27.04.1959
Neðri deild: 117. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1441 í B-deild Alþingistíðinda. (1206)

144. mál, stjórnarskipunarlög

Steingrímur Steinþórsson:

Herra forseti. Mér þykir hlýða, áður en þetta mál, frv. til breytinga á stjórnskipunarlögum íslenzka ríkisins, fer hér út úr þessari hv. d., að segja örfá orð um málið. Ég hef ekki tekið þátt í þessum umr. fyrr í þessari d., og hafa þó umr. orðið miklar um það, eins og eðlilegt er og hlýtur að verða um mál eins og þetta; jafnumdeilt og það er og verður alltaf.

Ég vil í þessum fáu orðum, sem ég segi hér, reyna að taka það greinilega fram, hvers vegna ég er þessu frv. mótfallinn og það mjög mótfallinn. Ég veit, að örlög þessa máls eru ráðin, og þó að flutt séu rök gegn frv. og þeirri einu meginbreyt., sem þar er gerð, þá raskar það ekki því þríflokkasamkomulagi, sem gert hefur verið um þetta mál á milli þriggja flokka í þinginu.

Ég veit, að þetta frv. verður til ófarnaðar hinu íslenzka ríki, og mun það þó aðeins vera einn hlekkur í langri keðju, sem að sumu leyti er búið að mynda keðju að áður og nú á að halda áfram með til breyt. á stjórnskipunarlögunum. Að því kem ég aðeins síðar. Og það, sem að er stefnt, það vita allir, er að afnema réttindi og vald hinna einstöku landshluta, hinna einstöku héraða úti um strjálbýlið. Þetta veit hver maður, með hve miklu offorsi sem hv. flutningsmenn og fylgjendur málsins mótmæla þessu. Það, sem stefnt er að með þessu, ekki þessu frv. einu, heldur mörgu öðru, er að leggja allt slíkt vald í skaut hinnar hraðvaxandi höfuðborgar og næsta umhverfis hennar, svo að höfuðborgin og það þéttbyggða hverfi, sem í kringum hana er, verði allsráðandi á Alþingi og annars staðar. — Ég skýt því hér inn til gamans, að ég tók eftir því í Mbl. í gær, sem ég held að maður verði að telja höfuðblað þessara hv. þriggja flokka, sem að þessu frv. standa, — ég býst við því, að það sé sjálfsagt, það var minnzt á þessar umr. í þinginu og talað um, að þær væru orðnar langar, lá við, að farið væri að ræða um, að málþóf væri haft o.s.frv., og svo kom þessi einkennilega setning: og svo koma þingmennirnir með skrifaðar ræður. — Þetta átti að vera eitthvað sérstakt illt: að koma með skrifaða ræðu á þing til að ræða um mál eins og stjórnskipunarlög ríkisins. Ég veit nú ekki, hvers konar gasprarar geta skrifað svona kjánalega, mér er það ekki ljóst, en það er að mínum dómi óskaplegt að sjá þetta í aðalstuðningsblaði hæstv. ríkisstj. Ég verð að segja það. Og það lítur út fyrir, að asklokið, sem þeir hafa fyrir himin, þessir menn, sem svona skrifa, geti ekki náð nema hér rétt yfir Reykjavík og næsta umhverfi hennar. En þeir mega vel vita það, þessir menn og fleiri að við erum margir enn sem teljum, að hér sé um hið mesta alvörumál að ræða og það sé hreinlega með till., eins og þær eru fram bornar og eins og vitað er að sýnilega á að halda áfram að breyta þeim, þá sé með þessum till. verið að vinna að því að eyðileggja mikið af okkar fornu menningu og viðhorfi á ýmsan hátt. Mér finnst því alveg rétt og eðlilegt, að þeir, sem talað hafa í þessu máli, hafi margir vandað sinn málflutning, enda verð ég að segja það, að margar þær ræður, sem ég hlustaði á hjá andmælendum frv., voru geysivel samdar og hafa áreiðanlega komið nokkuð við kaun ýmissa fylgjenda málsins, og frá því sjónarmiði má kannske skilja þessi spakmæli í Morgunblaðinu í gær.

