04.03.1959
Sameinað þing: 31. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 72 í D-deild Alþingistíðinda. (1929)

32. mál, vinnuheimili fyrir aldrað fólk

Frsm. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Ég gerði hér grein fyrir þessu máli við fyrri umr. og mun þess vegna ekki fara að endurtaka það nú.

Eins og fram kemur í nál. á þskj. 295, hefur nefndin leitað umsagnar bæði hjá Tryggingastofnun ríkisins og Sambandi ísl. sveitarfélaga, og hafa báðir þessir aðilar mælt með því, að till. verði samþykkt.

Á þskj. 295 er tillgr. nokkuð breytt frá því, sem upphaflega var ráð fyrir gert, en breytingin er fólgin í því, að nú er gert ráð fyrir að kjósa nefndina í sameinuðu Alþingi, í staðinn fyrir að í till. upphaflega var gert ráð fyrir, að hún yrði skipuð af ráðherra. Var þessi breyting gerð til samkomulags í nefndinni, og eins og þskj. ber með sér, eru allir nefndarmenn á eitt sáttir um, að till., svo breytt, verði afgreidd hér frá Alþingi. Ég vonast til þess, að það verði einnig skoðun hv. alþm. og málið megi því ná fram að ganga.