24.04.1959
Neðri deild: 115. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1346 í B-deild Alþingistíðinda. (1185)

144. mál, stjórnarskipunarlög

Ágúst Þorvaldsson:

Herra forseti. Það er ekki sízt vegna þess, að ég er einn af þeim fáu bændum, sem eiga nú sæti hér á hv. Alþingi, að ég leyfi mér að taka til máls um það frv., er hér liggur fyrir.

Þó að bændur séu ekki margir hér á Alþingi nú, mun þó af ýmsum talið, að þeir séu hér fullmargir. Frv. þetta mun því m.a. vera fram komið vegna þess, að því er ætlað að fækka bændum enn á Alþingi, enda mun raunin verða sú, þegar fram í sækir og frv. þetta er orðið að lögum og farið að hafa sínar verkanir í þjóðfélaginu, þær sem ætlazt er til af höfundum þess að það hafi, að bændur munu ekki verða margir á Alþingi. Bændastéttin er þó þrátt fyrir mikla fækkun fólksins í sveitum ein stærsta starfsstétt í þjóðfélaginu, og hún afkastar mjög miklu verki, miðað við aðstæður allar. Bændurnir og fjölskyldur þeirra eru um 1/5 hluti þjóðarinnar.

Ég ætla ekki að metast um það við nokkurn mann, hvorir séu meiri og betri þegnar, þeir sem í borgum búa eða hinir, sem í dreifbýlinu hafa aðsetur og atvinnu. En það held ég að sé óumdeilanlegt, að landið okkar sé til fyrir okkur, sem þar búum. Þjóðin á að njóta landsins og gæða þess, en til þess þarf þjóðin að dreifa sér um landið og halda því í byggð. Landið sjálft er grundvöllur að tilveru þjóðarinnar, og þjóðskipulag okkar er að verulegu leyti grundvallað á landsháttum, þ.e.a.s. náttúrufari landsins og bjargræðisvegum þess, og á menningararfi kynslóðanna, trú og siðum, tungu og sögu, og má suma þá þætti rekja aftur í gráa forneskju.

Þingræðið í landi okkar er einn af þessum þáttum. Í fornum ævintýrum eru frásagnir um hnoða, er valt á undan mönnum, er urðu þeirrar gæfu aðnjótandi að höndla hann, og hnoðinn vísaði veginn til gæfu og gengis. Þrátt fyrir margs konar þrengingar og þrautir, sem mætt hafa íslenzku þjóðinni, hefur hún samt átt einn slíkan gæfuhnoða, þar sem hún hefur átt Alþingi.

Íslendingar fundu upp þingstjórnarskipulag, og þó að þjóðin missti frelsi sitt, þá var þó Alþingi lengst af sú líftaug, sem þjóðin hélt sér í. Endurreisn Alþingis að frumkvæði Jóns Sigurðssonar og fleiri góðra manna var upphafið að því frelsi og þeirri velmegun, er þjóðin býr nú við.

Í þingstjórnarlandi eins og okkar landi er vissulega ekki lítils um vert að vernda valdahlutföll landsbyggðarinnar á Alþingi. Landið er grundvöllur að tilveru okkar sem einstaklinga og sem þjóðfélags. Þetta fundu forfeður okkar, þegar þeir voru að stofna goðorðin og þinghárnar sem undirstöðu að Alþingi.

Tímarnir breytast og mennirnir með, en landið og lífsskilyrðin haldast í horfi að óbreyttum náttúrugæðum. Íslenzkur maður er venjulega svo gerður, að hann þarf fleira en hús og heimili og feng sér og sínum til framfærslu. Íslendingurinn á sál, sem honum er annt um að fái að njóta einstaklingseðlis síns innan þeirra frelsistakmarkana, sem minnstar geta verið. Í landi okkar er enn, sem betur fer, lítið um hópsálir. Hér má enn kenna í flestum mönnum andleg einkenni hinna kynbornu hölda og víkinga, sem þjóðin rekur ættir sínar til og stofnuðu þjóðfélag og þing hér fyrir meira en þúsund árum.

