13.08.1959
Neðri deild: 15. fundur, 79. löggjafarþing.
Sjá dálk 476 í B-deild Alþingistíðinda. (189)

12. mál, áburðarverksmiðja

Flm. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Ég býst við, að það megi segja um þetta frv., að það verði kannske flutt nokkuð oft sama ræðan um það, áður en það verður samþ. að lokum. Það verður, svo að maður fari að hreykja sér hátt, kannske eitthvað svipað með þetta og var forðum með Cato, þegar hann lauk hverri sinni ræðu með „cetere censeo Cartaginem esse delendam“. Hvað sem öllu öðru líður, þá legg ég til, að Karþagóborg sé lögð í eyði.

Ég hef nú flutt nokkuð oft hér í þessari hv. d. frv. um, að það sé skorið úr því, hvort áburðarverksmiðjan sé eign ríkisins og hef hugsað mér, jafnvel þó að það mundi kosta það, að maður yrði að flytja sömu ræðuna nokkuð oft, að halda því áfram. Ég satt að segja kann ekki við það, a.m.k. meðan ég sit hér á þingi og hef það sem höfuðstefnu að reyna að vinna að því, að ekki sízt stórfyrirtæki landsins séu eign þjóðarinnar, að horfa upp á það, að verið sé, svo að ég noti þingleg orð, að taka með ólöglegu móti úr eigu þjóðarinnar það, sem hún á samkvæmt lögum og það þannig, að ráðh. aðstoði við það. Það má vel vera, að það mundi vera vænlegra til þess að vekja athygli, að maður lýsti þessu með nútímaslagorðum, í staðinn fyrir að vera að „sítera“ í Rómverjana, á þá leið, að það hefði komizt upp, að tveir ráðh. hefðu verið gripnir við að stela 180 millj. úr þjóðarsjóðnum, hefðu verið „nappaðir“ og „settir inn“ og ákærðir, þá hefðu menn kannske farið að hugsa eitthvað ofur lítið um, hvað væri að gerast. Og ég held, að það sé alveg nauðsynlegt, að menn geri sér ljóst, hvað það er, sem er að gerast í sambandi við Áburðarverksmiðju ríkisins. Það eru nú 10 ár síðan þetta frv. var samþykkt og alltaf öðru hverju á þessum 10 árum hefur staðið hér á þinginu harðvítug deila um þetta mál og nú hef ég fengið sönnunargögn fyrir því, að allt, sem ég hef varað við í þessum efnum, er nú þegar að koma í ljós.

Þetta frv. mitt gengur út á það að skera alveg úr um það, að áburðarverksmiðjan sé eign ríkisins og fella niður 13. gr., sem fjallar um það, að þessi áburðarverksmiðja skuli rekin sem hlutafélag, eins og þar stendur. Allt frá því að farið var að hugsa til þess að koma upp áburðarverksmiðju á Íslandi, var eingöngu talað um það sem ríkiseign og engum manni datt annað í hug, en að ríkið ætti að eiga þessa verksmiðju. Hvaðan sú fluga er komin að láta sér detta það í hug, að þetta ætti að verða eign einstakra manna, skal ég ekkert fullyrða um, en ekki er mér grunlaust um, að þeir amerísku yfirdrottnarar yfir íslenzkum fjármálum og efnahagsmálum, sem fóru að seilast hér til valda fyrir rúmum 10 árum, hafi gert það að skilyrði í sambandi við lán, að e.t.v. yrði lögum breytt þannig á Alþ., að ríkisfyrirtæki væri gert, ef svo mætti verða, að einkafyrirtæki. Um það skal ég ekkert fullyrða, en svo mikið er víst, að á síðustu stundu við umr. þessa máls, eftir að það hafði verið afgr. héðan úr Nd. sem frv. um ótvíræða ríkisverksmiðju, þá var bætt á vordögunum 1949 við síðari umr. í Ed. inn ákvæði, sem nú er 13. gr., að það væri heimilt þrátt fyrir ákvæði 2. gr., ekki þrátt fyrir ákvæði 3. gr., sem fjallar um eignina, að reka verksmiðjuna sem hlutafélag, ef ákveðið hlutafé fengist. Það var hv. 2. þm. Reykv. (BÓ), ef ég man rétt, sem kom með þessa brtt., — ef það er rangt, mun það verða leiðrétt, — og virtist vera á bak við tjöldin nokkuð gott samkomulag um það milli þeirra tveggja flokka, sem þá voru að búa sig undir að taka við og skipta hér til helminga, Framsfl. og Sjálfstfl. Þeir samþ. þetta, en Sósfl. og Alþfl. hér í Nd. og Ed. voru á móti því.