Ég get nú vel búizt við því, að margir, a.m.k. sem eru komnir á svipaðan aldur og ég, hafi hlotið oft og tíðum og kannske enn frekar á efri árum, þegar menn vita, að stutt er eftir af þessu striti hér hjá okkur, — hafi spurt sjálfa sig og kannske aðra líka: Hvert er erindi okkar mannanna á þetta tilverustig, sem við erum á hér? Ég býst við, að mörgum verði stirt um að svara þessu, og ég hef verið einn meðal þeirra, sem hafa verið óvissir um, hvernig ætti að svara því, og ég ætla ekki að fara að vera með neinar himnabollaleggingar um það, hvað taka muni við, þegar við förum héðan. Ég held við höfum nóg að basla með okkur og okkar málefni hér. En ég veit þó, hvernig ég vil svara því. Það er íslenzk menning, íslenzkt þjóðerni, sem við eigum að rækja, meðan við erum hér á þessu landi. Okkur hefur verið fengið þetta land hér við norðurheimskautið til umráða, og við vorum svo heppnir, að þegar forfeður okkar námu landið, var það í raun og veru ekki tekið frá neinum, a.m.k. ekki frá neinum mönnum, sem höfðu reynt eða höfðu möguleika til að nytja það og gera það að sæmilegum bústað fyrir fólk. Og það er ein sú stærsta gæfa, sem ég tel okkur hafa hlotnazt, að hafa ekki eins og svo víða annars staðar orðið að brytja niður saklaust fólk til þess að ryðja okkur til rúms.

Hlutverk okkar er því áreiðanlega það fyrst og fremst að byggja og nema þetta land, bæta það, eins og mögulegt er, nota auðsuppsprettur þess allar og gefa þær fólkinu eða láta fólkinu þær í té á sem beztan og auðveldastan hátt. Og þetta má ekki vera bara með einhverja smáskika á landinu. Við verðum að geta byggt, numið, ræktað og gert önnur mannvirki á landinu öllu, þ.e.a.s. í öllum byggilegum héruðum landsins. En þetta mál er í raun og veru í stórri hættu, það vitum við ósköp vel. Það er sú mikla ásókn fólksins að fara á einstaka staði, og það er eins og aðdráttaraflið sé því meira, þar sem fólkið er flest. Þess vegna er það, að við Íslendingar höfum einhverja allra stærstu höfuðborg í heimi miðað við mannfjölda, og það skapar alltaf stórkostlega hættu og stórkostlega mikil vandamál. Það er ekki eingöngu hér á Íslandi, sem þessi þróun er, síður en svo. Við vitum, að þetta gengur yfir öll lönd meira og minna, en hættan og vandræðin geta orðið meiri sums staðar og kannske mest eins og er hjá okkur, þar sem einn staður hefur þrútnað allt of mikið, í hlutfalli við annað.

Ég veit, að þeirri skoðun skýtur upp, þó að það sé nú varazt að láta það í ljós hér á hinu háa Alþ. yfirleitt, en það eru margir, sem líta svo á með sjálfum sér, að í raun og veru ættu allir Íslendingar að vera við Faxaflóa og einhvern hluta af Suðurlandsundirlendinu, hitt landið megi og eigi að fara í eyði, þessar fáu hræður, 160–170 þús., sem hér eru nú, hafi ekki tök á því að nytja þetta land allt saman. Og þetta á sennilega ríkari hugsun í hugum margra, en við gerum okkur nokkra grein fyrir. En þetta er að mínum dómi ein langhættulegasta kenning, sem til er. Ég er alveg sannfærður um það, að íslenzk menning, íslenzkt þjóðerni, það hyrfi og yrði einhver hrognagrautur úr því, sem enginn veit hvað yrði, ef svo færi, að svo að segja allt fólkið flyttist á tiltölulega mjög lítið svæði og mörg af okkar beztu byggðarlögum færu í eyði. Þetta hefur ekki orðið enn nema í smáum stíl, því betur, en hættan er geysilega mikil, og það verður a.m.k. að vera sagt, hve hættan er geigvænleg, ef hugsanlegt væri, að nokkrir menn fleiri, en nú virðast gera, gætu skilið það.

