06.05.1959
Efri deild: 113. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1593 í B-deild Alþingistíðinda. (1236)

144. mál, stjórnarskipunarlög

Frsm. meiri hl. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Þegar lýðveldið var stofnað 1944, var að sjálfsögðu gerð breyting á stjórnarskránni, sem af þeirri ráðstöfun leiddi. En um það varð samkomulag, að breytingarnar á stjórnarskránni yrðu þá þær einar, sem leiddi af því, að stjórnskipulagið breyttist úr konungdæmi og í lýðveldi, og að öðru leyti leiddi beint af sambandsslitunum við Dani.

Þá næstu ár á undan hafði starfað hér þingkjörin nefnd, stjórnarskrárnefnd, til að undirbúa endurskoðun stjórnarskrárinnar. Í þeirri nefnd var að sjálfsögðu rætt um það, að æskilegt væri að fá heildarendurskoðun á stjórnarskránni, því að um mörg atriði er stjórnarskráin óbreytt frá 1874, þegar Kristján IX Danakonungur gaf Íslandi stjórnarskrá. Vegna þróunar og breyttra aðstæðna er að sjálfsögðu fjölmargt, sem þarf endurskoðunar við í stjórnarskránni. Hins vegar var sýnt, að það mundi taka langan tíma og skapa mikinn vanda, ef ætti að leysa öll þessi atriði varðandi endurskoðun stjórnarskrárinnar og leysa þau ágreiningsmál, sem sýnileg voru í þeim efnum, það mundi taka svo langan tíma, að trúlega hefði það getað frestað lýðveldisstofnuninni, og því varð það samkomulag innan stjórnarskrárnefndar og meðal allra stjórnmálaflokka og þingmanna að slá á frest heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar og samþykkja þessar breytingar einar, sem leiddi af lýðveldisstofnuninni. Um leið var ákveðið, að stjórnarskrárnefnd og jafnvel tvær skyldu samtímis starfa að heildarendurskoðuninni. Og á þessu tímabili frá lýðveldisstofnuninni hafa verið, að ég ætla, að störfum 3 stjórnarskrárnefndir. Í fyrsta lagi 8 manna stjórnarskrárnefndin, sem undirbjó lýðveldisstjórnarskrána. Í öðru lagi 12 manna ráðgjafarnefnd, sem sett var á laggirnar um þessar mundir, og unnu þessar n. saman. Og loks stjórnarskrárnefnd 7 manna, sem skipuð var af ríkisstj. 1947. Í þessum n. öllum hafa komið fram margvíslegar hugmyndir og till. og töluvert undirbúningsstarf verið unnið.

Í þessum umr. hafa sumir hv. þm. haft í frammi allharðskeyttar árásir á formann síðustu stjórnarskrárnefndar, frá 1947, hv. 1. þm. Reykv. (BBen), fyrir það, að n. hafi aldrei lokið störfum eða skilað áliti. Formaður n. hefur sjálfur gert nákvæma grein fyrir störfum n. og svarað fyllilega þessum ádellum, bæði í nál. meiri hl. stjskrn. í Nd. á þskj. 406 og eins í umr. þar, og vísa ég til þess, sem þar hefur fram komið, en af þeirri grg. kemur glöggt í ljós, svo glöggt í ljós sem verða má, að þessar árásir og ádeilur eru markleysa ein.

En þá vaknar sú spurning: Hvers vegna hefur þessum 3 nefndum, sem áttu að fjalla um stjórnarskrármálið, ekki tekizt að skila endanlega till. um heildarendurskoðun nú á hálfum öðrum áratug? Hvers vegna hefur hin langþráða stjórnarskrá lýðveldisins, endurskoðuð og endursamin í verulegum efnum, ekki enn þá litið dagsins ljós? Frá hendi Framsfl. hafa í umr. hér komið fram ýmsar getsakir og tilgátur um ástæður til þess. Ég ætla, að hv. þm. Framsfl. sé alveg nákvæmlega eins ljóst og mér og öðrum þm., hver er ástæðan. En ástæðan til þess, að þessari endurskoðun er ekki lokið, er ein og aðeins ein, og það er ágreiningurinn um kjördæmamálið, sem jafnan hefur staðið í vegi fyrir heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar. Þegar lýðveldið var stofnað, báru menn giftu til þess að taka það mál eitt út úr og gera þær breyt. á stjórnarskránni, sem nauðsynlegar voru til lýðveldisstofnunar, en slá öðrum atriðum og ágreiningsatriðum á frest. Það er í rauninni alveg eins nú, að það er skilyrði, að mínu áliti óhjákvæmilegt skilyrði fyrir heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar, að kjördæmamálið sé afgreitt sér. Þess vegna tel ég, að ekki sé farið rangt að með því frv., sem hér liggur fyrir, heldur einmitt sú eina leið, sem er fær. Ég er hræddur um, að ekki takist að leysa þetta stóra mál, heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar, fyrr en eftir að kjördæmamálið, þetta viðkvæma ágreiningsmál, er komið í höfn.

Vissulega harma það margir, að Íslendingar skuli ekki hafa fengið nýja endurskoðaða stjórnarskrá, miðaða við þróun og þarfir tímans. Það er einlæg ósk mín og von, að þegar þetta frv., sem hér liggur fyrir, hefur náð gildi sem stjórnskipunarlög með samþykki tveggja þinga með þingrofi á milli, þá skapist möguleikar fyrir því að framkvæma þessa heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar.

Nú hefur það mál verið hér mjög að umtalsefni í þessum umr., og hv. þm. S-Þ. (KK), sem á sæti í stjórnarskrárnefndinni, sem skipuð var 1947, — hann kom þó inn í hana nokkru síðar, eins og hann tók fram sjálfur, — hann hefur gert endurskoðunarmálið að umræðuefni, rakið ýtarlega sínar eigin till. og Framsfl. í þessu máli og lesið hér upp þær till., sem við 3 fulltrúar Sjálfstfl, bárum fram í n. í að ég ætla 20 liðum haustið 1952. Þó að það mál í heild liggi ekki beinlínis fyrir hér, tel ég þó, að gefnu þessu tilefni, rétt og í rauninni nauðsynlegt að minnast hér nokkuð á heildarendurskoðunina, bæði það, hver meginsjónarmið eigi þar að ríkja, að mínu áliti, og nefna einnig einstök atriði, sem mér virðast þar einna helzt þurfi um að ræða.

Meginsjónarmið við heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar verða auðvitað þau að treysta og tryggja lýðræðið, að tryggja, að Alþingi verði jafnan rétt og sönn mynd af þjóðarviljanum, að kosningarrétturinn verði bæði almennur og jafn, að styrkja framkvæmdarvaldið, koma í veg fyrir of tíð stjórnarskipti, tryggja dómsvaldið jafnvel enn betur en nú er, svo að það verði algerlega, eftir því sem frekast eru föng á, óháð bæði framkvæmdarvaldi og löggjafarvaldi. Þetta eru nokkur meginatriði, sem mér virðist að sjálfsögðu verða að hafa í huga og byggja á.

En ég skal einnig til áréttingar og viðbótar því, sem hv. þm. S-Þ, sagði, nefna hér nokkur atriði, sem mér sýnist að þurfi athugunar við, en um sum þeirra ætla ég að ágreiningur sé enginn, um önnur eru vafalaust mjög skiptar skoðanir, og um afstöðu til sumra þeirra munu menn alls ekki skiptast eftir flokkum.

Í fyrsta lagi vil ég nefna kosningu forseta Íslands. Það hafa verið uppi raddir um það, að æskilegast væri, að forseti væri því aðeins rétt kjörinn, að hann fengi hreinan meiri hluta greiddra atkvæða. Það mundi styrkja hann í sessi sem einingartákn þjóðarinnar.

Vitanlega verður hér að hafa þann varnagla, að ef ekki tekst í fyrstu atrennu að fá hreinan meiri hl. atkvæða, þá yrði að reyna aftur og þá væntanlega kjósa milli þeirra tveggja, sem flest fengju atkvæðin, að sínu leyti svipað, þó ekki alveg sams konar fyrirkomulag og ákveðið er í þingsköpum um kosningu forseta Alþingis.

Í öðru lagi ætla ég, að rétt sé að endurskoða kjörtímabil forseta. Það er nú ákveðið fjögur ár. Í flestum lýðveldum öðrum er kjörtíminn lengri, sex til sjö til átta ár. Ég tel eðlilegt, að þetta mál verði tekið til athugunar.

Í þriðja lagi er svo valdsvið forsetans, og geri ég ráð fyrir, að rétt þyki að auka það nokkuð frá því, sem er. Þar sýnist mér einkum koma til athugunar aukin áhrif forsetans á utanríkismál, utanríkisstefnu, embættaveitingar og stjórnarmyndanir.

Í fjórða lagi tel ég rétt, að kosinn sé samhliða forsetakjöri sérstakur varaforseti í stað þeirrar þriggja manna n., sem stjórnarskráin ákveður nú að fara skuli með forsetavald í forföllum eða fjarveru forseta, en það eru forseti Alþingis, forsætisráðherra og forseti hæstaréttar.

Í fimmta lagi þarf að endurskoða reglur um stjórnarmyndun, því að sú er reynslan víða um heim, að það er ein helzta veila þingræðisins, sem við viljum þó vafalaust allir halda, að stjórnir verða oft of veikar í sessi og of skammlífar, þannig að mjög skortir á þá festu, sem þarf að vera í stjórnarframkvæmdum og stjórnarháttum. Margar leiðir koma þar til athugunar, bæði sú leið, sem farin hefur verið í Svisslandi, og margar fleiri, sem ég skal ekki hér rekja. En sem sagt, eitt af þeim atriðum, sem þarf mjög að ræða í sambandi við endurskoðun stjórnarskrárinnar, er stjórnarmyndanir og möguleikar á því að gera framkvæmdarvaldið sterkara og fastara í sessi, en nú er.

Í sjötta lagi er þingrofsrétturinn. Á hann minntist hv. þm. S-Þ. einnig. Sá réttur er mjög umdeildur, og mönnum sýnist sitthvað um, hvort hann geri gagn eða ekki. Það er t.d. í Noregi enginn þingrofsréttur til. Þm. eru kosnir til ákveðins tíma, fjögurra ára, og sitja út kjörtímabilið. Þingrofið getur verið þægileg, æskileg úrlausn út úr miklum vanda eða hnút, sem þjóðmál eru komin í stundum, en því er ekki að neita, að þingrofsrétturinn veldur meiri óvissu og festuleysi í stjórnarháttum, en æskilegt væri.

Í sjöunda lagi þarf að taka til athugunar ákvæði stjórnarskrárinnar um vald forseta til að synja lagafrv. staðfestingar. Víða er það þannig, að forseti lýðveldis hefur synjunarvald, þá stundum með einhverjum takmörkunum. Hér er þessu háttað þannig, að ef Alþingi samþykkir lagafrv., sem forseti vill ekki staðfesta og hann synjar staðfestingar, þá tekur lagafrv. engu að siður gildi, en réttur forsetans er sá einn að skjóta málinu undir þjóðaratkvæði. Ef frv. er fellt við þjóðaratkvæði, fellur það úr gildi, ella heldur það gildi sínu. Mörgum finnst óeðlilegt, að þó að forseti synji staðfestingar, skuli frv. samt sem áður taka gildi. Þetta ákvæði þarfnast vafalaust endurskoðunar.

Í áttunda lagi er svo deildaskiptingin í Alþ. Það er orðið gerbreytt viðhorf frá því, er deildaskiptingin var ákveðin með gildistöku stjórnarskrárinnar 1874. Þá var kosið á allt annan veg eða valið á allt annan veg til Ed. Fyrst í stað var nokkur hluti þm. í Ed. konungkjörnir þm. og síðar landskjörnir, kosnir í einu lagi um land allt. Nú eftir þá breyt., sem gerð var 1934, eru allir þm. kosnir með sama hætti og sameinað Alþingi skiptir sér svo sjálft niður í deildir. Þá má segja, að þýðing deildaskiptingarinnar sé orðin að ýmsu leyti miklu minni, og því hafa verið uppi um það raddir, að þingið skyldi verða ein málstofa. Á þessu eru ýmsar hliðar, og á móti því má auðvitað færa það fram, að líkur séu til, að mál fái vandlegri meðferð, þegar þau eru skoðuð rækilega í tveim deildum, heldur en einni. En deildaskiptinguna þarf að taka að sjálfsögðu til athugunar.

Í níunda lagi er sjálfsagt að fella niður eða breyta verulega því kosningarréttarskilyrði, að maður þurfi að hafa verið búsettur í fimm ár hér í landi. Þetta eru leifar frá sambandinu við Dani.

Í tíunda lagi kemur það til athugunar, hvort ætti að taka upp þann hátt, sem hið ágæta lýðræðisland Belgía hefur haft nú í rúmlega hálfa öld, en það er, að kosningarréttinum fylgi kosningaskylda. Hver maður, sem rétt hefur til að kjósa, skuli um leið skyldur að forfallalausu til að neyta atkvæðisréttar síns, að viðlögðum sektum eða við ítrekað brot missi kosningarréttar um hríð. Þessi skipan hefur gefizt mjög vel í því landi. Mér er ekki kunnugt um, að önnur lönd hafi tekið hana upp. En án þess að ég vilji taka endanlega afstöðu til þess máls á þessu stigi, það þarf að ræðast miklu ýtarlegar, þá er hér um að ræða atriði, sem þarf vissulega gaumgæfilegrar athugunar við, hvort þarna á að láta réttinum fylgja skyldu eins og víða annars staðar.

Í ellefta lagi er svo meðferð fjárlaga og öll fjármál ríkisins. Sums staðar er svo fyrir mælt, að einstakir þm. hafi ekki heimild til þess að bera fram útgjaldatill. við fjárl., meðan þau eru í meðförum þingsins, og til athugunar kæmi að setja nokkrar skorður við hækkun fjárl. í meðförum þingsins. En einnig þyrfti að skapa meira aðhald að ríkisstj. en verið hefur til að forðast umframgreiðslur og yfirleitt að skapa ríkisstjórnum aðhald um hvers konar hagsýni og hagsýslu í rekstri og starfsemi ríkisins.

Í tólfta lagi er nú svo ákveðið í stjórnarskránni, að Alþingi sker sjálft úr um kjörgengi þingmanns og lögmæti kosninga. Að mínu viti er það fráleitt, þetta er í eðli sínu hreint dómsmál, að það sé í höndum pólitískrar samkomu eins og Alþingis, og því mjög hætt við, að pólitísk sjónarmið komi þar mjög til greina, eins og dæmin sanna. Að mínu áliti á þetta úrskurðarvald um það, hvort alþingiskosningar hafi farið löglega fram, hvort tiltekinn þm. sé kosinn lögmætri kosningu, hvort hann uppfylli kjörgengisskilyrði, — þetta úrskurðarvald á að vera í höndum dómstóla, annaðhvort hæstaréttar eða sérstaks dómstóls, ef það þætti betur henta.

Í þrettánda lagi tel ég, að endurskoða þurfi stjórnarskrárákvæðin um aðstöðu hæstaréttar og hæstaréttardómara og sjálfstæði þeirra og óháða stöðu þarf að tryggja enn betur, en nú er gert í stjórnarskránni. Nú er svo fyrir mælt í stjórnarskrá, að dómsmrh. hafi heimild til þess að veita hæstaréttardómara lausn frá störfum, þegar hann nær 65 ára aldri, jafnvel þótt hann óski þess ekki sjálfur og gegn vilja hans. Ég tel, að þetta þurfi endurskoðunar við og a.m.k. ætti að hækka aldursmark hæstaréttardómara upp í 70 ár og jafnvel hærra.

Í fjórtánda lagi þarf að tryggja hlutlausa beitingu ákæruvaldsins með skipun opinbers ákæranda, sem sé sjálfstæður embættismaður og hafi svipaða stöðu og hæstaréttardómendur.