Þetta var fyrsti þátturinn í samsærinu, að fyrirtæki, sem kom til að kosta 130 millj. kr., skyldi vera, að því er 13. gr. l. sagði, rekið sem hlutafélag og hlutafélagið skyldi hafa hlutafé að upphæð 10 millj. kr., ríkissjóður skyldi eiga 6 millj. kr. og einstaklingar eða önnur fyrirtæki skyldu eiga 4 millj. kr. Og það fór svo með þessar 4 millj. kr., að það urðu helmingaskipti um það, eins og víða tíðkaðist á þeim tímum. Sambandið fékk helminginn og — eins og Framsfl. mundi orða það núna — milljónamæringarnir í Reykjavík hinn helminginn. Það var bróðurlega skipt milli Sambandsins og milljónamæringanna.

Þetta var fyrsta atriðið í samsærinu, að lauma þessari 13. gr. inn undir þessu sakleysislega formi, að verksmiðjan skyldi rekin sem hlutafélag, sem að vísu fáir skildu nú í, því að lítið hjálpaði það til með rekstur á fyrirtæki, sem hlaut að koma til með að kosta sinar 100–130 millj. og þurfti náttúrlega mjög svo mikið rekstrarfé, hvort 10 millj. og þar af 4 millj. frá einstaklingum fengjust sem hlutafé eða ekki, ekki sízt ef mann fór nú kannske að gruna, að svo og svo mikið af þessu hlutafé væri beinlínis lánað af bönkum ríkisins til eins ákveðins fyrirtækis, svo að það gæti keypt hlutafé í þessu nýstofnaða hlutafélagi.

Á næstu þingum á eftir, þegar Sjálfstfl. og Framsfl. höfðu myndað ríkisstjórn, helmingaskiptastjórnina, gerðist það svo, að tveir af ráðh. Framsfl., þáv. landbrh., núv. hv. þm. Str. (HermJ), og þáv., — ja, ég þori ekki alveg að fullyrða, hvort það var menntmrh. eða fjmrh., Eysteinn Jónsson, núv. 1. þm. S-M., þeir gáfu þær yfirlýsingar hér á Alþ., að þeir litu svo á, að þessi verksmiðja væri eign hlutafélagsins. Ég mótmælti þessum yfirlýsingum þá hérna og lýsti því yfir, að þessar yfirlýsingar, sem þessir ráðh. gæfu, væru á þeirra persónulegu ábyrgð og hver sá skaði, sem þeir kynnu að baka ríkinu með þessum röngu túlkunum á lögum og yfirlýsingum úr ráðherrastóli, væri á þeirra persónulegu ábyrgð, svo fremi sem svo færi seinna, að við málaferli um eignina á þessari verksmiðju eða mat á þessum hlutabréfum væri vitnað til þeirra yfirlýsinga. Ég varaði þess vegna við þessum yfirlýsingum þá þegar og hvaða fjárhagslegar afleiðingar þær gætu haft fyrir ríkið. Og ég bar þá fram frv. til þess að taka af öll tvímæli um þetta og hef borið slík frv. fram oftar svipuð eins og þetta, sem nú liggur fyrir, þó ekki alveg nákvæmlega eins. Það hefur ætíð farið þannig með þau frv., að í fjhn. þessarar d. hefur Alþfl. staðið þar með þeim og þegar fyrstu frv. mín komu þess efnis, var fulltrúi Alþfl. þar, Stefán Jóhann Stefánsson, núv. sendiherra í Höfn, sem var forsrh. í þeirri ríkisstj., sem samþ. þessi lög upphaflega. Þannig er alveg ljóst, hvers konar skilning forsrh. í þeirri ríkisstj., sem samþ. þessi lög í maí 1949, hefur haft á þessu máli. Hann leit þannig á, að áburðarverksmiðjan væri ótvíræð eign ríkisins og sömu afstöðu tók sá maður, sem síðar var fulltrúi Alþfl. í fjhn., þegar þessi mál komu seinna til meðferðar, sem er núv. hæstv. herra forseti Íslands, Ásgeir Ásgeirsson. Og ég lagði áherzlu á það í umr., sem hér fóru fram, að þannig stönguðust yfirlýsingar ráðh. Framsfl. annars vegar og afstaða forsrh. þeirrar stjórnar, sem samþ. lögin upphaflega, sá skilningur og sú afstaða, sem fram hafði komið hjá þeim, skilningurinn, sem þeir lögðu í lögin, og afstaða þeirra til 13. gr.

