04.02.1959
Sameinað þing: 24. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 224 í D-deild Alþingistíðinda. (2124)

79. mál, lán til byggingarsjós af greiðsluafgangi ríkissjóðs

Flm. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Það er alllangt liðið síðan við nokkrir þm. Framsfl. fluttum hér á þskj. 159 till. til þál. um ráðstöfun á nokkrum hluta af tekjuafgangi ríkissjóðs s.l. ár til byggingarsjóða og veðdeildar Búnaðarbankans. Eðlilegur andbyr hefur vafa)aust valdið því, að það hefur dregizt, að þessi till. hafi verið tekin hér til umr., en sá atburður gerist þó í dag.

Á s.l. ári urðu gjaldeyristekjur þjóðarinnar meiri ,en gert hafði verið ráð fyrir, og aðrar tekjur, sem við þær eru miðaðar, fóru þess vegna fram úr áætlun. Þessi var ástæðan til þess, að nokkur greiðsluafgangur varð hjá ríkissjóði árið 1958, þar sem atvinnuástandið í landinu og tekjumöguleikar reyndust betur, en reiknað hafði verið með, þegar fjárlög voru afgr., og enn fremur var á árinu síðar afgr. ný efnahagslöggjöf, sem breytti nokkuð um tekjuaðstöðu ríkissjóðs.

Á árunum 1950-56 var nokkur tekjuafgangur hjá ríkissjóði. Þessum tekjuafgangi var þrisvar ráðstafað hér á hæstv. Alþ., og mun sú fjárhæð hafa numið yfir 130 millj. kr. Af þessari ráðstöfun fóru 35 millj. kr. til íbúðabygginga og 7 millj. í veðdeild Búnaðarbankans. Það, sem hér er því lagt til, er, að greiðsluafgangi s.l. ár verði ráðstafað á svipaðan hátt og verið hefur áður, að fylgt verði sömu stefnu, að fénu verði varið þangað, sem þörfin er mest fyrir það.

Ég vil nú með nokkrum orðum víkja að þróun í byggingarmálum eða afskiptum löggjafarvaldsins af þeim málum nú um 30 ára skeið, og er þá fyrst fyrir, þegar Framsfl. kom á l. um byggingar- og landnámssjóð 1928. Eins og kunnugt er, hefur þessi löggjöf haft mikla þýðingu fyrir uppbyggingu í sveitum landsins, þar sem segja má, að hvert hús, sem þar hefur verið byggt síðar, hafi notið aðstoðar þessarar löggjafar. Árið 1930 voru sett lög um verkamannabústaði, og mun nú vera búið að byggja samkv. þeim lögum, að því er ég bezt veit, eitthvað í kringum 1.000 íbúðir. 1936 munu lögin um byggingarsamvinnufélög hafa verið sett, og að þessari löggjöf, sem hér hefur verið nefnd, munu Framsfl. og Alþfl. hafa staðið. Öll þessi lög hafa haft sína þýðingu í uppbyggingu í landinu á íbúðarhúsum.

Nokkurt hlé varð svo á afskiptum löggjafarvaldsins í þessum málum, og verður þar næst fyrir mér, þegar lögin um smáíbúðir eru sett 1952. Enginn vafi er á því, að þessi löggjöf kom sér afar vel. Mörgum, sem ekki höfðu átt kost á því að eignast eigin íbúð, tókst það fyrir aðstoð þessarar löggjafar, þó að sú aðstoð væri ekki mikil og þætti af sumum nokkuð smátt skammtað. Það tímabil, sem þessi lög voru í gildi, munu 40 millj. hafa verið veittar samkv. þeim, og mun það hafa dreifzt í kaupstaði og kauptún á landinu og þá fyrst verulega verið veitt aðstoð við byggingar í kauptúnum.

Framhald í þessum málum var svo, þegar lögin um húsnæðismálastjórn, veðiánakerfi o.fl. eru sett 1955. Þessi lög mörkuðu veruleg tímamót eða juku verulega við það, sem gert hafði verið í þessum málum áður. Þau voru byggð á því, að samkomulag næðist við bankana og aðra opinbera sjóði um framlag til þessa kerfis. Samningar, sem um þetta voru gerðir, voru upphaflega til tveggja ára. Gert var ráð fyrir því, að byggt yrði fyrir um 100 millj. kr. á ári, og mun það hafa staðizt, þó að það færi fram eftir öðrum leiðum, en upphaflega var ætlað. Samkvæmt kerfinu munu hafa verið lánaðar um 80 millj. kr. þau tvö ár, sem það hélzt, auk þess sem Búnaðarbankinn fékk 24 millj. kr. í byggingarsjóð sinn samkvæmt því. Sala vísitöluverðbréfa mun hafa orðið minni, en ráð var fyrir gert, og sparisjóðir og lífeyrissjóðir önnuðust sjálfir sínar lánveitingar, svo að þeir voru ekki bundnir íbúðakerfinu, eins og upphaflega hafði verið reiknað með.

