04.05.1959
Efri deild: 112. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1578 í B-deild Alþingistíðinda. (1234)

144. mál, stjórnarskipunarlög

Karl Kristjánsson:

Herra forseti. Fyrri hl. ræðu hv. þm. N-Ísf. (SB) var sögulegt erindi, og hann sagði réttilega, að menn ættu að læra af sögunni. En hvernig dró hann sjálfur lærdóm af sögunni? Ég vil aðeins nefna um það dæmi.

Hann sagði frá því, að flokkar á Íslandi hafa komið og farið. En niðurstaða hans varð þó, að miða ætti stjórnarskrárákvæði það, sem hér er til umr., við flokka, þessa flokka, sem koma og fara. Hann var í því efni eins og siglingamaður, sem telur rétt að taka mið á ský. Ef stjórnarskráin er samin með tilliti til flokka; þá er verið að miða við ský.

Hann sagði frá því, að mætir menn fyrir hálfri öld hefðu talið hlutfallskosningafyrirkomulagið heppilegt og æskilegt fyrirkomulag. Og hann benti á þjóðir, sem hefðu það fyrirkomulag. En hann lét vera að benda á nokkra einustu þjóð, sem tekið hefði upp hlutfallskosningar á seinni árum, og hann hljóp yfir það þar af leiðandi, að Frakkar hafa gefizt upp á hlutfallskosningafyrirkomulaginu og tekið upp einmenningskjördæmakosningar með meirihlutakjöri. Og hann gat þess ekki, að Írar eru komnir é fremsta hlunn með að leggja niður hlutfallskosningarnar.

Hann virtist ganga aftur á bak til þess að læra af sögunni. Málstaður hans þolir sem sé ekki ljós hennar og lærdóma. Málstaðurinn og þeir, sem honum fylgja, eru í raun og veru með hlutskipti nátttröllsins í þessum málum, nátttröllsins, sem hann líka talar um.

Hann nefndi það, að Jónas Jónsson hefði, áður fyrr, látið í ljós, að hann aðhylltist hlutfallskosningar. Ég heyrði frambjóðanda Sjálfstfl. í Suður-Þingeyjarsýslu, Júlíus Havsteen, á framboðsfundi fyrir 15 árum bera þetta á Jónas Jónsson, þegar kosningafyrirkomulag var til umr. Jónas Jónsson viðurkenndi, að þetta væri alveg rétt, en sagði, að reynslan af hlutfallskosningum hefði kennt sér, að sú skoðun sín hefði verið röng. Lítill efi er á því, að slíka skýringu mundu hinir látnu ágætismenn, er hv. þm. N-Ísf. nefndi, vilja gefa, ef þeir mættu nú mæla, því að þannig fer, þegar menn læra af sögunni.

Annars finnst mér rétt í þessu máli að gera lítils háttar söguyfirlit líka, yfirlit um það, hvernig þetta stjórnarskrármál okkar hefur þróazt, hvernig að því hefur verið unnið og hvernig að því var áformað að vinna, þegar lýðveldið var stofnað.

Vorið 1942, þegar Alþ. hafði ákveðið að gera ráðstafanir til þess, að þjóðin sliti konungssambandi við Dani og endurreisti lýðveldi á Íslandi, var af því tilefni skipuð skv. ályktun þingsins 5 manna n. til þess að gera till. um breyt. á stjórnarskrá þeirri, sem gilt hafði fyrir konungsríkið Ísland. Haustið 1942 var n. endurskipuð og bætt í hana þrem mönnum, svo að í henni skyldu eiga sæti 2 fulltrúar frá hverjum þeirra fjögurra stjórnmálaflokka, er fulltrúa áttu á Alþingi. Nefndin var þá 8 manna nefnd.

Árið 1943 skilaði n. þessi frumvarpi til stjórnskipunarlaga fyrir hið væntanlega lýðveldi. Frv. fylgdi að sjálfsögðu grg. Frv. þetta samþ. Alþ. 8. marz 1944 og síðan þjóðin með almennri atkvgr. Á grundvelli þeirrar stjórnarskrár var lýðveldi stofnað á Íslandi 17. júní 1944.

Telja mátti, að þjóðin stæði sem einn maður að vilja slíta sambandi við Dani og stofna lýðveldi. En til þess að ekki rofnaði sú eining, fannst leiðtogum þá nauðsynlegt að fara varlega í því að breyta stjskr. meira að því sinni, en óhjákvæmilegt var, til þess að konungdæmið yrði formlega lýðveldi, réttara að láta það, sem ágreiningi gat valdið, bíða þar til síðar. Hin nýju stjórnskipunarlög voru lögð undir atkv. með þeim fyrirvara í ræðum og ritum, að þau væru bráðabirgðastjórnarskrá, sem yrði haldið áfram að endurskoða. Nefndin, sem stjórnarskrárfrv. samdi, segir í grg. sinni, að hún hafi aðeins lokið fyrri hluta þess verkefnis, er henni hafi verið falið. En seinni hlutann af verkefninu kveðst hún eiga eftir. Hún segir undir lok nál., með leyfi hæstv. forseta:

„Samkvæmt endursamþykkt þál. um skipun mþn. í stjórnarskrármálinu, er gerð var hinn 8. sept. 1942, skilar n. með þessu stjskrfrv. og grg. fyrri hluta þess verkefnis, er henni var falið, en mun áfram vinna að seinni hluta verkefnisins, sem sé að undirbúa aðrar breytingar á stjórnskipulaginu, er þurfa þykir og gera verður á venjulegan hátt. Má ætla, að það starf verði öllu víðtækara og þurfi þar til að afla ýmissa gagna, er nú liggja eigi fyrir, svo og að gaumgæfa reynslu þá, er lýðræðisþjóðir heimsins óefað öðlast í þessum efnum á þeim tímum, sem nú líða yfir mannkynið. Þangað til því verki yrði lokið, ætti sú stjórnarskrá, sem hér er lögð fram, að nægja, enda eru ákvæði hennar mestmegnis þau, er nú gilda í stjórnskipunarlögum hins íslenzka ríkis, að breyttu hinu æðsta stjórnarformi frá konungdómi til lýðveldis“ o.s.frv.

Grg. eða nál., sem ég les þetta upp úr, er dags. 7. apríl 1943. Hana undirskrifuðu allir 8 nm., en þeir voru Gísli Sveinsson, formaður, Stefán Jóh. Stefánsson, ritari, Hermann Jónasson, Bjarni Benediktsson, Jónas Jónsson, Haraldur Guðmundsson, Einar Olgeirsson, Áki Jakobsson.

Þannig voru fyrirheitin og áformin, þegar enn gildandi stjórnarskrá var sett. Í n. var valið lið, sem líklegt mátti telja að léti athafnir fylgja orðum.

