04.02.1959
Sameinað þing: 24. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 229 í D-deild Alþingistíðinda. (2125)

79. mál, lán til byggingarsjós af greiðsluafgangi ríkissjóðs

Utanr.- og fjmrh. (Guðmundur Í. Guðmundsson):

Herra forseti. Hér er lagt til, að Alþ. feli ríkisstj. að leggja fram sem lánsfé 25 millj. kr. af greiðsluafgangi ríkissjóðs árið 1958 í þrjá tilgreinda sjóði. Hv. frsm. flutningsmanna till. sagði, að með þessari till. væri verið að ráðstafa nokkrum hluta af greiðsluafgangi ársins 1958.

Unnið hefur verið að því í fjmrn. nú að undanförnu að gera upp reikninga ársins 1958 og reyna að komast að niðurstöðu um það, hver greiðsluafgangurinn yrði, hversu miklu hann mundi nema. Þessu verki er enn ekki lokið og á talsvert langt í land. Að vísu eru til áætlunartölur um greiðsluafganginn 1958, en þær eru svo ónákvæmar og óvissar, að ég treysti mér ekki til þess að fara með þær hér. Það er ýmislegt, sem á eftir að ganga frá, til þess að hægt sé að reikna dæmið, og það eru ýmsar upplýsingar, sem fá þarf, sem enn þá eru ókomnar. M.a. eru ýmsar greiðslur, sem inntar voru af hendi úr ríkissjóði undir árslok 1958, sem athuga þarf nánar og ákvarða þarf um, hvort fara eiga inn á umframtekjur ársins 1958 og þar með á fjáraukalög eða ráðstafa þeim með öðrum hætti.

Hér er um nokkuð stórar upphæðir að ræða, sem hafa veruleg áhrif á heildarútkomuna, auk þess sem ýmis uppgjör vantar enn, til þess að nokkuð verði um þetta fullyrt með vissu. Það má vel fara svo og fer áreiðanlega svo, að um verulegan greiðsluafgang verður að ræða. Hversu stór hann verður, skal ekki fullyrt. Það má vel vera, að þegar rekstrarhalli ársins 1957 hefur verið dreginn frá, þá verði greiðsluafgangur ársins 1958 meiri, en þessar 25 millj. kr., sem hér er verið að ráðstafa, hann getur orðið nálægt þessum 25 millj. kr., hann getur líka orðið minni.

Á þessari stundu, þegar við erum hér að ræða um að ráðstafa greiðsluafgangi s.l. árs, vitum við ekki með neinni nákvæmni, um hvaða upphæð við erum að ræða, og vitum því ekki, hverju er verið að ráðstafa. Ég fyrir mitt leyti, hefði talið skynsamlegra og heppilegra, að menn biðu með að ákveða um, hvernig greiðsluafganginum skyldi varið, þangað til menn víssu, hver hann væri. Flm. þessarar till. hafa ekki viljað bíða eftir því og því lagt til, að greiðsluafganginum skuli ráðstafað nú þegar.

Þessi þáltill. fer að sjálfsögðu til fjvn., og ég vildi mega vænta þess, að fjvn. hafi þann hátt á sínum vinnubrögðum, að hún kynni sér og gangi úr skugga um, hver greiðsluafgangurinn er, hvað er til að ráðstafa, áður en farið verður að fara efnislega inn á það, hvernig með þessa fjármuni skuli fara.

Það er lagt til í till., að greiðsluafganginum verði varið sem lánsfé til þriggja ákveðinna byggingarsjóða. Allir eru þessir sjóðir áreiðanlega mjög þurfandi fyrir þetta lánsfé. Allir starfa þeir að nauðsynlegum verkefnum, sem óhjákvæmilegt er að létta undir með. Þörf þessara sjóða verður því ekki dregin í efa, og nauðsyn þess að greiða fram úr þeirra erfiðleikum verður heldur ekki vefengd. Hitt er annað mál, hvort þetta er sú réttasta og heppilegasta leið, sem hægt er að fara til þess að ráða fram úr þeirra erfiðleikum. Ég vil minna á, eins og komið hefur fram hér á hæstv. Alþ. áður í sambandi við annað mál, að nú um þessar mundir eru einnig á ferðinni athuganir og undirbúningur í sambandi við það, hvernig ráða á fram úr erfiðleikum efnahagskerfisins, atvinnumálunum og fjárlögunum. Unnið hefur verið að því að undanförnu að leysa aðkallandi vanda efnahagsmálanna og atvinnumálanna. Þetta hefur verið leitazt við að gera með því að færa niður verðlag og laun í landinu. Að sjálfsögðu hefur þurft að verja til þess allmiklu fé. Einhvers staðar frá verður þetta fé að koma.

Það hefur verið stefna og takmark núverandi ríkisstj. að reyna að gera þetta án þess að leggja nýja skatta og álögur á þjóðina nema þá í sem allra minnstum mæli. Bent hefur verið á ýmsar leiðir til tekjuöflunar í þessu sambandi og þá m.a. minnzt á það að nota greiðsluafgang ársins 1958 í þessu skyni. Það er mat ríkisstj. á þessu máli, að það sé eðlilegast, að þeir fjármunir, sem teknir voru af þjóðinni á s.l. ári umfram þarfir þjóðarbúsins, verði látnir renna til þess að mæta erfiðleikum líðandi árs og þá á þann veg að stuðla að því, að komizt verði hjá að leggja nýja skatta og nýjar álögur á þjóðina.

Ég vildi mega vænta þess, að þeir menn, sem beita sér fyrir þessari till. og vilja styðja að framgangi hennar, vilji um leið benda á, hvaða leiðir þeir vilja láta fara til þess að afla ríkissjóði þeirra tekna á árinu 1959, sem hann mundi missa af, ef greiðsluafgangi ársins 1958 væri varið eins og hér er lagt til. En það er augljóst mál, að ef þessi till. verður samþykkt og eitthvað svipaðar ráðstafanir gerðar, sem hér er lagt til, þá verður ekki hjá því komizt, að einhverja skatta verður að leggja á þjóðina til þess að fylla það bil í fjárl., sem ríkisstj, hafði hugsað sér að leggja til að greiðsluafgangur ársins 1958 yrði látinn mæta.

Ég sé ekki ástæðu til þess að sinni að fara frekar út í þetta mál. En ég vildi leggja áherzlu á það, að þegar fjvn. fær þessa till. til athugunar, verði fyrst gerð grein fyrir því, hvað það er í raun og veru, sem þarna er til ráðstöfunar, hver greiðsluafgangurinn er, og þá verði jafnframt athugað, ef menn vilja fara inn á þá hugmynd, sem er í þessari till., hvernig tilsvarandi fjárhæðar á að afla inn í fjárlögin til þess að mæta þeim liðum, sem óhjákvæmilega verður að mæta.