Eitt er í þessu sambandi, sem ég get ekki annað en nefnt líka, það er, að með því alþjóðasamstarfi, sem nú er og við Íslendingar erum flæktir í geysilega mikið og getum ekki annað, en verið með í áfram, mundi okkur alls ekki líðast það að láta mikið af góðum byggðarlögum hér á Íslandi fara í eyði. Það yrði tekið til afnota af einhverjum útlendingum. Eftir þeirri geysiöru fólksfjölgun, sem er yfirleitt í heiminum og virðist munu halda áfram að vaxa, er mjög sennilegt, að innan skamms komi að því, að það verði að fara að nytja lönd miklu betur, en enn er gert, og því meiri er hættan, ef verulega góð byggðarlög stæðu opin fyrir þessum hugsunum og þeir segðu sem svo: Við getum vel sett eina millj. manna eða svo inn á Ísland. Það er auðséð, að þeir hafa ekkert ráð á að nytja sitt land, og það þarf ekkert nema eitthvað dálítið af fjármagni til þess að gera þetta. — Þetta veit ég að er stórhætta og verður vaxandi hætta í framtíðinni.

Og þið kannske spyrjið: Hvers vegna nefni ég þetta hér? Ég nefni þetta í sambandi við þetta frv., af því að sú breyting á stjórnskipunarlögunum, sem hér er lagt til að gerð verði, stefnir í þessa átt, það er ég sannfærður um. Hún stefnir í þessa átt. Hún stefnir að því að minnka rétt héraða í strjálbýli, flytja fólk til Reykjavíkur og nágrennis hennar, m.ö.o.: hún stefnir að því að sentralísera stjórn og vald sem mest hér í höfuðborginni og næsta umhverfi. Þessu er mótmælt af flytjendum málsins og það með mjög sterkum orðum, af þeim mönnum, sem nota þann málflutning yfirleitt, en þetta er algerlega tilgangslaust, því að hver einasti maður veit, að þetta er rétt. Hver einasti maður veit, að þetta er rétt og þetta er tilætlunin. Sumir kannske fylgja málinu af því, að þeir skilja ekki eðli þess nægilega vel, eða af því, að þeir hafa ekki nægilega mikið sjálfstæði til að vera á móti því, jafnvel þó að þeir séu með sjálfum sér á móti því. Það vita allir t.d., hvað vakir fyrir Alþfl. í þessum málum. Hann hefur ekki farið dult með það, og vel sé honum fyrir það. Hann vill hafa landið eitt kjördæmi, og hann hefur haldið því fram í þessum umr. og meðferð mála nú, að það sé það, sem að er stefnt. Hann er nú ekki, eins og er a.m.k., mjög stór flokkur, og ekki hefur hann meiri hluta til þess að koma þessu fram. En hverju væri hægt að treysta hinum flokkunum í þessu efni? Það vantar ekki, að það hafi verið höfð stór orð um þetta mál. Kann vel að vera, að búið sé að vitna í þau áður í þessum umr., ég hef ekki alltaf verið við. En það gerir þá ekkert til, þó að þau séu endurtekin einu sinni enn.

T.d. hv. formaður Sjálfstfl. sagði á Alþingi 1942, þegar þá var stjskrbreyt. til meðferðar og afgreiðslu, þá lagði hann spurningar fyrir Framsfl. og sagði: „Vill Framsfl. aðhyllast fyrri till. Alþfl. um, að landið sé allt eitt kjördæmi? Sjálfstfl. gengur aldrei að þeirri lausn. Eða vill Framsfl., að kjördæmin séu fá og stór,“ segir hv. form. Sjálfstfl. „Ég veit ekki um einn einasta þm. Sjálfstfl. að undanskildum hv. 4. þm. Reykv., Sigurði Kristjánssyni, sem það vill. Og Sjálfstfl. gengur aldrei að þeirri skipan.“

Þetta er sagt um stór kjördæmi 1942 og það af sjálfum foringja Sjálfstfl., Ólafi Thors. Hvers vegna hann er að skeyta þarna skapi sínu á vini mínum og sýslunga Sigurði Kristjánssyni og gera hann að einhverjum svörtum sauð og fórnarlambi fyrir flokkinn þá, því að þá var talið ódæði innan Sjálfstfl. að nefna þessa hluti, það veit ég ekki. Mér finnst Sigurður ekki eiga það skilið, því að einlægari og einfaldari þjónustu hefur enginn maður veitt sínum flokki, en Sigurður Kristjánsson gerði, það get ég vitnað um. En Sigurður hefur ábyggilega verið spámaður þá, því að nú virðist svo, að hver einasti þm. Sjálfstfl. sé kominn á þá skoðun hans og fylgi henni ákveðið. Það leynir sér ekki.

