02.05.1959
Efri deild: 111. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1531 í B-deild Alþingistíðinda. (1224)

144. mál, stjórnarskipunarlög

Hermann Jónasson:

Herra forseti. Þó að þetta mál sé flutt af formönnum þriggja þingflokka, kynni nú að sýnast ástæða til þess að ræða það eigi að síður bæði í þessari hv. deild og annars staðar, því að hér er um svo stórfellda breytingu að ræða á stjórnskipun landsins, að margir hafa talið þessa breytingu frekar mega kallast byltingu, en eðlilega þróun. Ég fellst á það, að það sé eðlilegt að kjósa sérstaka nefnd í þetta stóra mál, og sé ekkert við það að athuga, að það sé fimm manna nefnd. Ég geri ráð fyrir, að við, sem erum andvígir þessu máli, munum ekki heldur tefja fyrir því, að þetta mál geti farið til n. seinni partinn í dag. En ég vil þó þegar á þessu stigi segja nokkur orð um þetta mál, eins og það lítur út frá mínu sjónarmiði, og áskil mér að sjálfsögðu rétt til þess að taka margt fram síðar, sem ég mun ekki ræða að þessu sinni.

Það er vitað mál, að stjórnmálaflokkarnir, þingflokkarnir, hafa verið sammála um það síðan 1944, að við lýstum yfir fullu sjálfstæði, eða hálfan annan áratug, að nauðsynlegt væri að setja íslenzka ríkinu nýja stjórnarskrá, þar á meðal auðvitað kjördæmaskipun. En alltaf hefur verið gengið út frá því, að stjórnarskráin yrði tekin til athugunar í heild. Árið 1947, eftir að nýsköpunarævintýrinu lauk, var skipuð nefnd 7 manna, einn fulltrúi frá hverjum þingflokki og þrír til viðbótar. Voru þeir tilnefndir, að mig minnir, af ríkisstjórn án tilnefningar og munu hafa verið taldir eiga að vera sérfróðir menn í nefndinni. Það er ákaflega ósennilegt, að ekki hefði verið hægt fyrir löngu að ná samkomulagi í þessari n. um stjórnskipun landsins, ef hugur hefði fylgt máli, þar sem allir flokkarnir höfðu lýst því yfir, að þeir teldu lausn á þessu máli aðkallandi nauðsyn. Og ef ekki náðist samkomulag í þessari n., var vitanlega eðlilegur endir á störfum hennar, að hún skilaði áliti, þannig að hún þá, ef verkast vildi, klofnaði og skilaði meirihluta- og minnihlutaáliti. Það hefði að sjálfsögðu einnig getað leitt til einhverrar lausnar á þessu máli, eða a.m.k. var það eðlilegur endir á störfum n. En n. skilaði aldrei neinu áliti, og er þessi n. eitt hið furðulegasta fyrirbæri í íslenzkri stjórnmálasögu, þar sem n. er skipuð í eitt stærsta mál þjóðarinnar og til að leysa mál, sem allir þingflokkarnir eru sammála um að nauðsynlegt sé að leysa.

Ég kem að því, að það lá ástæða til þess vitanlega, að störf n. voru tafin, en við framsóknarmenn eða fulltrúi okkar í n., hv. þm. S-Þ. (KK), kom fram með þá till., sem samþykkt hafði verið á flokksþingi framsóknarmanna, að fela stjórnarskrármálið sérstöku þingi, fela það fulltrúum, sem væru sérstaklega til þess kjörnir að setja þjóðinni nýja stjórnarskrá. Í till. sínum gerði Karl Kristjánsson ráð fyrir, að stjórnmálaflokkunum væri óheimilt að bjóða fram eða taka virkan þátt í kosningabaráttunni til stjórnlagaþings. Var það gert til þess að koma sem mest í veg fyrir það, að flokksleg sjónarmið réðu því, hvernig stjórnskipunarlögin yrðu úr garði gerð. Þegar hið sérstaka stjórnlagaþing hefði komið sér saman um stjórnskipunarlögin eða meiri hluti samþykkt þau, átti samkvæmt till. Karls Kristjánssonar að bera málið undir þjóðaratkvæði. Þannig var ráðgert í till. Framsfl., að þjóðin semdi og lögfesti hina nýju stjórnarskrá að beztu og vitrustu manna yfirsýn og umfram allt án flokkssjónarmiða og flokksofstækis. Ef farið hefði verið að þessum till., er vafalítið, að þjóðin hefði nú verið búin að setja sér nýja stjórnarskrá, sennilega án illvígra deilna eða a.m.k. án þess að blanda stjórnarskránni að verulegu leyti inn í dægurmála- og flokksmálaþrasið og láta þær deilur auk þess spilla eðlilegum vinnubrögðum um önnur aðkallandi mál.

Ég hygg nú sannast að segja, að það sé dálítið erfitt að saka þann flokk, sem komið hefur fram með slíkar till. eins og Framsfl. kom fram með í kjördæmamálinu, þ.e.a.s. þær till. að láta sérstaklega kjörið stjórnlagaþing leysa málið og reyna að koma því út úr flokksdeilum, um það, að hann hafi einatt viljað leysa málið út frá flokkslegu hagsmunasjónarmiði. Hann er þó eini flokkurinn til þessa, sem hefur lýst því yfir, að hann álíti að eigi að reyna að leiða málið inn á þær brautir, að flokkssjónarmið komist ekki að. Og hann er eini flokkurinn, sem hefur lýst því yfir, að hann vildi reyna til þess að kjósa sérstakt stjórnlagaþing án flokkssjónarmiða. Og hann er sá eini, sem hefur lýst því yfir, að hann væri reiðubúinn til þess að beygja sig fyrir lausn þessa stjórnlagaþings, sem hann vill að leysi málið án flokkssjónarmiða með þjóðaratkvæðagreiðslu á eftir um endanlega staðfestingu á stjórnarskránni. Það er því bersýnilegt, að flokk, sem hefur komið fram með slíkt sjónarmið, er undir engum kringumstæðum hægt að, saka um það, að hann vilji leysa málin út frá flokkslegu sjónarmiði. Það er hið mesta öfugmæli.

