03.03.1958
Neðri deild: 59. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 931 í B-deild Alþingistíðinda. (908)

93. mál, kostnaður við rekstur ríkisins

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég vil ekki segja margt út af því, sem hv. þm. A-Húnv. sagði. Hann var að tala um sukk, sívaxandi sukk, sem hefði verið hér um langa hríð og færi sífellt vaxandi. Það gæti gefizt tilefni til þess, eins og hann sagði, í annan tíma að ræða nokkuð um það, hvað hver hefur aðhafzt í því sambandi, og mun ég alls óragur við það, þegar þar að kemur. En ég vil aðeins í sambandi við þetta benda hv. þm. A-Húnv. á það, að hann hefur nú lengi verið endurskoðandi landsreikninganna. Og hvers vegna notar hann þá ekki það tækifæri, sem hann hefur sem endurskoðandi landsreikninganna, til þess að upplýsa þjóðina um þetta sukk, sem hefur verið undanfarið og er svona mikið að hans dómi? Þó að hann upplýsi það, að slíkar aths. komi nokkuð seint, þá hefur það samt væntanlega nokkra þýðingu, að þjóðin fái að vita, þó að það sé eitthvað ofurlítið á seinni skipunum, um þetta ægilega sukk, — og það gæti þá orðið sundurliðað, í hverju það er fólgið, og það þar komið glöggt fram, í hvaða deildum eða stofnunum það er, og allt tilgreint í einstökum atriðum. Það er náttúrlega augljóst mál, að þeir, sem eru endurskoðendur landsreikninganna, ekki sízt þeir, sem eru það ár eftir ár og að því er virðist ættu að hafa mikla æfingu og reynslu í starfinu, ættu að hafa tök á því að geta upplýst þetta og komizt hjá því að þurfa að fara um þetta almennum orðum, heldur ætti þetta allt að vera að finna í aths. við landsreikninginn.

Varðandi þetta mál og hvað hægt sé að gera til þess að veita aðhald um útþenslu í ríkisrekstrinum, þá vil ég fara fáeinum orðum um þær aths., sem hv. 2. þm. Eyf. gerði. Hann sagði, að sér fyndist, að það væri á ýmsan hátt jafnvel dregið úr aðhaldinu með þessu frv., vegna þess að ríkisstj. hefði heimild til þess að fela fjmrh. að samþ. það, hvort fjölga skyldi starfsfólki.

Ég hef upplýst það í grg. frv. og skal upplýsa það enn, að þetta ákvæði hefur ekki komið að liði, vegna þess að þótt af og til hafi verið talað um það í ríkisstjórnum, að þetta skuli vera svona, þá hefur ævinlega sótt í það horf, að ráðuneytin hafa farið gersamlega sínu fram um þetta og ekkert samráð haft um þetta við fjmrh., fjölgað mönnum, eins og þeim hefur sýnzt, og látið stofnanir fjölga mönnum, eins og þeim hefur sýnzt, og svo þegar fjmrh, hefur uppgötvað þetta á eftir, þá eru ráðningarnar orðnar, skipanirnar hafa átt sér stað eða stöðuveitingarnar og ekki um annað að gera, en að greiða kostnaðinn, því að það er hvergi neitt ákvæði um, að ráðningar skuli ekki gilda, nema fjmrh. samþykki. Þess vegna hefur þetta ekki komið að notum, og það nýja ákvæði í þessu, sem er nú einmitt miðað við þessa reynslu, er um það, að ráðning sé ekki gild, nema málið hafi farið til þessara trúnaðarmanna til álita, sem hér er stungið upp á að komi skv. frv., og það er þetta, sem er langsamlega aðalatriði málsins.

Hv. 2. þm. Eyf. benti á, að það mundi geta verið ástæða til þess að auka vald nefndarinnar eða trúnaðarmannanna, þannig að þeir gætu beinlínis neitað um, að fjölgað yrði fólki og lagt í kostnað, en ekki aðeins gert rökstuddar tillögur um þetta til ráðherra. Þetta er náttúrlega álitamál og má vel skoða, en okkur fannst ekki, að það mundi vera heppilegt eða leggjandi í að taka valdið af ráðherrunum í þessu efni, heldur mundi vera heppilegra að veita þeim þetta aðhald, sem er fólgið í því, að trúnaðarmennirnir skoði hvert mál og að þeim sé skylt, ráðherrunum, að gera fjárveitingavaldinu sérstaka grein fyrir því, ef þeir víkja frá áliti trúnaðarmannanna. En vitaskuld er þetta til athugunar og er álitamál, hversu mikið vald skuli gefa trúnaðarmönnunum í þessu tilliti. En ég hika ekkert við að fullyrða af þeirri reynslu, sem ég hef um þessi mál, að það eru ákaflega sterkar líkur til þess, að þetta mundi veita miklu meira aðhald, en nokkuð annað, sem reynt hefur verið fram að þessu. Hvort það væri hugsanlegt að finna eitthvað enn sterkara, það þori ég ekki að fullyrða um. En það nýja liggur ekki sízt í þessu, sem ég hef þegar tekið fram, að starfsmannafjölgun verður ógild, nema hún sé borin undir trúnaðarmennina, og að ráðh. skuli gera fjárveitingavaldinu grein fyrir því, ef hann fer ekki eftir tillögum þeirra. Ég fullyrði það líka eftir minni reynslu, að það mundi á undanförnum árum hafa gert gagn, ef þessi skipan hefði verið í gildi.

Hv. 2. þm. Eyf. fann að skipan nefndarinnar og vildi, að því er mér skildist, að Alþingi hefði jafnvel meiri hluta í n. Mér finnst það ekki eðlilegt. Mér finnst eðlilegra, að framkvæmdavaldið hafi þarna meiri hl. í n., en fjárveitingavaldið hafi á hinn bóginn þarna fulltrúa til þess að fylgjast með. Og það er vegna þess, að framkvæmdavaldið ber þó ábyrgð á „administrasjóninni“, ef maður mætti nota svo ljótt orð, eða ber ábyrgð á því, að ríkisstarfrækslan eigi sér stað, og ber ábyrgð á því, hvernig hún er framkvæmd. Núna er þetta vald í höndum ráðherra, að skipa þessum málum, einstökum kostnaðarliðum í stofnunum og starfsmannafjölda, þar sem hann ekki er ákveðinn með lögum. Mér finnst ekki eðlilegt, að þetta verði tekið alveg úr höndum ráðherra og lagt undir sérstaka fulltrúa Alþingis. Mér finnst það ekki í samræmi við okkar stjórnskipan. Og mér finnst því heppilegra að hafa trúnaðarmenn frá báðum aðilum og þá tvo frá framkvæmdavaldinu, en einn frá löggjafarsamkomunni, valinn af fjvn.

Ég vil einnig benda á, að þær till., sem fram hafa komið um þessi efni áður, hafa einvörðungu verið á þá lund, ef ég man rétt, að sérstakur embættismaður skuli hafa þetta vald, ekki kosinn af þingi, ef ég man rétt, heldur skipaður af ríkisstj. eða ráðh., og sýnir það, að hugsunin hefur verið sú, að þarna yrði framkvæmdavaldið að taka ákvarðanir, en ekki löggjafarvaldið, um þessi einstöku atriði. — Ég held, að það hafi ekki verið fleira, sem gefur ástæðu til aths. af minni hendi, áður en málið fer til nefndarinnar.