26.02.1959
Neðri deild: 82. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1188 í B-deild Alþingistíðinda. (1034)

117. mál, firmu og prókúruumboð

Flm. (Gunnlaugur Þórðarson):

Herra forseti. Á þskj. 278 flyt ég frv. til l. um breyt. á l. nr. 42 13. nóv. 1903, um verzlunarskrár, firmu og prókúruumboð.

Forseti tók áðan fyrir samtímis þau tvö mál, sem eru á dagskrá varðandi leyfi d. til að fá þau tekin til meðferðar, og vil ég einnig, með leyfi hæstv. forseta, fjalla hér um frv. til l. um breyt. á l. nr. 21 15. júní 1926, um veitingasölu, gistihúshald o. fl., á þskj. 279.

Fyrirhugaðar breyt. á nefndum l. eru einungis í því fólgnar, að við núgildandi lög um verzlunarskrár, firmu og prókúruumboð er í 8. gr. bætt við svo hljóðandi setningu: „enda beri fyrirtækið íslenzkt nafn“, og í breyt. á l. nr. 21 15. júní 1926, um veitingasölu og gistihúshald, er gert ráð fyrir, að við 5. lið 3. gr. bætist: „enda beri veitingastaðurinn eða gistihúsið íslenzkt nafn“.

Í grg. er vikið að ástæðum fyrir flutningi þessara frv., og þarf ég litlu við að bæta. Það skal þegar tekið fram í upphafi, að þótt ég hafi í grg. vikið aðeins að einu veitingahúsi og að einu fyrirhuguðu gistihúsi hér í bæ, þá er það aðeins gert af því, að þessi dæmi eru einna nærtækust, þar sem hér er um ný nöfn að ræða. En þetta er hins vegar engan veginn gert fyrirtækjum þessum til hnjóðs né til þess að beina skeytum að þeim sem slíkum, enda er af nógu að taka í þessu efni.

Eins og vikið er að í grg., hefur Alþingi verið mjög strangt varðandi nöfn þeirra erlendra manna, er fengið hafa íslenzkan ríkisborgararétt. Sama er að segja, þegar jarðeigendur hafa viljað breyta um nafn á jörðum sínum eða þegar stofna skal nýbýli. Engar slíkar nafnbreytingar eða nafngiftir eru leyfðar, án þess að sérstök nefnd, örnefnanefnd, hafi fjallað um þær áður. Hins vegar hefur Alþingi látið sig einu gilda, þótt hvers konar fyrirtæki beri hvaða nafnskrípi sem er.

En þó er mála sannast, að nafn einstaks manns eða bóndabýlis varðar almenning miklu minna, en nafn fyrirtækis, sem e.t.v. auglýsir nafn sitt með gríðar stóru ljósaskilti og lætur það klingja í eyrum hlustenda í auglýsingaþætti ríkisútvarpsins dag eftir dag. Að mínum dómi er nafngift fyrirtækis menningaratriði, sem ekki má virða að vettugi. Og kominn er tími til þess, að Alþingi stemmi stigu fyrir því menningarleysi, er átt hefur sér stað í þessu efni.

Sumar þessar nafngiftir gefa til kynna furðulegt sambland af vanmetakennd og oflátungshætti. Íslenzkan virðist að dómi þessara manna ekki nógu fínt mál til þess að geta séð fyrir nöfnum á fyrirtækjum þeirra. Erlendar stórborgir eða merkisstaðir verða þá fyrir valinu í þessu efni, og er mér einna minnisstæðast nafn á veitingastað, ómerkilegum veitingastað, sem rekinn var fyrir nokkrum árum og hét Café Broadway.

Skylt er að geta þess, að íslenzkir veitingamenn eða kaupsýslumenn eru ekki allir undir sömu sök seldir, og eru þeir allmargir, sem skírt hafa atvinnutæki sín þjóðlegum nöfnum. Má í því sambandi nefna Hótel Borg, en eigandi þess veitinga- og gistihúss hafði áratugum saman dvalizt með erlendum þjóðum og kunni þess vegna e.t.v. betur en ella að meta þjóðleg verðmæti, enda varð bær Egils Skallagrímssonar fyrir valinu, þegar hann gaf fyrirtæki sínu nafn. Ennfremur má nefna nöfn eins og veitingahúsið Röðull, Vík, Hressingarskálinn, verzlanirnar Gullfoss, Feldur, Markaðurinn, verksmiðjurnar Vífilfell, Frón, Esja o.s.frv.

Tel ég óþarft að fjölyrða frekar um þessi tvö frv., sem hér eru á dagskrá. Vil ég víkja að einu framkvæmdaratriði. Nú kann að vera álitamál, hvort tiltekið nafn getur talizt íslenzkt, og að sitt sýnist hverjum. Tel ég bæjarfógetum, sýslumönnum og lögreglustjórum treystandi til þess að skera úr í þessu efni og legg því ekki til, að komið verði á fót sérstakri stofnun til þess að skera úr um það, en einnig mætti þó hugsa sér að færa út valdsvið örnefnanefndar að þessu leyti.

Þá vil ég ítreka tilmæli um, að hlutaðeigandi stjórnarvöld hlutist til um, að gerð verði heildarskrá yfir firmanöfn, sem lögskráð hafa verið, og að tilmælum verði síðan beint til hlutaðeigandi um, að erlendum nöfnum verði breytt í samræmi við tilgang þessa frv.

Að endingu legg ég til, að máli þessu verði vísað til hv. allshn., þessum tveim frumvörpum.