Það, sem svo gerist næst, annað stigið, eftir að þessar yfirlýsingar framsóknarráðh. höfðu komið fram, — maður getur raunverulega sagt þriðja stigið, ef maður vildi taka lagabreytinguna um 13. gr. sem það fyrsta, yfirlýsingu Framsóknarráðh. sem annað — og svo kemur þriðja tilraunin 1952. Þá eru helmingaskiptin í algleymingi og þá er það mjög uppi að eiga að framfylgja þeirri stefnu, sem Sjálfstfl. lýsti yfir fyrir síðustu kosningar, að hann vildi stefna að á mörgum sviðum, sem sé að ná fyrirtækjum ríkisins úr eigu þjóðarinnar og gera þau að einstaklingsfyrirtækjum. Þá sameinuðust Framsfl. og Sjálfstfl. eða ríkisstj. þeirra um það að bera fram brtt. eða setja breytingu inn í lög, sem þá voru til meðferðar á þinginu, þar sem ákveðið var, að það skyldi heimila Framkvæmdabankanum, þegar hann var stofnaður, að selja hlutabréf ríkisins í áburðarverksmiðjunni. Og á fundi með fjhn. Ed. 1952 var sá maður, sem varð síðar bankastjóri Framkvæmdabankans og þá var efnahagsmálaráðunautur helmingaskiptastjórnarinnar, Benjamín Eiríksson, að því spurður, hvort hann mundi þá nota þessa heimild og leggja til, að bankaráðið notaði hana, að selja þessi hlutabréf ríkisins upp á 6 millj. kr. einstaklingum, einkaaðilum. Eins og menn vita, var Framkvæmdabankinn samkvæmt hans starfsskrá alveg sérstaklega stofnaður til þess að hlynna að einkaaðilum og einkarekstri í landinu, og hann játaði því. Það vofði sem sé yfir þá og var till. þeirrar ríkisstj., sem Framsókn og Sjálfstfl. stóðu að, að þau hlutabréf, sem ríkið átti í áburðarverksmiðjunni, skyldu seld einstaklingum og samkvæmt yfirlýstum skilningi Framsóknarráðherranna, Eysteins Jónssonar og Hermanns Jónassonar, hefði það þýtt, að eign ríkisins á áburðarverksmiðjunni var þar með fargað og eignarréttur ríkisins á áburðarverksmiðjunni seldur fyrir, — hvort það hefur nú verið nafnverð, þessar 6 millj., eða eitthvað annað, og umráðarétturinn að þeirra skilningi yfir áburðarverksmiðjunni hefði þá verið látinn fyrir 10 millj. kr. eða þar í kring úr höndum ríkisins í hendur einkaaðila. Þetta var yfirlýst stefna Sjálfstfl. og Framsfl. í helmingaskiptastjórninni 1952. Það tókst að hindra þetta þá, m.a. vegna þess, að það komst upp um þetta. Það sást til þeirra, eins og auglýst er stundum.