Í fimmtánda lagi er ákvæði 65. gr. stjórnarskrárinnar um það, að hvern þann, sem tekinn er höndum, skuli leiða án undandráttar fyrir dómara, sem kveður upp úrskurð um það innan tiltekins frests, hvort hann skuli settur í varðhald. Þessi ákvæði eru ófullkomin, m.a. að því leyti, að þau vernda menn aðeins gegn handtöku í sambandi við grun um afbrot eða réttarrannsókn, en ná ekki til þess, ef maður er sviptur frelsi sínu af öðrum ástæðum, t.d. með læknisúrskurði eða öðru slíku. Þetta ákvæði þarf að gera víðtækara og tryggara.

Í sextánda lagi þarf að tryggja eignarréttinn á marga lund betur, en nú er og þá alveg sérstaklega gegn hóflausu skattráni, sem getur stundum jafngilt eignarnámi án bóta eða eignarupptöku.

Í sautjánda lagi þarf að endurskoða mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar, endurskoða og endurbæta sum þeirra, sem þar eru, og bæta öðrum við, þannig að vernd mannréttindanna í íslenzku stjórnarskránni verði hvergi minni, en mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna ákveður.

Í átjánda lagi þarf að tryggja betu, en nú er sjálfstjórn og sjálfstæði sveitarfélaganna.

Í nítjánda lagi tel ég mjög koma til greina að ákvarða í stjórnarskránni, að bera megi sum þýðingarmikil þjóðmál undir þjóðaratkvæði. Sá háttur hefur lengi verið í Svisslandi, að með tilteknum skilyrðum, eftir áskorun ákveðins fjölda kjósenda, þá er skylt að bera t.d. lagafrumvörp undir þjóðaratkvæði til samþykktar eða synjunar, auk þess sem almenningur getur þannig einnig átt í víssum tilfellum frumkvæði að lagasetningum. Þetta eykur mjög þátttöku almennings um meðferð þjóðmálanna og hefur gefizt þar mjög vel. Þetta mál hefur verið mjög rætt hjá ýmsum þjóðum á undanförnum árum, og þegar Danir endurskoðuðu sína stjórnarskrá 1953, þá tóku þeir upp ákvæði í þessa átt, þar sem segir, að ef þjóðþingið samþ. frv., þá getur þriðjungur þm. krafizt þess, að það sé borið undir þjóðaratkvæði. Ef meiri hl. kjósenda geldur jáyrði við frv., þá er það samþ., þó því aðeins að minnst 30% allra kosningarbærra manna samþykki. Þó eru ýmis mikilsvarðandi mál undantekin þessu ákvæði. Þannig er ekki hægt að krefjast þjóðaratkvgr. um fjárlög, um skatta- og tollamál, um launalög o.fl. Þetta ákvæði var sem sé tekið upp hjá Dönum. Hjá Svíum hefur þetta mál undanfarna tvo áratugi verið mjög rætt, og áhugi virðist þar mikill fyrir því að taka upp svipað skipulag. Ég tel, að það mundi verða mjög til þess að styrkja og treysta lýðræðið, ef við endurskoðun íslenzku stjórnarskrárinnar yrði tekið upp ákvæði um þjóðaratkvgr. um mikilsvarðandi mál með vissum skilyrðum.

Í tuttugasta lagi tel ég að endurskoða þurfi ákvæði stjskr. um ábyrgð ráðh. og um landsdóm. Í stjórnarskránni er svo ákveðið, að Alþ. getur fært ráðherra til ábyrgðar fyrir embættisrekstur hans, það er ekki háð því almenna ákæruvaldi, og ef svo er gert, þá skuli sérstakur dómstóll, landsdómur, dæma þau mál. Þetta hefur frá öndverðu verið algert pappírsgagn, og landsdómur er væntanlega ekki til. Um hann eru sérstök lög. Hann er settur saman með mjög flóknum hætti, og ætla ég, að flestallir þeir, sem í hann voru skipaðir á sínum tíma, séu fallnir frá og ekki verið skipaðir neinir í staðinn. Varðandi ábyrgð ráðh., þá er auðvitað eðlilegast, að hinir almennu dómstólar eða e.t.v. hæstiréttur einn dæmi þau mál, sem Alþ. ákveður að höfða gegn ráðh. Víða er þessu þannig fyrir komið, að hæstiréttur og þar til kjörnir menn af stjórnþingunum eða efri deildum þeirra ganga saman í dómstól, sem fjallar um þessi mál. Þannig er það t.d. eftir dönsku stjskr., að sérstakur ríkisréttur dæmir um þessi mál, en í honum eiga sæti allir hæstaréttardómendur og jafnmargir menn kosnir hlutfallskosningu af Danaþingi.

Í tuttugasta og fyrsta lagi kemur mjög til athugunar að taka upp skipan, sem lengi hefur verið í gildi í Svíþjóð, þ.e. um sérstakan umboðsmann eða eftirlitsmann, sem valinn er af þinginu til eftirlits með framkvæmdarvaldinu. Í Svíþjóð eru þeir tveir: annar, sem hefur eftirlit með ríkisstj. og embættismönnum á borgaralega vísu, hinn hefur svipuðu hlutverki að gegna gagnvart hernum. Þetta skipulag hefur verið þar lengi og þótt gefast mjög vel. Í þeirri endurskoðun, sem fór fram í Danmörku 1953, var ákveðið að taka upp þessa skipun að nokkru leyti. Það var stofnað starf, og starfsmaðurinn heitir umboðsmaður eða eftirlitsmaður þjóðþingsins, og undir starfsvið hans fellur eftirlit með ráðh., með föstum starfsmönnum ríkisins og öðrum þeim, er starfa í þjónustu ríkisins. Hann á að hafa eftirlit með því, hvort þessir starfsmenn gerist sekir um yfirsjónir eða vanrækslu í starfi. Allir danskir borgarar hafa kærurétt til hans, ef þeim finnst um eitthvert misferli vera að ræða. En staða þessa umboðsmanns er með þeim hætti, að hann er algerlega sjálfstæður starfsmaður og óháður. Til þessa starfs hefur valizt einn af merkustu lögfræðingum Dana nú á þessari öld og hefur hlotið almenningslof fyrir, og er talið, að að þessari skipun hafi orðið mikið gagn.

Í tuttugasta og öðru lagi tel ég mjög til athugunar við endurskoðun stjskr., að ráðnir séu til þess sérstakir óháðir, færir lögfræðingar að vera Alþingi að staðaldri til ráðuneytis um löggjöf, þannig að fylgjast með meðferð lagafrv. í Alþ., gefa ráð um form þeirra og allan búning, og gætu slíkir lögfræðilegir ráðunautar eða laganefnd vafalaust orðið til mikils gagns í þá átt að tryggja, að löggjöfin yrði vandaðri og samræmdari, en hún oft og tíðum er.

Ég hef nefnt hér nokkur atriði, að gefnu tilefni frá hv. þm. S-Þ. (KK), og ekki undarlegt, þótt þetta komi fram, þar sem við eigum báðir sæti í þeirri n., sem mér skilst að minnsta kosti á honum að teljist vera á lífi enn, svo að það má líklega segja um hana eins og segir í biblíunni, að „eigi er mærin dauð, heldur sefur hún“, og gæti þá tekið til starfa, þegar grundvöllur hefði skapazt fyrir heildarendurskoðun. Ég hef nefnt hér nokkur atriðl, sem ég tel að eigi að koma til athugunar við heildarendurskoðunina. Að sjálfsögðu eru fjölmörg önnur, sem þar koma til greina. Og eins og ég gat um, þá ætla ég, að um ýmis þessara atriða muni menn ekki skiptast eftir stjórnmálaflokkum, þó að því beri ekki að neita, að um sum allra þýðingarmestu grundvallaratriði stjskr. býst ég við að skoðanir falli nokkuð eftir stjórnmálastefnum og flokkum.

Nú er spurningin, hverja aðferð á að hafa við setningu stjskr., þegar þar að kemur. Núgildandi aðferð skv. stjskr. um stjórnarskrárbreyt. er þessi, að þing þarf að samþ. með venjulegum hætti frv. um stjórnarskrárbreytingu, síðan þarf að rjúfa þingið og efna til nýrra kosninga, og ef næsta þing eftir kosningar samþ. frv. óbreytt, þá tekur það gildi sem stjórnskipunarlög. Þetta er almenna reglan. Þó var annar háttur hafður á um setningu stjskr. lýðveldisins, því að 1942 var stjskr. breytt á þá lund, að til stjórnarskrárbreytingar í sambandi við stofnun lýðveldisins þyrfti aðeins samþykki eins þings og við þjóðaratkvæði að staðfesta frv. af meiri hl. kosningarbærra manna. Þarna var því samþykkt eins þings í stað tveggja og þjóðaratkv. í stað þingrofs og kosninga.

Nú skal ég taka fram, að ég tel þá almennu reglu, sem gildir og gilt hefur um stjórnarskrárbreytingar, ekki alls kostar heppilega. Að vísu er nauðsynlegt að tryggja sem bezt, að ekki sé verið að hringla með stjórnarskrána allt of oft og að óþörfu. En ég tel, að dómur þjóðarinnar ætti að koma fram beint við stjskrbreyt. Kosningar þær, sem eiga að fara fram á milli hinna tveggja þinga, snúast oft og tíðum jafnmikið og stundum miklu meira um allt önnur mál. Ég tel, að í framtíðinni kæmi mjög til greina að hafa þá aðferð við stjórnarskrárbreytingar, að til viðbótar því, sem nú er, samþykki tveggja þinga með þingrofi og kosningum á milli, kæmi þjóðaratkvgr., þannig að frv. öðlaðist ekki gildi, fyrr en það hefði verið samþ. við beina þjóðaratkvgr. um málið. Hugsanlegt væri líka, ef þetta þætti of umsvifamikið, að láta þjóðaratkvgr. koma í staðinn fyrir þingrof, þannig að þyrfti samþykki tveggja þinga og þjóðaratkvæði. En undir öllum kringumstæðum tel ég, að beint þjóðaratkvæði eigi að koma hér í framtíðinni.

En nú hafa verið uppi bæði fyrr og síðar till. um það að velja sérstakt stjórnlagaþing eða þjóðfund, sem fái það mikla vald að setja þjóðinni nýja stjórnarskrá. Á sínum tíma var starfandi hér félagsskapur, Stjórnarskrárfélagið, sem hafði þetta á stefnuskrá sinni. Það voru samtök áhugamanna. Auk þess voru bæði á Austur- og Norðurlandi samtök um endurskoðun stjórnarskrárinnar, og beittu þau sér mjög fyrir sérstöku stjórnlagaþingi. Hv. þm. S-Þ. flutti till. um þetta í stjskrn. árið 1953, og hefur hann gert grein fyrir henni hér í umr. Mér skilst, að þessi leið sé þá um leið stefna Framsfl. í málinu.

Nú vil ég ekki í mínum huga alveg útiloka eða fordæma þessa málsmeðferð, en ég tel, að ákaflega margt mæli gegn henni. Hingað til hefur Alþ. sjálft fjallað um og ákveðið hverja einustu stjórnarskrárbreytingu. Engin stjskrbreyt. hefur verið gerð nema Alþ. sjálft stæði að henni. Alþingi Íslendinga er meira en þúsund ára gömul stofnun. Það er langmerkasta og frægasta stofnun íslenzku þjóðarinnar, og það er stofnun, sem á sér hvergi hliðstæðu um aldur meðal annarra þjóða. Alþingi hefur löggjafarvaldið, og það þarf vissulega mjög sterk rök til þess að taka það frá þessari þúsund ára gömlu virðulegu þjóðstofnun, og við eigum fremur að reyna að auka virðingu þess, en draga úr. Og þegar við lítum á sögu Alþ. og þýðingu þess fyrir þjóðina og fyrir hennar sjálfstæðisbaráttu, þá held ég, að það sé mjög hæpin stefna að draga hin helztu mál — og hér er um að ræða eitt þýðingarmesta mál þjóðarinnar — úr höndum þess, því að það er ekki hægt að skilja á annan veg en þann, að með því sé Alþ. að setja niður, það sé verið að draga úr virðingu þess og veg, með því að Alþ. Íslendinga sé ekki treystandi til þess, eins og raunar kemur fram hjá flytjendum þessa máls, því sé ekki treystandi til þess að setja góða stjórnarskrá fyrir land og þjóð.

Þegar við lítum á það, hvað Alþ. hefur um aldirnar afrekað, þá verður þetta í rauninni enn ljósara. Á lýðríkistímanum setti Alþ. löggjöf, sem um mörg efni var algert einsdæmi á þeim tíma í veröldina. T.d. voru hér lög um sveitarstjórnarmál, um framfærslu- og tryggingamál, sem stóðu framar því, sem þekktist annars staðar á þeirri tíð, og báru af um framsýni, mannúð og mildi. Það var Alþingi, sem með lögum ákvað kristnitökuna árið 1000. Það var Alþingi, sem setti hin elnstæðu lög um fimmtardóm skömmu síðar. En í fimmtardómi skyldi málum ráðið til úrslita með einföldum meiri hl. atkv., en í fjórðungsdómum, sem áður voru æðstu dómstólarnir, var ekki hægt að ráða málum til lykta, nema allir dómendur væru á einu máli. Þessi sama skipan um, að allir dómendur þyrftu að vera á einu máli, var sú ríkjandi skipan þá í nágrannalöndum okkar, og Íslendingar sýndu hér framsýni og fyrirhyggju langt um fram aðra samtíðarmenn sína með setningu fimmtardóms. Og þannig mætti lengi telja um hin merkustu nýmæli og framfaramál, sem Alþingi hefur staðið að.

Og þetta er ekki aðeins varðandi lýðríkið forna, heldur einnig þegar við athugum sögu Alþ, í þá rúma öld, síðan það var endurreist. Stofnun lýðveldisins sjálfs 1944 og sambandsslitin voru ákvörðuð af Alþ. Íslendinga, en ekki kallaður saman sérstakur þjóðfundur eða stjórnlagaþing til þeirra aðgerða. Þjóðfundir geta átt rétt á sér. Við höfum haft hér einn þjóðfund, sem frægastur hefur orðið, 1851, en eðli hans, aðdragandi og valdsvið var þess eðlis, að það er ekki sambærilegt, sem hér er stungið upp á um sérstakt stjórnlagaþing.

Þjóðfundir eða sérstök stjórnlagaþing hafa í öðrum löndum stundum verið háð til þess að setja stjórnarskrár, en þá er það venjulega vegna þess, að verið er að mynda nýtt ríki, t.d. vegna þess, að sérstök þjóð hefur öðlazt sjálfstæði, brotizt undan yfirráðum og áþján annarrar þjóðar, eða vegna þess, að styrjöld hefur geisað og í lok hennar þarf að byggja allt upp frá grunni. Í slíkum tilfellum geta sérstakir þjóðfundir og stjórnlagaþing átt rétt á sér. En ég ætla, að fáar þjóðir, sem ættu þá hefð, þá venju, þá söguhelgi eða að segja má „tradition“, sem yfir Alþingi Íslendinga hvílir, — að fáar þjóðir, sem ættu slíka sögu, mundu láta sér detta í hug að óvirða þá þúsund ára gömlu stofnun með aðra eins sögu að baki sér með því að taka setningu sjálfra stjórnlaganna úr höndum hennar og kalla saman einhverja aðra samkomu til þess að ganga frá því, vegna þess að Alþingi væri ekki til þess treystandi.