Það er oft spurt um það, hver séu rökin gegn því að fara þessa leið í málinu, að velja sérstakt stjórnlagaþing. Aðallega virðist það hafa verið borið fram sem rök, að við höfum Alþingi og fái önnur samkunda vald til þess að setja ný stjórnskipunarlög, þá sé það að setja niður virðingu Alþingis. En hvaðan hefur Alþingi vald sitt og virðingu? Það hefur hana frá þjóðinni. Og er hún ekki Alþingi æðri? Ef þingi sérstaklega til þess kjörnu væri falið að setja þjóðinni ný stjórnskipunarlög, hefði Alþingi afhent þjóðinni málið til úrlausnar, og slíkt getur aldrei verið óvirðing fyrir Alþingi, enda skjóta ýmis þjóðþing stórmálum undir þjóðaratkvæði, eins og algengt er. Það er þjóðin, sem á að kjósa stjórnskipunarþingið, og um leið er það jafnvirðuleg samkoma og Alþingi sjálft. Þessi leið óvirðir því ekki Alþingi á neinn máta.

Margir mundu líta svo á, að Alþingi sýndi þroska og víðsýni með því að segja við þjóðina: Stjórnskipunarlögin, sérstaklega kjördæmamálið, hafa verið mjög umdeild mál, mál, sem valdið hafa illvígustu deilum milli flokka hvað eftir annað og hafa verið leyst frá flokkssjónarmiði um of á undanförnum tímum til skaða fyrir málið. Þessar deilur eru einnig skaðlegar fyrir þjóðina, sem hefur öðrum stórum vandamálum að sinna. Það er og óvenjulegt, að mál, sem leyst eru í illdeilum og frá þröngum flokkssjónarmiðum, leysist vel. Við álítum, gætu þingfulltrúarnir sagt, við álítum, að stjórnskipunarlög þjóðarinnar séu það verk, sem þarf mjög að vanda til, og því þurfi að reyna að leysa það mál með rólegri yfirvegun. Við alþm., fulltrúar þjóðarinnar og hinna ýmsu flokka á Alþ., leggjum því til, að þjóðin kjósi sérstaka fulltrúa, óbundna af öllum flokkum, til þess að setja þjóðinni stjórnarskrá. Með þessu getur hver kjósandi óbundinn af flokki kosið þann mann, sem hann treystir bezt til þess að setja þjóðinni viturlega stjórnarskrá, en án tillits til þess, hvernig skoðanir þeirra, kjósandans og fulltrúans, fara saman að öllu leyti, því að þessir fulltrúar eiga aðeins að hafa umboð til þess að afgreiða stjórnskipunarlögin ein.

Ég held, að fáir, sem gefa sér tíma til að yfirvega þetta mál rólega, muni komast að þeirri niðurstöðu, að Alþ. hefði sett niður, þó að það hefði ráðlagt þjóðinni að láta sérstaklega kjörið stjórnlagaþing setja ný stjórnskipunarlög með eitthvað svipuðum röksemdum og ég hef rakið hér að framan. Ég held, að heiður þess hefði þvert á móti vaxið við þetta.

Stundum eru þau rök færð fram gegn því, að sérstakt stjórnlagaþing afgreiði stjórnarskrána, að kosið mundi til þess eftir flokkssjónarmiðum og þetta mundi engu breyta. Mótbáran er þá orðin sú, að með þessari leið, sem ég hef verið að benda á, losnum við við svo lítið af flokkssjónarmiðum og fordómum, að ekki taki því að reyna þetta. M.ö.o.: það er álit þeirra, sem mótmæla sérstöku stjórnlagaþingi, að þótt menn væru kosnir sérstaklega til þess að leysa stjórnarskrármálið, það mál eitt og ekkert annað og án tillits til annarra mála og án tillits til flokkssjónarmiða, þá mundu flokksböndin vera svo sterk, að fulltrúarnir mundu bregðast þeim trúnaði, sem þeim hefði verið sýndur, bregðast því háleita verkefni, sem þeim hefði verið falið, og láta flokkssjónarmið ráða við lausn málsins. Ég er ekki á þessari skoðun.

En þótt þessi kynni að hafa orðið niðurstaðan hjá sumum fulltrúanna, er ég ekki trúaður á, að þetta hefði orðið hið almenna sjónarmið, þvert á móti. En þetta er eitt af því, sem reynslan ein getur skorið úr og verður ekki sannað eða afsannað með rökræðu.

En er ekki mótstaðan gegn sérstöku stjórnlagaþingi sprottin af því öðru fremur, að þröngsýnir flokksforingjar telja sig missa flokkslegt vald yfir lausn málsins? Er það ekki raunverulega ástæðan fyrir þeirri mótstöðu, sem hafin hefur verið gegn þessari lausn, að þeir álíti sig missa flokkslegt vald yfir málinu, ef sérstakt stjórnlagaþing fær vald til að afgreiða málið ?

Eitt er alveg víst, hvað sem öðru líður, að sérstaklega kosið þing hefði ekki orðið lélegra en Alþ. við lausn málsins. Það er fullvíst. Og það hefði a.m.k. afgreitt málið í heild, enda ekki haft umboð til annars, en að afgreiða stjórnarskrármálið í heild og ekki tekið kjördæmamálið út úr til þess að hefja um það illvígar deilur og afgreiða það í flaustri, eins og raun ber nú vitni að Alþingi er að gera. Hins vegar benda ýmis rök til þess og líkur, að fulltrúaþing, sérstaklega til þess kjörið að leysa málið, mundi verða hæfara til þess en Alþingi með sínum pólitísku flokkssjónarmiðum, sem hætt er við að deyfi dómgreindina. En flokkssjónarmiðin hafa þá átt að sjá fyrir því hér í þetta sinn, að málið verði ekki afgreitt á þennan hátt. Og kem ég þá að því að ræða málið lítillega út frá efni þess sjálfs.

