25.04.1958
Neðri deild: 83. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 768 í B-deild Alþingistíðinda. (747)

75. mál, einkaleyfi til útgáfu almanaks

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Þar sem frsm. menntmn. í þessu máli, hv. 5. landsk, þm., er ekki kominn á fundinn, vil ég leyfa mér að fara um málið fáum orðum f.h. nefndarinnar.

Frv. þetta er stjórnarfrv., en fram borið eftir tilmælum háskólaráðs. Það felur í sér lítils háttar breytingu á l. nr. 25 frá 1921, um einkaleyfi handa Háskóla Íslands til útgáfu almanaks.

Efni frv. er tvíþætt: annars vegar að hækka dálítið hámarkssektir fyrir brot á almanakslögunum og hins vegar að gera reglur um úthlutun úr almanakssjóði rýmri, en verið hafa. Menntmn. telur réttmætt, að þessi breyting verði gerð á lögunum, og mælir með samþykkt þessa frv.