11.12.1957
Neðri deild: 37. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 592 í B-deild Alþingistíðinda. (463)

7. mál, útflutningssjóður o. fl.

Sjútvmrh. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Aðeins örfá orð. — Hv. 1, þm. Reykv. (BBen) minntist hér á það, að ég hefði ekki mætt hér við 1. umr. málsins og því hefði ekki gefizt kostur á að ræða málið við mig, svo sem þingsköp raunverulega gerðu ráð fyrir. Það er rétt, að það kom fyrir hér einn dag, eftir að málið var búið að fara í gegnum Ed. og hljóta þar eðlilega afgreiðslu og umr., að ég gat ekki vegna starfa, verið hér við umr., en hef síðan verið það upp frá því, þannig að hv. þm. hefur hér haft fulla aðstöðu til þess að ræða þetta mál og það hefur verið meira og betur rætt, þannig séð, en mörg önnur mál, sem ganga hér í gegnum Alþ.

En það, sem fyrst og fremst vekur athygli í þessum efnum, er það, að þessi hv. þm. vill ekki ræða efni frv., hann vill ekki ræða um efni málsins sjálfs, en er í þess stað að ræða hér löngu liðna atburði frá vinnudeilum s.l. sumar og segja þar hvers konar ósannindasögur, sem auðvitað koma ekki við því frv., sem hér liggur fyrir.

Það er líka algerlega rangt, sem hann endurtók hér, að ég hafi ekki og ríkisstj. viljað gefa réttar upplýsingar um þetta mál. Það liggur fyrir. Og hvort sem hann veifar hér þingræðuparti eða ekki, þá breytir það engu, því að hann reyndi ekki að lesa upp neitt, sem afsannaði það, sem ég sagði, að ég hefði skýrt hér alveg fyllilega frá því, hvaða ástæður væru til þess, að málið er lagt hér inn á Alþ. (BBen: Vill ekki hæstv. ráðh. lesa það, sem hann sagði í efri deild?) Jú, ég skýrði frá því líka hér í Nd. áður mjög ýtarlega og endurtók þá það, sem ég var búinn að segja í Ed., svo að öllum hv. þm. hér í Nd. er það fyllilega kunnugt, hvað ég sagði þar. Það endurtók ég allt hér, en mun nú ekki gera það fyrir hv. þm. að gera það hér í þriðja sinn á Alþ., ég sé ekki ástæðu til þess.

