09.03.1959
Efri deild: 81. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 510 í B-deild Alþingistíðinda. (352)

103. mál, skattar og gjöld til sveitarsjóða

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Brtt., sem ég var með við þetta mál við 2. umr., var felld. Það er þess vegna ekki hægt að taka hana upp aftur óbreytta og þess vegna hef ég orðað alla gr. um og jafnframt sett inn enn fleiri efnisbreytingar en þá einu, sem þá var felld. Það, sem aðallega vakir fyrir mér með þessum brtt., bæði þeirri fyrri og þessari seinni, er það að fyrirbyggja með öllu, að sveitarstjórnir eða bæjarstjórnir geti lagt þessi fasteignagjöld á núna hærri en þau voru, áður en síðasta fasteignamat öðlaðist gildi. Það er aðalatriðið. Mér finnst ekki koma til neinna mála að lofa þeim að vera miklu hærri með þetta núna, en það var þá. Ef þessu er slegið föstu, þá er þess vegna heldur ekki nein þörf á því að vera að láta ráðh. leyfa, hvað hátt þau megi fara upp. Þá er engin þörf á því. Og þess vegna hefur í brtt. hjá mér fallið burt annars vegar, hve mörg prósent álagið megi vera, það vil ég lofa hreppsnefndum og bæjarstjórnum að hafa frjálsar hendur með, einungis með þessari einni bremsu, að hafa þau ekki hærri, en þau máttu vera, áður en fasteignalögin öðluðust gildi. En þegar sú bremsa er sett á, þá er heldur engin þörf á að hafa leyfi ráðh. til þess að mega hækka þau, því að ráðh. hafði áður ekki slíka heimild. Breytingin er því bara að færa fasteignagjöldin í sama horf og þau voru, áður en síðasta fasteignamat öðlaðist gildi, hreppsnefndirnar ráði því, hvað mikið þau fara upp, að vissu marki, en fari aldrei yfir það. Þetta er það, sem fyrir mér vakir með þessari brtt., hvort sem mönnum geðjast að henni eða ekki eða vilja lofa mönnum að fara hærra, sem mér finnst ekki vera nein meining í. Ég held, að þetta sé auðskilið mál og ég þurfi ekki að reyna að útskýra það frekar.