11.12.1958
Efri deild: 36. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1222 í B-deild Alþingistíðinda. (1131)

65. mál, virkjun Sogsins

Frsm. ( Gunnar Thoroddsen):

Herra forsetl. Virkjun Efra-Sogs er nú allvel á veg komin og framkvæmdir hafa gengið nokkru hraðar, en áætlað hafði verið. Það hafði verið gert ráð fyrir því og ákveðið í verksamningi um byggingarvinnuna, að stöðin ætti að geta tekið til starfa 1. nóv. 1959. Hins vegar þurfti ekki öllu verkinu að vera lokið þá og m.a. átti ekki að fullgera stíflu, fyrr en á árinu 1960. Nú hefur verkinu miðað betur áfram, en gert var ráð fyrir og áætlað í upphafi, svo að nú eru horfur á því, að því verði heldur fyrr lokið og m.a. að stífluna verði unnt að fullgera á næsta ári.

Kostnaðaráætlun, sem nýlega hefur verið endurskoðuð, fyrir virkjun Efra-Sogs er núna 192 millj. kr. Þar af er erlendur kostnaður 70 millj. rúmar, innlendur kostnaður rúmlega 91 millj, og tollar og önnur opinber gjöld 30 millj. Fjár hefur verið aflað fyrir erlenda kostnaðinum öllum og enn fremur fyrir innlenda kostnaðinum, öðrum en 30 millj., er ég gat um síðast.

Stjórn Sogsvirkjunarinnar hefur staðið í sambandi við seðlabankann og við ríkisstj. um fjáröflun þessa, og það frv., sem hér er flutt er árangur af þeim viðræðum. Það er gert ráð fyrir að bjóða út skuldabréfalán að upphæð 30 millj. kr., og eftir uppástungu seðlabankans er farin sú leið að gera ráð fyrir verðtryggingu skuldabréfanna, og segir um það í 1. gr. þessa frv., að ákveða megi, að skilmálar bréfanna séu þannig, að upphæð endurgreiðslu og vaxta breytist í hlutfalli við breytingu rafmagnsverðs til neytenda í Reykjavík frá útgáfudegi verðbréfanna til gjalddaga.

Hér er sem sagt farið út á braut, sem áður hefur verið farin með útgáfu vísitölutryggðra bréfa, en í stað þess að miða við þá almennu vísitölu hér, er gert ráð fyrir að miða við rafmagnsvísitölu eða rafmagnsverðsvísitölu.

Seðlabankinn hefur heitið aðstoð og fyrirgreiðslu um sölu þessara bréfa. En það er hvort tveggja, að til þess að gefa út slík bréf þarf lagaheimild og auk þess ríkisábyrgð. Það, sem þetta frv. fer fram á, er því að heimila stjórn Sogsvirkjunarinnar að taka þetta skuldabréfalán og að ríkissjóður og bæjarsjóður Reykjavíkur ábyrgist sameiginlega þessa skuldabréfaútgáfu, eins og þessir tveir aðilar, er eiga Sogsvirkjunina saman, bera sameiginlega ábyrgð á öllum hennar skuldbindingum.

Það var einróma samþykkt í fjhn. þessarar d. að beiðni fjmrn. að flytja þetta frv., og vænti ég þess, að það fái góðar undirtektir í þessari hv. deild.