Þegar fjhn. Ed. var að fjalla um þetta og tilvonandi framkvæmdastjóri Framkvæmdabankans, sem ekki var kannske fullkomlega ljóst, hvað þarna var að gerast, gaf þessar yfirlýsingar, þá var það alveg ótvírætt, hver afleiðingin hefði orðið, svo framarlega sem skilgreiningar þeirra ráðherra Framsfl. hefðu staðizt fyrir l. Það var allmikill hávaði út af þessari yfirlýsingu, út af þessari tilraun, því að það varð ekki litið á þetta sem annað, en eins konar samsæri fjáraflamanna í þessum tveimur flokkum, Framsfl. og Sjálfstfl., að klófesta fyrirtæki, sem ríkið þá var að byggja fyrir 130 millj. kr. og skaffaði alla peninga til, klófesta þetta og ná því í einstakra manna eign. Og af því að ekki var mjög langt til kosninga þá, hrukku þessir flokkar við, þeir þorðu ekki að framfylgja þessum ákvæðum og þeim var kippt út úr þeim lögum um Framkvæmdabankann, sem þarna var verið að fjalla um. Lögin voru nógu óvinsæl samt og sótt að hart á mörgum sviðum á móti ýmsum þeim ákvörðunum, sem þá var verið að gera, alls konar ráðstöfunum, þannig að henni þótti réttara að halda undan í þessum efnum og gefast upp við þetta. En það er vert, að menn muni þetta. Það er vert, að menn viti, að þetta var það, sem vofði yfir á tímabilinu 1949–1953. Fyrst er l. breytt, eins og ég hef sagt frá, síðan gefa ráðherrar Framsfl. þessar yfirlýsingar, sem eiga að hjálpa Sambandinu og milljónamæringunum í Reykjavík að stela, svo að maður noti ljótt orð, þessari verksmiðju úr eigu þjóðarinnar til þessara einkaaðila, sem aldrei höfðu gert neitt til þess að afla hennar raunverulega. Síðan gera þeir tilraunir til að selja meira að segja hlutabréf ríkisins þarna í, svo að það væri ótvírætt, að öll verksmiðjan yrði eign þessara einkaaðila og þetta er gert á því tímabili, 1949–1953, sem Framsfl. hafði sérstaklega lýst yfir, þegar hann gekk til kosninganna 1949, að skyldi verða stríðstímabil á móti fjárplógsstarfseminni. Framsfl. hafði m.a. unnið kosningasigur hér í Reykjavík undir því kjörorði, að nú skyldu fjárplógsmenn og milljónamæringar Reykjavíkur fá að vita af Framsfl. Fjárplógsstarfseminni var sagt stríð á hendur af hálfu Framsfl. og svo byrjaði stríðið, og þetta var e.t.v. greinilegasti sigurinn á fjárplógsmönnunum og fjárplógsstefnunni. Samband ísl. samvinnufélaga og útvaldir milljónamæringar í Reykjavík, sem gerðu helmingaskipti á milli sín um að ná til sín með ólöglegu móti, svo að ég aftur noti þingleg orð, upp undir helmingnum af eign í áburðarverksmiðjunni, samkvæmt yfirlýsingum Framsóknarráðherranna og gerðu síðan tilraun til þess að klófesta hana alla 1952, urðu að hætta við það í miðju kafi, af því að það komst upp um þá og hafa ekki síðan þorað að gera slíkt.

Árið 1955 bar ég svo fram eitt lagafrv. enn um þetta mál og reyndi að fá þetta fram. Það tókst ekki. Ég skal taka það fram í því sambandi, að þegar fjallað var um þetta mál þá, fyrir kosningarnar 1956, í fjhn. þessarar hv. d.. stóð Alþfl. með því, eins og hann hefur alltaf gert og fulltrúar Sjálfstfl. í n. tóku þá afstöðu, að þeir vildu mjög gjarnan taka þetta til athugunar og virtust alls ekki andvígir því að gera þessa ráðstöfun. Fulltrúi Framsfl. hins vegar vildi láta Sambandið segja sitt orð um þetta eins og oftar og varð ekki úr neinu samkomulagi við hann.

Allan tímann, sem vinstri stjórnin stóð, fékkst aldrei neinu hnikað í þessu máli. Ég flutti þetta mál enn fyrir kosningar 1958. Undirtektirnar hjá Alþfl. voru enn þær sömu. Hann stóð með þessu máli. Sjálfstfl. vildi ekki taka afstöðu á móti því, en ekki að svo stöddu afstöðu með því. Það var leitað umsagna, m.a. Sambands ísl. samvinnufélaga og þá umsögn hef ég hér. Samband ísl. samvinnufélaga tók með bréfi, dags. 19. febr. 1959, afstöðu á móti því, að þessi breyting, sem ég lagði til, næði fram að ganga. Og það fékkst engin samþykkt um þetta mál á því þingi.

