24.04.1959
Neðri deild: 115. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1374 í B-deild Alþingistíðinda. (1189)

144. mál, stjórnarskipunarlög

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Ég gat um það í ræðu minni í dag, að flm. þessa máls sýndu því lítinn sóma hér á hv. Alþingi, að þegar aðalumræða þess fer fram, þá sjást þeir hér í mesta lagi eins og skuggar, ef þeir á annað borð sjást, og t.d. hefur hv. 1. flm. þess alls ekki mátt vera að því að vera hér á fundum.

Ég verð að byrja á því að lýsa ánægju minni yfir því, að hæstv. forsrh. skyldi nú heiðra þessa samkomu með því að láta þó sjá sig, áður en umræðunni er lokið. Hér hafa hv. þm. blásið sig stórlega út af því, að menn sæktu illa þingið, ríkisstj. væri ekki mætt og annað því um líkt, þegar smámál hafa verið á dagskrá. En þegar það mál er á dagskrá, sem er stærsta mál, sem fyrir Alþingi Íslendinga hefur komið, er ekki verið að tala um það, þó að þingbekkir séu tómir. Það er merkileg frammistaða flm. í sambandi við meðferð á þessu frv.

Hv. 1. þm. Reykv. (BBen), sem er vanur því að halda hér langar ræður og margar snjallar, heldur sem frsm. fyrir meiri hl. n. stutta ræðu og eina af þeim lélegustu, sem ég hef heyrt hann flytja þann tíma, sem ég hef átt sæti hér á Alþingi. Og hann hefur í dag í sambandi við umr. um þetta mál setið hér í hliðarherbergi og að því er ég bezt hef séð lesið sömu síðuna á einu dagblaði. Þetta sýnir, að þessi hv. þm. og þeir aðrir, sem fyrir þessu máli berjast, vita, hvað þeir eru að fara, og sök bítur seka. Það er þess vegna, sem þessir hv. þm., hæstv. ráðh. og aðrir aðstandendur þessa frv., láta í dag svo, að þeir hvorki heyri né sjái það, sem fram fer, að þeir vilja loka augum og eyrum fyrir því. En þessi þáttur þeirra gleymist ekki, og hann á ekki að falla í gleymsku. Þjóðin á að taka eftir því, þegar er verið að leggja niður það grundvallaratriði í stjórnskipunarlögum hennar, sem hefur fært henni sjálfstæði, fært henni velmegun og menningu, að þá hafa hv. þm. ekki tíma til þess að sitja á þingbekkjum eða taka þátt í umræðum. — Nei, hér ber allt að sama brunni. Þeir vita það, þessir hv. flm., hvað þeir eru að gera. Þeir eru að svipta héruðin í landinu rétti til þess að eiga sérstaka fulltrúa, þeir eru að draga úr áhrifamætti þeirra, og þess vegna þurfa þeir að láta lítið á því bera, svo að þeir, sem verið er að taka réttinn af, taki sem minnst eftir því.

Ég verð að segja það hv. 5. landsk. þm. (BG) til verðugs hróss, að hann sýndi þó þann manndóm að koma hér og flytja ræðu af hálfu stuðningsmanna þessa frv., og það er meira en aðrir stuðningsmenn þess hafa gert.

Út af því, sem þessi hv. þm. sagði: Af hverju skiptið þið ekki Reykjavík í einmenningskjördæmi? — vil ég segja í sambandi við Reykjavík, að það eru héruðin, sem eru í mínum augum númer eitt. Reykjavík er sjálfstætt hérað, hún er sjálfstæð félagsleg og fjárhagsleg heild. Ef ég fellst á að fara að skipta Reykjavík niður í einstök kjördæmi, þá er ég búinn að brjóta þá reglu, sem í mínum augum er aðalreglan, að héruðin, þessar sjálfstæðu félags-, fjárhags- og menningarlegu einingar, fái að hafa sína sérstöku fulltrúa. Og ég vil ekki svipta Reykjavík þessu valdi, frekar en önnur héruð. Ef Reykjavík hins vegar færi að byggja sig þannig upp, að ýmsir hlutar hennar yrðu meira og minna sjálfstæðir, þá eiga þeir líka að fá sína sérstöku fulltrúa. Ef Kópavogur væri sameinaður Reykjavík, en héldi þó sérstöðu að einhverju leyti, þá líti ég á hann sem sérstaka heild innan þessara takmarka. Það eru fjárhagslegar og félagslegar einingar, sem eiga að hafa þessa sérstöku fulltrúa, og þess vegna á ekki að skipta Reykjavík. Það getur verið mál út af fyrir sig að kjósa hennar mörgu fulltrúa beinum kosningum, en ekki hitt, að skipta henni niður eftir þeim reglum, sem ég hugsa einmenningskjördæmi eða héraðakjördæmi.