Nú líða stundir fram og ekkert virðist bera til tíðinda í máli þessu, þar til 3. marz 1945. Þá gerir Alþ. ráðstafanir til þess, að skipuð verði 12 manna nefnd til ráðuneytis og aðstoðar 8 manna n. Hefur þá þingið sett fram 20 manna sveit til þess að ljúka seinni hluta endurskoðunarinnar. Enn fremur heimilaði þingið þessum 20 mönnum að ráða sérfræðing í þjónustu sína.

Tvö ár líða enn, og ekkert fréttist um till. frá tveggja tuga nefndinni. Hinn 24. marz 1947 virðist sem Alþingi hafi verið orðið vonlaust um árangur af erfiði hinnar fjölmennu sveitar. Þá tekur það af henni umboðið, en hvorki til þess að taka málíð í sínar hendur né gefast upp við skipun nefnda. Samtímis umboðssviptingunni 24. marz felur Alþingi ríkisstj. að skipa 7 manna nefnd til þess að endurskoða stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, eins og þar er komizt að orði. Tekið er fram, að stjórnmálaflokkarnir 4 skuli tilnefna sinn manninn hver, en 3 mennirnir verði skipaðir án tilnefningar og einn þeirra formaður.

Hinn 14. nóv. sama ár var sú n. sett á laggir, og urðu í henni þrír sjálfstæðismenn, tveir framsóknarmenn, einn Alþýðuflokksmaður og einn sósfalisti. Þessi n. situr enn eftir meira en áratug án þess að hafa skilað till. til Alþ.

Hv. þm. N-Ísf. minntist á ástæðurnar fyrir þessu, gaf á þeim sínar skýringar. Ég mun koma að því seinna og gera grein fyrir því, hvernig málefni hafa til gengið hjá nefndinni.

Nefndarskipanirnar sýna, að Alþingi viðurkennir, að stjórnarskránni á að breyta. Alla tíð síðan lýðveldið var stofnað hefur þingið ekki látið niður falla að hafa n. til að vinna að endurskoðun stjórnarskrárinnar, en að öðru leyti vikið sér undan að taka á málinu, þar til nú þrír flokkar hlaupa til vegna hentisemi, hugsa sér að breyta einu atriði stjórnarskrárinnar og miða þær breytingar við flokka, eins og hv. þm. N-Ísf. telur rétt:

9. jan.1952 lagði ég fram á Alþ. fsp. til ríkisstjórnarinnar um, hvað liði störfum stjskrn. 16. s. m. svaraði forsrh., Steingrímur Steinþórsson, f. h. ríkisstj. fsp. og byggði svörin á upplýsingum frá Bjarna Benediktssyni þáv. dómsmrh., sem var og er formaður n. og hefur verið í öllum þeim n., sem skipaðar hafa verið og ég hef áður sagt frá. Aðalatriði svaranna var, að n. hefði ekki getað starfað, af því að stjórnmálaflokkarnir hefðu sjálfir ekki markað sér afstöðu í stjórnarskrármálinu. Hins vegar hefði formaðurinn í hyggju að kveðja n. saman og freista, hvort ekki sé einhver grundvöllur til staðar innan n. til að koma fram með ákveðnar till. frá flokkum þeim, sem nm. hafa umboð fyrir, svo að hægt sé að taka þetta mál fastari tökum og vita nú, hvort hægt sé að skila áliti frá nefndinni.

Enginn vafi er á því, að svörin voru sannleikanum samkvæm, eins og þá stóðu sakir. Við lýðveldisstofnunina sneiddu stjórnmálaflokkarnir, eins og ég gat um áðan, hjá því að taka upp nokkuð það, sem ágreiningi gæti valdið þeirra á milli og truflaði þjóðareininguna, gerðu á stjórnarskránni þær breytingar einar, sem þurfa þótti til þess að breyta hinu æðsta stjórnarformi frá konungdómi til lýðveldis, eins og n. orðaði það, fyrsta nefndin.

Eins og gert var ráð fyrir í svörum ríkisstj. við fsp. minni, kvaddi formaður n. hana til funda á árinu 1952, og einn fundur var haldinn í n. rétt eftir áramótin 1953. Seint á árinu 1952 lögðu sjálfstæðismennirnir, þeir voru þrír í n., fram till. sem umræðugrundvöll, eins og þeir orðuðu það innan n. Bjarni Benediktsson, dómsmrh, þáverandi, formaðurinn, gerði grein fyrir þessum till. í ýtarlegri ræðu, sem birt var í Morgunblaðinu 24. jan.1953.

Mér virðist augljóst af sögu stjórnarskrármálsins, sem ég hef í fáum dráttum lýst hér að framan, að Alþingi, eins og það er flokkum skipað, hafi ekki fullkomin skilyrði til þess að leysa stjórnarskrármálið svo sem vera ber, og sönnun um það eru till. þær, sem fyrir liggja, frv., sem hér er til umr. Táknrænt er einnig, að sjálfstæðisþingmennirnir þrír innan stjórnarskrárnefndarinnar voru ekki einu sinni allir sammála um meginatriði till. sinna. Þeir lögðu til annaðhvort einmenningskjördæmi eða hlutfallskosningar í stórum kjördæmum, tveir þeirra töldu sig fylgjandi einmenningskjördæmum, einn fylgjandi hlutfallskosningafyrirkomulaginu.

Samningar milli stjórnmálaflokkanna á Alþingi, heilla eða í brotum, vilja leiða til of mikillar hentisemi, niðurstöðu, sem miðuð er við flokkslegan stundarhagnað, við flokka, eins og hv. þm. N-Ísf. lagði áherzlu á að frv. væri, og með slíkum hætti má ekki setja stjórnarskrá. Á það benti hv. 1. þm. N-M. (PZ) mjög skýrt áðan og færði rök fyrir.

Lengra skal litið til baka og athugaðar breytingar, sem gerðar voru á stjórnarskrá Íslands 1933, þegar uppbótarþingsæti voru upp tekin, og 1942, þegar hlutfallskosningar í tvímenningskjördæmum voru upp teknar, sem að vísu, eins og hv. þm. N-Ísf. benti á, hafa ekki verið fordæmdar af okkur sérstaklega við þessar umr., en eingöngu af því, að við gerum okkar till. til samkomulags og tökum ekki inn í þær annað en það, sem við teljum mjög sanngjarnt og eðlilegt að þríflokkarnir fallist á. Við vitum, að það er ekki til neins að tala um í því sambandi til samkomulags afnám hlutfallskosninga í tvímenningskjördæmum. En þarna, við þessar breyt. báðar 1933 og 1942, er augljóst, að augnablikshentisemi, miðuð við flokka, var upp á teningnum, flokka, sem þá áttu samleið, réð öllum aðgerðum. En við setningu stjórnarskrár á að hafa hærri sjónarmið.

