18.04.1958
Neðri deild: 80. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 815 í B-deild Alþingistíðinda. (819)

164. mál, sala áfengis, tóbaks o. fl.

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Ég sakna þess, að enginn af hálfu hæstv. ríkisstj. skuli gera grein fyrir þessu máli hér. Eftir efni þess getur það heyrt undir ýmsa ráðherra í raun og veru, — ég veit ekki, hver er sá, sem sérstaklega á að sjá um það, hvort það er hæstv. utanrrh., hvort það er fjmrh. eða e.t.v. dómsmrh., en enginn þeirra lætur svo lítið að vera hér viðstaddur og gera grein fyrir málinu. En ég verð að spyrja, hvaða ástæður liggi til þess, að nauðsyn sé á því að flytja þetta frv., og einkanlega, ef ástæða er til þess að stofna slíka áfengisútsölu á Keflavíkurflugvelli, af hverju hún er þá ekki einnig stofnuð á Reykjavíkurflugvelli. Það er vitað mál, að Reykjavíkurflugvöllur er einnig lendingarstöð í millilandaflugi, og einmitt að svo miklu leyti sem íslenzk flugfélög halda uppi millilandaflugi, þá nota þau Reykjavíkurflugvöll, en ekki Keflavíkurflugvöll. Talið mun vera, að það dragi að þeim flugvöllum viðskipti, sem njóti slíkra hlunninda sem hér er um að ræða, að þetta séu fríðindi, sem farþegar á flugvélum sækist eftir. Eins og hér háttar til, mundi það þá aðallega koma til varðandi farþega, sem ferðast á milli Evrópu og Bandaríkjanna. Ef þetta verða talin hlunnindi, - og annars sýnist vera ástæðulaust að setja þessi lög, — er þá verið að veita þeim félögum, sem hafa lendingarstöð í Keflavík og eingöngu eru erlend flugfélög, réttindi umfram það flugfélag íslenzkt, sem nú þegar heldur uppi föstum áætlunarferðum milli Evrópu og Bandaríkjanna. Ég sé ekki, að það fái með nokkru móti staðizt. Ég get hugsað mér ýmsar ástæður, eins og hættu á smygli og annað slíkt, sem geri það varhugavert yfirleitt að fara inn á þessa braut, og einmitt þær hættur hafa orðið þess valdandi, að hingað til hafa menn ekki treyst sér til að setja slík ákvæði sem í þessu frv. eru fólgin. En ef menn telja þær hættur einskisverðar, þá eru þær auðvitað alveg jafneinskisverðar á Reykjavíkurflugvelli og Keflavíkurflugvelli. Það á að vera hægt að hafa alveg sama eftirlit, að engin misnotkun eigi sér stað hér, eins og hægt er að hafa slíkt eftirlit á Keflavíkurflugvelli. Ég vil því leggja áherzlu á að fá grg. um það undir meðferð málsins, af hverju er hér gert svo mjög upp á milli, sem sagt að hinum erlendu flugfélögum, sem keppa við íslenzkt flugfélag, er verið að veita sérréttindi umfram hið íslenzka flugfélag. Það er efni þessa frv., eins og það liggur fyrir.

Ég vil vænta þess, að einhver af hálfu hæstv. ríkisstj. verði til þess að skýra þann hugsunargang, sem hér er á bak við, svo að þm. megi átta sig betur á málinu, en þeir fá gert eftir efni sjálfs frv. og hinni ófullkomnu grg., sem því fylgir. Það liggur að vísu ekki fyrir, og mér er ókunnugt um, í hvaða n. málið hefur verið til athugunar í Ed. (Gripið fram í: Allshn.) Allshn., — en ef málið er flutt að tilhlutan hæstv. utanrrh., er þá ekki réttast að vísa málinu til hv. utanrmn., og er nokkuð á móti því, að lagafrv. hér í d. sé vísað til þeirrar ágætu og prýðilega starfhæfu nefndar?