Skoðanafrelsi og kosningarréttur er hinn dýrmætasti arfur og eign, sem þjóð vor á. Það er þess vegna eðlilegt, að nokkuð sé um það hugsað öðru hverju, hvernig eigi að deila þessari eign meðal þegna þjóðfélagsins og varðveita þennan arf.

Ýmsir telja, að útkoman af atkvgr. einstaklinganna eigi að koma sem jafnast til góða fyrir þá og þjóðarheildina, og þetta er að vissu leyti rétt, þannig að atkvæðin vegi sem jafnast, ef svo mætti til orða taka, þar sem þau eru greidd. Það má vitanlega færa ýmis rök fyrir þessu. En hinu má þá heldur ekki gleyma, að aðstaða þjóðfélagsþegnanna að öðru leyti til áhrifa á gang mála er ærið misjöfn eftir því, hvar í landinu menn eru búsettir. Það er þess vegna ekki alveg víst, að það sé fullkomnasta lýðræðið, þótt öll atkvæðin séu jafnþung á metunum. Það getur verið miklu meira virði fyrir kjósandann til áhrifa á þjóðmál og sín eigin hagsmunamál að vera búsettur nálægt, þar sem löggjafar- og framkvæmdavald hafa aðsetur og þar sem flestar þýðingarmestu stofnanir þjóðfélagsins eru staðsettar, svo sem bankar, menntastofnanir, höfuðstöðvar stéttarsamtaka o.fl.

Þegar litið er yfir Ísland, sést fljótt, að byggðir landsins eru sundurskornar af ýmsum torfærum, svo sem vatnsföllum, eyðisöndum eða fjallgörðum, auk þess sem flóar og firðir skera byggðarlög víða sundur og afmarka þau. Þetta olli því og veldur því sums staðar að víssu- leyti enn, að fólkið, sem skipar hvert byggðarlag eða hérað, er sérstætt að því er varðar viðhorf til þjóðfélagsins og kröfur þess til hins opinbera algerlega sérstæðar fyrir hvert slíkt hérað. Héruðin hafa orðið til sem slík vegna landfræðilegrar afmörkunar, og þess vegna hafa þau sín sérkenni og fólkið þar af leiðandi ýmsar þarfir, sem eru sérkennandi fyrir hvert hérað út af fyrir sig.

Á þjóðveldisöld Íslendinga voru þinghárnar myndaðar með tilliti til legu og náttúrlegra eða eins og nú mun komizt að orði: landfræðilegra takmarkana. Kynslóð eftir kynslóð ólst upp og lifði við það skipulag. Goðarnir voru hinir veraldlegu valdsmenn héraðanna, og vorþingunum, sem þá voru haldin, má líkja við sýslufundina nú á okkar dögum, því að þar voru ýmisleg vandamál, sem uppi voru á hverjum tíma í hverri þinghá, rædd og til lykta leidd. Síðan var þeim málum, sem tókst ekki að ráða þar til lykta, vísað til Alþingis og fylgt þar eftir af goðum úr þinghánni og þingreiðarmönnum þeirra.

Í nál. meiri hl. stjskrn. er komizt svo að orði, með leyfi hæstv. forseta:

„Með þeirri skipan, sem lögð er til í frv., er tekinn upp þráðurinn, sem slitnaði, er þjóðveldi Íslendinga leið undir lok. Kjördæmin nú svara að ýmsu til hinna fornu þinga og fjórðunga á okkar fyrri frelsisdögum. Þá þurfti enginn að una því að vera í þingi með goða vegna þess eins, að þeir væru í sömu þinghá, heldur gat hann kosið hvern sem var í hinum sama fjórðungi. Þessi háttur reyndist þá hin bezta trygging fyrir frjálsræði búandmanna, á sama veg og stækkun kjördæmanna nú og fleiri þingmenn í hverju þeirra verða aukin trygging fyrir frelsi kjósendanna.“

