06.02.1958
Neðri deild: 47. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 631 í B-deild Alþingistíðinda. (487)

99. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis 1958

Skúli Guðmundsson:

Það hefur verið rætt um það hér, að mál væru stundum afgreidd hér í þingi nokkuð skyndilega, ýmis hin stærri mál, og mun það rétt vera og ekki nýtt í sögunni. M.a. hefur verið minnzt á það hér, hver háttur hafi verið á hafður um afgreiðslu á ríkisábyrgð fyrir bátaútveginn, fyrst þegar það fyrirkomulag var upp tekið, sem mun hafa verið í árslokin 1946.

Hæstv. forsrh. gat þess, hefur víst athugað það í þingtíðindum, að frv. um það efni hafi verið lagt fyrir þingið 20. des. af þáverandi stjórn, en mun hafa verið samþ. sem lög á því ári, fyrir árslok 1946. Ég held, að ég muni það rétt, að það hafi verið í það skipti, sem það kostaði nokkuð sérstaka fyrirhöfn að koma málinu gegnum þingið eða fá það endanlega samþykkt. Það var liðið mjög á dag, fram á kvöld, og málið komið á lokastig, en það kom í ljós, að það stóð nokkuð tæpt, að hæstv. ríkisstj. gæti fengið frv, samþ. í því formi, sem hún óskaði eftir, og einn af stuðningsmönnum hennar, Ingólfur Jónsson, þm. Rang., hafði skroppið heim til sín austur að Hellu. Og nú voru góð ráð dýr, því að það var talið, að það gæti oltið á hans atkv., hvernig færi um frv. Var þá sá kostur tekinn að senda sérstaka bifreið austur seint um kvöldið til að sækja þennan hv. þm., en þm. urðu að bíða hér alllangt á nótt fram eftir því, að hann kæmi. En hann kom að lokum, og stjórnin kom málinu fram án breytingar, sem hún var mótfallin; en till. höfðu komið fram um. Ég held, að það sé rétt munað hjá mér, að þetta hafi verið einmitt í það skipti, sem þessi ríkisábyrgð var fyrst upp tekin fyrir sjávarútveginn. Og sýnir þetta, að það er ekki nýtt, að það sé nokkuð skyndilega unnið að afgreiðslu sumra stærri mála, þó að ég sé sammála þeim mönnum, sem um það hafa talað, að æskilegt væri, að þinginu gæfist ávallt sem beztur tími til athugunar á þeim.