Þingflokkarnir hafa lengi verið sammála um, að það þyrfti að endurskoða stjórnarskrána og þar á meðal kjördæmamálið. En málið hefur setið fast. því er oft kennt um af andstæðingum Framsfl., að Framsfl. hafi stöðvað málið. Þetta er furðuleg staðhæfing og um leið staðleysa. Framsfl. hefur verið í minni hl. í báðum d. Alþ. um fjórðung aldar og gat því auðvitað ekki stöðvað kjördæmamálið, og þarf ekki frekari orðum að því að eyða. Hið sanna er, að Alþfl. og Sósfl. — síðar Alþb. — hafa á undanförnum árum ýmist annar eða báðir viljað leysa kjördæmamálið og þótzt vilja setja ríkinu nýja stjórnarskrá. En Sjálfstfl. hefur, þótt hann ætti völ á stuðningi þessara tveggja flokka til að leysa málið, engan áhuga haft á málinu. Þetta er ástæðan til, að stjórnarskrárnefnd undir stjórn Bjarna Benediktssonar mókti, en starfaði ekki. Þessari fullyrðingu minni er auðvelt að finna stað. Sömu árin og þessi n. átti að heita starfandi, lét Sjálfstfl. þau boð út ganga, sem víst flestir landsmenn muna eftir, þau voru ekki svo lítið áberandi, — hann lét þau boð út ganga við hverjar kosningar, að sig vantaði örfá atkvæði í nokkrum kjördæmum til þess að fá meiri hluta á Alþingi. Og þessir útreikningar voru tölulega réttir. Þessa útreikninga sýndi Sjálfstfl. með greinilegum tölum. Samtals í öllum þessum kjördæmum, þar sem munaði mjóu, voru atkv. að mig minnir um 300, sem Sjálfstfl. vantaði á réttum stöðum. Þessar skýrslur Sjálfstfl. voru raunverulega glöggur vitnisburður um það, hvert flokkurinn stefndi. Þetta var sömu árin og stjórnarskrárnefndin starfaði. Það var ekki breyting á kjördæmaskipuninni, sem flokkurinn stefndi að. Það, sem hann stefndi að, var að þaulprófa það, hvort hann gæti unnið meiri hluta þingmanna með þeirri kjördæmaskipun, sem gilti, þótt flokkurinn hefði minni hl. atkv. Von í því, að ranglætið, sem Sjálfstfl. kallar nú, gæti orðið til þess, að Sjálfstfl. ynni meiri hl., þótt hann hefði minni hl. atkvæða, var það, sem tafði störf nefndarinnar. Þetta var biðtími, meðan var verið að prófa það, hvort núverandi kjördæmaskipun dygði til þess að ná meiri hluta.

Það er enn fremur séð út frá þessu skiljanlegra, hvers vegna auðveldara var að fá Sjálfstfl. inn á tiltölulega réttlátari framfarapólitík úti um landið, meðan hann var að gera þessar tilraunir. En eftir að Sjálfstfl. mistókst að fá þessi atkvæði, sem hann vantaði, þá fyrst fékk hann áhuga fyrir gerbreyttri kjördæmaskipun. Og þá var starf nefndarinnar búið að liggja í dái eða salti um mörg ár. Nú berst Sjálfstfl. fyrir þessu máli í nafni réttlætis. En ef Sjálfstfl. hefði, eins og hann ásetti sér og vonaði við hverjar kosningar, unnið þau atkv., sem hann vantaði, þá megið þið vera viss um, að kjördæmaskipunin hefði verið réttlát eins og hún var og Sjálfstfl. hefði ekki verið viðmælandi um neinar breytingar. Aðgerðarleysið í stjórnarskrárnefndinni var því að yfirlögðu ráði, meðan núverandi kjördæmaskipun var prófuð. En eins og ég sagði áðan, Sjálfstfl. vann ekki þessi atkv., þess vegna varð kjördæmaskipunin, sem áður var réttlát, skyndilega ranglát. Þetta dæmi sýnir viðhorf Sjálfstfl. til mála, að það er ranglátt, sem kemur honum illa, réttlátt, sem kemur honum vel, alveg án tillits til málsins sjálfs.

Hitt hefur alltaf verið augljóst, að Alþfl. og Sósfl. gátu ekki með núverandi kjördæmaskipun fengið eðlilega tölu þingmanna, eftir að fólksflutningar urðu miklir til suðvesturhluta landsins. Þetta gerði Framsfl. sér ljóst, og þess vegna samdi hann við þessa tvo flokka við stjórnarmyndunina 1956 um að leysa stjórnarskrármálið á kjörtímabilinu, þ.e.a.s. fyrir 1960, fyrir kosningarnar 1960. Flokkarnir skipuðu nefnd, 6 manna, í málið, en hún tók ekki til starfa, án þess að Framsfl. ætti sök á því, fyrr en s.l. haust, enda þá um tvö ár til kosninga. Var þá skipuð undirnefnd til þess að ræða málið, og lýstu framsóknarmenn því yfir, að þeir væru reiðubúnir til þess að fallast á þær breytingar á kjördæmaskipuninni til samkomulags að fjölga þingmönnum í þéttbýli líkt því, sem við höfum gert að miðlunar- og sáttatillögu okkar í málinu hér á Alþingi. Það stóð því ekki á því, að Alþfl. og Alþb. fengju að vita, að þessir tveir flokkar gætu fengið leiðréttingu sinna mála þannig, að þeir væru raunar ekki verr settir, en með þeirri kjördæmabreytingu, er þriflokkarnir nú ætla að knýja fram, vel að merkja, ef þeir væru færir um að koma að þingmanni í kjördæmi.

En nú gerist tvennt í senn. Losna tók um stjórnarsamstarfið og Jón P. Emils lögfræðingur tók algerlega forustuna í Alþfl. í kjördæmamálinu. Undir forustu hans samþykkti flokksþing Alþfl. að beita sér fyrir þeirri breytingu á kjördæmaskipuninni að taka upp hlutfallskosningar í stórum kjördæmum, og kem ég síðar að því, hvers vegna sú leið var ófrávíkjanleg af hálfu Alþfl. Þeir forustumenn Alþfl., sem setið höfðu og sátu þá enn í n., er fyrrverandi ríkisstj, hafði skipað til þess að reyna að finna lausn á kjördæmamálinu, ræddu ekki við framsóknarmennina, áður en þessar samþykktir landsfundarins voru gerðar. Og á eftir hófu þeir samninga við Sjálfstfl. um lausn málsins. Þeir Alþfl.-mennirnir hafa ekki látið svo litið enn að skýra okkur frá því, hvað valdið hafi þessum skyndilegu breytingum á vinnubrögðum þeirra. Og nú höfum við framsóknarmenn, eftir að felld var till. okkar um sérstakt stjórnlagaþing, borið fram brtt. til samkomulags í málinu, þrátt fyrir það þótt við kysum helzt einmenningskjördæmi. Þessar samkomulagstillögur eru við það miðaðar að rétta hlut þéttbýlisins án þess að leggja niður gömlu kjördæmin, og hlutur flokkanna, sem nú telja sig afskipta, mundi að öllum líkindum verða svipaður því, sem hann verður samkvæmt þeirri breytingu, er þríflokkarnir fyrirhuga.