Þarna er það talið hafa verið gæfa þjóðarinnar, að menn gátu verið þar í þingi, er þeim sýndist, og sagt sig úr goðorði og í annað eftir vild. En það eru nú sumir, sem telja, að frumorsökin til þess, að þjóðveldið leið undir lok, hafi verið sú, að menn gátu gengið úr einu goðorði og í annað og að goðorð gátu gengið kaupum og sölum, svo að ríkir og valdagráðugir menn gátu þannig náð tökum á miklu goðavaldi, er náði yfir stór svæði landsins, líkt og nú er ráiðgert að kjördæmin verði í því frv., er hér liggur fyrir. Þetta leiddi þá til mikilla óheilla í stjórnarfari landsins, og því er miður, að mikil ástæða er til að óttast slíkt hið sama af þeirri breytingu á kjördæmaskipaninni, sem nú á að gera.

Stórdeilur þær, sem hér urðu á Sturlungaöld um valdið yfir héruðum landsins, leiddu til þess, sem öllum er kunnugt, að þjóðin missti frelsi sitt. Hin pólitíska refskák, sem höfðingjar og ríkismenn þeirra tíma tefldu um yfirráðin yfir byggðarlögum landsins, endaði með falli hins fræga þjóðskipulags, sem var þá ekki annars staðar til en hér á Íslandi.

Hið erlenda konungsvald, sem seildist hér til yfirráða, varð að byggja upp framkvæmdavald í landinu, en á það hafði mjög skort á tímum þjóðveldisins. Þá urðu til sýslurnar með sérstökum valdsmanni hver þeirra. Ég hef séð og heyrt því haldið fram, að þetta skipulag hafi verið að danskri fyrirmynd. Það rétta hygg ég vera, að fyrirkomulag þetta hafi verið haft um öll Norðurlönd og yfirleitt í Evrópu norðanverðri, svo að þetta var ekkert sérstakt danskt fyrirbrigði, eins og ýmsir hafa viljað læða inn í hugi manna, enda að mestu komið á hér, áður en Íslendingar gengu undir Danakonung. Þetta fyrirkomulag er víðast enn í gildi, enda hefur það reynzt vel og ekki sízt hér hjá okkur Íslendingum. Og hvaða skipulag yfirleitt er það í okkar þjóðfélagsháttum nú, sem er ekki að einhverju leyti runnið af útlendri rót? Við höfum yfirleitt sótt fyrirmyndir um flestar breytingar á okkar þjóðfélagshögum til annarra þjóða. Þess vegna þarf ekki að taka þetta eitt út úr til dæmis um það, að það hafi verið sótt til annarra þjóða.

Þarna var því bæði um sögulega og landfræðilega ákvörðun að ræða, þegar goðorðin fyrst og sýslurnar síðan voru stofnaðar. Sýslurnar áttu svo sína lögréttumenn, er voru þeirra fulltrúar á Alþingi.

Eftir að Alþingi var endurreist, varð niðurstaðan sú, að sýslurnar, sem upphaflega voru sjálfstæðar þinghár í hinu forna og fræga þjóðveldi, urðu nú kjördæmi til hins endurreista Alþingis, og hefur svo staðið með litlum breytingum hingað til, og flestir stjórnmálaforingjar þjóðarinnar hafa í hvert sinn, sem breyting hefur verið gerð, keppzt við að heita því, að héruðin eða hin fornu kjördæmi yrðu látin halda sér.

En nú kveður við nýjan tón. Nú skal rífa niður það, sem búið er að standa um langan aldur og elzta löggjafarþing í heimi er grundvallað á. Mikið telja þeir menn sig vitrari forfeðrum sínum, sem nú telja hina fornu skipan óhafandi. Hin forna þingaskipan var grundvölluð á því, sem forfeður okkar töldu hæfa þjóðinni bezt og verða henni helzt til farsældar, en sú nýja skipan, sem nú á að taka upp, er byggð á því, sem nokkrir forustumenn pólitískra flokka telja flokkum sinum helzt muni verða til framdráttar nú í bili.

