11.03.1959
Sameinað þing: 32. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 119 í D-deild Alþingistíðinda. (1988)

113. mál, mannúðar- og vísindastarfsemi

Gunnlaugur Þórðarson:

Herra forseti. Hv. 8. þm. Reykv. hefur gert grein fyrir till. til þál. um að gera framlög til mannúðar- og vísindastarfsemi frádráttarhæf við álagningu tekjuskatts og útsvars, og tel ég þá hugmynd fyllilega þess virði, að hún sé athuguð gaumgæfilega, en tel þó misfarið, að samkv. till. er ekki lengur ætlazt til, að menningarstarfsemi skuli einnig njóta þessa hagræðis, sem var í frv. sama efnis, er hv. þm. flutti fyrir tveimur árum. Þykir mér hlýða að beina því til hv. n., að hún taki það til athugunar. Mér er kunnugt um, að maður hér í bæ hugðist gefa stórgjöf til mannúðarstarfsemi eða réttara sagt breyta einkafyrirtæki sínu í sjálfseignarstofnun, sem rekin væri með það fyrir augum, að ýmsar mannúðarstofnanir nytu alls ágóðans, t.d. Rauði krossinn og aðrar slíkar stofnanir. En vegna löggjafar um skatta og útsvar treystist maðurinn ekki til þess að gera þessa ráðstöfun, og er því vissulega tímabært, að þessi mál verði tekin til gaumgæfilegrar athugunar með það fyrir augum að auðvelda mönnum að gefa slíkar stórgjafir eða gera höfðinglegar ráðstafanir til almenningsheilla, svo sem þessi maður hugðist gera.