Sú spurning er ásækin við marga, bæði hér og ekki síður úti um landsbyggðina, hvers vegna þríflokkarnir vilja ekki sættast á þessar miðlunartillögur. Hvað veldur því, að þeir allir sem einn hafna þessu eins og af einhverjum dularfullum ástæðum, sem ekki má nefna? Ekki geta það verið sérstakir kostir hlutfallskosninga, sem menn hafa þó haft minna og minna álit á sem lausn í þessum málum alls staðar annars staðar en a.m.k. á Íslandi? En hver hugsandi maður sér ástæðuna. Hún er sú fyrst og fremst, að það kostar of miklar framfarir úti um landið, úti í kjördæmunum, ef þau fá að haldast. Það er of mikið kapphlaup um þessi litlu kjördæmi, segja þríflokkarnir hvað eftir annað. Litlu kjördæmin valda pólitískri fjárfestingu, sagði einn af spekingum Sjálfstfl. Fjárfestingarstefnan lagast, þegar búið er að leggja niður kjördæmin, sagði Einar Olgeirsson. Þannig gloprast setning eftir setningu út úr þingmönnum þríflokkanna, sem sýnir, hvert er verið að fara. Niðurskurðurinn á raforkuframkvæmdunum og verklegu framkvæmdunum úti á landi er aðeins smásýnishorn, aðeins dropi úr þeim beiska bikar, sem borinn verður að vörum fólksins úti um landið og það látið tæma í botn, ef það hefur ekki manndóm til þess að hrinda af sér tilræðinu með kosningunum í vor.

Það eru borin fram alls konar falsrök fyrir þessum breytingum, falsrök fyrir því, að þessi breyting ein sé nauðsynleg. Kaupstaðamenn fræða landsbyggðina á því, að nú sé með sameiningu hinna smáu kjördæma verið að búa til sterkari heildir, sem í væru fimm þm., í stað þess að smáu kjördæmin höfðu aðeins einn. Auðveldara verði því fyrir þessar heildir að sækja rétt sinn, en áður. Rökrétt afleiðing væri auðvitað að leggja niður hreppana í hverri sýslu og kjósa sýslunefndarmennina með hlutfallskosningum. Haldið þið ekki, að það væri munur fyrir hvern hrepp að eiga hlutdeild í 10–20 fulltrúum í sýslunefnd, heldur en að eiga einn? En litlu hrepparnir þykjast sjá annað í þessu máli. Þeir þykjast vera vissir um það, að þeir mundu eftir stuttan tíma ekki fá neinn fulltrúa í sýslunefnd.

En ef þessi rök eru rétt, sem borin eru fram fyrir því, að þarna myndist sterkar heildir, þá eru það blátt áfram furðuleg vinnubrögð að gera ekki landið að einu kjördæmi. Fyrst það er aukinn styrkur að láta leggja niður kjördæmið sitt og sameina það í 5 manna kjördæmi og þannig eiga hlutdeild í 5 þingmönnum, er það samkvæmt þessum hugsunarhætti sannarlega meiri styrkur að vera meðlimur í enn stærri heild og eiga hlutdeild í 60 þingmönnum. Samkvæmt rökum þessara spekinga hefur ekki verið lítill búhnykkur og þjóðargæfa fyrir Eystrasaltslöndin að verða innlimuð í hið sterka Rússland og mynda þannig sterka heild. Og það væri samkvæmt rökvísi þessara manna takandi til athugunar, þar sem við erum að fólksfjölda eins og lítið kjördæmi í tiltölulega fámennu landi, hvort við Íslendingar eigum frekar, en gömlu kjördæmin að basla við þetta sjálfstæðishokur. Við erum tiltölulega lítið stærri á alheimsmælikvarða, landið allt, heldur en kjördæmin, sem verið er að leggja niður. Væri okkur ekki nær að styrkja okkur og gera okkur voldugri með að sameina okkur stærri þjóðum? Þetta er einmitt það, sem Knud Berlin og aðrir Danir voru að kenna okkur um nokkrar aldir, en við vorum svo fávísir að vilja ekki trúa þessu.

En án þess að fara nánar út í rökræður um þetta, þá er bezt að láta þá, sem töluðu fyrir kjördæmabreytingunni hér áður, tala einnig í þessu máli. Þegar kjördæmaskipuninni var breytt 1942, brá svo undarlega við, borið saman við þessi rök, að þm. kepptust um það, bæði á þingi og utan þings, og væri sennilega hægt að finna nokkra tugi af ummælum í þá átt, hver þm. kepptist við annan að sverja af sér, utan þings og innan, að flokkur hans mundi nokkurn tíma taka upp stór kjördæmi og leggja niður litlu kjördæmin. Þetta var af öllum talið svo fráleitt og svo gagnstætt hagsmunum þjóðarinnar og sérstaklega hagsmunum kjördæmanna, að slíkt gæti aldrei komið til mála. Það er bezt að lofa þessum mönnum að tala, með leyfi hæstv. forseta. Við skulum fyrst taka formann Sjálfstfl., það hafa áður verið lesin ummæli hans, en góð vísa er aldrei of oft kveðin:

„Vill Framsfl. aðhyllast fyrri till. Alþfl., að landið sé allt eitt kjördæmi? Sjálfstfl. gengur aldrei að þeirri lausn. Eða vill Framsfl., að kjördæmin séu fá og stór? Ég veit ekki um einn einasta þm. Sjálfstfl. að undanskildum hv. 4. þm. Reykv., Sigurði Kristjánssyni, sem það vill. Og Sjálfstfl. gengur aldrei að þeirri skipan.“

Það mátti ekki minna vera. Nú geta menn sagt náttúrlega: Það hefur ýmislegt breytzt síðan, fólksflutningar og þess háttar. En það má alveg ná því með því að láta þéttbýlið hafa fleiri þingmenn og standa við yfirlýsinguna. Og það er eitt, sem menn skulu taka til athugunar í sambandi við öll þessi ummæli. Það var þá ekki jafnmikið óálit á hlutfallskosningum eins og er núna í heiminum, eftir að þær voru búnar að kollvarpa tveimur lýðveldum að margra áliti. Þess vegna hefur þróunin öll breytzt á móti þeim.