Þegar gerð var áætlun um lán samkvæmt veðkerfinu, var gert ráð fyrir því, að þörf væri á því að byggja um 900 íbúðir á ári hér í kaupstöðum og kauptúnum landsins. Framkvæmdin sýndi hins vegar, að hraðinn var miklu meiri, en gert var ráð fyrir, og í lok ársins 1956 voru um 2.000 umsóknir um ný lán, sem ekki höfðu fengið afgreiðslu hjá þessari stofnun, og hátt í þúsund umsóknir um viðbótarlán.

Á þinginu 1956–57 fluttu nokkrir þm. Sjálfstfl. till. til þál. um, að notuð yrði heimild laganna um að taka erlent lán, allt að 100 millj. króna, til íbúðabygginga. Sem fylgiskjal með þeirri till. er prentuð till., sem fulltrúar Sjálfstfl. fluttu í húsnæðismálastjórn þá um haustið, en þar lögðu þeir til, með leyfi hæstv. forseta, eftirfarandi:

„1. Tryggt sé, að minnst 150 millj. kr. verði ráðstafað af sparifé landsmanna til útlána til íbúðabygginga í kaupstöðum og kauptúnum árið 1957.

2. Tekin verði erlend lán a.m.k. 100 millj. kr., sem auk framangreinds fjármagns verði varið til útlána til íbúðabygginga 1957 til þess að fullnægja eftirspurninni eftir íbúðalánum og koma í veg fyrir okurlánastarfsemi.“

Þessi till. sýnir ásamt því, sem ég hef skýrt hér frá, hvað mikil þörf var talin fyrir aðgerðir í þessu máli 1956, þrátt fyrir það, sem búið var þá að gera.

Næsta spor í byggingarmálunum er það, að á árinu 1957 var verulega aukið fjármagn til verkamannabústaðabygginga og til að útrýma heilsuspillandi íbúðum. Þetta mun hafa hleypt nýju fjöri í þá starfsemi að byggja verkamannabústaði víðs vegar um landið, og munu hafa verið veitt um 100 ný lán, eftir að þessi aðgerð var gerð, og mun þeim lánum aldrei hafa verið dreift eins út um landsbyggðina og við síðustu lántöku, þar sem mörg kauptún og kaupstaðir byggja nú samkvæmt þessum lögum.

Á árinu 1957 eru svo sett ný lög, sem eru í raun og veru framhald af fyrri lögum um húsnæðismálastofnun. Í þessum lögum er gert ráð fyrir föstum tekjustofnum til byggingarsjóðs ríkisins, sem voru álag á skatta og tolla, enn fremur tekjur af stóreignaskatti og skyldusparnaður. Samkvæmt þeim upplýsingum, sem ég hef fengið, mun sjóðurinn hafa fengið um 40 millj. kr. eða rúmlega það s.l. ár í tekjur af þessum tekjustofnum. Af því mun skyldusparnaðurinn hafa gefið yfir 20 millj. kr. Hins vegar hefur sala verðbréfa ekki reynzt svo sem ráð var fyrir gert í l. um húsnæðismálastofnun, og sama er að segja um samninga við peningastofnanir í landinu, þeir samningar hafa ekki tekizt eins og hugsað var með löggjöfinni. Síðan þessi l. voru afgreidd, mun vera búið að lána til íbúðabygginga 90–100 millj. kr. Auk þess lánuðu sparisjóðir og lífeyrissjóðir á árinu 1957 um 70 millj. kr. Hins vegar hef ég ekki upplýsingar um lán þeirra á árinu 1958.

Þrátt fyrir áframhald, sem orðið hefur á útlánastarfsemi þeirri, sem ég hef hér greint, er ástandið í þessum málum nú svo, að umsóknir um ný lán, sem ekki var hægt að sinna, voru um síðustu áramót um 1.400 og nokkur hundruð um viðbótarlán. Fjárþörf stofnunarinnar mun því vera yfir 100 millj. kr. á þessu ári, ef fullnægja ætti lánsfjárþörfinni. Á fundi í húsnæðismálastofnuninni lagði fulltrúi Framsfl. fram till. um, að hafizt yrði handa til þess að reyna að bæta úr þessum lánsfjárskorti. Hans till. voru á þá leið, að sala verðbréfa yrði hafin og reynt yrði að beita sér fyrir því, að árangur næðist í gegnum þá leið, enn fremur, að útvegað yrði lán úr bönkum og atvinnuleysistryggingasjóði og að hluti af greiðsluafgangi ríkissjóðs s.l. ár yrði lánaður húsnæðismálastofnuninni; enn fremur, að seðlabankinn veitti þessari stofnun bráðabirgðalán út á tekjur ársins 1959. Þessar till. munu hafa verið sendar hæstv. ríkisstj., og mun hún vafalaust vinna að lausn þessa máls núna, og væri gott að fá að heyra, hvaða horfur væru í því.