Svo vildi til, að stjórn Framsfl. fór þess á leit við mig sumarið 1952, að ég tæki sæti í stjórnarskrárnefndinni í stað manns, sem hætti þar störfum 1952. Ég taldi mig ekki geta vikizt undan þessu, af því að ég hafði haft nokkurn áhuga fyrir endurskoðun stjórnarskrárinnar og m.a. tekið þátt í samtökum Norðlendinga og Austfirðinga, sem höfðu það mál á dagskrá sinni og ég mun síðar við umr. málsins hér gera nokkra grein fyrir, hvað lögðu til. Ég mun gera grein fyrir því af því, að það hefur mjög verið afflutt í blöðum og einnig við umr. í Nd., en ég ætla ekki að gera það við þessa 1. umr. hér.

Á fundi þeim, sem haldinn var í n. eftir nýárið 1953, lagði ég fram til umr. till. ásamt stuttri grg. Till. var lítils háttar rædd, en ekki hefur enn verið tekin afstaða til hennar af n. frekar en tillagna sjálfstæðismanna, sem þeir lögðu fram litlu áður, eins og ég gat um. Ég tel rétt að lesa hér þessa till. og grg., sem henni fylgdi, en hún er á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi sjálft geri þá breytingu eina á stjórnarskránni, að sérstakt stjórnlagaþing, skipað 52 fulltrúum, skuli endurskoða núgildandi stjórnarskrá Íslands og setja lýðveldinu nýja stjórnarskrá. Kosningar til stjórnlagaþings verði á árinu 1956.“ Ég skýt því hér inn í til skýringar, að þessi till. er lögð fram 1953. Þess vegna er miðað við árið 1956. „Kosningar til stjórnlagaþings verði á árinu 1956. Kosningarnar fari fram eftir ákvæðum stjórnarskrár og gildandi lögum um kosningar til Alþingis. Stjórnmálaflokkar, sem fulltrúa eiga á Alþingi eða hafa haft fulltrúa í kjöri til Alþingis, megi ekki bjóða menn fram til stjórnlagaþings. Samtök frambjóðenda til stjórnlagaþings geti borið fram landslista og fengið sæti eftir sömu reglum og nú gilda um flokka, sem bjóða fram við kosningar til Alþingis, fengið uppbótarsæti. Stjórnlagaþingið starfi samkvæmt reglum Alþingis, eftir því sem við verður komið. Stjórnlagaþingið ljúki störfum eigi siðar en 1958.“

En grg. var svo hljóðandi:

„1. Till. er byggð á þeirri skoðun, að Alþingi, sem fulltrúar eru kosnir til vegna margháttaðra verkefna, sé ekki líklegt til að ráða setningu stjórnarskrár jafn giftusamlega til lykta og stjórnlagaþing, sem eftir ýtarlegar umr. stjórnarskrármálsins í blöðum og á mannfundum væri sérstaklega til þess eina verkefnis kosið, enda hefur Alþingi beint og óbeint vikið sér undan að taka á málinu í nálega áratug.

2. Till. gerir ráð fyrir, að þjóðin fái þriggja ára tíma til þess að ræða stjórnarskrármálið og undirbúa val sitt á fulltrúum til stjórnlagaþingsins 1956.

3. Lagt er til, að jafnmargir menn eigi sæti á stjórnlagaþinginu og nú eiga sæti á Alþingi, kosnir í sömu kjördæmum og samkvæmt sömu reglum og alþm. Er með því núgildandi venjum haldið, engum mönnum, er haft hafa samstöðu um kosningar til Alþingis, gert hærra undir höfði við þessar kosningar, heldur en við hinar.

4. Lagt er til, að þeir stjórnmálaflokkar, sem fulltrúa eiga á Alþingi eða haft hafa menn í kjöri við alþingiskosningar, megi ekki bjóða fram til stjórnlagaþings. Er það ákvæði réttmætt og nauðsynlegt, til þess að þjóðin fái tækifæri til að losa stjórnarskrármálið úr fléttu við önnur málefni, sem flokkarnir hafa með höndum, en ekki koma stjórnarskrá sérstaklega við. Flokkaskiptingu þjóðarinnar um kosningar til Alþingis er ekki þar með raskað.

5. Bandalag frambjóðenda, sem þjóðin, eftir að hafa rætt stjórnarskrármálið eitt í þrjú ár, hefur valið til framboðs við stjórnlagaþingskosningar, geti haft landslista í kjöri og hlotið uppbótarþingsæti. Þannig notist jöfnunarregla gildandi laga.

6. Það er meginstefna till., að þjóðin fái sem bezt ráðrúm og aðstöðu til þess að gera sér grein fyrir því, hvernig hún vill hafa lýðveldisstjórnarskrá sína til frambúðar og hverjum hún vill síðan fela umboð til þess að ganga frá setningu hennar út af fyrir sig.“

Oft á undanförnum árum hefur verið rætt í blöðum og á mannfundum um þá tilhögun að afgr. endurskoðun stjórnarskrárinnar á sérstöku stjórnlagaþingi, sem kosið væri til þess eins verkefnis. Margir hafa lýst fylgi við þessar till. Jafnvel Sjálfstfl. á landsfundi sínum 1953, næsta fundi eftir að ég lagði till. fram, lýsti yfir, að hann teldi þessa aðferð geta vel komið til greina.

Nú er það nýmæli till. frá því, sem hefur verulega verið rætt, að kosið verði til stjórnlagaþingsins eftir lögunum um kosningar til Alþingis og 52 menn eins og til Alþingis. Með þeirri tilhögun getur enginn sagt að öðrum sé mismunað, frekar en þá við kosningarnar til Alþingis. Ágreiningur milli þeirra, sem annars geta fallizt á stjórnlagaþing, ætti með þessu kosningafyrirkomulagi að falla niður.

Þá er í till. gert ráð fyrir þriggja ára tíma fyrir þjóðina til umr. um stjórnarskrárbreytingarnar og undirbúnings fulltrúavali og tveggja ára ráðrúmstíma fyrir stjórnlagaþingið, sem að sjálfsögðu þarf að koma saman oftar, en einu sinni. Helzt ætti stjórnlagaþingið að starfa á Þingvöllum, hefur mönnum fundizt, sem að þessari till. hafa staðið.

Í till. minni, og það hafa sumir tekið illa upp, er ætlazt til, að hinir pólitísku flokkar, sem Alþingi skipa, megi ekki bjóða fram til stjórnlagaþingsins. Ég lagði ekki þetta til af því, að ég teldi, að flokkaskipunin megi ekki eiga sér stað, eða sökum þess, að ég telji núverandi stjórnmálaflokka ekki hafa sitt hvað sér til ágætis, þótt misjafnt sé og ekki mikið hjá öllum þeirra. Ég lagði þetta til vegna þess, að ég var trúlaus á, að núverandi fjórir minnihlutaflokkar gætu leyst málið á eðlilegan og hamingjusamlegan hátt. Þeir hafa orðið til vegna allt annarra viðfangsefna, samningar og deilur um dægurmálin verið þeirra stöðuga viðfangsefni, sem alls ekki má blanda saman við niðurstöður í stjórnarskrármálinu.