Ummæli Péturs Ottesens: „Að breyta landinu í eitt eða örfá kjördæmi með hlutfallskosningum tel ég ófært hér og andstætt þeim skilyrðum, sem við eigum við að búa.“ Nú á þetta að vera blessun, sem áður var hin mesta bölvun.

Ummæli Ásgeirs Ásgeirssonar, núverandi forseta: „Önnur aðferðin, sem haldið hefur verið fram, að hafa fá kjördæmi og stór með hlutfallskosningum, hefur marga hina sömu ókosti og það, að landið sé allt eitt kjördæmi.“ Og enn fremur: „Þau (þ.e. einmenningskjördæmin) hafa sögulegan og náttúrlegan rétt á sér, og þau eru viss hemill á flokkabaráttu og allar öfgar.“ Það er orðið alveg öfugt í röksemdafærslunum. „Með þeim hætti er héruðunum tryggt að eiga vísa málflutningsmenn, sem hafa þekkingu á högum héraðanna og sérstakar skyldur, fremur en landskjörnir eða stórkjördæmakosnir þingmenn mundu hafa. Þessum kostum má ekki kasta fyrir borð. Það verður að jafna til með einhverjum öðrum hætti.“ Og það er auðvelt nú.

Enn fremur ummæli Bjarna Benediktssonar: „Þvert á móti mundi skipting Reykjavíkur í t.d. 16 eða 17 kjördæmi hafa í för með sér miklu nánara samband þingmanns og kjósanda, en verið hefur. Þingmaður mundi miklu betur en nú vita, hvað kjósendum hans líði, og eiga þess kost að greiða fyrir mörgum áhugamálum þeirra og veita einstaklingum sams konar fyrirgreiðslu og þingmenn utan af landi verða að veita sínum kjósendum. Þetta yrði aukin vinna og umstang fyrir þingmennina, en ég þori að fullyrða að, að því yrði mikill vinningur fyrir kjósendur.“

Hvað halda menn nú um það, ef þessi rök eru rétt, að það sé vinningur að skipta Reykjavík niður í 16 eða 17 kjördæmi, þingmann fyrir Austurstræti og Vesturgötu o.s.frv., til þess að mynda nánari kynni milli þingmanns og kjósanda, — hvað haldið þið að gildi þá um sýslur, sem eru nú þegar, áður en kjördæmin eru sameinuð, það stórar, að ferð eftir þeim endilöngum er nokkuð miklu lengri, en að fara héðan og norður í Húnavatnssýslu? Rök, sem margsinnis hafa verið færð fram fyrir því, að þessum sýslum sé nauðsynlegt að hafa sérstaka fulltrúa, eru augljós, og þau eru margföld samanborið við nauðsyn þess að skipta Reykjavík. Nú á það að vera allt í einu sú mesta blessun fyrir þessi kjördæmi að láta slengja sér saman við önnur kjördæmi og styrkleiki, það sem er sagt að fyrir Reykjavík sé veikleiki, sjálfa Reykjavík, sem er svona þéttbýl. Þið sjáið, hve ofboðslega mótsögn og ofboðslega röksemdaflækju þessir menn eru komnir út í hver gegn öðrum.

Og að síðustu ummæli Jóns heitins Þorlákssonar: „Í ummælum hv. flm. (þ.e. Héðins Valdimarssonar) fólst, að honum finnst líka þurfa sérstaklega að bæta úr því, að einhver víðáttumikil kjördæmi eru svo fámenn, að kjósendatala þar verði langt fyrir neðan meðaltal þeirrar kjósendatölu, er kemur á hvern þingmann. En ég get ekki fylgt honum í því.“ Það eru borin fram sem aðalrökin, hvað sé fámennt í þessum stóru og strjálbýlu kjördæmum. „Landshagir eru svo víða hér á landi, að sum kjördæmi hljóta að verða miklu fjölmennari en önnur, og mér finnst mannfleiri kjördæmin ekki hafa yfir neinu að kvarta. Það er sanngjarnt, að hver staður líti til þess, að hans hagur sé ekki stórlega fyrir borð borinn.“ Þetta er eins og annað úr þingtíðindum. Og enn fremur segir svo 1931: „Ég álít rétt að tryggja það, að fámennari, fjarlægari og afskekktari landshlutar séu ekki sviptir réttinum til að senda sína sérstöku fulltrúa á Alþingi, því að þeir þurfa að eiga þar hver sinn fulltrúa til að tala máli sínu á þingi sérstaklega.“

Hvort halda menn nú, flm. þessa máls, sem eru nú með alls konar rök, sem ég hef verið að sýna fram á hvað eru fánýt, — hvort halda menn nú, að rök þeirra séu þyngri á metunum en rök þessara manna? Sannleikurinn er sá, að þau rök, sem eru færð fram fyrir málinu, eru bara rök Sófista. Þau eru bara rök, sem eru búin til. En þetta eru rök, sem virðast vera borin fram af því, að þeir telja rökin rétt.