Hin elzta og virðulegasta stofnun þjóðarinnar, Alþingi, hefur hingað til verið að meginstofni byggð upp á þeim grundvelli, sem hin einstöku byggðarlög, sýslu- og bæjarfélög, eru í sjálfu þjóðfélaginu. Þar er um atvinnulegar og fjárhagslegar heildir að ræða, sem þjóðfélagið myndast af, og það er stofnað af nauðsyn þessara sérstæðu heilda til samstarfs um heill þess lands, þar sem þær eru. Alþingi á að vera vörður og verndari einstakra landshluta, um leið og það er samnefnari, sverð og skjöldur þjóðarinnar og landsins alls, inn á við og út á við.

Þess vegna er það að mínu áliti höfuðvilla að slíta af hinum fornu héruðum fulltrúaval til Alþingis og slengja saman byggðarlögum, sem ekki eiga saman í atvinnulegu og hagsmunalegu tilliti, og þótt vissir pólitískir flokkar telji sér hag að því að fara með slíku rupli og ráni um þann sögulega arf, sem íbúar hinna fornu héraða hafa, að taka af þeim hina sérstöku fulltrúa, sem þeir hafa hingað til valið sér, og láta þá í staðinn hafa rétt til að velja fulltrúa í félagi við fólk annarra og ólíkra héraða, þá muni svo fara, að þjóðin sjálf í heild hafi ekki nema illt af slíku.

Því er haldið fram sem rökum fyrir nauðsyn breytingarinnar, að fámenni kjördæmanna hafi í sér fólgnar lýðræðislegar hættur, þannig að hægt sé að hafa áhrif á fólkið með gylliboðum og jafnvel hreinum mútum. Ég fyrir mitt leyti tel enga hættu á slíku, því að svo lengi sem kosning er leynileg, á kjörklefinn að vernda kjósandann og þar getur kjósandinn í friði framkvæmt skoðun sína, og ekki trúi ég öðru, en að hver maður virði og meti meira að fara eftir sjálfs sín mati, á málefni, heldur en fagurgala og mútutilraunum frá einhverjum agentum. Og inni í kjörklefanum væri þá heldur engin synd að svíkja slíkar mútur.

Þegar hin nýja skipan er komin á, er og verður ómögulegt fyrir kjósandann að koma við persónulegu mati sínu á frambjóðendum, nema þá með þeim leiðinlega hætti að beita útstrikunum eða tilfærslum á nöfnum frambjóðenda. Slíkar tilraunir til breytingar koma sjaldan að neinu gagni fyrir kjósanda, en geta orðið til mikils óhagræðis og leiðinda fyrir þá, er slíku eru beittir.

Að mínu áliti er mjög skaðlegt að stækka kjördæmin, til þess að kjósendum fjölgi við það, því að það er þá alveg nýtt, ef það verður betra og viturlegra, sem stór hópur manna afræður, heldur en þau úrræði, sem færri menn með nánari kynni og líkari hagsmuni kunna að afráða.

Íslenzka þjóðin hefur á liðnum 50 árum mjög sótt fram til alhliða framfara og náð á þeim tíma fullu frelsi sínu. Áreiðanlega er þetta glæsilegasti tíminn í lífi hennar. Alþingi hefur, svo sem eðlilegt var og skylt, haft forustu í málefnum þjóðarinnar. Hin gömlu héruð, þinghár forfeðra okkar, hafa sent hingað fulltrúa sína til að taka þátt í þessu starfi, og ný bæjarfélög, sem myndazt hafa á þessum tíma, hafa bætzt í hóp þeirra gömlu byggðarlaga, sem hér áttu og eiga sína fulltrúa. Í héruðunum hefur oft verið barizt hart til fylgis, svo sem eðlilegt er í landi skoðana- og málfrelsis, og þar hafa ýmsir átt högg í annars garði á leikvelli þjóðmálabaráttunnar. En þegar á allt er litið, þá hygg ég, að þeir, sem lifað hafa þetta tímabil og tekið hafa einhvern þátt í stjórnmálabaráttunni, hefðu ekki viljað missa af þeim þætti í lífi sínu og þjóðarinnar, eins og hann hefur verið. Ýmsir af okkar mestu og beztu stjórnmálamönnum hafa einmitt verið uppgötvaðir af fólkinu í fámennu kjördæmi, þar sem heilbrigt mat og skynsemi fékk notið sín.