Hv. þm. fór að ræða hér um till. þeirra Austfirðinganna, sem ég ætla ekki að fara langt út í, enda er það sérstakt mál. En ég vil bara benda á, að það, sem Austfirðingar lögðu til, var allt annað en ætlað er að gera hér. Þeir ætluðu þessum sérstöku fylkjum aukið vald frá því, sem áður var. Þið eruð ekki að leggja til með þessu frv. hér að fara með neitt sérstakt vald út í héruðin. Þau eiga ekki að fá meiri rétt til þess að ráðstafa fjármálum þjóðarinnar en þau hafa fyrir. Þið eruð bara að krefjast þess, að Borgfirðingar, Mýramenn, Snæfellingar og Dalamenn kjósi þingmenn í félagi, hvort sem þeim líkar það betur eða verr. Þeir mega ekki kjósa sína sérstöku þingmenn, þeir verða heldur að kjósa þá eftir ykkar reglum saman, þó að þeir vilji það ekki. En þeir fá engan aukinn rétt eða neitt slíkt með þessu. Það er ekki verið að skapa neinar sjálfstæðar félagslegar heildir eða fjárhagslegar.

Hv. frsm. meiri hl., 1. þm. Reykv., sagði: Sýslurnar eiga að halda sér og hafa sitt vald áfram, það á ekki að breyta þeim. — þess vegna er meginmunur á því, sem Austfirðingar hugsuðu sér, að færa út til byggðarinnar nokkuð af því valdi, sem Reykjavík hefur nú, og skapa þar sérstakar heildir um þessar till. eða framkvæmd á þeim málum, sem þeir ætluðu að fara með, — það er meginmunurinn á því, sem þar var verið að leggja til, og því, sem nú á að fara að leggja til. Það, sem hér á að fara að leggja til, er ekki neitt aukið vald handa þessum héruðum, aðeins það, að þeir skuli verða að kjósa þingmenn í félagi, hvort sem þeim líkar það betur eða verr. Og það fær enginn mig til að trúa því, að þingmenn verði betri fulltrúar þessara héraða fyrir það, að þeir eru kosnir þannig. Ég held því fram, að hv. þm. Snæf. (SÁ) verði ekki meiri fulltrúi fyrir Snæfellinga, þó að hann verði kosinn af Mýramönnum, Borgfirðingum og Dalamönnum. Ég held, að honum hæfi það bezt að vera fulltrúi Snæfellinga, eins og hann hefur verið, og ég er sannfærður um, að jafnvel þó að hann gangi með þessu, þá er það ekki að hans skapi eða vilja, enda kom þetta líka fram hjá hv. 5. landsk, þm. (BG), þegar hann fór að tala um litlu þingmennina og litlu kjördæmin, þá sagði hann, að það væri líka sjónarmið, að einmitt vegna þess, hvað þingmennirnir væru bundnir sínum kjördæmum, væru þeir ekki eins góðir þingmenn frá sjónarmiði þjóðfélagsins, þeir létu hagsmuni kjördæmanna ganga fyrir.