Hvað hefur þá gerzt síðan, eða hvaða upplýsingar hef ég fengið síðan? Ég hef fengið upplýsingar, sem ég að vísu veit ekki á þessari stundu, hvort ég má byggja á, en hæstv. ríkisstj. gæti máske upplýst, hvort réttar væru og ég vil með þessari forsendu, að ég hef ekki gengið úr skugga um, að þær séu réttar, kasta hér fram. Ég hef heyrt, að í mati á hlutabréfum til stóreignaskatts hafi hlutabréf þeirra aðila, sem eiga hlutabréf í þessu rekstrarfélagi, Áburðarverksmiðjunni h/f, verið metin á sjöföldu verði. Ég held, að það sé rétt, að hluthafarnir í þessu félagi hafi aldrei fengið greiddan neinn arð. Þeir eiga samkv. l. að fá greidda, ef ég man rétt, 6%. Allt að 6% er heimilt að greiða þeim á ári.

Þegar hlutabréf eru metin í rekstrarfélagi, er eðlilegt að meta hlutabréfin með hliðsjón af því, hvaða arð þau geta gefið af sér og ef það er aðeins reksturinn, sem á að standa undir þessu mati á þessum hlutabréfum, nær engri átt að meta þau svona. Það virðist m.ö.o. vera, að þeir, sem meta þessi hlutabréf, ef þetta reynist rétt, meti þau ekki samkvæmt l. um áburðarverksmiðjuna, með hliðsjón af því, að þessi verksmiðja sé eign ríkisins og hlutabréfin aðeins hlutabréf i fyrirtæki, sem sér um að reka áburðarverksmiðjuna, en á hana ekki. Áburðarverksmiðjan hefur ekki gefið þann gróða og það er ekki ætlazt til, að hún gefi þann gróða, að það væri hægt að fara að sjöfalda verðmæti hlutabréfanna í rekstrarfélaginu Áburðarverksmiðjunni h/f frá því sjónarmiði.

Þarna virðist það liggja á bak við, að þeir menn, sem hafa metið þessi bréf, hafi gengið út frá því, að þessir hlutabréfaeigendur ættu áburðarverksmiðjuna, m.ö.o. gengið út frá yfirlýsingu Framsóknarráðherranna hér á Alþ. um þeirra skilning, að mínu áliti rangan skilning á lögunum. Ef svo væri litið á, að þetta hlutafélag ætti að eiga verksmiðjuna, þá er, eins og ég hef alltaf undirstrikað i sambandi við þessi frumvörp mín, vitað mál, að á 20 árum yrðu þessir menn búnir að eignast 40% af verðmæti áburðarverksmiðjunnar. Og þar sem nú eru liðin ein sex ár síðan áburðarverksmiðjan tók til starfa, þá væri, út frá þessu sjónarmiði, að þeir væru að eignast þetta, eðlilegt að meta þetta nokkru hærra. En ef þetta er rétt, þá eru hlutabréf upp á 4 millj. kr. að nafnverði, sem kannske að allmiklu leyti er lánað úr ríkisbönkunum til þess að kaupa þessi hlutabréf, — þá eru þau því orðin 28 millj. kr. virði núna. Þá er verið að gefa þessum hluthöfum tugmilljónir króna og búa sig undir að gefa þeim enn þá miklu meira og þá er að koma á daginn það, sem ég varaði við hér fyrir tíu árum i þinginu, hvað þessar yfirlýsingar Framsóknarráðherranna gætu kostað þjóðfélagið. Þessi ranga túlkun þeirra á lögunum og túlkun manna, sem hafa þarna hagsmuna að gæta fyrir það fyrirtæki, sem er aðalbakhjarl þeirra flokks, Samband íslenzkra samvinnufélaga, þetta allt tekið saman, hvernig 13. gr. er smokkað þarna inn í eins og eins konar þjófalykli, yfirlýsingar Framsóknarráðherranna um, að þetta rekstrarhlutafélag eigi að eiga áburðarverksmiðjuna og tilraunir síðan til þess að selja þetta allt saman úr eigu ríkisins og svo núna að lokum rangt mat á þessum hlutabréfum, — ef það er rétt hjá mér, sem ég hef heyrt og ég því miður hef ekki getað gengið úr skugga um, þá sjáum við, til hvers leikurinn er gerður.

Helmingaskiptin eru þá í góðu gildi enn i dag. Ef þetta reynist rétt, er búið að stela 24 millj. kr. Þá er verið að búa sig undir að koma þessu upp í líklega 80 millj., því að vart held ég, að 1969 eða 1973 verði áburðarverksmiðjan metin undir 203 millj. Þá sést, hvert þeir flokkar, sem að þessu hafa staðíð, eru að stefna með þessu.