Ég er sannfærður um, að þetta hefur verið okkar stjórnmálalífi hollt og hefur orðið þjóðinni allri til heilla. Ég held, að þegar búið er að slengja mörgum gömlu kjördæmunum saman, þá verði reisn hinna einstöku héraða eða byggðarlaga mjög skert. Höfundar þeirra breytinga, sem frv. ráðgerir, eru sýnilega ekki að hugsa um tilveru og rétt einstakra héraða. Þeirra stefna er að hræra öllu sem mest saman, hvort sem það getur átt saman eða ekki, og gera úr þessu eina flatneskju, þar sem metnaður fólksins í hinum einstöku fornu héruðum má sín einskis um að hafa áhrif á þjóðmálin og hlynna sérstaklega að sérþörfum þess héraðs, heldur skal það vera eins og máður reitur á skákborði, nafnlaust, týnt og grafið sem áhrifavaldur á þingi þjóðarinnar.

Sú þjóð, sem byggði upp elzta löggjafarþing í heimi á grundvelli þess, að hin afmörkuðu héruð ættu þar sína fulltrúa, á nú að taka upp nýjan sið, þar sem aðeins þeir, sem búa í þéttbýlustu stöðunum, koma til með að geta haft öll völdin. Hin dreifða byggð og jaðrar hinna nýju kjördæma hljóta að missa raunverulega alla möguleika til áhrifa í þeirri gerningahríð, sem hlutfallskosningar gera ævinlega vegna eðlis síns að kjósendunum.

Réttur hinna fornu héraða og kosningarréttur fólksins er arfur, sem kynslóðirnar hafa skilað af sér til okkar, sem nú lifum. Með frv. er þessum arfi rænt frá héruðunum. Það má líkja héruðunum við undirstöðusteina eða súlur í byggingu. Á þeim hefur Alþingi hvílt. Nú koma þessir flokkar, sem standa að kjördæmabreytingunni, og rífa súlurnar undan byggingunni, en við þessa breytingu skekkist byggingin svo og gliðnar að minni hyggju, að hún verður brátt ónothæf og dettur að síðustu sundur í marga parta.

Hlutfallskosningar munu leiða til enn þá meiri sundrungar og klofnings í íslenzkri flokkapólitík, en hingað til hefur þekkzt, og hefur þó mörgum þótt nóg um slíkt. Þá getur farið svo, að ýmsir þeir, sem nú hrósa sér af því að koma þeirri breytingu á, sem hér um ræðir, verði ekki sérlega ánægðir yfir þessu verki. Allur landslýðurinn mun uppskera af þessari breytingu svo sem til er sáð af þeim, er hér eiga hlut að máli, en þó mun engin stétt manna verða eins hart leikin af því og bændastéttin, enda mun leikurinn fyrst og fremst til hennar gerður, og má það þess vegna furðulegt heita, að ýmsir hv. alþm., sem kosnir hafa verið á þing með atkvæðum bænda, skuli ætla að ljá þessu máli fylgi sitt. Mér finnst, að þeir vinni sér með því alleinkennilega stöðu í stjórnmálasögu þjóðarinnar. Í þúsund ár var þessi þjóð eingöngu bændaþjóð. Þrátt fyrir náttúruhamfarir, hungur og drepsóttir og útlenda áþján seiglaðist þetta fátæka bændafólk í sínum lágu hreysum kynslóð eftir kynslóð. Og það gerði meira. Það bjargaði ekki aðeins sögu þjóðar sinnar, heldur einnig hinni fegurstu og göfugustu tungu og skáldamáli í heiminum og sögu norrænna þjóða. Þetta afrek vann fátæka bændaþjóðin íslenzka. Og á þessu afreki er 1 dag og alla daga ókomna byggð tilvera okkar Íslendinga sem þjóðar.