Ég tel og taldi við eiga, að um stjórnarskrármálið mynduðust sérstakir flokkar, ef þjóðareining fengist ekki, flokkar, sem aðeins væru byggðir upp og yrðu til vegna skoðanamunar á sjálfu stjórnarskrármálinu.

Samkvæmt till. er ætlazt til, að þjóðinni sé gefið tækifæri til þess að skipa sér í aðra flokka um stjórnarskrármálið og taka það algerlega í sínar hendur, og nú virðist mér eftir því frv., sem fram hefur komið, að rökin fyrir þessari till. hafi verið rétt og séu enn fyrir hendi.

Nú tel ég við eiga, úr því að ég hef hér skýrt frá og lesið till. þá, sem ég lagði fram í stjórnarskrárnefndinni 1953, að lesa líka aðrar þær till., er þar komu fram, en þær voru frá sjálfstæðismönnunum í n., eins og ég gat um áðan. Bæði mín till. og tillögur sjálfstæðismanna voru á fyrsta stigi lagðar fram sem umræðugrundvöllur og einnig á fyrsta stigl jafnvel sem trúnaðarmál innan n. Hins vegar urðu till. alls ekkert leyndarmál n., eftir að hlutaðeigendur birtu þær í blöðum. Bjarni Benediktsson lagði till. sjálfstæðismanna fyrir fund í landsmálafélaginu Verði, og Morgunblaðið birti ræðu hans 24. jan.1953, og þar kom fram hver einstakur liður tillagnanna með munnlegri grg. frá ræðumanninum. Ég vil með því að lesa hér till. sjálfstæðismanna sanna, að viðurkennt var, að verkefnið, sem fyrir lá, var meira en endurskoðun kjördæmaskipunarinnar, og þess vegna er það frv., sem hér liggur fyrir, aðeins káf í það, sem ákveðið var að gera með nefndarskipununum, öllum þeim nefndarskipunum, sem ég greindi frá, að Alþ. ýmist skipaði eða gerði ráðstafanir til, að skipaðar væru. Og þetta á öllum þeim, sem að þessum málum hafa unnið, að vera mjög vel ljóst, ekki sízt þeim mönnum, sem hafa verið í n. öllum saman, eins og t.d. Bjarni Benediktsson og Einar Olgeirsson.

Ég hef hér fyrir framan mig það blað, sem ég fékk í hendur sem nm., þegar sjálfstæðismennirnir lögðu fram till. sínar í n. rétt fyrir árslokin 1952, og ætla nú að lesa það, með leyfi hæstv. forseta. Fyrirsögnin er:

„Tillögur í stjórnarskrármálinu frá Bjarna Benediktssyni, Gunnari Thoroddsen og Jóhanni Hafstein.

Eftirtaldar breytingar verði gerðar á núgildandi stjórnarskrá:

1. 5. gr. stjórnarskrárinnar verði breytt svo, að ef ekkert forsetæfni fær hreinan meiri hluta við þjóðarkjör, skal kjósa að nýju milli þeirra tveggja, sem flest fá atkvæði.

2. 8. gr. stjórnarskrárinnar skal breytt svo, að annaðhvort forseti hæstaréttar eða forseti sameinaðs Alþingis verði einn varaforseti.

3. 14. gr. stjórnarskrárinnar sé breytt svo, að hæstiréttur dæmi í stað landsdóms þau mál, er Alþ. höfðar gegn ráðherrum fyrir embættisrekstur þeirra, og verði sett um það sérstök lög.

4. 15. gr. sé breytt svo, að berum orðum sé tekið fram, að forseti skipi ráðh. og veiti þeim lausn í samráði við meiri hl. Alþingis. Ef ekki er unnt að skipa nýja ríkisstj., er njóti nægilegs þingstuðnings, þ.e.a.s. hafi beinan stuðning eða hlutleysi Alþingis, innan mánaðar frá því, að fyrri stjórn fékk lausn, skal Alþingi rofið. Ræður þá forseti. hvort gamla stjórnin skuli sitja, ef hún fæst til þess, eða hvort skipa skuli nýja ríkisstj. án atbeina Alþingis. Geti meiri hluti Alþingis ekki komið sér saman um ríkisstj. að afstöðnum kosningum innan mánaðar frá því, að það kom saman, skal forseti Íslands skipa stjórn án atbeina Alþingis, ef hann hefur ekki þegar áður gert það, en sú stjórn skal jafnskjótt láta af völdum, ef meiri hluti Alþingis vill styðja aðra stjórn.

5. 26. gr. stjórnarskrárinnar verði breytt svo, að nægilegt sé að leggja lagafrv. til staðfestingar fyrir forseta innan fjögurra vikna frá því, að það var samþ. á Alþingi, og að niður falli þau ákvæði, að lagafrv. fái í bili lagagildi þrátt fyrir synjun forseta á staðfestingu frv., þ.e.a.s. synjun forseta á staðfestingu frv. fresti gildi þess, þangað til það er samþykkt af meiri hl. við þjóðaratkvæðagreiðslu. Fái það ekki slíkan meiri hl., fær það ekki gildi.

6. Kosningarréttur sé svo jafn sem þjóðarhagir og staðhættir leyfa. Enginn landshluti hafi færri þm. en hann nú hefur, en þm. verði fjölgað á hinum fjölmennari stöðum, eftir því sem samkomulag getur fengizt um við heildarlausn málsins, þó svo, að fjölgun þar nemi ekki færri þm. en tölu núverandi uppbótarþingmanna, og verði tölu þeirra, 11, skipt niður á fjölmennustu staðina, eftir því sem útreikningar nú sýna, að þeim beri.

Stjórnarskráin heimili almenna löggjafanum að endurskoða kjördæmaskipunina á hæfilegum fresti, þannig að tryggt verði í framtiðinni svipað hlutfall milli fjölda fulltrúa fjölbýlis og strjálbýlis og hér er gert ráð fyrir. Kosningafyrirkomulagið verði hið sama um land allt, þ.e. annaðhvort alls staðar einmenningskjördæmi eða stærri kjördæmi, þar sem 4–6 menn verði kosnir í hverju með hlutfallskosningum.

Gunnar Thoroddsen tekur fram, að hann er andvígur einmenningskjördæmum.

7. Athugandi er til samkomulags, ef aðrir leggja á það áherzlu, að ákvæðið um deildaskiptingu Alþ. í 32. gr. falli niður, og verði þá öðrum ákvæðum stjórnarskrárinnar breytt til samræmis við það, enda sitji þing þá óskipt.

8. Í stað fimm ára búsetu sem skilyrði fyrir kosningarrétti komi eins árs búseta.

9. Ákvæðum 35. gr. stjórnarskrárinnar verði breytt svo, að 1. október verði reglulegur samkomudagur Alþingís.

