12.11.1958
Sameinað þing: 9. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 71 í D-deild Alþingistíðinda. (1926)

32. mál, vinnuheimili fyrir aldrað fólk

Alfreð Gíslason:

Herra forseti. Till. sem þessi er vissulega tímabær. Það er ekki aðeins frá sjónarmiði mannúðar nauðsynlegt, að aldrað fólk og gamalt fái að nota starfskrafta sína til hagnýtra starfa, heldur er það og í vaxandi mæli félagsleg nauðsyn.

Eins og fram var tekið af hv. frsm., eru það fleiri og fleiri einstaklingar, sem komast á efri árin, og hlutfallstala gamalmenna í þjóðfélaginu eykst smám saman á kostnað yngri kynslóðarinnar. Þannig er það einnig víða erlendis, enda er þar byrjað að gefa þessu vandamáli verulegan gaum. En verkefnið er áreiðanlega ekki vandalaust, og hvergi mun það komið lengra, en á fyrsta athugunarstig, hvað snertir lausn þess sem félagslegs vandamáls.

Þegar rætt er um bætta aðbúð og aukna starfsmöguleika gamals fólks, má ómögulega einblína á elliheimili og vinnuhæli. Þvert á móti verður aðalstefnan að vera sú að forða mönnum í lengstu lög frá slíkum stofnunum. Og það er til þess að undirstrika þetta; að ég stend hér upp.

Eigið heimili og starf úti í lífinu er það, sem fyrst og fremst á að keppa að. Hentugar íbúðir vantar handa gömlu fólki, og einnig á ýmsan annan hátt skortir þetta fólk félagslega aðstoð til sjálfsbjargar. Innan nærri allra starfsgreina má finna störf, sem sérstaklega henta mönnum með skerta starfsorku. Að þeim störfum ætti gamalt fólk og aðrir vanyrkjar beinlínis að hafa forgang.

Þessar hliðar vandamálsins munu hvergi í heiminum hafa fengið viðhlítandi lausn enn þá. En þær hafa víða verið athugaðar talsvert og ræddar og sums staðar jafnvel fyrstu sporin til aðgerða stigin. En nauðsynin eykst, bæði hér og annars staðar, og knýr á meir og meir. Þetta finnst mér meginatriði málsins, að forða gömlu fólki í lengstu lög frá stofnunum með því að bæta aðstöðu þess til að lifa í heimahúsum og starfa úti á meðal manna á öllum aldri. Samt sem áður verður þó aldrei alveg komizt af án stofnana. Ber þá að útbúa elliheimilin sem bezt, m.a. með því að sjá fólkinu fyrir dægrastyttingu í formi starfs eða föndurs.

Einnig er vert að athuga, hvort sumu gömlu fólki með mikið skerta starfsorku hentaði ekki dvöl á vinnuhælum, þar sem ungir og miðaldra vanyrkjar dveldust líka. Gæti ýmislegt gott falizt í þeirri hugmynd að blanda þannig aldursflokkum saman.

Ég fagna sem sagt, að till. um þetta merka mál er fram komin. Það er sannarlega kominn tími til, að athygli almennings og stjórnvalda sé á því vakin. En verk þeirrar n., sem skipuð yrði samkvæmt till., mun reynast vandasamt og víðtækt og krefjast langs tíma. E.t.v. væri heppilegast, að þessi n. hyggðist ekki skila fullmótaðri niðurstöðu, heldur frumdrögum, er orðið gætu grundvöllur frekari athugana og síðar meir þeirra aðgerða, sem að gagni koma.

Ég vænti þess, að sú hv. þingn., sem till. fær til athugunar, sýni málinu verðskuldaðan sóma og afgreiði það svo fljótt sem verða má.