05.12.1957
Neðri deild: 33. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 565 í B-deild Alþingistíðinda. (443)

7. mál, útflutningssjóður o. fl.

Frsm. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Ég hygg, að það sé reyndar óþarft að fara um þetta frv. nokkrum fleiri orðum, því að ég vænti þess, að öllum hv. þdm. sé það ljóst, hvað í því felst.

Skv. 1. gr. frv. er fellt niður orðið „skipaleigum“ úr 16. gr. laganna um útflutningssjóð, en í þeirri gr. eru upp taldar nokkrar greiðslur, sem eru undanþegnar yfirfærslugjaldi. Aftur á móti er bætt inn í 15. gr. laganna, skv. 2. gr. þessa frv., ákvæði um það, að ríkisstj. geti undanþegið skipaleigur yfirfærslugjaldi, en áður var í þessari lagagrein heimild til að undanþiggja nauðsynleg skipagjöld og flugvélagjöld erlendis að nokkru eða öllu leyti slíku gjaldi.

Þetta er það, sem í frv. felst, og út af þeim ummælum hv. 5. þm. Reykv. í ræðulok áðan, að rétt væri að vísa málinu aftur til fjhn., þá fæ ég ekki séð, að það eigi þangað nokkurt erindi. Nefndin er búin að afgreiða málið frá sér. Hitt er annað mál, að ef hv. þm. óskar einhverra upplýsinga frá ríkisstj. í sambandi við setningu brbl. og framkvæmd málsins, þá geri ég fastlega ráð fyrir því, að hann hafi möguleika til þess að fá þá vitneskju frá stjórninni um málið, sem hann óskar eftir.