10. 41. gr. stjórnarskrárinnar breytist á þann veg, að ekkert gjald má greiða af hendi, nema heimild sé til þess í fjárl. eða ef öll ríkisstj. verður sammála um, að brýn nauðsyn sé til greiðslu, og skal þá eftir á afla heimildarinnar með fjáraukalögum.

11. Við 42. gr. bætist fyrirmæli um, að Alþingi geti ekki átt frumkvæði að hækkun fjárlaga, heldur verði tillögur um það að koma frá ríkisstj.

12. 46. gr. stjórnarskrárinnar breytist svo að hæstiréttur skeri úr um kjörgengi þm. og lögmæti kosninga.

13. 58. gr. stjórnarskrárinnar breytist svo, að Alþingi setji sér sjálft þingsköp, þ.e. þau séu ekki sett með lögum, eins og nú er.

14. Aftan við 59. gr. stjórnarskrárinnar bætist við fyrirmæli um, að æðsti dómstóll skuli vera hæstiréttur, skipaður fimm mönnum.

15. 61. gr. stjórnarskrárinnar breytist svo, að aldurstakmark hæstaréttardómara verði 70 ár.

16. Athugað sé, að stjórnarskráin ákveði, að ákæruvaldið sé í höndum opinbers ákæranda, er hafi svipaða stöðu og hæstaréttardómari.

17. Inn í 7. kafla stjórnarskrárinnar verði bætt þeim mannréttindaákvæðum, sem eru í mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna og samningi Evrópuráðsins um mannréttindi og frelsi, að svo miklu leyti sem þau eiga við hér á landi og þau eru ekki þegar ákveðin í stjórnarskránni. Orðalagi fyrirmælanna þarf að breyta, eftir því sem við á um stjórnarskrárákvæði, og hvergi skal veita minni vernd en nú er veitt. Þar kemur einkum til greina eignarréttarákvæði, sem er veikara í mannréttindaskránni og samningnum, en í íslenzku stjórnarskránni. Þar ber að halda fast í hina auknu réttarvernd íslenzku fyrirmælanna.

18. 76. gr. stjórnarskrárinnar skal breytt á þá leið, að sagt sé, að rétti héraða og sveitarfélaga til að ráða sjálf málefnum sínum með umsjón stjórnarinnar skuli skipað með lögum, enda sé að því stefnt, að þau fái sem víðtækasta sjálfstjórn í þeim málum, er þau sjálf standa fjárhagslega straum af.

19. Athugað sé, hvort þá aðferð eigi að hafa við stjórnarskrárbreytingar, að eftir samþykkt tveggja þinga með kosningum á milli verði frv. lagt undir þjóðaratkvæði.

20. Um þjóðfund verði ekki tekin endanleg ákvörðun, fyrr en sýnt er, hvort samkomulag verður um fram komnar till. Að svo stöddu verði þess vegna ráðgert, að stjórnarskrárbreytingin verði gerð með venjulegum hætti.“

Þá hef ég lesið það tillöguskjal, sem sjálfstæðismennirnir í stjórnarskrárnefnd lögðu fram og enn bíður þar óafgreitt.

Þessi tuttugu liða skrá sýnir fyrst, að þeir, sem nú leggja fram einhæfar till. til breyt. á stjórnarskránni, þ.e. sjálfstæðismennirnir, töldu, að jafnvel tuttugu sinnum fleiri efnisatriðum væri rétt að breyta 1952, enda vafalaust, að svo mun vera, og koma þar til athugunar bæði þau atriði, sem sjálfstæðismennirnir nefndu, og mörg fleiri. Ég get nefnt til dæmis þingrofsvaldið, sem mörgum finnst fullkomin ástæða til þess að breytt sé ákvæðum um.

Í öðru lagi sýna tillögurnar, að sjálfstæðismenn báru kápuna á báðum öxlum í kjördæmamálinu. Tveir töldu einmenningskjördæmin það, sem koma ætti. Einn vildi hlutfallskosningar. Ekki var gott að vita þá, hvað Sjálfstfl. vildi. Við töldum sumir, að þetta væri gert til þess að hafa vaðið fyrir neðan sig, svona í líkingu við hyggindi Loka Laufeyjarsonar, þegar hann var við Fránangursfoss og gerði hús sitt þannig, að dyr voru til allra átta, til þess að hann gæti komizt út, hvaðan sem að honum væri komið.

Og í þriðja lagi er svo greinilegt af tillögunum, að sjálfstæðismennirnir vilja ekki hafna till. um þjóðfund, þ.e. stjórnlagaþing, nema samkomulag fáist um till. þeirra. Þeir telja, að fyrst eigi að athuga það, hvort ekki fáist samkomulag um þeirra till., og síðan taka afstöðu til stjórnlagaþings. Og á næsta landsfundi sinum samþykktu þeir, eins og ég gat um áðan, ályktun, sem bar það með sér, að þeir töldu jafnvel jöfnum höndum geta komið til greina að afgreiða stjórnarskrárbreytinguna á Alþ. og á stjórnlagaþinginu.

Bjarni Benediktsson, formaður n. og mikill áhrifamaður að því er snertir það frv., sem hér liggur fyrir nú, sagði opinberlega um svipað leyti og ég flutti mína till., að það væri svo, að sér fyndist aðlaðandi hugmynd að setja stjórnarskrána á þjóðfundi, — sagði, að sér fyndist það aðlaðandi hugmynd.

Stjórnarskrárnefndin hefur ekki haldið fund síðan stuttu eftir nýár 1953. Á næsta fundi áður höfðu sjálfstæðismennirnir lagt fram sínar till., eins og ég gat um. Á síðasta fundinum lagði ég fram mínar till., — og síðan ekki söguna meir innan nefndarinnar. Tillögurnar, sem áttu að verða umræðugrundvöllur í n., voru ekki ræddar að heitið gæti. Fundur hefur aldrei verið kallaður saman til þess að taka þær fyrir til ýtarlegra umræðna, hvað þá afgreiðslu.

Um þessar mundir er deilt allhart á formann n. fyrir að hafa ekki boðað n. til fundar í sex ár, eða þá a.m.k. slitið formlega störfum hennar og gefið út dánarvottorð hennar, en aftur á móti utan n. gerzt forgöngumaður að brtt., sem fela í sér stórkostlega byltingu á rétti fólks og vekja hatrammar deilur, eins og komið er á daginn og er ekki heldur undarlegt. Þessar ádeilur á formanninn tel ég réttmætar, þegar litið er á það, hvernig málin stóðu í stjórnarskrárnefndinni síðast, þegar hún hélt fund. Hins vegar telur formaðurinn fram ástæður sér til réttlætingar, og þær ástæður tíndi hv. þm. N-Ísf. (SB) að nokkru leyti fram í ræðu sinni áðan.