Ég býst við, að ef hv. 1. þm. S-M. (EystJ), sem hér ætti nú raunverulega að standa fyrir sínu máli, ef hann væri hér viðstaddur, af því að hann er nú ekki hvað sízt sá, sem ákærður er, þá mundi hann vera að spyrja mig, hvern fjandann ég væri eiginlega að skipta mér af þessu. Ekki hefði maður líklega eitt einasta atkvæði upp úr því að vera að flytja hér einhver frumvörp um áburðarverksmiðju og hann hélt, að það væri yfirleitt ekki síður hjá alþm. að vera að flytja frumvörp, sem ekki væri möguleiki að hafa einhver atkvæði upp úr. Ég veit, að það er rétt hjá honum, að vafalaust verður enginn einasti maður í landinu, sem greiðir atkvæði með manni vegna þess, að hann standi með því að reyna að hindra, að það sé verið að stela af ríkinu 200 millj. kr. En á meðan ég á hér sæti, fylgi þeirri stefnu, sem stefnir að því að gera stórfyrirtæki í þessu landi að eign þjóðarinnar, mun ég ekki horfa upp á það þegjandi, og þá fer maður að halda sömu ræðuna áratug eftir áratug, að þessum fjáraflaklóm, sem hér eru að verki, þessum tveimur helmingaskiptaflokkum, Sjálfstfl. og Framsfl., takist ekki að stela á þennan hátt eignum ríkisins og skipta þeim á milli sín, en það er það, sem er að gerast. Það er það, sem er að gerast með þessu móti og ekkert annað. Og það er nauðsynlegt, ekki sízt þegar fer að koma fram í allríkum mæli sú tilhneiging að fara að taka þau fyrirtæki, sem eru í eigu hins opinbera og selja þau ýmsum aðilum með vafasömum heimildum, og þegar Sjálfstfl. gefur sérstaka yfirlýsingu um það og ríkasti maður landsins, einn af hans frambjóðendum, gerir sérstaka kröfu um það í Morgunblaðinu, að nú sé farið að róa að því öllum árum að selja bæjartogarana, hraðfrystihús bæjanna og ríkisins og annað slíkt, þá er ekki nema rétt að vara við og minna á þær aðgerðir, sem verið er að fremja í sambandi við áburðarverksmiðjuna, ekki sízt þegar svona fréttir berast til eyrna manni eins og þessi, sem ég gat um og ég því miður hef ekki getað fengið staðfesta, um þetta sjöfalda mat á þessum hlutabréfum.

Frv. mitt gengur út á það, að 13. gr. sé felld niður. Þar með stendur þá ekkert annað eftir viðvíkjandi verksmiðjunni en hvernig 3. gr. ákveður hennar eign. Þar stendur: „Verksmiðjan er sjálfseignarstofnun, er lýtur sérstakri stjórn. Verksmiðjuna má hvorki selja né veðsetja, nema heimild sé veitt til þess af Alþingi.“Þá er þessi 3. gr. að öllu leyti óvefengjanleg. Ég álít, að hún sé óvefengjanleg eins og hún er núna þrátt fyrir 13. gr., vegna þess að í 13. gr. stendur aðeins, að verksmiðjan skuli rekin sem hlutafélag. En með því að fella 13. gr. niður er þetta gert þannig, að ekki einu sinni ráðherrar Framsfl. geta vitnað i neitt i þessum lögum til þess að koma þessari áburðarverksmiðju úr eigu ríkisins.

Hins vegar var mér bent á það í fjhn., að það mundi vera eðlilegt að gera þá breyt. á 4. gr. l., þar sem ákveðið er um stjórn verksmiðjunnar, að í staðinn fyrir, að hún væri skipuð þremur mönnum, þá skyldi hún skipuð fimm mönnum, eins og nú er samkvæmt 13. gr. Þess vegna hef ég með 1. gr. lagt það til, að í stað orðsins „þremur“ komi þar: fimm, — og séu þeir þá kosnir eins og verið hefur með þá þrjá, sem ríkið hefur kosið með hlutfallskosningu í Sþ.

