29.10.1958
Sameinað þing: 6. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 151 í D-deild Alþingistíðinda. (2051)

7. mál, innflutningur varahluta í vélar

Flm. (Ásgeir Bjarnason):

Herra forseti. Till. sú, sem hér um ræðir, er þess efnis, að Alþingi feli ríkisstj. að vinna að því, að jafnan séu fyrir hendi nægar birgðir varahluta í vélar til landbúnaðar og sjávarútvegs, auk þess sé einnig unnið að því, að viðunandi verkfærakostur fylgi þeim vélum, sem til eru í landinu.

Með vaxandi vélvæðingu og fjölgun vélategunda í landbúnaði og sjávarútvegi hefur það komið í ljós nú síðustu árin, að ekki eru ávallt til staðar þeir varahlutar, sem til þarf, þegar þörf krefur.

Það þarf ekki að lýsa því hér, hversu mikill voði er fyrir dyrum, þegar fiskibátur stöðvast lengri tíma eða þegar ekki er hægt að ná saman heyi og rigning er í vændum. Mörg slík dæmi mætti nefna, auk þess sem stærri jarðyrkjuverkfæri hafa stöðvazt um skemmri eða lengri tíma. En til að bæta úr þessu hefur stundum þurft að fá varahluta með ærnum tilkostnaði flugleiðis frá útlöndum.

Við Íslendingar höfum verið fljótir að tileinka okkur tækni við framleiðslustörfin, og hér á landi munu vera sem næst 4.800 hjólatraktorar, 285 beltistraktorar og 46 skurðgröfur. Þá hafa verið fluttir inn landbúnaðarbílar, þ.e. Willy's-jeppar, Landrower-bifreiðar og rússneskar landbúnaðarbifreiðar, á fjórða þús. alls, opnir vélbátar um 700, þilfarsbátar um 700 og 40 togarar.

Ég skýri frá þessu hér til fróðleiks og einnig til að minna á það, að við, sem höfum tileinkað okkur tæknina innan- og utanhúss svo vel, þegar við sitjum að störfum og þegar við brunum yfir landið, megum til með að gera allt, sem unnt er, til að forðast það, að hjól tækninnar stöðvist. Eins og gefur að skilja, er mikið af okkar vélakosti orðið slitið og þarfnast því meiri endurnýjunar nú og framvegis, en hingað til hefur verið.

Það þarf því engan að undra það, þótt með ári hverju þurfi meiri gjaldeyri til að kaupa varahluta í vélar og til kaupa á áhöldum og verkfærum. Það er enn þá dæmi þess, að ekki er til í öllum sveitum viðunandi verkfærakostur, svo að jarðyrkjuframkvæmdir hafa dregizt of lengi af þeim sökum. Þetta er þeim mun tilfinnanlegra líka, sem þessar sömu sveitir hafa nú sumar hverjar á s.l. sumri búið við óhagstætt tíðarfar og því heyöflun gengið þar mun erfiðar og orðið þeim dýrari, en ella hefði þurft að vera.

Ég hef gert grein fyrir því, af hvaða ástæðum við flm. þessarar till. höfum flutt hana, og ég efast ekki um, að hv. alþm. geri sitt til að bæta úr því, sem miður hefur farið í þessum efnum. Og ég vænti þess, að till. nái samþykki Alþ. og að hæstv. ríkisstj. vinni að því í tíma að lagfæra það, sem þarf í sambandi við gjaldeyrisleyfi og gjaldeyri við innflutning varahluta í vélar og til nauðsynlegra verkfærakaupa, og að hæstv. ríkisstj. hafi samráð við Búnaðarfélag Íslands og Fiskifélag Íslands, sem jafnan eru kunnugust því, hve mikil þörfin er á varahlutum og verkfærum hverju sinni. Að öðru leyti læt ég nægja að vísa til till. sjálfrar og þeirrar grg., sem henni fylgir, og vildi ég mælast til þess við forseta, að umr. verði frestað og till. vísað til hv. allsherjarnefndar.