Þó að ég, eins og ég tók fram, vilji alls ekki í mínum huga gersamlega útiloka þessa aðferð um sérstakt stjórnlagaþing, ef mikill meiri hluti manna teldi það æskilegt eða nauðsynlegt, þá get ég ekki neitað því, að ég sé ákaflega mikla annmarka á þeirri aðferð. En það er annað, sem hér kemur til, ef sérstakt stjórnlagaþing ætti að setja á laggirnar til þess að setja Íslandi nýja stjórnarskrá. Þá kemur spurningin: hvernig á að kjósa til þess stjórnlagaþings? Kemur þá ekki upp nýtt kjördæmamál, ný viðkvæmni, nýr ágreiningur um það, hvaða reglur skuli gilda um kosningu fulltrúa á þetta stjórnlagaþing, sem á ekki heldur að hafa neitt smáræðisvald, heldur að setja Íslandi stjórnlög? Ætli það komi þá ekki upp raddir um það, að vitanlega séu einmenningskjördæmi um kosningu til stjórnlagaþings það eina rétta? Ætli það komi ekki upp aðrar raddir um það, að hlutfallskosningar séu réttlátari? Og þá er spurning, hvort eigi að kjósa í stórum kjördæmum eða landið sé allt eitt kjördæmi. Og þegar ég nefni, að ágreiningur geti orðið um það, hvernig eigi að kjósa slíkt stjórnlagaþing, þá tala ég ekki út í bláinn, því að tveir samherjar, þm. Framsfl., sem talað hafa hér í málinu í fyrradag, voru sitt á hvoru máli um það. Þeir segjast báðir vera með stjórnlagaþingi, en hvor gerir sína till. um, hvernig eigi að kjósa til þess. Aðalflm. tillögunnar, hv. þm. S-Þ. (KK), hefur lagt til, að kosið sé til stjórnlagaþingsins eftir þeirri kjördæmaskipun og kosningaaðferð, sem nú gildir til Alþingis, m.ö.o. með þeirri blönduðu, ósamstæðu og úreltu kjördæmaskipun, sem við nú búum við, einmenningskjördæmi sums staðar, tvímenningskjördæmi með hlutfallskosningu, átta fulltrúar frá Reykjavík með hlutfallskosningu og ellefu uppbótarsæti. Þannig vill hv. þm. S-Þ, hafa kosningatilhögunina. Flokksbróðir hans, hv. 1. þm. N-M. (PZ), lýsti því yfir hér í fyrradag, að hann sé eindregið fylgjandi stjórnlagaþingi, en hann leggur til, að fulltrúarnir á stjórnlagaþing séu allir kosnir í einu lagi yfir landið allt með hlutfallskosningu. Ja, svolítill munur er nú á hjá samherjunum um það, hvern háttinn eigi að hafa. Og eins og kjördæmamálið hefur verið hita- og vandamál íslenzku þjóðarinnar í marga áratugi, ætli gæti ekki farið svo, að þegar á að setja reglur um kosningar til stjórnlagaþingsins, þá taki kannske nokkur ár eða áratugi að leysa það mál, hvernig á til þess að kjósa, og þarf ekki í rauninni frekar vitna við, en þann ágreining, sem strax á fyrsta degi umr. kemur fram meðal flm. og samherjanna sjálfra?

Ótalin er þó enn sú till. í sambandi við stjórnlagaþingið, sem mér finnst í rauninni sú furðulegasta, sem ég hef heyrt varðandi endurskoðun stjórnarskrárinnar, og það er sú till. hv. þm. S-Þ. (KK), vafalaust studd af Framsfl., að við val fulltrúa til stjórnlagaþings sé stjórnmálamönnum bannað að koma þar nærri, eða eins og þeir orða það, það á að banna stjórnmálaflokkunum að bjóða fram eða eiga nokkurn hlut að þessari tilhögun. Það er að vísu kannske fullkomin ástæða til þess, eftir að maður hefur heyrt, hvernig sumir þm. hér í þessari deild frá Framsfl. tala um stjórnmálaflokka og flokksvald, að gera sér grein fyrir því, hvað þessir stjórnmálaflokkar eru. Mér hefur skilizt, að stjórnmálaflokkar væru fyrst og fremst samtök þeirra manna, sem hafa svipaðar lífsskoðanir og þeirra skoðanir falla í meginatriðum saman um það, hvernig beri að byggja upp þjóðfélagið og leysa þjóðfélagsvandamálin, um efnahagsmál, um atvinnurekstur, um félagsmál ýmiss konar, mannréttindi o.s.frv. Það eru skiptar skoðanir um þetta, sem skipta mönnum í skoðanahópa eða stjórnmálaflokka um alla veröld. Nú er talað um þessa skoðanahópa, sem bindast samtökum og kalla sig stjórnmálaflokka, eins og það sé einhver mesta meinsemd í þjóðfélaginu. Nú hafa flokkar að sjálfsögðu átt sér stað, að ég ætla, í hverju einasta lýðræðislandi í veröldinni. Fyrir meira en 2000 árum, á blómaskeiði Grikkja eða Hellena, þegar menning og framfarir voru mestar í Aþenuborg, t.d. á tímum Heraklesar og Sókratesar, þá var þar vitanlega flokkaskipting. Það voru aðallega tveir flokkar, sem höfðu töluvert ólíkar skoðanir í grundvallaratriðum, sem börðust um völdin. Þannig var það að sjálfsögðu einnig í Rómaríki á sínum tíma, og þannig var það í lýðríkinu íslenzka forðum daga. T.d. skiptist þingheimur árið 1000 í flokka, kristna menn og heiðna, og ekki aðeins þingheimur, heldur allur landslýðurinn. Og þannig var það á öllu lýðríkistímabilinu, að menn skiptust meira og minna í flokka, sumpart eftir misjöfnum skoðunum, lífsskoðunum eða skoðunum á þjóðfélagsmálum, sumpart eftir ættarfylgi eða fylgi við sérstakan höfðingja.

Manni virðist nokkuð einkennilegt, þegar einn þm. úr þeim flokki, sem hefur þó einna harðastan flokksaga og flokksræði hér á landi, Framsfl., kemur hér fram og talar eins og heilagur maður um, að þetta eigi að vera laust við öll flokksbönd og flokka og þessir stjórnmálaflokkar séu svo miklir skaðræðisgripir og þá væntanlega forustumenn þeirra, stjórnmálamennirnir, að þeir megi alls ekki koma nálægt, það verði í sjálfri stjórnarskránni væntanlega að banna þeim kjörgengi til stjórnlagaþingsins. Það má vel vera, að andrúmsloftið í þeim flokki, sem þessi hv. þm. hefur lifað og starfað í um áratugi, sé með þessum hætti, að það grundvalli slíkan dóm, en ég vil alveg frábiðja mér slíka dóma og slíkar hugsanir og kenningar varðandi þann flokk, sem ég er í.

Það á sem sagt eftir tillögum hv. þm. og Framsfl. að útiloka frá fulltrúavali til stjórnlagaþings stjórnmálasamtök. (Gripið fram ís Ekki stjórnmálamenn.) Það eru ekki til stjórnmálaflokkar, nema einhverjir menn séu í þeim. Ég hef aldrei heyrt getið um stjórnmálaflokk mannlausan, — hefur hv. þm. heyrt þess getið? (Gripið fram í.) Ef á að banna stjórnmálaflokkunum að eiga hér hlut að máli, þá þýðir það auðvitað í verki, að stjórnmálamennirnir, þ.e.a.s. forustumenn stjórnmálaflokkanna, það er ætlazt til, að þeir komi þar ekki nálægt og megi engin samtök í því efni hafa. En nú er það þannig, að stjórnmálin og þjóðmálin eru vitanlega fyrst og fremst þau mál, sem þjóðin á öll saman. Þessi hugsun er því ákaflega furðuleg.

En hvaða samtök eru það þá, sem ætlazt er til að standi að kosningu á stjórnlagaþing, því að einhver samtök hljóta þetta að vera? Ég býst ekki við, að þm. ætlist til þess, að það séu eingöngu einstaklingar. Það eru vitanlega til margvísleg samtök hér, sem eftir hans till. ættu að hafa heimild til framboðs. Við skulum taka Alþýðusamband Íslands, það ætti þá að mega standa að framboðum og framboðslistum og koma til greina með uppbótarsæti til stjórnlagaþings. Nú var það svo fyrir síðustu alþingiskosningar, að þeir, sem þá réðu í Alþýðusambandinu, gerðu tilraun til þess að gera Alþýðusambandið að pólitískum flokki og láta sambandið standa að stjórnarmyndun og framboði. Það getur þá líka orðið álitamál, hvort Alþýðusambandið hefði rétt til að standa að kosningu til stjórnlagaþings. Við skulum taka stærstu verzlunarsamtökin hér, eins og Samband íslenzkra samvinnufélaga, það mundi tvímælalaust eftir till. þm. hafa rétt til þess að standa að framboðum, vera sem sagt frambjóðandi og hafa rétt til uppbótarsæta o. s. frv. Og þannig mundi vafalaust vera um mörg önnur samtök, eins og Farmanna- og fiskimannasambandið, Landssamband sjómanna, Landssamband iðnaðarmanna, að maður tali nú ekki um eins og t.d. Góðtemplararegluna og önnur slík mannúðar- og merkissamtök, Bindindisfélag ökumanna, Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna og Skreiðarsamlagið. Það eru ýmis svona bæði hagsmuna- og áhugasamtök, sem mér skilst að mundu standa að framboðum og kosningu til stjórnlagaþings eftir till. hv. þm. En þau stjórnmálasamtök, sem eru snar þáttur í hverju einasta lýðræðisþjóðfélagi, mega ekki koma þar nálægt.

Nú er það vafalaust um þessi samtök, sem ég hef nefnt af handahófi, og fjöldamörg önnur mannúðar-, menningar-, líknar- og framfarafélög, sem til greina kæmu, að ég ætla, að flest þessi samtök hafi einhver tiltekin áhugamál, tiltekin hagsmunamál, sem þau berjast fyrir, og þau mundu auðvitað fela sínum fulltrúum að bjóða fram með það í huga, að þessir fulltrúar berðust sérstaklega fyrir þeim, í flestum tilfellum vafalaust góð mál og gagnleg. En ég vil spyrja: Eru líkur til þess, að fulltrúar slíkra hagsmuna- og áhugasamtaka, sem snúast að einstökum málaflokkum í þjóðfélaginu, hefðu meiri heildaryfirsýn og víðsýni til að bera á stjórnlagaþingi, heldur en stjórnmálamennirnir og stjórnmálaflokkarnir? Ég svara þessu hiklaust neitandi, og ég ætla, að þegar gaumgæfileg athugun fer fram á þessari till. hv. þm. S-Þ., — ég ætla, að hún hafi varla verið tekin alvarlega hingað til, — þá muni flestir komast að þeirri niðurstöðu og væntanlega jafngreindur og hygginn og sanngjarn maður og flm. sjálfur, að þetta er í rauninni ekki framkvæmanlegt og mjög óæskilegt, ef hún ætti að ná fram að ganga.

Vegna þess, hve hv. þm. S-Þ. og málsvarar og málgögn Framsfl. hafa rætt mjög um heildarendurskoðun stjskr. í sambandi við kjördæmamálið, sem hér liggur fyrir, og um stjórnlagaþing, þá hef ég talið rétt að reifa nokkuð gang þessa máls og taka til athugunar þær till., sem hér hafa fram komið í því máli, en það frv., sem hér liggur fyrir á þskj. 368, fjallar um það að breyta kjördæmaskipun og tilhögun alþingiskosninga.

Það fyrirkomulag, sem nú er í gildi, er samsafn eða sambland af ýmsu, það eru bæði einmenningskjördæmi, tvímenningskjördæmi, átta manna kjördæmi, meirihlutakosning, hlutfallskosning og jöfnunarþingsæti. Hvað eftir annað hefur síðan 1934 verið reynt að lagfæra þetta skipulag þannig, að þingið yrði sem réttust mynd af þjóðarviljanum. En vegna þeirrar þróunar, þeirra miklu tilflutninga, sem eiga sér stað hér á landi, og breytinga á atvinnuháttum, hefur það reynzt svo, að þessar breytingar hafa ekki náð tilgangi nema að litlu leyti og um stutta stund.

1934 var sú grundvallarbreyting gerð, að inn í stjskr. var sett ákvæði um það, að úthluta skyldi allt að 11 þingsætum til jöfnunar milli þingflokka, svo að hver þeirra hafi þingsæti í sem fyllstu samræmi við atkvæðatölu sína við almennar kosningar. Menn ætluðu þá, að þessi jöfnunarþingsæti mundu hjálpa mjög til þess að skapa á Alþ. rétta mynd af vilja þjóðarinnar. Síðan var önnur breyting gerð 1942, aðallega sú, að teknar voru upp hlutfallskosningar í tvímenningskjördæmum. En reynslan hefur sýnt, að það skortir mjög á, að tekizt hafi að ná þeim árangri, sem til var stofnað. Það hefur sem sagt komið í ljós, að í flestum alþingiskosningum hefði þurft miklu fleiri uppbótarþingsæti til jöfnunar en 11 til þess að ná því marki stjskr., að þingflokkarnir hefðu þingsæti í sem réttustu hlutfalli við atkvæðamagn sitt við almennar kosningar. Og eftir miklar athuganir á því, hvaða skipan væri hentugust í þessu efni, hefur sú orðið niðurstaðan í þrem þingflokkum að bera fram þetta frv., sem byggist á því að stækka kjördæmi, sameina þau, hafa 8 kjördæmi í landinu, kosið verði hlutbundnum kosningum í þeim öllum og auk þess 11 þingsæti til jöfnunar.

Breytingarnar, sem frv. felur í sér, eru í fyrsta lagi, að á Alþ. eigi sæti 60 þjóðkjörnir þm. í stað allt að 52, eins og nú er ákveðið í stjskr., í öðru lagi, að 25 þm. skuli kosnir hlutbundinni kosningu í 5 fimm manna kjördæmum, í þriðja lagi, að 12 þm. skuli kosnir hlutbundinni kosningu í 2 sex manna kjördæmum, í fjórða lagi, að 12 þm. skuli kosnir hlutbundinni kosningu í Reykjavík, og loks, að 11 þm. skuli vera til jöfnunar.

Um tölu þm. fyrir hvert af þessum kjörsvæðum er það að segja, að í flestum tilfellum er tala landssvæðisins sú hin sama og nú er. Þó fær Miðvesturlandskjördæmið eftir frv. 5 þm. í stað 4, sem það hefur. Á Austurlandi verður 5 manna kjördæmi í stað 6 þm., sem sá landshluti hefur nú. Í Reykjavík er þm. fjölgað um 4, úr 8 í 12. Í Reykjaneskjördæmi verða 5 þm. í stað 2, sem nú eru. Enn fremur er sú breyting gerð varðandi landsk. þm., að í núgildandi stjskr. er ákveðið, að úthluta skuli allt að 11 þingsætum, en í þessu frv. er ákveðið, að þessum 11 þingsætum skuli jafnan úthlutað.

Þá er nú sá annmarki á, að varaþm. eru ekki til í einmenningskjördæmum, og kemur það sér oft illa. Í þessu frv. er ákveðið, að varaþm. skuli kosnir fyrir alla þm. og að varamenn skuli vera svo margir sem til endist á listanum, og er það eftir því fordæmi, sem nú um hríð hefur gilt varðandi bæjar- og sveitarstjórnarkosningar.

Nú er mjög um það rætt, hvort sé heppilegra fyrirkomulag fyrir þjóðina eða þjóðirnar yfirleitt, því að fyrirkomulag hjá öðrum þjóðum hefur mjög borið á góma, — hvort sé heppilegra að hafa einmenningskjördæmi og meirihlutakosningu eða stærri kjördæmi og hlutfallskosningu.

Það eru nú um það bil 100 ár liðin, síðan fyrstu tillögur komu upp um hlutbundnar kosningar, og var það nokkurn veginn jafnsnemma, að danski stjórnfræðingurinn Andræ og brezkur maður, Hare að nafni, báru fram till. um hlutfallskosningar. Næstu áratugi þar á eftir komu margir fleiri til. Bæði fengu þessar hugmyndir fljótt mjög mikinn hljómgrunn og stuðning, og síðan hafa margir aðrir fróðir menn komið til og gert sínar tillögur um hlutfallskosningarnar í framkvæmd, enda eru ýmsar aðferðir til að framkvæma hlutbundnar kosningar eftir, þó að sú aðferð, sem við Íslendingar notum bæði varðandi kosningar til Alþ. og til sveitarstjórna og kennd er við belgíska stærðfræðinginn de Hondt, muni vera algengust. Hins vegar hafa sumar þjóðir, sem búa við hlutfallskosningar, nokkuð aðrar reikningsaðferðir, sem skipta náttúrlega ekki verulegu máli.