Ég veit ekki, hvort ég á að fara að vitna í annan höfuðforingja Sjálfstfl., herra Bjarna Benediktsson, 1. þm. Reykv. Þó langar mig til að lesa hérna eftir hann, það er víst búið að gera það áður kannske, en það er mjög lærdómsríkt að lesa það, af því að þau ummæli eru miklu yngri. Þau eru ekki nema eitthvað 5 ára, en hin voru 16–17 ára. Þar segir hv. 1. þm. Reykv.: „Þvert á móti mundi skipting Reykjavíkur t.d. í 16 eða 17 kjördæmi hafa í för með sér miklu nánara samband þm. og kjósenda en verið hefur. Þingmaður mundi miklu betur, en nú vita, hvað kjósendum hans liði, og eiga þess kost að greiða fyrir mörgum áhugamálum þeirra og veita einstaklingunum sams konar fyrirgreiðslu og þm. utan af landi verða að veita sínum kjósendum. Þetta yrði aukin vinna og umstang fyrir þingmennina, en ég þori að fullyrða að, að því yrði mikill ávinningur fyrir kjósendur.“

Þetta eru ekki mjög gömul ummæli, eins og þið vitið allir, hv. þm. Og þau eru mjög ákveðin, eins og þessi hv. þm. er vanur að hafa sín ummæli, þegar hann talar. Og hann fer ekki í neinar grafgötur með það, að það væri stór ávinningur að hafa einmenningskjördæmi hjá því að hafa kjördæmin það stór, að enginn einn þm. getur annað því að kynna sér þau til hlítar og vera forustumaður og þjónn allra þeirra, sem í kjördæminu búa, eins og þingmennirnir raunverulega eru, a.m.k. utan af landi.

En ég bara skil ekki, jafnvoldugur flokkur og Sjálfstfl. er, hvers vegna í ósköpunum hann er með nokkurra ára millibili og oftar að gefa svona yfirlýsingar, svona ákveðnar yfirlýsingar. Það er ekki tæpt á neinu. „Aldrei nokkurn tíma,“ segir Ólafur Thors um að koma á stærri kjördæmum, og aftekur enn meir þó með að gera landið að einu kjördæmi. En ég er sannfærður um, að það verður tæplega áratugur liðinn, þegar Sjálfstfl. verður snúinn með því að hafa allt landið eitt kjördæmi. Og þá sver hann af sér allt, sem hann er búinn að segja áður um þessa hluti.

Og það er þetta, sem ég sagði áðan, að ég væri viss um, að þetta frv. væri þrep eða spor í þá átt að skrílmenna þjóð okkar að nokkru leyti. Það gerum við, ef við stöndum ekki fyrst og fremst vörð um okkar strjálbýli. Okkar þjóð þolir það ekki, að hún hrúgist saman á einn einasta stað. Þá fer um okkur eins og varð á mestu niðurlægingartímum, þegar Danir voru alráðir hér og allir hér í Reykjavík, sem voru nú ekki margir í þann tíð að vísu, voru orðnir það danskir, að þeir kunnu ekki íslenzku. Og þeim, sem eitthvað kunnu íslenzku, þótti jafnvel skömm að því að tala hana. Það var búið alveg að skrílmenna þjóðina á þennan hátt þá. Þetta vita allir. Það var fólkið úti um landið, í sveitunum og smáþorpum hingað og þangað, sem þá stóð vörðinn og stóð af sér gerningarnar. Annars væri ekki til íslenzk tunga, annars væri ekki til íslenzk menning í þessu landi.