Nú skulum við segja: Þessir menn ætluðu sér aldrei að ganga lengra en þetta. Þeir ætluðu sér aldrei að ganga lengra, en það að fjölga í þéttbýlinu, en láta kjördæmi úti um land njóta sín. — Þá flytja þeir rökin vegna þess, að þeir meina það, sem þeir eru að segja. En hafi þeir hugsað sér, eins og sumir álíta um suma þeirra, síðar að koma á þeirri kjördæmaskipun, sem nú er, þá eru rökin jafngild fyrir því, því að þeir vissu, hvað fólkinu var hættulegast og skaðlegast og hvað það var hræddast við af öllu, að missa kjördæmin, og þess vegna sögðu þeir fólkinu, ef einhver þeirra hefur meint, að hann ætlaði að koma þessari skipan á, sem núna vofir yfir, — þá sýna rökin, að þessir þm., sem verður ekki borið á brýn að séu ekki hver og einn þeirra mjög hæfur til þess að bera fram sín beztu rök, vissu alveg nákvæmlega, hvað var fólkinu hættulegast að missa, og þeir sögðu: þið skuluð aldrei missa það — og þeir færðu rök fyrir því, hvers vegna þeir skyldu ekki missa það. Þessi ummæli skýra sig sjálf. Þau eru öll miðuð við það, að það sé lífsnauðsyn fyrir landsbyggðina, að kjördæmin haldist, og skal ég ekki fara nánar inn á það.

Nú er komið með þau rök, að þetta sé eiginlega allt gert til þess að gera litlu kjördæmin sterkari og sjálfstæðari. Að þurrka þau út, að leggja þau niður, að láta þau ekki lengur vera til, það er að gera þau sterk. Þetta eru rökin.

Eins og ég sagði hér áðan, má segja, að ýmislegt sé breytt, síðan þessi rök voru borin fram. En það eitt hefur breytzt að gera rök þessara manna, sem borin voru fram 1942, sterkari, ef nokkuð er, heldur en þau voru þá, þegar þau voru borin fram. Það var ekki byrjuð 1942 í þeim mæli aldan gegn hlutfallskosningunum, sem núna er að hefjast í veröldinni. Um tíma voru margir með hlutfallskosningum, sem krossuðu sig síðar út af því, að þeir skyldu nokkurn tíma hafa verið með þeim, og sáu, hvaða óskaplega galla hlutfallskosningarnar hafa í för með sér, og fjöldi manna, sem var með hlutfallskosningum, hefur í ýmsum löndum snúizt algerlega gegn þeim. Ef nokkuð er, þá eru þessi rök, sem borin eru fram 1942 af þeim hv. þm., sem ég las hér ummælin eftir, enn þá sterkari í dag. Grundvöllurinn undir þeim er traustari í dag en hann var, þegar þau voru töluð.

Svo er í ofanálag, sem ég get ekki stillt mig um að minnast á, verið að bæta því við, að það sé nú bezt að fara gætilega með að tala um helgidóm þessara gömlu kjördæma, því að þau séu nefnilega upp fundin af þeim vonda sjálfum næstum því, þau séu upp fundin af Dönum til þess að koma hér á góðri skattheimtu. Og manni fer nú loks að skiljast, hvílíkt hneyksli það hefur verið að fá forseta Íslands bústað að Bessastöðum, þar sem hið alræmdasta, þetta gamla og alræmda vald Dana, var í mestum algleymingi, fyrst héruðin hafa vanhelgazt af því og sýslurnar, að þangað voru settir skattheimtumenn. En það er líklega misminni, að þessi þing, sem síðar voru kölluð sýslur, hafi verið til, áður en Danir komu hér við sögu. Það er eins og mig minni, að Hegranesþing, núverandi Skagafjarðarsýsla, væri til, eins og hún er nú, á tíma Grettis. Mig minnir, að hann kæmi þarna undir brekkurnar á Litlagarði, þar sem þingstaðurinn var, og ef ég man rétt, gerðist sú saga rétt fyrir og eftir árið 1000. Og það er eins og mig minni, að til væri Vaðlaþing og sögur gerðust þar, áður en Danir komu í héruðin. M.a. muna víst margir eftir því, að maður, sem hét Víga-Glúmur, átti erfitt að sækja þar upp brekkuna til þingstaðarins einu sinni, og gerðust sögulegir atburðir út af. Svona mætti halda áfram nokkuð lengi. Ég býst við, að þeim mönnum, sem bera þetta fram, þyki nú lítið til koma þeirrar þekkingar, sem ég og aðrir höfum á þessum málum eða teljum okkur hafa á þessum málum. En þessi ummæli, svo furðuleg sem þau eru, virðast hafa komið fram áður hér á Alþingi í sambandi við umr. um kjördæmamálið, a.m.k. er það bersýnilegt af ummælum fyrrv. þm. V-Sk., Gísla Sveinssonar, að honum hefur ekki líkað þessi speki. Hún hefur verið borin fram þá líka. Það sést af ummælunum, að honum hefur ekki líkað þessi speki, að Danir hafi búið hér til sýslurnar, þó að þeir hafi sett yfirvöld í gömlu þingin. Og hann segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Kjördæmin íslenzku eru ekki til orðin af neinni tilviljun, og er misskilningur að ætla, að þeim hafi verið kúgað upp á Íslendinga af erlendu valdi.“ Hér er hann að svara einhverjum spekingnum. „Þetta fyrirkomulag er rótfast frá byrjun stjórnarskipunar þessa lands og hefur haldizt ótrúlega vel. Það sýnir, að það hæfir oss bezt “

Ég held það sé bezt, að þeir spekingar, sem halda þessu fram, fari til Gísla Sveinssonar og ræði málið við hann.

Og þá eru hér ummæli jafnframt eftir Ásgeiri Ásgeirssyni forseta:

„Sýsluskiptingin hefur þróazt um þúsund ár, og það skal sterk rök til að raska þeim grundvelli, ef hægt er að finna aðra leið til jöfnunar á kosningarrétti manna, en að raska svo fornum grundvelli. Þessi héruð, sýslufélögin og bæjarfélögin, eru sjálfstæðar fjárhagseiningar, sem orðnar eru samvanar til starfa, og það verða ekki búin til með lögum önnur héruð, sem betur séu til þess fallin að vera kjördæmi.“

Ég býst við, að það sé erfitt satt að segja með sum héruðin, án þess að telja upp nokkuð sérstakt, að finna betri skiptingu, en okkar forfeður hafa fundið. Flestir vita hið sanna í þessu máli, og þetta er í sjálfu sér ekkert stóratriði. En ég hef talið rétt að minnast á það, vegna þess að það sýnir, hverrar tegundar málfærslan er í þessu máli, þegar gripið er til slíks sem þessa, að Danir hafi fundið upp sýsluskiptingu á Íslandi.