Það var strax eftir að Bretinn Hare hafði borið fram sínar till. um hlutfallskosningar, að einhver frægasti og merkasti heimspekingur ekki aðeins Breta, heldur jarðarinnar, John Stuart Mill, tók þessa hugmynd upp og vakti athygli á henni, taldi hana vera mjög þýðingarmikla fyrir lýðræðið og komst jafnvel svo að orði, þegar hann lofaði mjög þessar tillögur hans, að þessar tillögur um hlutbundnar kosningar væru meðal langmerkustu umbóta, sem gerðar hefðu verið í sögu mannkynsins um stjórnmál og stjórnfræði. Þegar slíkar maður vakti máls á þessu, urðu þessar till. að sjálfsögðu þegar kunnar víða um heim.

Ég skal ekki rekja hér ýtarlega þá hugsun, sem býr á bak við hlutfallskosningar, en hlutfallskosningar eru fyrst og fremst réttlætismál, og þær eru sprottnar upp af réttlætistilfinningum mannanna. Þess vegna er það ekki að ófyrirsynju, heldur var þar naglinn alveg hittur á höfuðið, þegar Þórhallur biskup Bjarnarson tók svo til orða um hlutfallskosningar, að hlutbundnar kosningar væru honum bæði hita- og kappsmál, vegna þess að þær eru runnar af rót réttlætisins, og í rauninni held ég, að erfitt sé að draga í efa, að hér er um fullkomið réttlætismál að ræða. En síðar skal ég minnast nokkuð á þá annmarka og þá gagnrýni, sem fram hefur komið á þessu fyrirkomulagi frá ræðumönnum hér í þessum umræðum.

Fyrr á öldum var það svo, að allir þjóðfélagsborgarar höfðu rétt til þess að koma á þjóðsamkomurnar, taka þar þátt í umræðum um þjóðfélagsmálin og greiða þar atkvæði, og voru allir með einn og sama atkvæðisrétt. Þannig var það í grísku borgríkjunum, hjá Rómverjum, og þannig var það yfirleitt og hefur verið, þar sem þjóðmálin og stjórnmálin hafa verið útkljáð á almennum samkomum borgaranna, þar sem allir máttu koma. Ég vil vekja athygli á því, að það mun aldrei hafa komið fyrir, að þeir, sem áttu eitthvað lengra að sækja á slíka fundi, hafi krafizt þess að hafa tvöfaldan eða þrefaldan atkvæðisrétt á við hina, heldur var það alveg ófrávíkjanleg, sjálfsögð réttlætis- og jafnréttiskrafa, að allir hefðu eitt atkv. hver. Nú er að sjálfsögðu svo komið, að óvíða er hægt að koma við þessu fyrirkomulagi, að borgararnir komi sjálfir á fundi til þess að greiða þar atkvæði, og þess vegna kjósa þeir sína fulltrúa. Og það er hvort tveggja, ef menn vilja hafa samræmi í þessu, að þá er eðlilegt, að um fulltrúaval hafi allir borgararnir jafnan atkvæðisrétt og áhrifarétt, og hins vegar, að eins og meiri hl. réð auðvitað á þessum þjóðfundum eða þjóðarsamkomum, en minni hl. hafði rétt til að láta til sín heyra, láta sína rödd heyrast, eins er það réttmætt, þegar borgararnir mæta ekki sjálfir á slíkum samkomum, heldur velja sér fulltrúa, að þá hafi minni hl. einnig rétt til að láta til sín heyra, en möguleikar hans til þess séu ekki fyrir borð bornir, eins og því miður er mjög mikil hætta á, eins og reynslan sýnir, ef alger meirihlutakosning er látin ráða, því að þá er það yfirleitt svo, að það er meiri hl., sem fær alla fulltrúana kjörna, en minni hl. hefur ekki möguleika til að koma sínum hugmyndum á framfæri einu sinni eða láta til sín heyra í löggjafarsamkomunni.

Hlutfallskosningarnar eru því fyrst og fremst hugsaðar þannig, að þær eigi að tryggja rétt minni hl. Og ég vil benda á það, að í lýðræðisþjóðfélagi er það grundvallaratriði, ekki aðeins að meiri hl. ráði, heldur að tekið sé tillit til minni hl. Og þess vegna er það í mannréttindaákvæðum stjórnarskráa flestra lýðræðisríkja, að þar eru mönnum tryggð ýmis borgaraleg réttindi, og það þykir ekki gott lýðræðisþjóðfélag, sem alveg hunzar rétt minni hl. og útilokar hann frá áhrifum í þjóðfélaginu.

Ég vildi nú víkja hér nokkrum orðum að því, hvernig bæði nágrannaþjóðir okkar og ýmsar aðrar þjóðir í Evrópu leysa þessi mál. Ef við tökum fyrst þá þjóð, sem okkur er skyldust, Norðmenn, þá lögleiddu Norðmenn hjá sér hlutfallskosningar árið 1920. Þeir hurfu frá einmenningskjördæmum með meirihlutakosningum og tóku upp hlutbundnar kosningar í stórum kjördæmum. Þetta gerðist árið 1920. Þeir hafa nú 150 stórþingsmenn, þeir eru kosnir í 29 kjördæmum og eru 3–5 þm. í hverju.

Ég vil taka það fram út af sérstöku ákvæði, sem er í stjórnarskrá Norðmanna og mér vitanlega hvergi annars staðar og stundum er vitnað í, — það er hinn svokallaði bændaparagraf eða bændagrein, — að það er ákveðið í stjórnarskránni, að hlutfallið frá landsbyggðinni eða sveitunum á móti hlutfalli fulltrúa frá bæjunum skuli alltaf vera tveir á móti einum, m.ö.o., að landsbyggðin skuli alltaf hafa tvisvar sinnum fleiri þm. á Stórþinginu, heldur en bæirnir. Nú hefur þetta orðíð til þess í reynd, þó að það sé hugsað þannig að tryggja rétt landsbyggðarinnar og strjálbýlisins, að bæirnir hafa hlutfallslega fleiri fulltrúa á Stórþingi, en landsbyggðin. Um tíma var það þannig jafnvel, að hvert atkvæð í bæjunum vó fimm sinnum þyngra á metaskálunum en atkv. úr sveitunum, þannig að þurfti t.d. aðeins 200 atkv. á bak við þm. úr bæjum, meðan þurfti 1.000 atkv. á bak við hvern þm. af landsbyggðinni, og jafnvel enn í dag ætla ég, að þessi svokallaði bændaparagraf komi bæjunum til góða, því að það eru fleiri kjósendur, sem standa að baki hvers þm. í sveitunum í Noregi, heldur en úr bæjunum. Hins vegar er trúlegt, að með miklu aðstreymi til bæjanna breytist þetta og að þá verði þessi stjórnarskrárgr. til þess, að sveitirnar fái hlutfallslega fleiri þm., ef þá ekki verður búið að afnema þessa gr., sem sætir mjög mikilli gagnrýni.

M.ö.o. hafa verið í Noregi nú um nær 40 ára skeið hlutfallskosningar í stórum kjördæmum.

Í Svíþjóð eru hlutfallskosningar til fulltrúadeildarinnar eða neðri deildarinnar, sem skiptir aðallega máli hér, því að það eru landsþingin eða lénin, sem tilnefna með öðrum hætti til efri deildarinnar. Þar voru hlutfallskosningar lögleiddar 1909. M.ö.o.: nú á þessu ári eiga hlutbundnar kosningar hálfrar aldar afmæli í Svíþjóð.

Þar eru 28 kjördæmi, og kjördæmin falla að mestu leyti saman við lénin í Svíþjóð, en lénin svara til amtanna í Danmörku, fylkjanna í Noregi og fjórðunganna hér á landi. Lénin samsvara ekki sýslunum á Íslandi, heldur fjórðungunum.

Tala þm. er ákveðin þar og útreiknuð á fjögurra ára fresti í hverju kjördæmi, þ.e.a.s. heildartala þm. er ákveðin, en svo er reiknað út eftir fólksfjölda í hverju af þessum 28 kjördæmum á fjögurra ára fresti, hvað hvert kjördæmi, hvert lén, eigi að fá marga þm. M.ö.o.: þetta fylgir alveg flutningum fólksins. Og þar er atkvæðisrétturinn alveg jafn, þannig að t.d. íbúar í Stokkhólmi hafa nákvæmlega sama atkvæðisrétt og íbúar nyrzt norður í Lapplandi, í strjálbýlinu þar. Það eru t.d. í Stokkhólmi nú, að ég ætla, 24 þm., og þar er þetta umreiknað á 4 ára fresti á þeim grundvelli, að allir borgarar, hvar sem þeir búa, hafi jafnan rétt.

Í Danmörku voru hlutfallskosningar til Fólksþingsins lögleiddar árið 1915. Þeir hurfu frá meirihlutakosningu í einmenningskjördæmunum.

Í Danmörku er hlutfallskosning enn í dag. Kosnir eru 179 þm. Af þeim eru tveir frá Grænlandi og tveir frá Færeyjum, en í Danmörku sjálfri eru kosnir 175 þm. Af þeim eru 135 í kjördæmum, en 40 uppbótarsæti.

Danmörku er skipt í þrjú stór kjörsvæði, Kaupmannahöfn, eyjarnar og Jótland. Síðan eru smærri kjörsvæði innan þeirra, og eru yfirleitt 4–7 þm, í hverju. Það eru að nafninu til einmenningsframboð, en hafa enga þýðingu við uppgjör kosninganna. Það er í rauninni meira formsatriði, þannig að kosningin, talning og úthlutun allra þingsæta fer eingöngu eftir hlutfallsreglum.

Í stjórnarskrá Dana er beinlínis ákveðið, að þar skuli vera hlutfallskosningar til að tryggja jafna fulltrúatölu fyrir mismunandi skoðanir meðal kjósendanna.

Í Danmörku er það einnig þannig, að þingmannatölunni er skipt niður á þessi stóru kjörsvæði og minni kjördæmi á 10 ára fresti eftir mannfjölda.

Í hinu fjórða Norðurlandanna, Finnlandi, voru hlutfallskosningar lögleiddar árið 1906 og hafa verið óbreyttar þar í meginatriðum síðan.

Þm. eru þar 200 að tölu, þar af 1 frá Álandseyjum, en 199 kosnir í 14 stórum kjördæmum með hlutfallskosningu, og eru 8-32 þm. í hverju kjördæmi.

Það er sama reglan og í Svíþjóð, að allir kjósendur eru jafnréttháir og að tala þingmanna fyrir hvert kjördæmi er ákveðin fyrir hverjar þingkosningar samkvæmt manntali, breytist með fólksfjölda og fólksflutningum.

Norðurlöndin fjögur, önnur en Ísland, hafa því nú um langan aldur öll haft hlutfallskosningar, hafa horfið frá einmenningskjördæmum og meirihlutakosningu, Finnar síðan 1906, Svíar síðan 1909, Danir siðan 1915 og Norðmenn síðan 1920. Og ég veit ekki til þess, hef ekki heyrt það, að uppi séu neinar raddir frá ábyrgum mönnum í þessum fjórum löndum um að hverfa frá hlutfallskosningum og stórum kjördæmum og taka upp aftur einmenningskjördæmi og meirihlutakosningu.

Ég hef á undanförnum árum tekið þátt í ýmsum ráðstefnum norrænum, bæði með stjórnmálamönnum og áhrifamönnum, og ég verð að segja, að ég hef aldrei heyrt eina rödd frá neinu þessara landa um, að þeir menn óski þar eftir að fara aftur í gamla farið með einmenningskjördæmi.

Þetta er nú um þær þjóðir, sem við teljum okkur skyldastar að uppruna, ætterni, sögu og menningu og þjóðfélagsháttum, og ég ætla, að þessar þjóðir fjórar séu nú taldar einhverjar mestu lýðræðisþjóðir veraldarinnar.

Ef við víkjum að öðrum löndum í Evrópu, þá skal ég taka fyrst Holland. Þar voru árið 1917 ákveðnar hlutfallskosningar í 18 stórum kjördæmum til beggja þingdeilda, og svo er enn.

Í Belgíu voru hlutfallskosningar til fulltrúadeilda þingsins ákveðnar fyrr, en í nokkru öðru landi, eða árið 1899, fyrir 60 árum. Þar eru 212 þm. kosnir til fulltrúadeildar, og kjördæmin eru 30 að tölu. Í flestum þeirra eru kosnir 3-7 þm., en í nokkrum þó fleiri, og fjölmennasta kjördæmið hefur 32 þm.

Í Svisslandi er stjórnskipunin þannig, að 25 fylki eða kantónur, sem kallað er, hafa sína sjálfstjórn, og þær eru svo varðandi sambandsþingið kjördæmi hver fyrir sig. Kjördæmin eru því 25 að tölu. Þar voru hlutfallskosningar fyrst teknar upp í einni kantónunni árið 1890. Nú eru þær lögleiddar í allflestum fylkjanna varðandi kosningar innan þeirra. Varðandi kosningar til sambandsþingsins í Sviss voru hlutfallskosningar lögleiddar að undangengnu þjóðaratkvæði með miklum meiri hl. árið 1918. Tala þm. fyrir hvert kjördæmi fer eftir fólksfjöldanum, og allir borgarar, hvar sem þeir búa í landinu, hafa jafnan atkvæðisrétt. Meginreglan er sú, að þar er einn þm. fyrir hverja 24 þús. íbúa. Höfuðborgin, Bern, sem hefur 800 þús. íbúa, hefur samkvæmt þessu nákvæmlega 33 þm., næststærsta borgin, Zürich, 32 þm. Aðrar kantónur eða kjörfylki eru yfirleitt með 2–16 þm.

Hér bætast því við þessi þrjú eindregnu lýðræðisríki, Holland, Belgía og Sviss.

Hér hef ég því nefnt sjö af allra tryggustu og einlægustu lýðræðisþjóðum Evrópu, sem allar hafa haft um áratugi hlutbundnar kosningar í stórum kjördæmum, — skipan, sem þær hafa tekið upp, eftir að þær höfðu um mjög langan aldur haft einmenningskjördæmi og meirihlutakosningu. Þessar þjóðir eru einhverjar allra friðsömustu lýðræðisþjóðir veraldarinnar, og mér er ekki kunnugt um það, að í þessum sjö þjóðlöndum séu raddir uppi um að hverfa aftur til einmenningskjördæma.

Ég vil nefna nokkur ríki, sem því miður hafa orðið að lúta í lægra haldi og missa sjálfstæði sitt fyrir ofbeldi erlendis frá, — ríki, sem fengu sitt sjálfstæði, settu sér stjórnarskrá og komu á sínu lýðræði og menningu til fyrirmyndar fyrir aðrar þjóðir eftir fyrri heimsstyrjöldina.

Tékkóslóvakía lögleiddi hjá sér hlutfallskosningar til beggja þingdeilda í fleirmenningskjördæmum, þar sem voru 6–40 þm. í hverju.

Lettland lögleiddi, þegar það fékk sitt sjálfstæði eftir fyrir heimsstyrjöldina, hlutfallskosningar í stórum kjördæmum og ákvað, að sérhvert kjördæmi skyldi kjósa fulltrúatölu í réttu hlutfalli við tölu kjósenda í kjördæmunum.

Lithaugaland ákvað einnig í sinni stjórnarskrá hlutfallskosningu til þingsins.

Eistland ákvað einnig í sinni stjórnarskrá, að þjóðþingið skyldi skipað 100 þm., kosnum á grundvelli hlutfallskosninga, að viðhöfðum almennum, jöfnum, beinum og leynilegum kosningum.

