13.05.1959
Sameinað þing: 50. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 136 í D-deild Alþingistíðinda. (2030)

147. mál, mæðiveiki á Vestfjörðum

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Ég vildi aðeins leyfa mér að þakka hv. fjvn. og frsm. hennar fyrir skjóta og góða afgreiðslu á þessari till. og lýsa því yfir, að ég er fyllilega ásáttur með þá smávægilegu breyt., sem n, hefur gert á till. Kjarni málsins er, að Alþ. beini þeirri áskorun, sem í till. felst, til sauðfjársjúkdómanefndar um að gera allt, sem unnt er, til þess að hindra frekari útbreiðslu mæðiveikinnar á Vestfjörðum. Mér þykir vænt um að heyra frá hv. frsm. fjvn., að n. hefur kynnt sér rækilega, hvað sauðfjársjúkdómanefnd hyggst fyrir í þessu. Sjálfur hef ég einnig haft samband við n, og virðist, að á málinu sé tekið af þeirri festu, sem vissulega bar brýna nauðsyn til. — Ég endurtek þakkir mínar til n. fyrir skjóta afgreiðslu á tillögunni.