Formaðurinn, Bjarni Benediktsson, segir, að nm. hefðu getað beðið um fund í nefndinni, ef þeir hefðu viljað, og það er auðvitað rétt. En þetta hrekkur ekki til afsökunar formanninum, því að það var hann, sem fór fram með till. utan n. og lét ekki nefndarmennina sem slíka áður um það vita, a.m.k. ekki mig. Vafalaust ætlaðist Alþ. ekki til þess, að nm. gerðu slíkt, þegar það gerði ráðstafanir til, að n. væri skipuð. Enginn getur lesið það út úr ályktun þeirri, sem þá var samþykkt á Alþ. Ég bað ekki um fund í n.. af því að ég hafði þar lagt fram mínar till. og taldi ekki ástæðu til að breyta afstöðu minni. Ég hafði allt aðra skoðun á formanninum en þá, að ég gerði ráð fyrir, að hann færi fram hjá n. með afgreiðslu málsins, svo sem þó er komið á daginn, eins og hvirfilbylur upp úr væru logni.

Þá hef ég heyrt formanninn segja, að n. hafi orðið óstarfhæf af því, að einn maður sagði sig úr henni. Það er vitanlega mjög ómerkilegur og ónýtur fyrirsláttur. Það hefði að sjálfsögðu verið hægt að kveðja mann í sæti hans, ef eftir hefði verið kallað, enda voru sex menn eftir í nefndinni.

Enn hef ég séð formanninn halda því fram, að vinstristjórnarflokkarnir hafi ætlað að sameina sig um endurskoðun stjórnarskrárinnar, og það er rétt. Sú var ætlunin. En þar með er ekki sagt, að þeir hefðu farið með till. sínar fram hjá stjórnarskrárnefndinni. Ég fyrir mitt leyti hefði talið það rangt, og ég hefði talið skyldu mína að beina þeim þangað, gera formanninum aðvart. En þær till. urðu aldrei til.

Loks hefur sú fullyrðing heyrzt frá formanninum, að till. mín sem fulltrúa Framsfl. um stjórnlagaþing hafi verið um að ónýta starf n., og það á að vera ein afsökunin. Í þessu sambandi nægir til andmæla að minna á það, sem sjálfstæðismennirnir sögðu í till. sínum og ég las áðan: um þjóðfund verði ekki tekin endanleg ákvörðun, fyrr en sýnt er, hvort samkomulag verður um fram komnar tillögur.

En samkomulagsins var aldrei leitað, till. aðeins lagðar fram sem umræðugrundvöllur, en til ýtarlegra umræðna, hvað þá afgreiðslu, var aldrei stofnað. Hér hefur því verið allt öðruvísi á haldið en Alþ. ætlaðist til. Og þetta frv., sem nú liggur fyrir, er ekki afsprengur þeirrar gaumgæfni og gerhygli, sem átti að stofna til með skipun nefndanna, einnar fram af annarri. Það er langt frá því. Þetta hef ég talið mér skylt að rekja hér við 1. umr. málsins.

Frv., sem fyrir liggur, ber það síður en svo með sér, að gaumgæfð hafi verið sú reynsla, er lýðræðisþjóðir heimsins hafi öðlazt í þessum efnum á þeim tímum, sem nú „líða yfir mannkynið“, svo að ég noti orðalag hinnar hástemmdu fyrstu stjórnarskrárnefndar. T.d. á að taka upp hlutfallskosningar í stórum kjördæmum, sem mér vitanlega engin þjóð á seinustu árum hefur tekið upp, en eins og ég sagði áðan t.d. Frakkar horfið frá og Írar komnir á fremsta hlunn með að afnema. Hvers vegna hafa Frakkar afnumið hlutfallskosningar? Og hvers vegna ræða Írar svo mikið um að taka upp einmenningskjördæmakosningar í staðinn fyrir hlutfallskosningar? Það er vegna þeirrar reynslu, sem „liðið hefur yfir mannkynið“. Þeir, sem hafa verið í n. alla tíð og gáfu út yfirlýsinguna um það, að gaumgæfa þyrfti reynsluna, hafa ekki staðið við þau háfleygu orð sín. Við smíði þessa frv. virðist hafa verið að verki skammsýni. Þar virðast hafa verið að verki nærsýnir menn og haldnir af flokkshyggju augnabliksins.

Ég rak mig á grein í blaði einmitt frá 1953 eftir Bjarna Benediktsson. Blaðið er Morgunblaðið 24. jan.1953. Þar segir hann: „Því lengur sem ég hef setið á þingi og því betur sem ég hef virt fyrir mér gang mála hér og annars staðar, þar sem ég hef reynt að fylgjast með, er ég sannfærðari um, að bezta skipanin í þessum efnum eru einmenningskjördæmi með meirihlutakosningu.“ Hann hefur að vísu verið að gaumgæfa þá tíma, „sem líðið hafa yfir mannkynið“, og komizt að niðurstöðu. En frv. er byggt upp á allt annan hátt. Þar kemur ekki lærdómurinn fram af reynslunni. Þar er ekki lagt til það, sem hann 1953 segist vera sannfærður um að sé bezt, eftir að hafa athugað þau mál hér og erlendis.

Aðeins ein grein stjórnarskrárinnar af um 80 er tekin til breytingar í frv. því, sem fyrir liggur. Allir vita, að stjórnskipunarlögin þarfnast margvíslegra breytinga, og miklu hagfelldara er að gera það í einu, því að fyrirhafnar- og kostnaðarsamt er að breyta stjórnarskránni. Sjálfstæðismenn nefndu 1952 margar greinar, er þeir töldu ástæðu til að breyta. Það ber það skjal með sér, sem ég las upp áðan. En nú er eins og ekkert annað sé að en kjördæmaskipunin ein, og hún er tekin út úr til breytinga. Þegar litið er á þetta, er frv. sem ófullburða, vanskapað fóstur og meira að segja utanlegsfóstur, því að það átti ekki að fæðast í n. Það er algerlega í ósamræmi við þá endurskoðun stjórnarskrárinnar, sem Alþingi við stofnun lýðveldisins ákvað að fara skyldi fram og fól nefndum að gera. Þetta vanskapaða, ófullburða fóstur, frv. á þskj. 368, minnir mig á sagnir af Þorgeirsbola. Þorgeirsbola þarf ekki að kynna, — hann er þjóðkunnur draugur. Ríkið á mynd af honum, allmikið umtalaða á tímabili sem listaverk, — og víst mun hún vera listaverk, — en hún kvað nú vera geymd á afviknum stað vegna túlkunar sinnar. Það var trú sums staðar, að þegar kýr létu dauðum kálfum löngu fyrir tímann, þá væri það Þorgeirsbola að kenna, einkum var þetta þó, ef kálfarnir voru vanskapaðir. Jafnan þóttust menn þá einnig verða varir við reimleika og sjá eða heyra í bola. Ég finn ekki betur, en að samband það, sem þríflokkarnir hafa gert með sér um kjördæmamálið, megi kalla reimleika í þjóðfélagsmálum, svo ónáttúrlegt er það samband og svo lítið eiga þessir flokkar sameiginlegt af því, sem þolir að sjá dagsljósið. Slíkar flokkshyggjur, sem þar stýra gerðum margra annars ágætra manna, eru réttnefnd myrkravöld. Flokkshyggja getur verið góð og átt fullan rétt á sér, ekki skal ég neita því. En góðar sálir gátu líka, samkvæmt þjóðtrúnni, orðið draugar. Þorgeirsboli hafði ekki verið illvættur, áður en hann varð fyrir gerningum, sem gerðu hann að vondum draug. — Ég er alls ekki að tala um mennina, sem standa að þessu fráleita kjördæmafrv., sem drauga. Enginn hefur rétt til að leggja þá merkingu í orð mín. Ég tek þetta fram vegna þess, hve mörgum hættir til að snúa út úr og álpast utan götu með hugsanir sínar og afvegaleiða með því aðra, enda leikurinn oft til þess gerður að gera aðra áttavillta, og á því hefur bólað í þessu máli. Ég er að tala um stefnu þeirra manna, sem styðja frv., og sameinaða flokkshyggju þeirra sem draug, eins konar Þorgeirsbola.