Þó að sorglega hafi farið fyrir sjálfstæði þessara þjóða, þá ætla ég þó ekki, að neinn haldi því fram, að það sé kosningafyrirkomulagið í þessum löndum, sem varð þess valdandi, að stórveldið í austri hremmdi þessar þjóðir og lagði þær undir sinn járnhæl.

Nú spurði hv. þm. S-Þ., hvort við gætum nefnt nokkurt land, sem tekið hefði upp hlutfallskosningar á hinum síðustu árum. Og hann sagði, að sér væri ekki kunnugt um neitt. Þetta er ósköp eðlilegt, að hann hafi ekki heyrt um það og ég ekki heldur, vegna þess að langflestar lýðræðisþjóðir í Evrópu voru búnar að taka upp þetta skipulag áður, svo að þess vegna er ekki von, að hann heyri neitt um breytingar í því efni. Hins vegar eru viss ríki, sem hér hafa verið gerð að umtalsefni og eiga nú að vera aðalhaldreipi Framsfl. í andstöðu hans gegn slíku réttlætismáli og lýðræðiskröfu eins og hlutbundnar kosningar eru.

Fyrst og fremst er það Írland. Þar voru lögleiddar hlutbundnar kosningar árið 1922, bæði til þings og sveitarstjórna. Nú segja framsóknarmenn, að þar séu uppi ákveðnar till. og raddir um það að hverfa aftur frá því til einmenningskjördæmanna. Það er rétt, að till. hafa komið þar frá núverandi forsætisráðherra Íra, að ég ætla, um að hverfa til einmenningskjördæmanna. En um þetta standa miklar deilur í Írlandi og er með öllu óvíst og eftir þeim fregnum, sem ég hef, fremur ólíklegt, að þessi breyting nái fram að ganga.

Varðandi Frakkland, þá er mjög vitnað í það, að hlutbundnar kosningar í Frakklandi hafi orðið Frakklandi að falli, jafnvel oftar, en einu sinni. Í fyrri heimsstyrjöldinni má náttúrlega segja, að Frakkland reyndist miklu veikara, bæði um hernaðarmátt og stjórn, heldur en menn höfðu gert ráð fyrir, og er talið, að sundrung meðal Frakka og stjórnleysi hafi valdið því að nokkru, hversu illa gekk fyrir Frökkum í fyrri heimsstyrjöldinni framan af, þangað til þeim barst liðstyrkur annars staðar frá. En gallinn í málflutningi framsóknarmanna er bara sá, að á þessum tíma voru einmenningskjördæmi og meirihlutakosning um allt Frakkland, því að það var ekki fyrr en árið 1919, eftir fyrri heimsstyrjöldina, sem hlutfallskosningar voru lögleiddar þar og þó að mjög takmörkuðu leyti.

Næsta haldreipið er svo það líklega, að hrun Frakklands 1940, í síðari heimsstyrjöldinni, og sundrung, óeining, stjórnleysi og ófarir Frakklands hafi átt rót sína að rekja til stjórnskipunarinnar og þá fyrst og fremst kjördæmaskipunarinnar. Við það er þetta að athuga, að á þessu tímabili var líka aftur búið að taka upp meirihlutakosningu í einmenningskjördæmunum, því að þessar takmörkuðu hlutfallskosningar í Frakklandi, sem voru teknar upp 1919, voru afnumdar 1927, og árin 1927–46, þangað til eftir síðari heimsstyrjöldina, voru einmenningskjördæmi með meirihlutakosningu í Frakklandi, svo að ekki stenzt sú röksemd.

Árið 1946 eru svo teknar upp hlutfallskosningar í Frakklandi, en stórfelld breyting er gerð árið 1951, svo stórfelld breyting, að aðalreglan frá 1951 er einmenningskjördæmi og meirihlutakosning. Það eru einmenningskjördæmi og meirihlutakosning frá 1951 og til nýju stjórnarskrárinnar, sem de Gaulle beitti sér fyrir, í langsamlega flestum kjördæmum. Það hafa verið 103 kjördæmi í Frakklandi, og það var aðeins í 8 kjördæmum, þ.e. Parísarborg og umhverfl hennar, sem var kosið hlutbundnum kosningum, að vísu töluvert fjölmenni, en það voru þó aðeins 8 kjördæmi af 103, þar sem kosið var hlutbundnum kosningum.

Nú hélt hv. þm. Str. (HermJ) því fram, að hlutbundnar kosningar hefðu steypt lýðveldinu í Frakklandi. Hann vill telja, væntanlega, að þar sé ekki lýðveldi eða lýðræði enn. Ég er honum ekki sammála um það, því þó að þar hafi orðið breyting mikil á stjórnháttum og vafalaust óhjákvæmilegt að fá þar styrkari stjórn, en verið hafði, og þó að þeir atburðir hafi orðið með öðrum hætti, en lýðræðisþjóðir telja æskilegar, þá er það í meginatriðum þannig, að núverandi forseti Frakklands hefur svipuð völd og forseti Bandaríkjanna. Í meginatriðum er það þannig samkv. stjórnarskránni.

Þessir þrír atburðir í Frakklandi, sem framsóknarmenn skrifa á reikning hlutbundinna kosninga, hrunið eða ófarirnar í byrjun fyrri heimsstyrjaldar, hrunið í byrjun síðari heimsstyrjaldar og valdataka de Gaulles, þetta fellur allt saman um sjálft sig, því að þetta er byggt allt saman á misskilningi og vanþekkingu. Árið 1914 eru einmenningskjördæmi með meirihlutakosningu, 1940 eru einmenningskjördæmi með meirihlutakosningu, og 1958, þegar de Gaulle kemst til valda, þá eru einmenningskjördæmi og meirihlutakosning í 95 kjördæmum, en hlutbundnar kosningar í aðeins 8.

Þá er það Þýzkaland. Þar eiga hlutfallskosningarnar líka að hafa steypt Weimar-lýðveldinu og komið Hitler og nazistum til valda.

Árið 1918, þegar lýðveldið var stofnað, voru ákveðnar hlutfallskosningar til þingsins í 35 kjördæmum. Og það skipulag gilti fram yfir valdatöku Hitlers. En hver er nú sannleikurinn í því, að þetta fyrirkomulag hafi valdið svo mikilli ringulreið og fjölgað svo flokkum í Þýzkalandi, að það hafi orðið Weimar-lýðveldinu að falli? Ég skal vitna hér í ummæli mjög merks fræðimanns um þessi mál, sem skrifað hefur í Encyclopedia of the Social Sciences, sem er viðurkennd alfræðiorðabók um félagsvísindi og stjórnvísindi um allan heim. Hann skrifar þar, þessi höfundur, að það sé nokkuð almenn gagnrýni hjá andstæðingum hlutfallskosninga, að þær fjölgi flokkum og skapi erfiðleika um myndun meiri hluta á þingi. Síðan segir hann: „Vandleg vísindaleg rannsókn á stjórnmálaástandi og þróun fjölda landa, áður og eftir að hlutfallskosningar voru teknar upp, sýnir, að slík ályktun sem þessi hefur ekki við rök að styðjast. Í Belgíu hafði Kaþólski flokkurinn þingmeirihluta hreinan mörg ár, bæði fyrir og eftir 1899, þegar hlutfallskosningar voru lögleiddar.“ Sem sagt mörg, mörg ár, eftir að hlutfallskosningar voru lögleiddar, hafði þessi sami flokkur meiri hluta. Síðan segir þessi fræðimaður: „Hinir mörgu flokkar í Þýzkalandi voru til komnir fyrir 1918 og 1920, þegar gengið var frá stjórnarskránni með hlutbundnum kosningum.“ M.ö.o.: þessi fullyrðing um það, að hlutfallskosningar í Þýzkalandi hafi sundrað þjóðinni, sundrað þinginu, fjölgað flokkunum, grafið undan Weimar-lýðveldinu og komið Hitler til valda, hefur ekki við nokkur minnstu rök að styðjast. Alveg staðlausir stafir. Tala flokkanna var jafnmikil, áður en hlutfallskosningar komu, eins og eftir. Síðan bætir þessi fræðimaður við nokkrum athugasemdum t.d. um Sviss. Hann segir, að einn nýr flokkur hafi aukizt að fylgi eftir 1918, þegar hlutfallskosningar voru teknar upp, en sá flokkur var stofnaður áður. Hann var orðinn til áður, þó að hann yki fylgi sitt nokkuð eftir hlutfallskosningarnar. Og síðan bendir hann á, að í Bandaríkjum Norður-Ameríku, þar sem hlutfallskosningar hafa verið hafðar á nokkrum stöðum, aðallega varðandi bæjar- og sveitarstjórnarmál, hafi ekki orðið þess vart, að risið hafi upp smáflokkar í kjölfar þess. Siðan segir þessi fræðimaður: „Eðli flokkakerfisins er ekki eins komið undir kosningakerfinu og allt öðrum ástæðum og öflum, svo sem félagslegu ástandi, ástandi í efnahagsmálum, trúarlegum sjónarmiðum, kynþáttasjónarmiðum, tungumálu, stjórnmálaástandi í hverju landi á hverjum tíma.“

Ég ætla, að hér hafi nú verið svarað nokkuð þessum fullyrðingum, sem eru alveg rakalausar, um hrun lýðvelda og þjóða vegna hlutfallskosninga.

En við getum aðeins vikið hér lauslega að því, hvernig þessi mál horfa við hér hjá okkur sjálfum. Við höfum haft hlutfallskosningar um langan aldur. Ég ætla, að það sé um það bil hálf öld, síðan hlutfallskosningar voru upp teknar í bæjarstjórnarkosningum, og eru þær nú orðnar almennar um sveitarstjórnarkosningar. Ég veit ekki til þess, að þetta fyrirkomulag hafi skapað upplausn í bæjarstjórnunum. Ég veit dæmi þess, að flokkar og listar voru miklu fleiri, meðan kosið var meirihlutakosningu, á sumum stöðum og sums staðar, heldur en, eftir að hlutbundnar kosningar voru upp teknar. Við höfum bent á höfuðstaðinn. Alveg án þess að fara nokkuð út í umr. um það, hvernig málefnum Reykjavíkurbæjar hafi verið stjórnað, þá er sannleikurinn sá, að nú í full 30 ár, síðan Sjálfstfl. var stofnaður, hefur sá flokkur haft hreinan meiri hl. í bæjarstjórn Reykjavíkur. Allan þennan tíma hafa verið þar hlutfallskosningar. Upplausnar vegna hlutfallskosninga eða myndunar margra flokka hefur alls ekki orðið vart í bæjarstjórnarkosningum á fjögurra ára fresti í þrjátíu ár í höfuðborg landsins. Og það má einnig benda á annað. Við síðustu bæjarstjórnarkosningar fyrir hálfu öðru ári skapaðist einmitt meiri hl., samhentur meiri hl., í fleiri bæjum, en verið hafði. M.ö.o.: þó að hlutfallskosningar væru, þá skapaðist sums staðar samstæður meiri hl., sem ekki hafði verið þar. T.d. hefur sami flokkurinn hreinan meiri hluta í bæjarstjórnum utan Reykjavíkur í Vestmannaeyjum, í Keflavík, á Sauðárkróki, í Ólafsfirði. Það er aðeins í Ólafsfirði, sem meiri hl. eins flokks var áður eða fyrir þessar bæjarstjórnarkosningar. M.ö.o.: þarna hafa við þessar síðustu bæjarstjórnarkosningar bætzt við þrír kaupstaðir, þar sem er hreinn meiri hl. eins flokks. Auk þess mætti náttúrlega nefna í þessu sambandi Akranes. Þar er að vísu ekki einn flokkur, sem hefur meiri hl., en það er flokkasamsteypa, sem bauð fram sameiginlega með sameiginlegum málefnasamningi og á einum lista.

Reynslan af bæjarstjórnarkosningum hér á landi í marga áratugi bendir því ekki til upplausnar af hlutfallskosningum, þvert á móti.

Þingmönnum Framsfl. þykir það ákaflega mikils virði að geta vitnað í Vestur-Þýzkaland eða Sambandslýðveldið þýzka sem rök fyrir sínu máli, vegna þess að það hafi tekið upp einmenningsskipulag og meirihlutakosningu. Þetta er ekki nema hálfur sannleikur. Þegar setja skyldi Vestur-Þýzkalandi stjórnarskrá eftir styrjöldina, voru um það mjög skiptar skoðanir, menn skiptust í skoðanahópa um það, hvort ætti að hafa hlutfallskosningar eða meirihlutakosningar, og síðan var gerð málamiðlun. Málamiðlunin er á þá leið, að einmenningskjördæmi eða meirihlutakosning skuli gilda um 60% þm., en 40% þeirra eru kosnir með hlutfallskosningu í formi uppbótarþingsæta. Það eru 400 þm. fæst á þingi Vestur-Þjóðverja, og af þeim eru 240 kosnir meirihlutakosningu, en 160 eru kosnir sem uppbótarþingmenn eftir hlutfallsreglu. Og svo strangir eru Þjóðverjar í því að fylgja hugsjón og lögmáli hlutfallskosningar og jafnrétti milli allra flokka, að ef það kemur fyrir í hinum einstöku kjördæmum, að einhver flokkur fær samtals fleiri þm. en hann á rétt á samkvæmt sínu atkvæðamagni, þá er þm. fjölgað til þess að jafna metin. Þannig hefur það komið fyrir, að þó að stjórnarskráin ákveði 400 þm. sem meginreglu, þá hafa þm. stundum verið fleiri til þess að ná fullkomnum jöfnuði milli stjórnmálaflokkanna.

Og loks komum við þá að þrautalendingu og haldreipi framsóknarmanna í þessu kjördæmamáli, það er hið heittelskaða Stóra-Bretland. Þar er þó öruggt, segja framsóknarmenn, og óumdeilanlegt, að eru einmenningskjördæmi með meirihlutakosningu, og Bretland eigum við vitanlega, ekki sízt eins og nú standa sakir, að taka okkur til fyrirmyndar um stjórnskipun og stjórnhætti. Nú er það að vísu rétt, að um marga hluti í stjórnskipun hafa Bretar sýnt mikinn stjórnmálaþroska á undanförnum öldum og Magna Charta þeirra frá 13. öld var vissulega ákaflega merkilegt plagg, merkilegt spor í þá átt að auka vald þjóðkjörins þings gegn konungi og tryggja mannréttindi. En þó er margs að minnast í stjórnsögu Breta. Þó að eftir aldagömlum ákvæðum hjá Bretum mætti vegna mannhelginnar engan mann hneppa í fangelsi eða taka af lífi án dóms og laga eða án venjulegrar dómsmeðferðar hjá óháðum dómstólum, þá gerðist það eitt sinn, að þegar þinginu brezka féll ekki við einn forsrh., þá gerði það sér lítið fyrir og samþykkti lög um, að hann skyldi tekinn af lífi, og það var gert án venjulegrar málsmeðferðar eða dóms. Og ef við lítum á stjórnskipun og sögu Breta, þá er vissulega vert að hafa það í huga, að þó að margt hafi verið þar með ágætum og til fyrirmyndar öðrum þjóðum, þá er auðvitað ákaflega margt þar líka úrelt og ranglátt, sem engin ástæða er fyrir okkur að taka til fyrirmyndar.

Svo að ég nefni nokkur dæmi vegna þess, hve framsóknarmenn vitna oft til Englands sem fyrirmyndarríkis í þessum efnum, þá hafa Englendingar arfgengt konungsdæmi. Er það kannske óskhyggja framsóknarmanna að breyta hér til og reyna að taka upp eitthvert slíkt fyrirkomulag á gamla vísu, sem að vísu stendur í nokkrum löndum enn, en flestar lýðræðisþjóðir eru þó fallnar frá? Önnur deild þingsins er lávarðadeildin, þar sem er sjálfkjörinn fjöldi aðalsmanna, erkibiskup og aðrir biskupar og höfðingjar. Hugsa framsóknarmenn sér kannske að gera þessa ágætu Ed., sem við stöndum í, að einhverri slíkri málstofu, þar sem yrðu sjálfkjörnir einhverjir höfðingjar í þjóðfélaginu?