Þetta er þá um byggingarsjóð ríkisins og útlit með lán til íbúðabygginga í kaupstöðum og kauptúnum landsins.

Byggingarsjóður sveitanna, þ.e.a.s. Búnaðarbankans, hefur lánað, eins og ég tók fram hér áðan, til bygginga í sveitum landsins allt frá 1928. Honum hefur tekizt í flestum tilfellum að fullnægja eftirspurn, en nú liggur nokkuð fyrir hjá sjóðnum óafgreitt, sem nauðsyn ber til að afgreiða. Gert var ráð fyrir því, að byggingarsjóður Búnaðarbankans fengi sínar tekjur í gegnum þær tekjur, sem gert er ráð fyrir í l. um húsnæðismálastofnun, en þar sem þær hafa brugðizt í stofnuninni sjálfri, hafa þær einnig brugðizt í byggingarsjóði Búnaðarbankans. Þess vegna liggur þar nú nokkuð af óafgreiddum lánum, og nauðsyn ber til úrbóta. Því leggjum við til, að úr því verði bætt á þann hátt, sem hér er um að ræða.

Veðdeild Búnaðarbankans hefur jafnan átt við nokkurn fjárskort að etja. Hér á hæstv. Alþingi 1957 var ákveðið, að deildin skyldi fá hluta af stóreignaskatti og skyldusparnaði í sinn hlut. Eins og kunnugt er, er ekki farið að innheimta stóreignaskattinn, og lítið hefur komið til deildarinnar af skyldusparnaði. Þó mun það hafa verið eitthvað í kringum 2 millj. kr. s.l. ár. Á árinu 1957 útvegaði þáv. ríkisstj. deildinni 5 millj, kr. að láni og í árslok 1958, aðra eins upphæð, til bráðabirgða. Úr þessu hefur deildin verið að spila, en það er mun minna fjármagn, en þörf er fyrir, og liggja og hafa legið lengi óafgreiddar lánsbeiðnir hjá henni, og er það orðið mjög bagalegt. Eins og kunnugt er, er ætlun þessarar deildar að styðja menn til þess að eignast jarðir, en hún hefur lítið getað sinnt því hlutverki, þar sem hámark lánanna er aðeins 35 þús. kr. Það er því fullkomin þörf á því að hækka þetta hámark. En þrátt fyrir það, að ekki sé um meiri fjárhæð að ræða, en þetta, er það þó nokkur bót, ef hægt væri að leysa úr því að lána þessi lán. Við leggjum því mikla áherzlu á það, að notuð sé sú leið, sem við bendum hér á, til þess að bæta úr þessum fjárskorti.

Þegar við flm. þessarar till. stóðum að því að flytja þessa till., var það okkar sjónarmið, að við þyrftum ekki að biðja um gott veður fyrir hana hér á hv. Alþingi. Minntumst við þá áhuga manna fyrir þessum málum á árinu 1957, þegar mér fannst, að hjá mörgum væri þetta mál málanna, og oft hefur verið bent á það með gildum rökum, hvað mikil hætta væri á ferðum, ef ekki væri hægt að bæta úr brýnustu nauðsyn manna um lánsútveganir í sambandi við þær framkvæmdir, er hér um ræðir. Helzt höfðum við þó áhyggjur af því, að mönnum fyndist, að hér væri of lítið að gert, og við gátum vel skilið það, þó að við hins vegar vildum stefna þessu í hóf, miðað við þær aðstæður, sem fyrir hendi voru. Mér var því nokkurt undrunarefni, þegar ég þóttist heyra það á mönnum hér á hv. Alþ. um daginn, þegar var verið að ræða frv. um lækkun verðlags og launa, að þá var gripið inn á þetta mál á annan veg, en ég hafði búizt við. Hæstv. forsrh. nefndi þá greiðsluafgang s.l. ár sem einn lið í þeirri tekjuáætlun, sem þeir hafa í sínum fjárlagatill. Ég verð að vísu að ætla, að hér sé verið að ræða um það, sem kann að verða umfram það, sem við leggjum til að verði ráðstafað samkv. þessari tillögu.