Nú á þéttbýlið öllu að ráða um skipun Alþingis, því þótt fólkið í dreifbýlinu haldi sinum kosningarrétti, þá eru kjördæmin þannig saman sett, að það verða þéttbýlustu staðirnir, sem úrslitum hljóta að ráða í öllum kosningum, og hvar verða þá áhrif bændanna?

Ég fyrir mitt leyti er ekki í neinum vafa um það, að með þeirri breytingu, sem frv. þetta ráðgerir á kjördæmaskipuninni, er stefnt að breyttu þjóðskipulagi, og ég er viss um, að margir, sem nú eru fylgjendur þess innan þings og utan, hafa ekki gert sér það ljóst.

Það er söguleg staðreynd hvarvetna í heiminum, að bændur þjóðanna eru manna tregastir til að breyta þjóðlífsháttum og að engar stéttir manna eru seinni til byltingarþátttöku. Þess vegna eru byltingarforingjar og einræðisseggir við enga stétt manna eins grimmir og bændurna, og þess vegna er oft byrjað á því að veikja á einhvern hátt viðnám bændanna. Dæmin í sögunni um slíkt eru mörg, og eitt slíkt dæmi er að gerast núna í Tíbet. Þar er kommúnisminn að brjóta undir ok sitt fátæka, en dyggðuga og trúfasta bændaþjóð.

Þeir, sem ráða fyrir þeirri breytingu á kjördæmaskipuninni, sem með þessu frv. á að lögleiða, hugsa sér sumir hverjir áreiðanlega, að þetta verði upphaf að nýju þjóðskipulagi, þar sem fólkið í landinu verði ekki spurt á líkan hátt og verið hefur um það, hvernig eigi að stjórna málum þjóðarinnar. Og þótt saman fari nú í bili áhugi þessara aðila fyrir breytingunni, þá er stefnt í tvær gagnstæðar áttir, þannig að annar aðilinn ætlar sér að láta hinn svokallaða sósíalisma með þessu ná skjótum tökum á þjóðfélaginu, og mega þá allir vita, hvað í vændum er. Hinn aðilinn ætlar sér að láta hinn harðasta kjarna auðugra borgara í höfuðstaðnum og nágrenni hans ná yfirráðunum í landinu.

Þessar tvær stefnur eru með samkomulagi sínu nú í kjördæmamálinu um þá breytingu, sem áformuð er, að hasla sér völl til hjaðningavíga um yfirráðin. Stór og mannmörg kjördæmi með hlutfallskosningum eru tilvalinn hólmgönguvöllur þessara aðila.

Við framsóknarmenn teljum, að til þess að þjóðinni verði forðað frá þeim örlögum, sé um að gera að halda rétti hinna fornu héraða til þess að velja og senda á löggjafarþingið fulltrúa. Og þegar misræmis fer að gæta vegna búsetu fólks í landinu, þá fjölgi fulltrúum frá þeim stöðum, þar sem fólk hefur tekið sér í stórum stíl bólfestu og íbúatala hefur aukizt mikið.

Þetta hefur verið þróun málanna hér á landi, síðan Alþingi var endurreist, og þannig mun þróun þingræðis og lýðræðis verða farsælust. Þannig heldur hvert byggðarlag bezt sinni ábyrgð gagnvart samfélaginu og hlut sínum gagnvart öðrum byggðum landsins, og þannig mun yfirgangsmönnum verða erfiðast að efla flokka til einræðis og yfirdrottnunar. Og þess vegna er það skylda íslenzku þjóðarinnar að koma í veg fyrir þá breytingu á kjördæmaskipuninni, sem frv. þetta ráðgerir. Kosningarnar í vor eru eina tækifæri Íslendinga til þess að lýsa skoðun sinni á því frumhlaupi gegn landsbyggðinni og fornri skipan, sem strandbúarnir við Faxaflóa í þremur stjórnmálaflokkum hafa komið sér saman um.

Það er enn tækifæri til þess að koma í veg fyrir tilræðið, og það munu íbúar hinna fornu goðorða gera í sumar.