Í Englandi kemur það fyrir, að kjósendur geta kosið samtímis í tveimur eða fleiri kjördæmum, hafa margfaldan kosningarrétt, ekki aðeins þar, sem þeir eiga heimili, heldur líka þar, sem þeir hafa kannske skrifstofu eða verzlun eða atvinnurekstur.

Ég vil nefna eitt nýlegt dæmi. Það kom fyrir í kosningum til Bretaþings 1951, að annar hinna stóru flokka þar, Varðveizluflokkurinn, Konservatívi flokkurinn, fékk meiri hluta á þingi Breta, en Verkamannaflokkurinn hafði fleiri atkvæði meðal kjósendanna. Er þetta í fullu samræmi við réttlætishugmyndir framsóknarmanna, að þar sem tveir flokkar nokkurn veginn jafnstórir deila um völdin, þar sé það allt í lagi, þó að sá flokkurinn, sem fær færri atkvæði hjá þjóðinni, fái meiri hluta á þinginu? En þetta skeði þar og getur iðulega skeð þar, sem fyrirkomulag eins og enska fyrirkomulagið er. Það má nefna annað dæmi frá Bandaríkjunum, að á seinni hluta 19. aldar var kosið þar. (Gripið fram Í: Hefur það ekki skeð í Reykjavík í hlutfallskosningum?) Nei, ekki þetta, sem ég nefndi frá Bretlandi, það hefur aldrei skeð hér. Það hefur aldrei komið fyrir, að einn flokkur, sem fékk meiri hluta kjósenda, fengi ekki meiri hl. í bæjarstjórn, og getur ekki komið fyrir. — Í Bandaríkjunum gerðist það á seinni hluta 19. aldar, að kosinn var Bandaríkjaforseti, þó að mótframbjóðandi hans hefði nokkrum tugum þúsunda fleiri atkv., vegna þess að þar eru kjörmenn, sem velja forsetann, valdir í einmenningskjördæmum, og eins og ég skal minnast nokkuð á nánar, þá eru þær hættur jafnan fylgjandi einmenningskjördæmunum.

Varðandi Bretland vil ég að öðru leyti taka fram, að það er engan veginn einhugur um það að halda einmenningskjördæmunum í Bretlandi. Frjálslyndi flokkurinn þar, sem hefur að vísu mjög fá þingsæti, en á þó nokkurt fylgi með þjóðinni og á sér mjög glæsilega sögu, ekki sízt meðan hann var undir forustu þeirra Gladstones, Lloyd Georges og fleiri af mestu og göfugustu forvígismönnum Breta, þessi flokkur beitir sér eindregið fyrir því að breyta kjördæmaskipuninni í Bretlandi og taka upp hlutfallskosningar. Hins vegar er það þannig, að stóru flokkarnir tveir, sem berjast um völdin og fara með völdin á víxl, virðast ekki hafa áhuga á því að breyta frá því, sem nú er.

En ég vil aðeins í sambandi við hið brezka fyrirkomulag bæta því við, og það er ekki út í bláinn, þegar ég segi, að það er ekki vist, að framkoma Breta gagnvart Íslendingum í landhelgismálinu væri slík sem hún er og hefur verið, ef þar hefðu verið hlutfallskosningar í stórum kjördæmum, því að það er vitað, að það eru viss tiltölulega fámenn einmenningskjördæmi, þar sem harðvítug barátta er jafnan milli aðalflokkanna, sem virðast ráða ótrúlega miklu um aðgerðir Breta í landhelgismálinu alla stund síðan 1952. En hv. framsóknarmenn telja, að í því sé fólgin í rauninni öll okkar sáluhjálp og tilvera sveitanna og líf íslenzkrar menningar, allt þetta sé undir því komið, að víð tökum nú Bretann til fyrirmyndar um stjórnskipun og stjórnhætti.

Það er langt síðan fyrst hófust umræður hér á landi um hlutfallskosningar. Það mun hafa verið árið 1887, sem hinn merki bóndi og framfaramaður, Tryggvi Gunnarsson, skrifaði grein í Ísafold, sem birtist þar 16. marz 1887. Þessi bóndi og verzlunar- eða kaupfélagsstjóri um langan aldur ræddi þar um kjördæmamálið og þá miklu annmarka, sem væru á því hvoru tveggja að hafa einmenningskjördæmi og að landið allt væri eitt kjördæmi, og hann lagði þar eindregið til, að farin væri sú leið að skipta landinu í 8 stór kjördæmi, eins og gert er með þessu frv., þó að mörkin séu að vísu nokkuð önnur milli einstakra lögsagnarumdæma, en hann gerði ráð fyrir. Hann lagði til, að landinu væri skipt í 8 kjördæmi, sem hvert velji 3–5 þm. með listakosningum.

Sama ár skrifaði Jón Ólafsson ritstjóri og alþm. grein um þetta mál. Það var í Ísafold 9. apríl, og þar heldur hann því eindregið fram, að taka beri upp hlutfallskosningar, vegna þess að það sé réttlætismál að berjast fyrir jafnrétti allra að hlutfalli réttu. Og hann segir m.a.: „Sé tólftungur allra kjósenda fylgjandi einni og sömu skoðun, þá eiga þeir rétt á að kjósa tólftung þingmanna. Þá kemst skoðun þeirra að einmitt í því hlutfalli, sem hún á rétt á.“

Hv. þm. N-Ísf. (SB) vitnaði hér m.a. í Pál Briem amtmann, grein, sem hann skrifaði í Eimreiðina árið 1900, þar sem hann mælir eindregið með hlutfallskosningum sem fullkomnu réttlætismáli og jafnrétti kjósendanna, því að atkvæði sérhvers kjósanda á að hafa fullt gildi í hlutfalli við önnur atkvæði. Hann segir enn fremur: „Það er óeðlilegt, að meiri hluti borgaranna kjósi alla fulltrúana og útiloki minnihlutann frá því að ræða málin á fulltrúaþinginu. Meiri hlutinn hefur rétt til að velja meiri hluta fulltrúanna og til þess að ráða, eftir því sem hæfilegt þykir, en minni hlutinn á að geta kosið minni hluta fulltrúanna til að geta haldið fram sínum skoðunum á fulltrúaþinginu. Á þann hátt verða málin bezt rannsökuð og rædd, og þar sem um velferðarmál landsins er að tefla, þá er þetta bezt fyrir land og þjóð.“ — Þetta voru orð Páls Briems amtmanns í grein hans í Eimreiðinni. En þetta mun vera með því fyrsta, sem hér á landi mun hafa verið rætt og ritað um hlutfallskosningar, það sem ég gat hér um.

Það virðist vera meginstefna Framsfl. að hafa einmenningskjördæmi og meirihlutakosningar um val alþm. Þó hefur það óskiljanlega fyrirbrigði orðið, að þeir virðast ekki kæra sig um, að í Reykjavík séu einnig höfð einmenningskjördæmi og meirihlutakosningar. Sem sagt: tvímenningskjördæmunum, sem nú eru, það má skipta þeim sundur og láta þau kjósa hvert sinn þm. En hver eru rök þess hjá framsóknarmönnum, að ekki eigi þá á sama hátt að skipta Reykjavík upp í — við skulum segja — 12 einmenningskjördæmi? Þau hafa ekki komið fram, og er ákaflega erfitt að skilja þau, nema það muni eiga einhvern þátt, sem einhver hefur hér orðað, að það stæði í sambandi við það, að Framsfl. mundi ekki hafa miklar vonir um að fá þingmann í Reykjavík, ef hér væru einmenningskjördæmi, en muni gera sér einhverjar vonir um að fá einn, ef 12 verði kosnir með hlutfallskosningu. Mér þykir ákaflega ólíklegt, að slíkar hugsanir bærist í hugum jafnheiðvirðra manna og þeirra.

En varðandi einmenningskjördæmin er rétt að athuga, hverjir eru meginkostir þeirra og gallar.

Kostir einmenningskjördæmanna eru vitanlega ýmsir, sem hér hafa verið raktir í þessum umr. fyrr og síðar, m.a. nánari kynni og persónuleg tengsl milli þm. og kjósenda og að kjósandinn hafi betri aðstöðu til þess að koma sínum áhugamálum á framfæri við þingmennina.

Um kosti einmenningskjördæmanna skal ég hér ekki ræða frekar, það hefur verið rakið svo ýtarlega af öðrum. En hins vegar eru í lýðræðisríki varðandi kosningar til þjóðþings slíkir megingallar á þessu fyrirkomulagi, með einmenningskjördæmi og meirihlutakosningar, að ég tel slíkt skipulag mjög óheppilegt. Til þess að hugsanlegt væri, að einmenningskjördæmi gæfu nokkuð rétta mynd af þjóðarviljanum, þá þyrftu þau að vera svo að segja öll jafnfjölmenn, því að ef mismunur er mikill á fólksfjölda í einmenningskjördæmum, þá er alltaf fyrir hendi sú yfirvofandi hætta, eins og sagan sýnir hér á Íslandi rækilega og áþreifanlega, að einn tiltekinn stjórnmálaflokkur reyni sérstaklega að afla sér fylgis í fámennustu kjördæmunum og fái þannig miklu fleiri þingfulltrúa en fylgi hans meðal þjóðarinnar segir til um.

Það er því grundvallarskilyrði fyrir því, að einmenningskjördæmi geti staðizt, að kjördæmin séu nokkurn veginn jafnfjölmenn. Hér á landi er tæpast hægt að koma því við. Það er að vísu hægt að skipta Reykjavík niður o.s.frv. En vegna tilflutninganna í þjóðfélaginu mundi til þess að fullnægja þessu, að það yrði nokkurn veginn sami mannfjöldi í einmenningskjördæmunum, verða að breyta um sýslumörk. Það yrði að taka jafnvel einn hrepp eða hluta úr hreppi frá þessari sýslu og setja hann yfir til annarrar, til þess að þessu skilyrði yrði fullnægt. Með öðru móti er það ekki hægt. Og ég ætla, að mörgum íbúum sveitanna mundi þykja það harla undarlegt, og illa kemur það heim við kenningar framsóknarmanna um, að hvergi megi skerða sýslurnar að neinu leyti, ef einmenningskjördæmi ættu að vera þannig, að flestar sýslur yrðu klipptar sundur og jafnvel sveltir og hreppar til þess að ná þessu undirstöðuatriði, að kjördæmin væru nokkurn veginn jafnfjölmenn. Jafnvel þegar af þessari ástæðu tel ég það frágangssök.

En ef menn nú vildu fallast á þetta samt, þá tel ég, að einmenningskjördæmi, þó að þau séu nokkurn veginn jafnfjölmenn, séu svo varhugaverð, að ekki sé hægt að fallast á þau. Það kemur nefnilega iðulega fyrir í einmenningskjördæmum, að enginn frambjóðandi eða engin landsmálasamtök eða flokkur hafi þar hreinan meiri hl. Þar er kannske fleiri um að ræða, og sá, sem flest fær atkvæði, er kosinn, þó að hann kannske hafi ekki nema þriðjung atkvæða eða minna en það. Og þannig er það mjög vel hugsanlegt, að með slíku skipulagi, þó að kjördæmin væru jöfn að fólkstölu, þá gæti einn flokkur fengið hreinan meiri hl. á löggjafarsamkomu, þó að hann hefði kannske

20–30 eða 35% kjósendanna að baki sér, og slíkt samræmist víssulega ekki lýðræðishugmyndum.

Auk þess má að sjálfsögðu nefna hér þann ágalla á hinum smáu kjördæmum, sem Tryggvi Gunnarsson kom einnig inn á í Ísafoldargrein sinni, og það er, eins og hann orðar það, að með þeim hætti kæmust nesjaskoðanir að í almætti sínu og sá þröngi sjóndeildarhringur hvíldi yfir, þar sem kjósendur velja helzt þann, sem þeir halda að mundi verða sínu héraði fylgisamastur, án þess að láta það ráða úrslitum, hver gagnlegastur þm. mundi verða landinu í heild sinni. — Þessi voru orð Tryggva Gunnarssonar.

Í ályktun flokksþings framsóknarmanna um kjördæmamálið segir svo, að „flokksþingið telur, að stefna beri að því að skipta landinu í einmenningskjördæmi utan Reykjavíkur og þeirra kaupstaða annarra, sem rétt þykir og þykja kann að kjósi fleiri en einn þm. Með hæfilegri fjölgun kjördæmakosinna þm. falli niður uppbótarlandskjörið“. Nú er það að vísu svo, að það er ekki heil brú í þeirri till. að ætla að hafa einmenningskjördæmi úti um allt land, nema í Reykjavík og einum eða tveimur kaupstöðum öðrum og hafa þar hlutfallskosningar, því að slíkt gefur ranga mynd af þjóðarviljanum. Hins vegar er náttúrlega hægt að hugsa sér hina leiðina: að hafa eintóm einmenningskjördæmi, og það er víssulega rétt að athuga í örfáum dæmum, hvernig þessar hugmyndir mundu taka sig út. Það er náttúrlega svo á sömu síðu, eins og málgagn Framsóknar, Tíminn, birtir þessar till. þeirra um einmenningskjördæmi og afnám uppbótarsæta, þá er þar á sömu síðu náttúrlega lýst yfir sem grundvallarstefnu Framsfl. að vinna að jafnrétti borgaranna.

Ef stefna Framsfl. um einmenningskjördæmin réði, — ég ræði þá í þessu sambandi um einmenningskjördæmi alls staðar, en ekki þessa fáránlegu hugmynd um að hafa hlutfallskosningar á einum eða tveimur stöðum, — ef einmenningskjördæmi væru alls staðar til þingkosninga og bæjar- og sveitarstjórnarkosninga, þá hefði útkoma bæjarstjórnarkosninganna hér í Reykjavík síðustu trúlega orðið sú, að einn og sami flokkur, Sjálfstfl., hefði fengið alla 15 bæjarfulltrúana. Hvorki Alþb., Alþfl., Framsfl. né aðrir hefðu komið þar neinum að. Er þetta réttlæti í augum framsóknarmanna? Ég vil segja, að ég tel það ekki. Ef við tökum þannig síðustu bæjarstjórnarkosningar í Hafnarfirði, þá urðu niðurstöður þeirra þá, að Alþfl. fékk 4 bæjarfulltrúa, Sjálfstfl. 4 og Alþb. 1. Ef þar hefðu verið annaðhvort einmenningskjördæmi eða við skulum segja bara hrein meirihlutakosning, þá hefði sá flokkurinn, sem hafði flest atkv., fengið alla bæjarfulltrúana; það var Sjálfstfl. með 1.360 atkv., en Alþfl. hafði 1.320. Ef meirihlutakosningahugsjónir Framsfl. hefðu ríkt þarna, þá hefðu sem sagt í síðustu bæjarstjórnarkosningum í Reykjavík Sjálfstfl. fengið alla 15 fulltrúana, og í Hafnarfirði hefði Sjálfstfl. fengið alla 9 fulltrúana kosna, en Alþfl. og Alþb. ekki einn einasta.

Ef við lítum á þingkosningar, hvernig þessar meirihlutakenningar koma þar út, og tökum alþingiskosningarnar 1953, — ég tek ekki þær síðustu, 1956, vegna þess að þá ruglaðist svo öll útkoma vegna kosningabandalags Alþfl. og Framsóknar, — hvernig hefði nú útkoman orðið í þeim þingkosningum, miðað við, að flokkarnir hefðu fengið sama atkvæðamagn og þeir fengu? Alþfl. fékk þá einn kjördæmakosinn þm. hér í Reykjavík, Þjóðvarnarflokkurinn fékk einn kjördæmakosinn og Sósíalistaflokkurinn fékk tvo kjördæmakosna. Ef nú einmenningskjördæma- og meirihlutaskipulag Framsfl. hefði gilt við þessar kosningar 1953 til Alþingis, þá hefði Alþfl. engan mann fengið, Alþb. engan og Þjóðvarnarflokkurinn engan. Framsfl. og Sjálfstfl. hefðu einir fengið þingmenn, og þeir hefðu fengið alla þingmennina. Framsfl. og Sjálfstfl. höfðu að baki sér 59% af þjóðinni, en hinir flokkarnir fjórir, sem buðu fram, Alþfl., Alþb., Þjóðvörn og Lýðveldisflokkurinn, höfðu til samans 41%. M.ö.o.: meirihluta- og einmenningskjördæmahugsjón Framsóknar hefði leitt til þess, að 41% af þjóðinni hefði ekki fengið einn einasta þm. á Alþingi.