Það má kannske segja sem svo, að það hefði verið eðlilegast með greiðsluafgang á s.l. ári að láta hann verða fyrningar, sem ekki væru notaðar, heldur til þess að bæta hag ríkissjóðs gagnvart bönkum og svo að hann eignaðist þar nokkurn forða. En ekki fannst mér, að um það væri að ræða í þessu tilfelli, heldur um það eitt, hvernig ætti að eyða þessum fjármunum.

Nú munu kannske hv. þm. segja: Er nú ekki nóg um fjárfestingu í okkar þjóðfélagi? Er ástæða til, að við förum þar að bæta þessu við?

Þá vil ég svara því til, að hér er ekki um það að ræða, að við förum að bæta við fjárfestingu. Hér er aðeins um það að ræða, að við getum tekið í notkun þá fjárfestingu, sem búið er að leggja mikið fé í, og það er þjóðinni dýrt að láta hana liggja þannig ónothæfa, allt það mikla fjármagn, sem bundið er í byggingum.

Menn munu því segja, og það virtist koma fram hér um daginn: Er ekki nær að nota þetta fjármagn til þess að stöðva vöxt verðbólgunnar, heldur en í fjárfestinguna, eins og ég drap á áðan?

Ég vil segja það sem mína skoðun, að ég lít svo á, eins og ég tók hér fram um daginn, að niðurgreiðslur séu í raun og veru ekki til þess að stöðva verðbólgu, heldur aðeins að leyna henni. Og það er engin stöðvun í því, þó að okkur takist í nokkra mánuði að leyna því, sem fyrir hendi er, Ég dreg í efa, að það sé þjóðinni hagkvæmt að nota það fjármagn, sem hér um ræðir, til þess að borga niður nokkur vísitölustig í þrjá eða fjóra mánuði. Það mun reynast henni betur að koma í notkun því fjármagni, sem hún er búin að binda í fjárfestingu í íbúðum, sem hún hefur nauðsyn fyrir og þarf að koma að þeim notum, sem að var stefnt. Ég held því, að það muni reynast svo, að sú leiðin reynist happadrýgri, en hin, því þegar búið væri að eyða þessu fjármagni í niðurgreiðslur, yrði annað hvort að ske, að vísitalan yrði að hækka aftur um það, sem niður var greitt, eða þá að það yrði að koma til nýtt fjármagn til þess að halda þessum niðurgreiðslum áfram.

Í sambandi við húsbyggingar vil ég segja það, að þó að það sé mikið um það rætt núna og það virðist vera að verða einhver móður að fordæma alla fjárfestingu, þá hefur komið fram í sambandi við þessar framkvæmdir þjóðarinnar að mínu viti ánægjulegur þáttur, sem er sá dugnaður og sá áhugi, sem unga fólkið í landinu hefur sýnt í því að koma upp eigin íbúð. Ég hef kynnzt því af eigin raun, að þetta fólk hefur lagt nætur við daga, unnið hverja kvöldstund og helgidaga til þess að koma áfram sínum íbúðum. Það hefur ekki sleppt vinnu, en tekizt samt á 2–3 árum að koma upp eigin íbúð með þeirri aðstoð, sem sú lánastarfsemi, sem rekin hefur verið í landinu, hefur lagt þeim til. Hér er því um verulega fjármagnsmyndun að ræða, sem ég álít að við eigum að virða og við eigum að meta. Og við eigum að rétta þessu fólki hjálparhönd, sem þannig stendur að sínum málum og málum þjóðarinnar.

Ég vil að lokum segja það, að það er mín skoðun, að það hafi engin varanleg áhrif á lausn efnahagsmála í þessu þjóðfélagi, þó að við notum þessa fjárhæð til þess að greiða niður vísitöluna í nokkra mánuði, sem gætu þó ekki orðið nema fjórir í hæsta lagi, en það hefur áhrif fyrir það fólk, sem er að berjast við að koma upp eigin íbúðum. Þessi lán eða þessi fjárhæð getur haft áhrif fyrir það, með því að rétta því þau litlu lán, sem það vonast eftir. Þá gæti það komizt yfir örðugasta hjallann, og þannig gæti sú fjárfesting orðið þjóðinni að notum, sem unnið hefur verið að á síðari árum og menn hafa lofað og talið mikils virði. Og það er trú mín og von, að hv. alþm. meti það meira, en að skjóta sér undan því í nokkra mánuði að horfast í augu við þá staðreynd, sem fyrir hendi er í efnahagsmálum.

Ég leyfi mér að leggja til, að till. verði vísað til síðari umr. og hv. fjvn.