Mikið hefur breytzt. Við höfum fengið margar stofnanir, góða skóla og margt, sem enginn skal vanmeta. En það dugir bara ekki. Það dugir ekki, ef það er ekki fólkið sjálft og það fólk, sem er ekki allt of mikið hrúgað saman, sem er þó yzta varðlínan, sú sem verður að taka á móti höggunum, sú sem verður að taka á móti því, sem að henni er rétt í hvert skipti. Og það er þetta, sem gerir það að verkum fremur öllu öðru, hvað ég er mjög andvígur þessu frv. Við skulum ekki taka lengra, ég ætla ekkert að fara að rekja það, en þróunin allt frá 1931 og til þessa dags hefur sannað það áþreifanlega, að það er alltaf slegið undan í þessu efni. Og það er ásókn um það að afnema rétt héraðanna að miklu leyti og það jafnvel þótt jafngóður maður og hv. 1. þm. Reykv. hafi sagt fyrir fáum árum, að það væri stór kostur að skipta öllu landinu niður í einmenningskjördæmi, einmenningskjördæmafyrirkomulagið væri miklu betra fyrir kjósendurna, einmitt til þess að þm. væri forustumaður að nokkru leyti, en að öðru leyti þjónn kjósenda. Og svo eigum við að trúa flokki eða flokkum, sem láta forustumenn sína hafa svona orð fyrir sér og breyta svo alveg þveröfugt við það eftir örstuttan tíma.

Ég endurtek það, sem búið er að segja áður, en það vita allir, að Framsfl. var fús til stórra breytinga á kjördæmaskipuninni til þess að koma á móti þeim, sem telja það hafa verið alveg sérstaka nauðsyn til þess að ná höfðatölu svonefnds réttlætis að miklu leyti. Það var hægt að koma þessu fyrir á ýmsan hátt, eins og við vitum, án þess að raska við sjálfri meginkjördæmaskipuninni. Það er síður en svo, að ég álíti hana einhvern helgan dóm, sem megi ekki að einhverju leyti breyta, eftir því sem viðhorf eru. En þegar reynslan hefur sannað allt frá endurreisn Alþingis, að einmenningskjördæmafyrirkomulagið hefur reynzt bezt og traustast, þá er það svo mikil fljótfærni og að mínum dómi svo stórkostleg vitleysa, svo að ég hafi ekki stærri orð um það, hrein flónska að vera að afnema það fyrirkomulag á þennan hátt eins og hér er gert.

En það er ekki ástæða til fyrir mig að flytja hér tómt mál. Ég get þó ekki annað en látið bæði undrun og hryggð í ljós — og getur það náttúrlega hitt mig eins og aðra hv. þm. — yfir þeim ósköpum, að ekki skuli hafa verið tekin fyrir endurskoðun á öllum stjórnskipunarlögunum, öllum þáttum þeirra, þrátt fyrir allar þær nefndir, sem setið hafa að störfum nú um undanfarin 15 ár, allt frá 1944. Það yrði áreiðanlega myndarlegra og betra á allan hátt, ef nú hefði nefnd, ný n., ef allar hinar væru uppgefnar, sem áður hafa verið, verið sett til þess að fara alvarlega í stjórnskipunarlögin og reyna að ná samkomulagi milli allra flokka á Alþingi um breytingar, sem nauðsynlegar væru á þeim öllum. Þetta hefði getað tekizt, ef þetta ofstæki hefði nú ekki endilega þurft að grípa þessa ágætu þríflokka hér að skipa sér saman um þetta mál og ætla að knýja það fram án tillits til alls annars. En þetta er ég alveg sannfærður um að hefði verið hægt, og ég tel mestar líkur til, að það hefði náðst samkomulag, sem allir flokkar hefðu getað sætt sig við.

Ég hef ekki dregið dul á það í þessum fáu orðum, sem ég hef sagt, og býst ekki við að tala oftar í þessum umræðum, kannske ekki heldur á Alþingi, en ég vil ekki draga dul á það, að ég er þessu máli andvígur, og eftir því sem minn litli máttur má, þá skal ég vera þessu frv. eins óþarfur og unnt er að vera í þeirri kosningabaráttu, sem fram undan er. Ég veit það, að ég megna lítið í sjálfu sér, en þó er ekki gott að vita, nema dropinn holi steininn, og ef margir einbeita sér að því sama, getur það haft nokkur áhrif. A.m.k. finnst mér, að það sé ástæðulaust að vera að fjargviðrast yfir því, þó að allmiklar umræður verði um þetta mál nú hér á Alþingi. Ég tel það alveg sjálfsagt, að menn fái að tala, eins og þá lystir, ef það er gert á sómasamlegan og þinglegan hátt, enda hafa umræðurnar yfirleitt að mínum dómi verið þannig. En ég er sannfærður um, að einhvern tíma mun verða séð eftir þeirri braut, sem hér er farið inn á, með því áframhaldi, sem auðséð er að, á að vera um þetta mál framvegis. — Svo skal ég ekki hafa þessi orð fleiri.