Kjördæmabreytingarfrv. er ekki til breytinga nema á einni grein stjórnarskrárinnar. Það er ekki fram komið eftir heildarendurskoðun, sem átti og átt hefur fram að fara og yfir hefur staðið. Það er því alveg satt, að það er ekki fullburða fóstur, sem fæðast átti, heldur er það eins og dauður, ófullburða, vanskapaður og meira að segja rotinn kálfur, sem kenna má draugnum um, að svona hefur fæðzt.

Í leikriti Halldórs Kiljans, Íslandsklukkunni, er afar skemmtilegur þáttur, hvar í Jón Grunnvíkingur hittir nafna sinn, Jón Hreggviðsson, nýkominn til Kaupmannahafnar, og spyr hann ákaflega tíðinda utan af Íslandi og þótti allt of lítið að frétta, sem sagt ekkert. En áreiðanlega mundu honum hafa þótt merkileg tíðindi og auðgað með þeim íslenzkt handritasafn, sem okkur hefði þá þótt enn meiri skaði að fá ekki heim, ef Jón Hreggviðsson hefði getað flutt honum ámóta frétt og þá, að um líkt leyti og þríflokkarnir sameinast um kjördæmamálið opinberlega, þá fæðist hér í grennd, að sögn útvarpsins, kálfur með þrjá hausa — og ekki aðeins þrjá hausa að framan, heldur líka þrjá hausa að aftan. Og vilji menn hafa þetta nákvæmara, var minnstur hausinn í miðið og líkur lambshaus. Hvert á barninu að bregða, nema beint í ættina? Nú sögðu bæði Alþbl. og Mbl., að saga þessi hjá útvarpi ríkisins um þríhöfðaða kálfinn í báða enda væri skröksaga, og virtust verða fegin að geta sagt frá því. En það skiptir engu máli í þessu sambandi, hvort sagan hefur verið sönn í venjulegri merkingu þess orðs eða ekki, svona verða þjóðsögurnar oftast til. Þær hafa löngum verið speglanir eða skáldskapur þjóðarsálarinnar á þeim augnablikum, sem kölluðu þá og þá eftir þeim til líkinga. Kálfurinn í Helgafellssveit er speglun kjördæmamálsins hjá þríflokkunum.

Já, þríflokkarnir hafa með frv. þessu tekið eitt atriði af mörgum, sem allir vita að breyta þarf í stjórnarskránni, og ætla nú, hvað sem tautar, að stofna til þingrofs og tvennra kosninga í hvelli vegna þessa eina atriðis. Öll hin, hvort sem þau eru 20 eða fleiri, sbr. till. Sjálfstfl. 1952, mega eiga sig nú. Ekki að tala um að fresta málinu um eitt ár, til loka kjörtímabilsins, og gera þær heildarbreytingar á stjórnarskránni, sem beðið hafa síðan 1944 eða hálfan annan áratug. Nei, nú má engan tíma missa. Hvers vegna? Það er vegna þess, að þríflokkarnir treysta hvorki málstað sínum til að þola gagnrýni í eitt ár né hver öðrum um svo langan tíma. Þeir hafa samið um að fara í réttindaránsför og vita, að vinátta milli ræningja er sjaldan traust. Það tókust ónáttúrulegir kærleikar með flokki, sem kallar sig verkalýðsflokk, og atvinnurekenda- og auðhyggjuflokki. Þær ástarhvatir leiddu til bráðabirgðaríkisstj. Í kjördæmamálinu fundu þeir sameiginlegt áhugamál breyskleika síns, og þriðji flokkurinn, sem þó telur sig stjórnarandstöðuflokk, stóðst ekki freistinguna, þegar honum var boðið, þrátt fyrir allt og allt og allt, sem gerir hann, að sögn hinna flokkanna, alveg ósamstarfshæfan, — boðið að njóta með þeim sætleikans. Hann féll út úr stjórnarandstöðunni, eins og drykkfelldir templarar falla stundum, þegar þeim er rétt svartadauðaflaska og þeir eru ekki vel fyrirkallaðir hvað afneitunarmáttinn snertir.

En nú liggur á, því að flokkarnir vita, að það er satt, sem segir í stökunni:

Flestir þeir, sem girndin grá

gerir að heitum vinum,

leiðir verða til lengdar á

lyktinni hver af hinum.

Ef framkvæmdir dragast, þótt ekki sé nema um eitt ár, getur verið, að þeir verði leiðir hver á öðrum og fari í hárið hver á öðrum og hætti samstöðunni í málinu.

Svo er annað. Málið var ekkert rætt í síðustu kosningum. Engir kjósendur báðu þá eða fólu þeim að gera þetta. Hver veit nema það komi fram á þessum tíma, að þeir hafi varla umboð til að gera þetta? Ekki höfðu fulltrúarnir á Alþýðusambandsþingi í vetur umboð til að gera það, sem forsprakkarnir vildu ekki að þeir gerðu þar. Hver veit, nema þjóðin rísi upp, ef hún fær ráðrúmstíma, og mótmæli svo kröftuglega, að ekki verði stætt á svellinu, sem þeir vita að er flughált? Margir hafa þegar mótmælt, félagasamtök, sveitarstjórnir, sýslunefndir, auk ótal einstaklinga. Nei, hérna var ekkert kák. Fljótt, í snatri, undireins, segja þríflokkarnir, eða þannig er skrifað í blöð þeirra, og þannig var málið rætt af þeim í Nd., og þannig var afgreiðsla þess í Nd. Þeir slá því fram, að svo geysilega liggi nú allt í einu á að leiðrétta atkvæðisréttarmisrétti, þéttbýlið hafi hlutfallslega miklu minna áhrifavald á Alþingi, en landsbyggðin.

