29.10.1958
Sameinað þing: 6. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 162 í D-deild Alþingistíðinda. (2060)

7. mál, innflutningur varahluta í vélar

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir þau svör, sem hann gaf, sem þó ætti ef til vill öllu frekar að kalla tilraun til svara, vegna þess að menn eru nokkurn veginn jafnnær eftir sem áður. Þó er svo að skilja sem hann telji, að þeir hafi allir verið jafnsammála um að hafa orð sín að engu, innflutningsstofnunin og allir bankarnir. Þar vildi hann engan greinarmun gera á.

En auðvitað hefur hann ekki, — það verður að segjast eins og er, — hæstv. forsrh. hefur ekki fylgt málinu eftir af mjög miklum áhuga, ef hann hefur ekki kannað það, hvort innflutningurinn hafi strandað á því, að neitað hafi verið um gjaldeyri fyrir þeim leyfum, sem voru fyrir hendi, eða innflutningurinn hafi tafizt af öðrum ástæðum. Hæstv. forsrh. segir, að þetta standi ekki í þeirri skýrslu, sem hann las hér upp. Hann hefur sjálfsagt haft skýrsluna til meðferðar langan tíma. Þingmenn spyrja um þetta strax og þeir heyra skýrsluna lesna í fyrsta skipti, en spurningin virðist ekki hafa vaknað í huga hæstv. forsrh. fyrr, en henni er beint til hans. Efast ég þó ekki um hans góða vilja í málinu til þess að sjá þessari þörf borgið.

Ég beindi nú ekki beint spurningu til hans út af skrifi stuðningsblaðs hans í morgun um, að einn af ráðherrum hans hafi gert sig sekan um misnotkun sinnar stöðu og — eins og í blaðinu segir — að hegðun ráðherrans sé að sjálfsögðu reginhneyksli í embætti af hendi manns, sem fer með eitt af æðstu embættum þjóðarinnar.

Ég vildi nú spyrja hæstv. ráðh., hvort hann hafi kynnt sér þær ásakanir, sem hér liggi fyrir, og hvað hann hyggist að gera út af þeim eða hvort hér sé um svo daglegan atburð að ræða, að hæstv. forsrh. þyki ekki einu sinni ástæða til þess að hneigja orð þar að.