Það þarf í rauninni ekki annað en að skýra þetta með slíkum dæmum til þess að sýna þessar furðulegu og fáránlegu réttlætishugmyndir framsóknarmanna um það, hvernig þjóðþingið á að vera skipað. Og í rauninni, þegar þeir um leið berja sér á brjóst og telja sig málsvara réttlætisins, þá verður manni vissulega á að hvá, því að það er í rauninni þannig, að framsóknarmenn virðast umgangast, — svo að ég noti nú einu sinni líkingu að dæmi hv. þm. S-Þ., — að framsóknarmenn virðast umgangast réttlætisgyðjuna með svipaðri léttúð og hún væri gleðikona, stokkin fáklædd út úr 3. síðu Tímans.

Ég gat þess hér áðan, að þær endurbaetur, sem gerðar hafa verið á kjördæmaskipun og kosningatilhögun bæði 1934 og 1942, hafa því miður hrokkið skammt vegna þess, hvernig þróunin hefur orðið um atvinnuhætti og tilflutninga fólks í landinu. Og þetta kemur glögglega fram í því, er nú skal greina:

Við kosningarnar 1934 hefði orðið til þess að ná sem mestum jöfnuði fyrir alla þingflokkana að úthluta 26 uppbótarsætum í stað 11. Í næstu kosningum á eftir, 1937, var svo langt í land um fullkomið jafnrétti, að úthluta hefði þurft 38 jöfnunarsætum í staðinn fyrir 11. Í júlímánuði 1942 hefði þurft alls 34 uppbótarsæti, en vegna breytingarinnar, sem gerð var á því ári, þ.e.a.s. hlutfallskosninga í tvímenningskjördæmum, ásamt fleiri breytingum, þá hefði þurft í kosningunum í október aðeins 14 uppbótarsæti eða vantað 3, auk þeirra 11, sem ákveðin eru. 1946 hefði orðið að úthluta 14 uppbótarsætum til þess að ná jöfnuði.

Það eru að sjálfsögðu víss grundvallaratriði, sem gera verður sér grein fyrir, þegar rætt er um stjórnarskrá eins lands og hvernig eigi að haga kosningum til þjóðþingsins. Og þá er auðvitað sjálfsagt að hafa það fyrst og fremst í huga, að í lýðræðisríki eru og eiga allir menn að vera jafnir fyrir lögunum. Það er orðað svo í yfirlýsingu frönsku stjórnarbyltingarinnar frá 1791, í 1. gr.: „Mennirnir fæðast og halda áfram að vera frjálsir og jafnréttháir.“ Nú er það að vísu þannig, að í fulla öld hefur mikið af baráttunni í þjóðfélögunum gengið út á það tvennt að fá kosningarréttinn almennari og fá hann jafnari.

Þegar Alþingi var endurreist með konungstilskipun frá 1843, var kosningarrétturinn ákaflega þröngur og fáir, sem gátu notið hans. Karlmenn einir höfðu kosningarrétt, og það kostaði langa baráttu, að konur fengju kosningarrétt. Þær fengu hann ekki til Alþingis fyrr, en með stjórnarskrárbreytingunni 19. júní 1915. Þegar Alþ. var endurreist, var það enn fremur skilyrði til kosningarréttar, að maður ætti jörð eða steinhús eða timburhús, og landsetar höfðu því aðeins atkvæðisrétt, að þeir hefðu lífstíðarábúð á þjóðjörð eða kirkjujörð 20 hundraða að dýrleika. Þeir, sem uppfylltu ekki þessi skilyrði, höfðu því ekki kosningarrétt. Aðrir landsetar en þessir, sjómenn, iðnaðarmenn, verkamenn, hvers konar hjú, konur voru svipt kosningarrétti. Og svo var kosningarrétturinn takmarkaður, að í Vestmannaeyjum hafði enginn maður kosningarrétt, og þess vegna voru Vestmannaeyjar þingmannslausar frá 1845 til 1857, þegar kosningarrétturinn var nokkuð rýmkaður.

1857 var gerð sú breyting, að einnig skyldu hafa kosningarrétt bændur, sem hefðu grasnyt og gyldu nokkuð til allra stétta, einnig embættismenn, enn fremur þeir, sem hefðu lærdómspróf frá háskóla Kaupmannahafnar eða prestaskólanum, enda væru þeir ekki hjú. Kaupstaðaborgarar skyldu einnig fá kosningarrétt, ef þeir greiddu fjóra ríkisbankadali til sveitar, og þurrabúðar- eða tómthúsmenn, sem greiddu 6 dali. Menn þurftu þó að vera 25 ára að aldri. Hins vegar hafði enginn kosningarrétt, sem stóð í skuld fyrir þeginn sveitarstyrk.

Á þessum rúmum 100 árum hefur orðið sú mikla breyting á um kosningarréttinn, að konur hafa kosningarrétt, efnahagur skiptir ekki máli, ekki fátækt fólks heldur, þeir, sem hafa þurft að þiggja sveitarstyrk, halda sínum kosningarrétti, 21 árs menn fá að kjósa, enda má heita, að kosningarrétturinn sé orðinn hér almennari, en víðast hvar annars staðar. Það er líka orðin sú breyting á, að í stað þess að í upphafi munu hafa verið líklega um 8% landsmanna, sem höfðu kosningarrétt, þá munu það vera um eða yfir 60% nú.

Þessi barátta fyrir hinum almenna kosningarrétti hefur hjá okkur tekið alllangan tíma. En það er aðeins önnur hlið málsins. Hin hliðin er að jafna kosningarréttinn, og sú barátta er búin að standa hér lengi. En fyrst og fremst má segja, að hún hafi staðið í tæpa þrjá áratugi nú með litlum eða engum hvíldum. Og nú í ár má í rauninni fagna merkum áfanga til jöfnunar kosningarréttinum, þar sem aldarfjórðungur er liðinn, síðan ákvæðin um jöfnunarsæti voru sett inn í stjórnarskrána og ákveðið, að þingflokkar skyldu fá þingsæti í sem réttustu hlutfalli við atkvæðamagn sitt við almennar kosningar.

Eins og hér hefur komið fram í máli mínu, þá eru ýmis lönd, sem í stjórnarskrá sinni og kosningalögum ákveða, að allir borgarar þjóðfélagsins skuli hafa jafnt atkvæði, hvaða skoðanahópi eða stjórnmálaflokki sem þeir fylgja og hvar sem þeir eru búsettir í landinu. Sú er t.d. reglan bæði í Svíþjóð, í Finnlandi, í Sviss og fleiri löndum, sem framarlega standa um lýðræði, að þar breytist þingmannatalan jafnan í hverju kjördæmi eftir tilflutningum og að þar hafa þeir, sem í þéttbýli búa, nákvæmlega eitt atkv., eins og þeir, sem í strjálbýli búa. Mín skoðun er einnig sú, að þetta eigi að vera það meginsjónarmið, sem að er stefnt, og að það eigi ekki að miða við fermetra lands eða fjarlægðir frá einhverjum vissum stað, heldur fyrst og fremst við sjálft fólkið, því að það er það, sem hefur atkvæðisréttinn.

Nú er því haldið fram, að eðlilegt sé og sanngjarnt um þá, sem fjær búa höfuðborginni, að þeirra atkv. sé þyngra á metunum, og m.a. eru ýmsir þeirra, sem standa að þessu frv. og styðja það eindregið, þeirrar skoðunar. Þetta frv. felur einnig það í sér, að atkv. íbúa utan Reykjavíkur er allmiklu þyngra á metunum eða vogarskálinni, heldur en atkv. Reykvíkinga. Nú er það svo, að ef á að finna einhverjar reglur fyrir þessari mismunun, þá er ákaflega erfitt að finna þær. Það mætti hugsa sér e.t.v., að eftir því sem fjarlægðin yrði meiri frá höfuðborginni, þá ykist atkvæðisrétturinn eða þungi hans, þannig að það yrðu þá væntanlega íbúarnir á Langanesi, sem hefðu mestan atkvæðisrétt. Það væri hugsandi að miða ekki eingöngu við fjarlægðina, heldur líka við samgönguerfiðleikana eða hversu auðvelt væri eða erfitt að komast til hins langþráða staðar, Reykjavíkur, til að reka sín erindi. Í þriðja lagi væri hugsanlegt að miða við þéttbýli og strjálbýli, og þá kemur það upp, sem m.a. hefur oftlega verið rætt í þessu máli, hver áhrif það á að hafa á atkvæðisréttinn úti á landi, ef stór kaupstaður er í því kjördæmi, eins og t.d. Norðausturlandskjördæmi, þar sem höfuðborg Norðurlands, Akureyri, er. Þessi atriði öll koma auðvitað hér til athugunar, fjarlægð, samgöngumöguleikar, þéttbýli, strjálbýli o.s.frv. En hvert þessara atriða sem maður tekur út af fyrir sig eða öll saman, þá er gersamlega ógerningur að finna nokkrar reglur til að miða þetta við eða fara eftir. Ef á að láta atkvæðin úti á landi vega þyngra, þá er það að verulegu leyti tilfinningamál og ekki hægt að meta það í einstökum tilfellum eða fyrir einstök kjörsvæði eða kjördæmi eftir neinum ákveðnum reglum.

Það mætti auðvitað segja, að ef þessi sjónarmið, sem m.a. hv. þm. S-Þ. lýsti hér í fyrradag, eiga að vera ríkjandi, að Reykvíkingar eða félög í Reykjavík, sem ættu eitthvað til Alþ. að sækja, væru svo áköf og ötul við að sitja um þingmenn og leggja þá í einelti, þangað til þeir létu undan, en hér séu ýmsar stofnanir, sem menn þurfi til að leita, þá má segja, að sama ætti við kosningu alþm. innan Reykjavíkur og ég tala nú ekki um við kosningu til bæjarstjórnar í Reykjavík að láta íbúa Reykjavíkur njóta mismunandi réttar eftir því, hvar þeir búa í bænum, því að víssulega hafa þeir, sem búa í gömlum hverfum með fullgerðum götum, hitaveitu og öllum þeim þægindum, sem hér er um að ræða, miklu betri aðstöðu að mörgu leyti í þjóðfélaginu, heldur en hinir, sem búa í nýjum hverfum eða úthverfum og vantar ákaflega margt. Ef þessi sjónarmið ættu að ríkja, þá ættu t.d. til bæjarstjórnar Reykjavíkur í rauninni þeir inni í Blesugróf, Breiðholtshverfi, Smálöndum og víðar að hafa tvöfaldan eða þrefaldan atkvæðisrétt á við þá, sem búa í gamla bænum.

Nú er ég á öðru máli um þetta, vegna þess að mitt meginsjónarmið er það, að atkv. eigi alls staðar að vera jöfn, hvar sem menn búa í landinu. Hitt er svo annað mál, sem hér kemur mjög inn á, að dreifing valdsins í hinu íslenzka þjóðfélagi er orðið eitt af okkar merkustu og mestu viðfangsefnum. Það er búið að draga allt of mikið af ríkisvaldinu hingað á þennan stað, og þegar þess er gætt, hversu langt við Íslendingar erum leiddir út á þá óheillabraut að láta flesta hluti, flestar athafnir vera háðar leyfum og samþykki nefnda, ráða og stjórna, þá er það auðvitað skiljanlegt, að slík sjónarmið komi fram. Um leið og horfið yrði frá því eftir föngum og reynt að fara að klifra niður stigann og afnema eitthvað af öllum þessum höftum, hömlum, leyfisveitingum, ráðum, nefndum og skriffinnsku, þá yrðu borgararnir miklu frjálsari um sínar gerðir og þá þyrftu þeir að sjálfsögðu um miklu færra að sækja með ærnum kostnaði, tíma og fyrirhöfn hingað til Reykjavíkur.

Hin stefnan eða sú stefna, sem virðist koma fram hjá framsóknarmönnum, að bæta kjör og aðstöðu fólksins úti á landi með því að níðast á Reykvíkingum og láta þá ekki hafa kosningarrétt á við annað fólk, — sú stefna getur náttúrlega ekki staðizt, að gera Reykvíkinga að hálfdrættingum eða ekki það á móti öðrum.

Ég heyrði það í ræðu einhvers framsóknarmanns hér í deildinni um daginn, að menn þyrftu að gera sér grein fyrir því, að það væru sameiginlegir hagsmunir fólksins úti á landsbyggðinni og í Reykjavík að draga úr aðstreyminu þangað, því að ef allt of mikið væri hlynnt að Reykjavík og of lítið gert fyrir fólkið úti á landi, þá streymdi fólkið utan af landi hingað til að keppa við Reykvíkinga um atvinnu. Þetta er náttúrlega engin ný speki. En ég held, að í þessu efni sé grundvallarmunur á skoðunum framsóknarmanna og sjálfstæðismanna. Framsóknarmenn virðast halda, að þeir geti dregið úr aðstreyminu og flóttanum úr sveitunum með því að sitja á rétti Reykvíkinga og skammta þeim úr hnefa miklu minni rétt, en öðrum. Við sjálfstæðismenn erum á allt öðru máli. Rétt eftir að ég tók við starfi borgarstjóra í Reykjavík 1947, tók ég þessi mál nokkuð til meðferðar í bæjarstjórn Reykjavíkur við afgreiðslu fjárhagsáætlunar þar. Og ég vil, vegna þess að það snertir þetta mál nokkuð, taka hér eina setningu, sem skýrir afstöðu okkar, úr þessari ræðu frá í marz 1947. Þar segir:

„Ég er á þeirri skoðun, að ráðið til að draga úr aðstreymi til bæjarins sé fyrst og fremst að gera sem lífvænlegast annars staðar á landinu. Það er hagsmunamál okkar Reykvíkinga, að í kauptúnum og sjávarplássum fái menn sem bezt og mest atvinnutæki, svo að fólkið haldist þar kyrrt.“

Kemur þar fram sem víða annars staðar, hve hagsmunir Reykvíkinga og annarra landsmanna eru nátengdir. Þetta hefur verið og er stefna okkar sjálfstæðismanna í þessum málum, hvort sem við erum búsettir í Reykjavík eða annars staðar. Hin aðferðin, sem framsóknarmenn vilja beita, nær vafalaust ekki tilgangi sínum: að ætla með rangindum að halda réttmætum atkvæðisrétti fyrir höfuðborgarbúum, svipta þá hluta af réttmætum atkvæðisrétti þeirra, til þess með þeim hætti að halda fólkinu kyrru úti á landsbyggðinni. — [Fundarhlé.]

Herra forseti. Ég drap á það hér áðan, að þær tilraunir, sem gerðar höfðu verið til lagfæringar á kjördæmaskipuninni 1934 og 1942 með uppbótarsætum, hlutfallskosningum í tvímenningskjördæmum og nokkrum fleiri breytingum, hefðu því miður ekki náð tilgangi sínum að fullu. Í stað þess að menn gerðu sér vonir um það, að Alþingi mundi sýna rétta mynd af þjóðarviljanum og flokkarnir fá þingsæti í réttu hlutfalli við atkvæðamagn sitt, þá fór svo, að við allar kosningar síðan hefur vantað nokkuð á, að uppbótarsætin nægðu til þessa, og stundum mjög mikið. Við alþingiskosningarnar 1934 hefði þannig í stað 11 uppbótarsæta þurft 26. Við næstu kosningar, 1937, hefði þurft 38 uppbótarsæti. Við júlíkosningarnar 1942 hefði þurft 34, við haustkosningarnar 1942 hefði þurft 14 og við kosningarnar 1946 hefði þurft 14. Síðan í kosningunum 1946 hefur þó alveg keyrt um þverbak. 1949 hefði þurft 27 uppbótarsæti til að jafna milli flokkana. 1953 hefði þurft 28. Og nú síðast, 1956, hefði þurft hvorki meira né minna en 60 uppbótarsæti í stað 11 til þess að ná réttlátri útkomu milli flokkanna.