Þetta með áhrifavaldið er alls ekki rétt. Áhrifavald þéttbýlisins gerir sig gildandi eftir öðrum leiðum: Hver getur sýnt fram á, að þéttbýlið hafi farið varhluta af þjóðfélagslegum ávinningi, borið saman við strjálbýlið? Það er síður en svo. Það er nefnilega þveröfugt. Þríflokkarnir ætla að draga úr áhrifum landsbyggðarinnar með breyt. sínum, en þó hefur sýnilega hallað á landsbyggðina. Þéttbýlið hefur svo mörg sjálfvirk öfl með sér og sogar með þeim til sín fólk og fjármuni frá landsbyggðinni. Og við hér á Alþingi könnumst ákaflega vel við það, þegar málefni eru fyrir tekin, sem þéttbýlið varða, t.d. Reykjavík og grennd, að þá hópast menn inn á Alþingi til að tala við þingmenn og tala við nefndir. Það eru félagsstjórnir, það eru áhugamannasamtök ýmiss konar, sem senda til áróðurs inn í sjálft Alþingi sitt kröftugasta lið, og einstaklingar og sjálfboðaliðar hópast að þinginu. Það má segja, að Reykjavík leggist með áhrifavald sitt á Alþingi, og enginn þarf að halda því fram, enginn getur haldið því fram, hversu sjálfstæðir sem menn þykjast vera, að hann þurfi a.m.k. ekki að beita sér mikið til þess að komast hjá því að láta hafa áhrif á afstöðu sína með þeirri öru og kröftugu túlkun málanna, sem nágrennið hér kemur fram við þingfulltrúana. En það koma ekki menn að sama skapi norðan af Langanesi, norðan af Skaga eða Tjörnesi eða austan úr Skaftafellssýslu. Með því að vilja í stórum stíl auka vald þéttbýlisins og draga úr valdi strjálbýlisins, því að við það er afnám kjördæmanna miðað, ferst þríflokkunum í þessu eins og lestarstrák, sem sér að hallast á klyfjahestinum og bindur pinkil, ekki ofan á léttari baggann, heldur ofan á þyngri baggann. Þegar svo er að farið, réttist ekki af hallinn, heldur vex, og það snarast af hestinum.

Þríflokkarnir halda því fram, að Framsfl. hafi notið forréttinda og þau þurfi að afnema. Hver eru þessi forréttindi? Hann hefur hlotið meira fylgi í strjálbýlinu en þeir. Hvers vegna? Ekki af því, að hann hafi notið neinna forréttinda í kosningum þar. Hinir flokkarnir hafa boðið fram eftir sömu reglum og hann og sömu kosningalög gilt fyrir hann og þá, en hann hefur bara haft meiri tiltrú þar en þeir. Og hvers vegna? Af því að fólkið hefur fundið, að Framsfl. hefur verið þeim hollari fulltrúi, en þríflokkarnir. Þetta vita auðvitað þríflokkarnir eða forsprakkar þeirra, þó að þeir telji sér henta að rugla rökum og tala um, að Framsfl. njóti forréttinda. Og nú vilja þeir svipta héruðin sínum sérstöku fulltrúum til þess að minnka rétt þeirra og gefa því ráni það nafn, að verið sé að taka forréttindi af Framsfl. Þetta er af því, að þeir eru ekki nógu vinveittir landsbyggðinni til þess að sýna henni þá hollustu, sem er samkeppnisfær í kosningum við hollustu Framsfl. Þeir eru þéttbýlisflokkar, og þar er hjarta þeirra, ef hjarta skyldi kalla. Ég segi: Ef hjarta skyldi kalla, því að það skilur ekki, þetta hjarta, það lögmál.,sem Framsfl. hefur gert sér fulla grein fyrir, að því aðeins vegnar höfuðborginni vel og þéttbýlinu öllu, að sveitum og sjávarþorpum vegni líka vel. Það er lögmál, sem gæta þarf, og á það lögmál hefur ekki verið lögð áherzla af nægilega mörgum, þó að Framsfl. hafi gert það og hlotið fyrir það tiltrú fólksins úti um land og einnig tiltrú margra þjóðhollra og glöggskyggnra manna í þéttbýlinu, — tiltrú, sem þríflokkarnir sjá ofsjónum yfir og vilja nú hegna fólkinu fyrir úti á landsbyggðinni.

Enn er það eitt, sem þríflokkarnir segja: Framsfl. er svo eigingjarn, að hann vill engu breyta. Hann rígheldur í hagsmuni sína sem flokkur. — Þetta er helber uppspuni. Framsfl.

hefur lagt fram sanngjarnar málamiðlunartill. í Nd., en þeim var hafnað þar. Og hv. þm. N-Ísf. (SB) var einmitt að leggja áherzlu á það áðan, hvað litlu munaði í aðalatriðum á miðlunartill. Framsfl. og höfuðtill. þríflokkanna, að undanskildu kosningafyrirkomulaginu. Og Framsfl. er eini þingflokkurinn, sem hefur viljað afsala sér íhlutun um, hvaða breytingar yrðu gerðar á stjórnarskránni, og fela það sérstöku stjórnlagaþingi, sem til þess eins væri kosið að ganga frá stjórnarskránni. M.ö.o.: hann hefur viljað, að Alþingi afhenti stjórnarskrármálið og þar með kjördæmamálið þjóðinni til slíkrar meðferðar og með því leysa það úr klóm flokkshyggjunnar, úr höndum flokkanna, sem myndazt hafa um önnur málefni og hafa því annarleg sjónarmið.

Flokkunum, og það sést greinilega á þríflokkunum nú, hættir allt of mikið til að líta á sig nærri því að segja eins og eilífðarverur, þó að þeir séu vitanlega tímabundin fyrirbæri, eins og sögulega yfirlitið hjá hv. þm. N-Ísf. sýndi, — tímabundin fyrirbæri, jafnvel eins og öldur, komandi og hverfandi eftir því, hvaðan áttin er á hafi stjórnmálanna, og alls ekki er hægt að miða við slíka kortagerð sem grundvallarlög ríkisins eru.

Við sig og sitt litla, hverfula og ótrygga líf vilja þríflokkarnir láta miða kjördæmaskipun Íslands, en þeir skeyta því ekki að taka tillit til þess, sem er varanlegt og alltaf þarf að miða við, en það er nauðsyn jafnvægis í byggð landsins og landið, sem fólkið verður kynslóð eftir kynslóð að annast og byggja, af því að það er land fólksins og verður af öðrum tekið, ef það vanrækir að hafa búsetu um það allt, að því leyti sem það er byggilegt.

Við þessa umræðu læt ég svo lokið máli mínu, en vænti þess að fá tækifæri til að ræða málið nánar við seinni umræðu þess og minnast þá á margt annað, sem ástæða er til að komi fram, áður en lýkur.