Það er þess vegna allt, sem mælir með því, að farin verði sú leið, sem við höfum stungið upp á, fyrst ekki fékkst að afgreiða málið á sérstöku stjórnlagaþingi, — að afgreiða málið þannig að fjölga á þeim stöðum, þar sem fjölmennið hefur aukizt, skapa þannig samræmi og réttlæti, en raska ekki hinni gömlu skipan. Fyrir því liggja sterk rök margra manna, og ég sé ekki, að þessi rök hafi verið hrakin.

Það er margt, sem komið hefur fram í þessu máli, sem ástæða er til að minnast á, en ég get þó ekki stillt mig um að minnast hér sérstaklega á eitt. Því er mjög haldið að bændum af sumum þessum alvitru embættismönnum, sem við eigum talsvert af í þessu landi, að vísu ekki mjög marga, að bændur skuli vara sig, bændum fari fækkandi ár frá ári og verði áhrifaminni með hverju ári og það sé um að gera að eiga umboðsmenn, vini og talsmenn í hópi hinna stóru flokka, — flokks, sem aðallega er flokkur kaupmangara, og hingað til hafa þeir ekki verið taldir fjölmenn stétt í landinu, svo að eitthvað hafa þeir annað sér til stuðnings, en fjölmenni. Á þennan hátt fái bændur margan molann og þannig vegni þeim bezt. Þetta er innihald boðskaparins. Hér er ívafið hótun til bænda, en uppistaðan er þrælslundin. Ég verð að játa, að lágkúrulegri hugsunarhátt og túlkun á því, hvernig bændur eigi að hugsa, hef ég ekki heyrt í langan tíma. Bugtaðu og fruktaðu fyrir höfðingjanum, sonur minn, sagði bóndanefnan við son sinn, þegar hann kom í kaupstaðinn forðum. Ég hélt, að þessi þrælslund væri ekki lengur til og menn væru a.m.k. hættir að halda fram í málfærslu, að hún sé heppilegasta leiðin fyrir bændur. Víst nokkurra bænda í Sjálfstfl. ætti að vera búin að kenna bændastéttinni nóg. Þessir bændur koma þar engu fram og eru hunzaðir í hverju máli. Sjáið, hvernig þeir voru notaðir til að takmarka lánsfé í ræktunarsjóð fyrr og síðar. Sjáið, hvernig þeir voru notaðir til þess að skera niður raforkuframkvæmdir. Hvar mundi þessi upptalning enda, ef ætti að halda henni áfram?

Þegar þessir menn hætta sem vistmenn hjá Sjálfstfl., held ég, að þeim væri sæmst að vera ekki að gera tilraun til þess að ginna aðra í bæli sitt.

Hið eina sanna er það, að vinnustéttirnar og ekki sízt bændur eiga þann mátt og þá aðstöðu, hvenær sem þeir vilja henni beita, að þeir þurfa ekki að skríða að markinu eða biðja um aðstoð frá kaupmangaraflokki í neinu máli. Vinnustéttirnar eru ekki til fyrir náð kaupmangara, en kaupmangarar eru til fyrir náð vinnustéttanna. Það er furðulegt, að enn skuli vera til bóndi, sem hefur tekið þátt í félagsmálum, en skilur þetta ekki.

Það getur vel verið, að það sé rétt, sem kemur fram í þessum ummælum, að reynt verði að níðast á bændum. En það er engin hætta á ferð til lengdar. Það skortir nefnilega getu til þess að níðast lengur á bændum eða öðrum vinnustéttum. Og þótt vinnustéttirnar séu sundraðar núna, getur það aldrei orðið til lengdar.

Það er alveg þýðingarlaust að vera að hóta bændum. Hótunin er máttvana. Hún sýnir viljann. Hún er minnkun fyrir þá, sem bera fram þessi rök, sem bera fram hótunina. Það er enginn efi á því, að bændur með samtakamætti sínum eiga nægan þrótt til þess að koma fram réttlátum málum, og fyrir þeim hafa þeir einatt barizt af sanngirni og réttsýni.

Allar líkur benda nú til þess, að frv. þríflokkanna verði samþ. Ég hef áður sýnt fram á, hver er meginorsök þess, að þessir þrír flokkar mega ekki heyra annað nefnt, en þessa lausn. Ekki er ég í neinum vafa um, að þetta er mikið óheillaspor fyrir þjóðina. Frv., ef að l. verður, er hliðstæð aðgerð fyrir sveitirnar og kauptúnin úti um land, fyrir kjördæmi sem verið er að leggja niður, eins og þegar Danir tóku sig til og smöluðu saman hér öllum vopnum til þess að eiga á eftir alls kostar við landsmenn. Vopn kjördæmanna úti um landið eru kjördæmin sjálf, sem nú á að afnema. Þau hafa verið vopn fólksins úti um landið. Allt er þetta gert af furðulegri skammsýni, því að þegar stöðvun framfara og velmegunar er hafin úti um landið, eins og stefnt er að nú þegar og enn fremur í þessu máli, þá mun það á sannast, að höfuðstaðnum Reykjavík vegnar verst. Velmegun Reykjavíkur síðustu árin og hin stöðuga atvinna stafar af því, að fólk hefur ekki flutzt að til að keppa um atvinnuna hér í Reykjavík. Og velmegunin úti um landið veldur því, að blómlegur iðnaður þrífst í Reykjavik og stærri bæjum. Sölumöguleikar eru stöðugir vegna kaupgetu og velmegunar alls landsfólksins. Ef þessi þróun er stöðvuð, kemur það hart niður á öllu landinu og einnig og ekki sízt á Reykjavík.