Í öllum þessum alþingiskosningum er það hin lága atkvæðatala Framsfl., sem veldur þessum erfiðleikum. Það er hið litla landsfylgi Framsfl., sem hefur alltaf orðið þess valdandi, að myndin hefur orðið svona röng. Sem annað skýringardæmi um ranglæti kjördæmaskipunarinnar nú skal ég nefna, að eftir atkvæðatölum síðustu alþingiskosninga ættu þingflokkarnir fjórir að hafa þingsæti sem hér segir, ef þau væru í réttu hlutfalli við atkvæðamagn þeirra: Sjálfstfl. ætti að hafa 23 þingsæti, en hefur 19, Alþb. ætti að hafa 10, en hefur 8, Alþfl. ætti að hafa 10 þingsæti, en hefur 8, Framsfl. ætti eftir atkvæðamagni sínu að hafa 9 þingmenn, en hefur 17, nærri tvöfalt meira en hann hefur rétt til. Það munar sáralitlu, hvort Framsfl. hefði aðeins fengið 8 þingmenn og þá Alþb. 11 í staðinn. Þetta er aðeins til nokkurrar glöggvunar á því, hversu herfilegt ranglæti er hér og hve mikið skortir á, að Alþingi sýni rétta útkomu milli skoðana þeirra, sem uppi eru í landinu.

En það er ekki aðeins hið flokkslega ranglæti, heldur einnig hið staðarlega ranglæti, sem er sá megingalli á núverandi kjördæmaskipun, að hún getur ekki staðizt öllu lengur. Ég á þar ekki eingöngu við ranglæti gagnvart Reykjavík annars vegar og ýmsum kjördæmum úti á landi hins vegar. Það er þannig eftir tölum síðustu alþingiskosninga, að á bak við hvern þingmann í Reykjavík standa 4.700 kjósendur, á bak við hvern þingmann, þar sem fámennast er, þ.e.a.s. á Seyðisfirði, hins vegar aðeins 426 kjósendur. M.ö.o.: það þarf 11 Reykvíkinga til þess að vega upp á móti einum Seyðfirðing.

En það er eins, ef horft er á kjördæmin innbyrðis úti á landi, þá sést, hversu fráleitt þetta skipulag er. Þannig er það t.d., ef við tökum sveitarkjördæmi eins og Snæfellsnessýslu og kaupstaðarkjördæmi eins og Seyðisfjörð, þá jafngildir þar einn Seyðfirðingur fjórum Snæfellingum. M.ö.o.: hver Snæfellingur hefur fjórum sinnum minni áhrif á skipun Alþingis, heldur en hver kjósandi á Seyðisfirði. Og í Borgarfirði, sem er að verulegu leyti einnig sveitakjördæmi, þarf hvorki meira né minna en, sex kjósendur til að vega á móti einum kaupstaðarbúa á Seyðisfirði. Ef maður tekur annað dæmi, eins og t.d. kjördæmi hv. 1. þm. N-M., þá hefur það kjördæmi aðeins 1.475 kjósendur, en tvo þingmenn, það eru m.ö.o. 738 kjósendur á bak við hvern þingmann. Einn Norðmýlingur ræður þannig jafnmiklu um skipan Alþingis og fjórir Borgfirðingar eða 6 –7 Reykvíkingar. Það er því ekki aðeins, ef Reykjavík er borin saman við aðra landshluta, heldur ef sveitakjördæmin eru borin saman innbyrðis eða sveitakjördæmi borin saman við önnur kaupstaðakjördæmi, að útkoman er svo handahófskennd og ranglát, að slíkt getur auðvitað ekki staðizt.

Nú höfum við heyrt það hér í umræðum, bæði í hv. Nd. og Ed., hversu ýmsir Framsóknarþingmenn leggja á það mikla áherzlu, að Reykvíkingar megi undir engum kringumstæðum njóta jafnréttis um kosningaáhrif og skipun Alþingis á við aðra landsmenn. Einn hv. þm. komst að þeirri niðurstöðu í Nd., að ef þingmönnum í Reykjavík yrði fjölgað, þá mundi aukast í stórum stíl skrílmennska hér í Rvík og jafnvel væri hætta á, að Reykvíkingar færu þá aftur að tala dönsku, eins og þeir hefðu gert fyrir einni öld. En einn hv. þm. í þessari deild, hv. 1. þm. N-M., lýsti því fyrir okkur hér á mánudaginn, hvernig á því stæði, að hann væri á móti því, að Reykvíkingar hefðu jafnmikil áhrif á skipan Alþingis og sveitamenn. Hann sagði nefnilega, að sveitamenn gerhugsi málin, áður en þeir taka ákvörðun, en bæjarmenn séu hópsálir og þeir verði jábræður án þess að hugsa málin sjálfir. Þetta var hin sálfræðilega og pólitíska skýring hv. 1. þm. N-M., Páls Zóphóníassonar, á þessu. Nú er það svo, að hinn sjálfskipaði málsvari bænda, dreifbýlis og sveitamenningar,

Framsfl., á hér í þessari hv. d. sex mikilsmetna fulltrúa. En einhver undarleg örlög hafa leitt til þess, að þeir hafa allir lent á mölinni og eru allir búsettir í kaupstað og eru því bæjarmenn. Í Reykjavík eru þrír þeirra búsettir, hv. þm. Str., hv. 1. þm. N-M. og hv. þm. Barð. Einn þeirra, hv. 1. þm. Eyf., er búsettur í höfuðborg Norðurlands, Akureyri, einn, hv. þm. S-Þ., í kaupstaðnum Húsavík, og einn, hv. þm. Seyðf., í kaupstaðnum Seyðisfirði. Sem sagt, þessir sjálfkjörnu málsvarar bændanna og dreifbýlisins og sveitamenningarinnar, það hefur hitzt svo einkennilega á, að þeir eru allir bæjarmenn, og virðast þá allir sex þessir mætu menn falla undir skýringu 1. þm. N-M., að þeim sé ekki trúandi fyrir atkv. á borð við aðra, vegna þess að þeir séu hópsálir, sem verði jábræður án þess að hugsa málin sjálfir. Mér finnst þetta harla harður dómur um þessa ágætu þingmenn í þessari deild, sem við allir metum mikils. En ég vil segja, að ef því er svona farið um þann virðulega part Framsfl., það einvalalið úr honum, sem skipar þessa hv. deild, hvernig er þá ástatt um þá Framsóknarþingmenn, sem skipa hinn óæðri bekk?

Það er, held ég, samdóma álit flestra, sem um lýðræði, lýðfrelsi og mannréttindi hugsa og skrifa, að uppspretta þjóðfélagsvaldsins felist í mannréttindum þeirra borgara, sem hópa sig saman í þjóðfélög, og valdið sé sameiginleg eign þeirra, og allir helztu og beztu frumkvöðlar lýðræðis og frjálsrar hugsunar á síðustu öldum, ég vil segja frá Thomas Jefferson, sem samdi sjálfstæðisyfirlýsinguna amerísku 1776, og fram til vorra daga, hafi verið á einu máli um það, að borgararnir eigi að vera jafnréttháir og að atkvæði eins eigi ekki að gilda meira, en atkvæði annars manns. Þetta er m.a. orðað svo vel, eins og ég gat um fyrr í minni ræðu, af Páli Briem amtmanni: „Atkvæði eins kjósanda, er ekki betra, en annars.“ Skoðun mín er hiklaust sú, að allir landsmenn eigi að hafa jafnan atkvæðisrétt, vera jafnréttháir til áhrifa á skipan Alþingis, hvar sem þeir búa í landinu, og þessi skoðun er einnig viðurkennd í löggjöf og framkvæmd í fjölmörgum lýðræðislöndum, m.a., eins og ég gat hér um áðan, í Svíþjóð, Finnlandi, Sviss og mörgum fleiri, þar sem skýrt er tekið fram í stjórnarskránum sjálfum, að menn hafi jafnan atkvæðisrétt, hvar sem þeir búa í landinu, og jafnvel svo, að á tilteknum fresti eigi að endurskoða tölu hinna þjóðkjörnu fulltrúa í hverju kjördæmi, til þess að þessu marki sé náð.

Þetta frv. er spor í þá átt, sem ég nú hef lýst. En þó skortir töluvert á, að fullu réttlæti að þessu leyti sé náð. Að því leyti er þetta frv. áfangi, en ekki lokamark. Ég tel, að í framtíðinni verði að jafna betur metin milli kjördæmanna. En hins vegar tel ég sjálfsagt, að það sé gert á þeim grundvelli, sem hér er lagður, þ.e.a.s. nokkrum stórum kjördæmum með hlutfallskosningum. Ég tel, að það ætti ekki að gera landið allt að einu kjördæmi með hlutfallskosningum. Á því eru svo miklir annmarkar. En hins vegar ætti að jafna metin, jafna kosningarréttinn á grundvelli þessara t.d. 8 kjördæma, eins og lagt er til í þessu frv. Ég vil þó taka fram í þessu sambandi, að mér finnst vel geta í framtíðinni komið til mála, að Reykjavík yrði skipt í kjördæmi. Það kom til orða í sambandi við þetta stjórnarskrárfrv., en niðurstaðan varð sú, að Reykjavík yrði haldið sem einu kjördæmi nú eins og verið hefur. Ég vil taka skýrt fram til að fyrirbyggja misskilning og útúrsnúning, að þegar ég tala um, að þetta frv. sé í mínum augum áfangi, en ekki úrslitalausn, þá á ég eingöngu við það, að það þarf að jafna betur kosningarréttinn, en skipulaginu að grundvelli til, þessum nokkuð stóru kjördæmum, því beri að halda og ekki gera landið að einu kjördæmi.

Ég teldi það líka æskilegt, sem einnig kom til orða, en fékkst nú ekki samkomulag um í þessu frv., að fulltrúatalan í hverju kjördæmi væri hreyfanleg. Það er óeðlilegt, eins og fólksfjölgun er mikil hér og flutningar miklir milli byggðarlaga eftir atvinnuháttum á ýmsum tímum, að rígbinda í stjórnarskránni sjálfri þannig tölu þingmanna fyrir hvert kjörsvæði. Hitt væri miklu eðlilegra, eins og í mörgum löndum er gert, að hafa fulltrúatöluna hreyfanlega, endurskoða hana eftir tilflutningum og fólksfjölda, t.d. á fjögurra ára fresti, elns og gert er í Finnlandi, eða á 10 ára fresti, eins og ákveðið er í Danmörku. Þetta er því fremur til athugunar framvegis, en um þetta náðist ekki samkomulag nú.

Því er haldið mjög fram hér, að verið sé að leggja sýslurnar niður með þessari stjórnarskrárbreytingu. Þetta er fjarri öllu lagi. Sýslur landsins halda sér, þær halda sínum mörkum, þær halda öllum sínum verkefnum og áhrifum, sem þær hafa. Sýslumennirnir starfa áfram með óbreyttu verkefni og starfssviði. Sýslunefndirnar verða kosnar áfram, eins og verið hefur, með sömu verkefnum og sama valdsviði og þær hafa haft. Sama er að segja um aðrar sveitarstjórnir og hreppsnefndir. Allt er þetta og verður óbreytt, a.m.k. af völdum þessa frv. Lögin um hlutverk sýslnanna, um réttindi þeirra, verkefni o.s.frv. halda gildi sínu. Á því er engin breyting gerð. Að tala um afnám sýslufélaganna er því fjarstæða ein. Hins vegar hafa verið uppi tillögur um það á hinum síðari árum að rýra vald sýslnanna. Þær till. eru ekki frá aðstandendum þessa frv., heldur úr öðrum áttum og þá helzt og mest frá mönnum, sem standa nærri Framsfl. Í till., sem uppi hafa verið t.d. hjá Austfirðingum og ýmsir áhrifamenn Framsfl. mjög beitt sér fyrir, hefur m.a. verið lagt til að stofna til fjórðunga eða fimmtunga og að hver fjórðungur eða fimmtungur á landinu hefði sina sérstöku stjórn og sitt þing, sem fengju ýmiss konar verkefni, sumpart með dreifingu ríkisvaldsins í hendur þeirra, en sumpart og ekki sízt með því að taka í sínar hendur töluvert af því valdi, sem sýslurnar hafa haft. M.ö.o.: þær tillögur, sem fram hafa komið á hinum síðari árum um að rýra vald sýslnanna, gera áhrif þeirra minni og draga úr þeirra verkefnum og valdi, það er ekki um það að ræða eftir þessu frv., en slíkar till. hafa einmitt komið fram hjá ýmsum áhrifamönnum Framsfl.

Þeir menn hér á landi, sem mest og bezt hafa hugsað og skrifað um lausn kjördæmamálsins, hafa yfirleitt komizt að einni og sömu niðurstöðu, að æskilegast væri fyrir þjóðfélagið íslenzka, fyrir staðhætti okkar og í réttlætisátt að skipta landinu í nokkur stór kjördæmi, við skulum segja 6–10 kjördæmi með hlutfallskosningum og þá ef til vill uppbótarsætum. Þessi varð niðurstaða fyrsta ráðherra Íslands, Hannesar Hafsteins, og þeirra ráðunauta og mörgu ágætismanna, sem honum stóðu næst. Þess vegna lagði hann fram frv. um það rétt eftir aldamótin, eða 1905, ætla ég að það hafi verið, að taka upp þessa skipan. Það náði ekki fram að ganga, en munaði ákaflega litlu, að sú skipan yrði samþykkt á Alþingi. Um það bil 20 árum síðar tók ungur hæfileikamaður, sem síðan hefur verið sýndur mikill trúnaður af íslenzku þjóðinni, þ.e. Thor Thors sendiherra í Washington, hann tók þetta mál upp, rannsakaði það rækilega og skrifaði gagnmerka grein um málið í tímaritið Vöku, að ég ætla árið 1926 eða 1927. Niðurstaða hans var nákvæmlega sú sama, að heppilegasta og æskilegasta lausnin væri nokkur stór kjördæmi með hlutfallskosningum. Þeir erlendir menn, sem mest hafa um þessi mál hugsað og skrifað á hinum síðari áratugum, hafa einnig bent á þessa leið, og allar okkar nágrannaþjóðir og frændþjóðir á Norðurlöndum hafa tekið upp þessa skipan og þorri lýðræðisþjóða í Evrópu. Það er síður en svo, að hér sé verið að fara inn á einhverjar nýjar og áður ókunnar brautir. Hér er verið að marka það skipulag, sem að beztu manna ráði, fróðustu og þeirra, sem mest hafa hugsað um málið, er talið heppilegast fyrir íslenzku þjóðina. Hér er með þessu skipulagi verið að vinna að því, eins og Jón Ólafsson ritstjóri og alþingismaður orðaði það í grein sinni í Ísafold 1887, að skapa jafnrétti allra að hlutfalli réttu. Það verður að stefna í þá átt, og ég er sannfærður um það, að frá hlutfallskosningum verður ekki fallið hér á landi, fremur en í öðrum lýðræðislöndum flestum, sem þá skipan hafa tekið upp og séð hina miklu kosti þess fram yfir meirihlutakosningar.

Herra forseti. Tilgangur þessa frv. er að jafna kosningarréttinn meira en nú er og að gera Alþingi Íslendinga réttari mynd af þjóðarviljanum. Frv. miðar að því að draga úr því mikla misræmi, sem er um áhrifavald byggðarlaga og stjórnmálaflokka í landinu á skipan Alþingis. Meiri hluti stjskrn. telur, að sú kjördæmaskipun og kosningatilhögun, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, muni verða til verulegra umbóta frá því úrelta og ósamstæða skipulagi, sem við nú búum við.