láta frv. sigla í gegnum þingið með þeim hætti að dylja sjálft þingið, hvað í raun og veru hefur átt sér stað. Það mátti lesa það í stjórnarblöðunum, eftir að hinu langa verkfalli hafði lokið, að til stæði að leggja yfirfærslugjald á skipaleigur, — 8% held ég að stjórnarblöðin hafi talað um að það mundi verða, –og þetta mundi eiga að bæta aðstöðu eða bæta eitthvað upp þann aukna kostnað, sem skipafélögin höfðu af auknum kjarabótum, sem þau veittu sjómönnunum. Nú er það mjög sennilegt, að þessi langa deila hefði haft miklu skemmri aldur, ef nógu snemma hefði verið gengið inn á það sjónarmið og orðið við kröfu skipafélaganna, ef þau veittu sjómönnunum eða farmönnunum einhverjar kjarabætur, að þá fengju þau að einhverju leyti að bæta sér þær upp í auknum fargjöldum. Á því stóð lengst af, að óskir skipafélaganna um þetta atriði ættu nokkurn hljómgrunn hjá hæstv. ríkisstj. En þegar deilan er leyst, þá eru um þetta baksamningar á milli skipafélaganna og hæstv. ríkisstj., sem fæstir hafa heyrt nokkuð nánar um og ég efast um að nokkur geri sér fyllilega grein fyrir, hvernig framkvæmdir eru.

Þessir baksamningar munu m.a. liggja til grundvallar því, að frv. það, sem hér liggur fyrir, er flutt til staðfestingar á brbl. frá 11. sept. Efni málsins um slíka lausn á vinnudeilu er, að þegar loksins eftir langa mæðu og mikil mistök er hægt að binda endi á hið lengsta verkfall, sem verið hefur, held ég, á skipaflotanum, þá endar það með því, að það er að vísu látið í veðri vaka, að það séu ekki miklar kauphækkanir, kjarabætur eru þó nokkrar, og jafnvel þannig frá gengið, að um það er deilt, hvað kjarabæturnar og kauphækkanirnar séu miklar. Svo eru gerðir baksamningar við skipafélögin þess eðlis, að það er almenningur, sem á endanum er látinn borga brúsann. Þetta er kannske ekkert óeðlilegt, og það er oft svo, þegar verið er að leggja á nýjar álögur af hálfu Alþingis eða ríkisstj, eða þegar almenningur, ein stétt eða fleiri stéttir, er að gera kröfur um meiri kauphækkanir og kjarabætur, að þá verður ekki á stundum orðið við þessu með öðrum hætti, en byrðarnar lendi meira og minna á almenningi í landinu. En þegar svo er háttað, þá er langeðlilegast, að um þetta sé sagt satt og málin fyllilega skýrð. Hér leiðir efni málsins til þess, að skipaleigur hækka. Ríkisstj. hefur í auglýsingu, sem hún gefur út 11. sept., ákveðið, að hún muni ekki hækka eða leggja yfirfærslugjald á skipaleigur á salti og kolum og olíum og einhverjum fleiri atriðum, en allar aðrar gjaldeyrisgreiðslur fyrir skipaleigur skulu háðar 8% yfirfærslugjaldi, og þeir vöruflokkar, sem hér skipta langmestu máli, eru byggingarefni, veigamesta byggingarefni eins og sement og timbur, og þetta leiðir svo auðvitað til þess, að fólkið, sem á þegar fyrir í nógu miklum erfiðleikum með að koma upp byggingum sínum, fær nú ný gjöld á sementið og timbrið fyrr eða síðar, sem gerir allan byggingarkostnaðinn enn þá dýrari, en hann var áður. Kannske er ekki hægt að komast hjá þessu.

En það er a.m.k. hægt að komast hjá einu, og það er að reyna að dylja alla þess, sem hér er að eiga sér stað, og það er alveg óverjandi, þegar þingmenn óska eftir skilgreiningu á máli í nefndum og óska eftir því, að ráðherra geri grein fyrir málinu í þinginu, að þá sé bara um það þagað. Og ég spyr nú alveg heinum spurningum: Hvernig hefur þetta nú verið framkvæmt? Hvernig hefur það verið framkvæmt, að lagt hefur verið 8% yfirfærslugjald á erlendar skipaleigur eða gjaldeyrisgreiðslur fyrir skipaleigur? Ég hef reynt að afla mér upplýsinga um það hjá skipafélögum hér, með hverjum hætti þetta sé framkvæmt, og sannast að segja hefur mér komið það þannig fyrir sjónir, að þetta væri allt meira og minna á reiki. Og mér er kunnugt um það, að tiltekið íslenzkt skipafélag, sem leigir skip sitt undir sementsfarm til innlendra innflytjenda, hefur bara lagt 8% gjald ofan á fragtina og innheimt það til sín. Þetta er hvorki yfirfærslugjald á gjaldeyrisgreiðslu né heldur fær útflutningssjóður neitt af þessu gjaldi, en yfirfærslugjaldið á lögum samkvæmt að renna til útflutningssjóðs. Ég spyr þess vegna: Hvernig er þetta mál framkvæmt? Látum vera, hvernig það ber að höndum, en það er þó a.m.k. kominn tími til að skýra það nú, og þegar sá tími er kominn, þá vildi ég spyrja fyrst og fremst: hvernig er þetta framkvæmt, með hvaða hætti? — og í öðru lagi: hvað hefur útflutningssjóður fengið miklar auknar tekjur af þessari löggjöf, sem hefur verið í gildi frá 11. sept. s.l.?

Á þessu stigi málsins skal ég ekkí hafa fleiri orð um þetta mál. Ég leyfi mér að vita meðferð málsins, og þar sem ekki hefur verið orðið við óskum okkar hv. 9. landsk. um að fá nánari skilgreiningu á málinu nú, þá vildi ég mega mælast til þess við hæstv. forseta, að umr. um þetta mál verði frestað og málinu vísað aftur til fjhn., svo að málið geti talizt, áður en yfir lýkur, að hafa a.m.k. fengið viðurandi þinglega meðferð.