En skammsýnin hefur nú setzt í hásætið og virðist stýra í þessu máli. Það var fyrir þó allmörgum árum, að ýmsar þjóðir töldu hlutfallskosningar eðlilegar, þegar kosið væri til þings. Minni hlutans rödd yrði þá oftar heyrð. En ég held mér sé óhætt að fullyrða, að engin þjóð lætur sér nú til hugar koma að lögleiða hjá sér hlutfallskosningar, ef hún slapp við þær, þegar aldan með hlutfallskosningar gekk yfir. Þær sýndu sig fljótlega svo meingallaðar, að flestir telja þær eiga mestan þátt í að kollvarpa tveimur lýðveldum, Þýzkalandi og Frakklandi. Þar olli hlutfallskosningin svo mikilli flokkafjölgun, að mörgum tugum skipti á þingum beggja þessara landa og hvað eftir annað næstum ómögulegt og síðast ómögulegt að mynda stjórn. Loks skapaðist slíkur glundroði, að leiddi til algers og hálfgerðs einræðis. Og svo mikið er víst, að bæði ríkin hafa nú eftir endurreisnina látið það verða eitt sitt fyrsta verk að losa sig við hlutfallskosningarnar, Þýzkaland hefur blandað kerfi, en Frakkland hefur, eftir því sem ég bezt veit, þurrkað hlutfallskosningarnar út með öllu. Barátta hefur verið tekin upp fyrir einmenningskjördæmum í Írlandi, og eftir því sem maður sá í fréttum, vantaði eitt atkv. til þess, að þær væru nú þegar lögleiddar. Alls staðar virðist þróunin frá hlutfallskosningum, því að viðurkennt er, að lýðræði og þingræði standi traustustum fótum á þeim þjóðþingum, þar sem eru meirihlutakosningar, t.d. í Írlandi og Bretlandi. En hér gerir Jón P. Emils sér það til dundurs í hjáverkum að snúa heimsþróuninni við og fá fyrst sinn eigin flokk og síðan tvo flokka með honum til þess að berjast sameiginlega fyrir því að koma hér á þeirri skipan, sem menn hafa slæma reynslu af annars staðar og virðast vera að hverfa frá. Það er margt skrýtið á Íslandi.

Það er rétt að minnast á það hér, þó að það sé smávægilegt í sambandi við þetta mál, að ég var á ferðalagi fyrir á öðru ári og ók hér um stórbæ í nágrenninu. Það var þá verið að rífa upp götur, og ég spurði, hvað væri eiginlega um að vera í þessari gatnagerð, og tveir menn, sem voru með í bílnum og gagnkunnugir í borginni, sögðu mér, að það væri þessi hringakstur, — sbr. Miklatorg hér og fleiri torg, sem hafa verið byggð hér með hringakstri, —- því að það sýndi sig, að þessi hringaksturstorg byggju til slíka óleysandi hnúta alls staðar í umferðinni, að það væri verið að rífa þau öll upp og koma á annarri skipan. Þegar ég kom heim, var verið að byggja í mesta móð þessi hringaksturstorg hér. — Það er, eins og ég sagði, ósambærilegt við þetta stóra mál, en það er sambærilegt að því leyti, að það er farið álíka öfugt að. Og það er nú hætt við því, satt að segja, og þó að ég sé ekki spámaður, þá held ég, að mér sé óhætt að setja fram þann spádóm, að þessi lög, þessi kjördæmaskipun á áreiðanlega eftir að búa til umferðarhnúta hér í íslenzkri pólitík, sem verða enn þá alvarlegri, en umferðarhnútarnir í götuumferðinni, þótt þeir geti verið hvimleiðir að sínu leyti.

Þetta mál mun reynast þjóðinni í samræmi við það, hvernig til þess er stofnað. Það er illa til málsins stofnað. Það á ekki að ráða stjórnarskipun einnar þjóðar, að flokkur er að deyja. Ég veit, að það er rétt, sem sagt er, að Jón P. Emils hafi sýnt Alþýðuflokksforustunni fram á, að ekkert kosningafyrirkomulag í heiminum nema hlutfallskosningar í stórum kjördæmum getur bjargað lífi flokksins, samningar um annað fyrirkomulag á kosningum væri að fremja flokkslegt sjálfsmorð. Ég veit, að það er hægt, ef þeir vilja það, að færa fram tölulega mjög sterk rök fyrir þessu.

Allir vita náttúrlega, að kommúnistar, sem þvinguðu það fram í Alþb. að ganga inn á þessa línu, gera þetta af einskærum áhuga fyrir lýðræðinu í landinu, það efast enginn um, að þeir mundu kjósa það helzt, sem er því mest til blessunar.

En Sjálfstfl. spilar þetta spil eins og kauphækkunarspilið, verkfallsmálið, landhelgismálið, róginn út af erlendum lánum, hann spilar glæfraspil nú með stjórnskipun landsins.

Þannig standa hinir 3 flokkar að málinu. Þeir eiga ekki sameiginlegt að vilja lögleiða sem heilbrigðasta stjórnarskrá. Hver flokkur gengur að þessu verki út frá þröngu flokkshagsmunalegu sjónarmiði án tillits til þjóðarheildar: Alþfl. til þess að geta lifað, kommúnistaflokkurinn í sannleika sagt til að fá kjördæmaskipun, sem er eitruðust fyrir lýðræðið, og Sjálfstfl. í von um að geta náð meiri hl. með einhverju flokksbroti frá öðrum, og sjá vist flestir, hvaða flokksbrot það er. Þetta er spekúlasjónin, sem er í sambandi við þessa breytingu, og það eru ekki skemmtileg öfl, sem standa að þessu máli.

Ég held mér sé óhætt að segja, að það hefði verið ólíkt, ef það hefðu verið kosnir einhverjir menn, eins og við stungum upp á framsóknarmenn, sem lausastir eru við öll flokkssjónarmið, til þess að setjast á rökstóla og án tillits til flokka og til allra annarra mála leysa þetta mál, eins og þeir álitu réttast að áliti vitrustu og beztu manna. Það hefði verið ólíkur grundvöllur undir stjórnskipunarlög þessarar þjóðar.

Ég held, að fátt gott muni upp af þessu vaxa. Eins og ég sagði áðan, ég er enginn spámaður, elns og mér sjálfum er ljóst og allir aðrir vita, en ég ætla að leyfa mér að halda því fram, — það sést þá seinna, hvað ég hef verið fávís í þessu máli, — að þeir, sem berjast fyrir þessu máli nú, munu sumir verða óðfúsastir að afnema það og koma á annarri skipan.