Hann minntist hér á það, að fulltrúar Eimskipafélagsins hefðu við ákveðna atkvgr. í farmannadeilunni viljað fá að greiða atkvæði með tilteknu skilyrði og sáttasemjari hafi neitað þeim um það. Ég skal fullkomlega játa, að þetta hef ég ekki heyrt fyrr, en nú. En hitt aftur hef ég heyrt, að þegar sáttasemjari leggur fyrir ákveðnar sáttatillögur, þá er aldrei um annað að gera, en aðilar verði þar að svara með jái eða neii, og það er því alveg föst regla og hefur auðvitað gilt í þessu tilfelli eins og endranær. En hitt veit ég, að ég hafði nokkrum sinnum hlýtt á fulltrúa Eimskipafélagsins eins og annarra aðila, sem þarna áttu hlut að þessari deilu, svara alveg afdráttarlausum spurningum um það, hvað þeir vildu ganga langt til móts við tillögur sjómanna, einnig án tillits til þess, hvernig fjárhag félaganna væri háttað, og heyrði þá svara alveg skýrt, að þeir fengjust ekki til þess að mæta kröfum þeirra, fram yfir þetta, sem ég greindi hér áðan. Þetta veit ég, því að þetta hlustaði ég á frá þeirra hálfu. Og þetta vitanlega byggðist á því, að fulltrúar skipafélaganna voru á þeirri skoðun, að það væri ekki ástæða til þess að breyta launakjörum farmannanna. Þetta var þeirra skoðun, og þetta var skoðun forstjóra Skipaútgerðar ríkisins, sem greiddi atkv. á þann hátt, sem hv. þm. var hér að minnast á, þar til ríkisstj, beinlínis sneri sér til hans og óskaði eftir því til lausnar á málinu, að hann beitti atkv. sínu í þá átt, að lausn fengist. En við hinu var í rauninni ekkert að segja, þó að þessi afstaða hans kæmi fram eins og annarra þeirra, sem fóru með umboð skipafélaganna, að þeir voru allir á móti því að verða við kröfum farmannanna. Og það var svo sem heldur ekki óeðlilegt, á meðan fulltrúar farmannanna héldu því fram, eins og Morgunblaðið rökstuddi fyrir þá dag eftir dag, að það ætti að verða við þeirri meginkröfu þeirra, að sú hækkun, sem fengist, ætti að ganga jafnt yfir alla, einnig yfir þá hálaunuðu. Meðan málið stóð þannig, var svo sem ofur eðlilegt, að það yrðu allmargir, sem yrðu á móti máli þeirra, og það fór líka svo að lokum, að þeir hæst launuðu á skipunum fengu enga kauphækkun, þó að hv. þm. sé nú að reyna að halda því hér fram, að þeir hafi fengið mikla kauphækkun. Hið rétta er, að skipstjórarnir á skipunum fengu ekki kauphækkun. Það var hin almenna regla þar. En þessi hv. þm. er nú að reyna að villa um fyrir mönnum í þeim efnum, að þeir hafi fengið kauphækkun. Ég skal aðeins nefna dæmi, því að það er ákaflega augljóst, það er ákaflega lýsandi um það, hvernig þessi hv. þm. heldur á öllum sínum málflutningi í sambandi við þessa deilu. Sem sagt, það liggur fyrir, að skipstjórarnir á skipunum fengu ekki kauphækkun, nema gamall sérsamningur sagði það, að skipstjóri á olíuskipinu Þyrli hefði lægra kaup, en skipstjórarnir á sams konar olíuflutningaskipum, Litla-Fellinu og Kyndli, og starfaði við sams konar störf á jafnstóru skipi. Hann var á lægra kaupi. Það var fallizt á að samræma þetta. Og þá var þessu slengt auðvitað út í Morgunblaðinu og sagt: Skipstjórarnir, hæst launuðu mennirnir, fengu svona mikla kauphækkun. Svona hafði verið yfirleitt haldið á þessu máli frá hálfu þeirra, sem vildu gera sem mest úr því, hvað kauphækkun hinna hátt launuðu væri mikil, og allt var þetta vitanlega í stíl við þennan almenna málflutning, sem hv. 1. þm. Reykv, hefur reynt að halda hér uppi í þessu máli.

Það var rétt, sem ég skýrði hér frá, að hv. 1. þm. Reykv., sem jafnframt er ritstjóri Morgunblaðsins, neitaði einum af aðaldeiluaðilunum um rétt til þess að fá birta grein í Morgunblaðinu, einmitt þar sem farið var lofsamlegum orðum um minn þátt í því að reyna að leysa deiluna. Og hann dró enga dul á það á fjölmennum samninganefndarfundi, sem hér fór fram í þessu húsi, þessi aðili, að skilyrði Morgunblaðsins fyrir því, að greinin yrði birt, væri það, að niður yrðu felldar þær setningar, sem voru lofsamlegar um mig, að öðru leyti mátti greinin birtast. Það var því ekki vegna þess, að Morgunblaðið hefði ekki pláss fyrir þessar línur, það var eingöngu vegna þess, að það þurfti að halda áfram því stroki, sem upp hafði verið tekið. Þannig er nú það mál.

Ég sé svo ekki ástæðu til að lengja þetta frekar, því að aðalatriði málsins liggja í rauninni ljóst fyrir. Hér er um það að ræða með því frv., sem hér liggur fyrir, að rétta nokkuð aðstöðu íslenzkra skipa í samkeppninni við erlend skip og jafnframt að auka á tekjur útflutningssjóðs, sem sannarlega þurfti á tekjuauka að halda. Þetta var þeim mun nauðsynlegra, þegar það lá fyrir, að útgjöld íslenzku skipanna fóru hækkandi, m.a. upp úr vinnudeilunni s.l. sumar. Af því þurfti á þessu að halda, ef erlend leiguskip áttu ekki að yfirtaka störf íslenzku skipanna. Og ég hygg, að hver alþm., sem athugar þetta mál ofan í kjölinn, muni komast að raun um það eins og ríkisstj., að það var þörf á því að stíga þetta skref til móts við íslenzku skipafélögin og réttmætt að lögleiða frv. eins og það liggur fyrir.