06.02.1958
Neðri deild: 47. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 627 í B-deild Alþingistíðinda. (484)

99. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis 1958

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Ég hef ekki miklu við það að bæta, sem ég sagði áðan, og hæstv. forsrh. játaði, að það væri að efni til rétt, sem ég hefði haldið fram um þetta. En ég vil einungis ítreka eða leggja meiri áherzlu á heldur, en ég gerði áðan, að þessi aðferð, þó að hún sé ekki ný, þá hefur hún farið of mjög í vöxt og einnig á seinni árum og ekki sízt á síðasta ári verið beitt um þau mál, sem engin þörf var á eða afsökun fyrir, að afgreiða þyrfti í skyndi. Við munum það öll fullvel, að við sátum á síðasta ári lengur á þingi, en nokkru sinni áður hefur verið í Íslands sögu. Það þinghald var lengst af mjög atburðalítið, en svo á allra síðustu dögum þingsins voru afgr. mál, sem ekki er hægt að færa sömu afsökun fyrir, að afgr. þurfi í skyndi, eins og einstakar fjárhagsráðstafanir stundum kunna að gefa tilefni til varðandi þær sjálfar.

Við skulum nefna t.d. lög eins og varðandi vísindasjóð, algerlega ópólitískt mál, endurskipun menningarsjóðs, sem voru keyrð í gegn við mjög litla athugun, þegar menn höfðu yfrið nógu öðru að gegna í þinginu, og vitað var, að ýmsir þm. þá vildu fá, jafnvel úr stjórnarflokkunum, leyfi til að gera þar breytingar á, en var sagt, að til þess gæfist ekki tími og þinginu yrði að ljúka.

Um bankalöggjöfina vitum við allir, að þá lá svo mikið við, að það voru teknir upp fundir a.m.k. einn laugardag, aldrei þessu vant, þegar sumir þm. voru búnir að binda sig annars staðar, vegna þess að þinginu þurfti endilega að ljúka. Mál, sem að svo miklu leyti sem það hafði nokkra efnishlið, hlaut að vera eitt vandasamasta og erfiðasta úrlausnarefni, sem Alþingi tekur afstöðu til, fyrirkomulag seðlaútgáfunnar í landinu, en jafnvel slíkt mál, sem árum saman hefur verið í mþn. og menn hafa setið yfir vikum saman til samninga um og togazt á um einstök atriði, það er afgr. hér í þinginu á örskömmum tíma og án þess að frestur gæfist til þess að íhuga það rækilega.

Mér er þetta ljóst, að þeir, sem hafa völdin, hafa alltaf löngun til þess að gera litið úr athugasemdum sinna andstæðinga. En við erum nú væntanlega öll búin að læra svo mikið að sjá, að það er ærið valt, hversu völdin haldast lengi hjá hverjum og einum, og þess vegna er það öllum til góðs, ef hægt væri að koma á því samkomulagi, sem er, að ég hygg, tíðkað í löggjafarþingum flestra þjóða, að það er lögð nokkurn veginn fyrir fram áætlun um, hvernig starfsháttum skuli háttað á hverju starfstímabili, og um það hefur stjórn ætíð fullt samráð við stjórnarandstöðu. Um leið og það er viðurkennt og sjálfsagt, að stjórnin og hennar lið verður að hafa úrskurðarvaldið, ef í odda skerst, þá er það hvarvetna annars staðar en hér, viðurkennt, að hæfilegt tillit beri að taka til stjórnarandstöðunnar.

Ég vil ljúka þessum orðum mínum nú með því að beina því til þingheims, að þetta verði af þingflokkum tekið til alvarlegrar íhugunar, hvort ekki sé unnt að koma á þetta skaplegri skipan, en verið hefur.