Nú held ég því fram, að þó að þingmennirnir séu betri fulltrúar héraðanna, af því að þeir eru kosnir sérstaklega af þeim, þá held ég því líka fram, að þeir séu ekki verri þingmenn, þegar rædd eru stærri mál alþjóðar, og ég vil nefna dæmi máli mínu til sönnunar. Hér á síðasta Alþingi samþykktu þáverandi stjórnarflokkar nýja efnahagslöggjöf. Þessi löggjöf kom að vonum víða við. Hún kom ekkert síður við hjá okkur, fulltrúum úr sveitunum. Þar var farið inn á þá leið að leggja yfirfærslugjald á almennar neyzluvörur og framleiðsluvörur, sem höfðu verið undanþegnar áður. Hvað gerðist, er við afgreiddum þetta frv. hér frá hæstv. Alþingi? Voru það þingmennirnir úr litlu kjördæmunum, sem þá brugðust í stjórnarliðinu? Nei, það var hv. 4. þm. Reykv. (EggÞ), sem gekk gegn ríkisstj. þeirri, sem hann þó taldi sig styðja, af því að hann taldi sig þurfa að þjóna einhverjum öðrum hagsmunum. En við hinir, sem úr litlu kjördæmunum vorum, sem urðum þó að gangast undir það, að hækkað var verð á fóðurbæti og slíkum öðrum vörum til landbúnaðarins og andstæðingar okkar ætluðu vissulega að gera sér mat úr, — við hikuðum ekki við að fylgja málinu fram, af því að við vissum og sáum, að það var rétt frá sjónarmiði alþjóðar. Og ég segi: við gátum þetta vel, af því að við gátum skýrt það fyrir fólkinu, sem við vorum umboðsmenn fyrir, af hverju við gerðum þetta og af hverju það var nauðsynlegt. Að skilja er að fyrirgefa, og þingmaðurinn úr einmenningskjördæminu, sem á auðvelt með að hafa samband við sína kjósendur, getur skýrt sitt mál fyrir þeim, og hann fær þá líka skilning þeirra, og þess vegna er hann ekki síður góður þingmaður á alþjóðarvísu en hinir.

Hv 5. landsk. þm. fór inn á það, að með þeim till., sem við flytjum, framsóknarmenn, um að taka upp fleiri einmenningskjördæmi, yrðu þingmenn of margir. Þeir ætluðu samt ekki að hika við það að fjölga þingmönnum upp í 65. Það mun hafa verið Alþb., sem réð því, að þeir yrðu þó ekki nema 60. Þá var ekki hægt að hika við það, þó að þyrfti að fjölga þingmönnum, því að þá þurfti að koma fyrir hinu og þessu, sem hentaði þeirra hagsmunum. Þess vegna er þessi röksemdafærsla ekki þung á metunum. En ég er sannfærður um, að það er betra fyrir Kópavog og Keflavík og Akranes að fá sína sérstöku þingmenn heldur en það, sem hér er boðið upp á, eins og það hefur sýnt sig fyrir þá staði aðra, sem þingmenn hafa fengið. Ég efast ekkert um, að það var betra fyrir Siglufjörð að fá sérstakan þingmann, þegar hann fékk hann, heldur en fá þingmann í sambandi við Eyfirðinga. Og þannig má fleiri dæmi nefna í þessu sambandi.

Og ég gæti trúað því, að ef af því yrði, sem nú er stefnt að, að þingmenn yrðu kosnir í stóru kjördæmunum, að þá kæmu upp ýmis vandamál meðal þeirra þingmanna, sem þar verða kjörnir. Ég vil t.d. nefna hér lítið dæmi, að þegar um það er að ræða að skipta fjárveitingum í ýmsar framkvæmdir í héruðunum, þá er það af hendi fjvn. ákveðin tala til héraðsins eða kjördæmisins, og svo ræður þingmaðurinn því í samráði við embættismann þeirrar stofnunar, sem um er að ræða, t.d. vegafé, hafnargerðir og þess háttar, hvernig með er farið. Hvernig haldið þið að verði fyrir þingmennina í nýju kjördæmunum að skipta þess háttar fjárveitingu á milli héraða? Ég segi ykkur það satt, að ef þeir þingmenn, sem nú sitja fyrir Dali, Snæfellsnes, Mýrar og Borgarfjörð, ættu að gera það, þá yrði það ekki vandræðalaust. Eru þeir þó menn sízt verri ,en aðrir menn, en þeir mundu samt vilja gæta hagsmuna þessara héraða, og það kæmu upp margs konar erfiðleikar. Nei, sú regla, sem þá væri kannske farið að grípa til, væri höfðatölureglan áfram, svo að þeir litlu fengju enn þá minna, en nokkru sinni fyrr.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, hnígur allt að því að rýra vald héraðanna til þess að auka vald flokkanna. Allt, sem eftir kann að koma í kjölfar frv., mun fara inn á þessa sömu braut. Og meðferð málsins hér á hæstv. Alþingi sýnir, að þeir menn, sem að því standa, eru hræddir og hikandi, þegar þeir geta ekki einu sinni lagt það á sig að vera hér á þingbekkjum, þegar aðalumræða málsins fer fram. En það er gott fyrir þjóðina að vita, að flutningsmenn vilji helzt í skugganum vera, þegar um málið er fjallað.