09.03.1959
Efri deild: 81. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 463 í B-deild Alþingistíðinda. (293)

123. mál, kosningar til Alþingis

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Eftir þeim sólarmerkjum, sem uppi eru og má gera ráð fyrir að verði, þá er gert ráð fyrir því, að það muni þurfa að kjósa tvisvar sinnum á þessu ári. Þessi breyting á kjörskránni, sem hér liggur fyrir, kemur þess vegna til með að gilda við væntanlegar fyrri kosningar, ef stjórnarskrárbreyting verður gerð. Fyrir kosningarnar þar á eftir verður aftur að breyta þessum lögum í ákaflega mörgum atriðum, því að eins og kosningalögin eru núna til Alþingis, er ómögulegt að kjósa eftir þeim, eftir að komin eru ný kjördæmi o. s. frv., það þarf þess vegna aftur að breyta þeim í sumar.

Ég er ekki á móti þessum breytingum út af fyrir sig nema einni þeirra, sem ég vil biðja n. að athuga og alveg sérstaklega að athuga með tilliti til þess, að þessi breyting, sem hér er gerð, kemur ekki til með að verka nema fyrir eitt einasta þing, því að það verður aftur að breyta þeim fyrir haustkosningarnar. Og það, sem ég þá vil biðja nefndina að athuga, er tímabilið, þegar kjörskráin á að öðlast gildi, 1. maí. Það gæti bent til þess, — ég segi: það gæti bent til þess, að ríkisstj., sem leggur þetta mál fyrir, hefði hugsað sér, að fyrri kosningarnar yrðu í maí. Það getur líka verið í frv. komið í sambandi við það, að hagstofustjóri hafi sett það og ríkisstj. ekki hugsað um það neitt, — hagstofustjórinn hafi sett það, af því að hann er þá búinn með kjörskrárnar og getur lagt þær fram þá, hvað hann ekki gat, meðan hann miðaði við heimilisfesti í febrúar. Ef það er ekki meiningin, að þetta ákvæði sé sett inn með tilliti til þess, að hægt sé að kjósa í maí í vor, þá hef ég ekkert við það að athuga. En í maí er yfirleitt ekki hægt að kjósa á Íslandi. Annars vegar eru sjómenn fyrri partinn í maí að koma heim, og um það bil, sem þeir eru komnir heim og komnir til sinna heimila, um það bil byrjar sauðburður og menn eiga ekki heimangengt aftur fyrr en í júní, svo að ef það er meiningin, ef þetta er sett inn af ríkisstj. og það er meining hennar að setja það inn, til þess að það sé hægt að kjósa í maí í vor, þá er ég á móti því og vil alls ekki samþykkja það þannig lagað. En ef það aftur er sett inn af hagstofustjóra, af því að hann hefur séð, að hann þá geti verið búinn að gera skrárnar og ganga frá þeim, þá er mér svo sem alveg sama, ef ég veit, að ríkisstj. ætlar ekki að beita því og nota sér það, að þá eru komnar nýjar kjörskrár og þess vegna hægt að kjósa í maí. En í maí er ekki hægt að kjósa, aldrei, hér á landi.