Það er rétt að minna á það um leið, að þegar kosið var í þessa áburðarverksmiðjustjórn 1954 af hálfu ríkisins og aths. var gerð við það, að þáverandi bankastjóri Landsbankans, Vilhjálmur Þór, var á einum þeim lista, sem fram kom til þeirra kosninga, en bankastjóra Landsbankans var — eins og er enn — bannað að taka þátt í stjórn atvinnufyrirtækja, þá gaf þáverandi hæstv. forseti sameinaðs þings, Jörundur Brynjólfsson, úrskurð, þar sem hann taldi það rétt, að þessi maður mætti vera í þessu embætti, með eftirfarandi rökstuðningi, sem ég vil — með leyfi hæstv. forseta — leyfa mér að lesa upp:

„Hér er um að ræða kjör af hálfu Alþingis til stjórnarstarfa í þessu fyrirtæki, áburðarverksmiðju ríkisins og umboð þeirra manna, er Alþingi kýs, er veitt af hálfu Alþingis, þess opinbera, til þess að ráða af sinni hálfu þessari stofnun og á því ekki skylt við einkaatvinnufyrirtæki, heldur er það fyrst og fremst til að ráða þessu opinbera fyrirtæki ríkisins, sem Alþingi með kosningu veitir umboð þeim mönnum, er til þess eru kjörnir.“

Með þessum rökstuðningi leyfði hæstv. forseti Sþ. sér að ákveða um kjör þessa bankastjóra Landsbankans, sem mátti ekki lögum samkvæmt taka stjórn í atvinnufyrirtækjum, að það væri leyfilegt að stilla honum upp og kjósa hann í stjórn áburðarverksmiðjunnar, eingöngu af því að forseti Sþ. úrskurðaði, að þetta væri fyrirtæki ríkisins, þannig að hann lýsti þar skoðun, sem var algerlega andstæð þeirri skoðun, sem ráðh. Framsfl. höfðu lýst.

Nú er mér hins vegar ljóst, sérstaklega eftir þær fréttir, ef sannar reynast, um matið á hlutabréfunum i Áburðarverksmiðjunni h/f, rekstrarfélaginu, að það muni geta orðið nokkrum örðugleikum bundið að fá þessa hluthafa til að láta af hendi skuldabréf sín með góðu móti á þann hátt, sem ég hef í þeim frv., sem ég hef flutt hér undanfarið, gert ráð fyrir, sem sé með því móti, að þeim væru bara greidd þau 6%, sem þeir mættu fá hæst lögum samkvæmt í arð af sínu hlutafé og þar með leystir út. Ég er mjög hræddur um, eins og Framsfl. mundi núna segja í þeim stríðsham á móti fjárplógsstarfseminni, sem hann er í, í svipinn undir kosningar, að þá mundu þeir segja, að hlutabréf þeirra væru þarna allmiklu meira virði, og skírskota til yfirlýsinga Framsóknarráðherranna og gera kröfu til þess, að samkvæmt stjórnarskránni um upptöku fjár, eignarnám, þá yrðu metin sérstaklega þeirra hlutabréf og það gætu orðið mikil málaferli út af þessu. Ég hef aldrei viljað setja inn í þetta frv. neitt ákvæði um neina upptöku eigna eða neitt slíkt, vegna þess að ég hef aldrei gengið út frá því, að á bak við þessa eign hlutabréfanna stæði nein eign í áburðarverksmiðjunni, heldur væri þetta aðeins réttur til ágóða af rekstri, til hluttöku í gróða af rekstri. Úr þessu gætu þess vegna orðið mikil málaferli, ef ekki næðist samkomulag og ég get að mörgu leyti vel skilið það, að þessir hluthafar, sem hafa fengið svona góðan stuðning fyrir sína fjárplógsstarfsemi frá ráðherrum Framsfl., mundu gera kröfu til þess að fá eitthvað meira fyrir sinn snúð, en bara þessar 4 millj., sem þeir hafa lagt fram. Þess vegna hef ég sett það inn í 3. gr. þessa frv., að hlutabréfin, sem sé upp á þessar 4 millj., væri ríkissjóði skylt að innleysa á nafnverði að viðbættum 6%, en legg þó til um leið, að ríkisstj. sé gefin heimild til að greiða hærra verð, ef hluthafarnir krefjast þess, enda hafi þá sérstök þingnefnd, sem þingflokkarnir finna sér hver einn mann í, samþykkt það mótatkvæðalaust. M. ö. o.: ég legg til, að kosin sé sérstök þingnefnd eða útnefnd af þingflokkunum ríkisstj. til aðstoðar við samninga við þessa hluthafa, þannig að ríkisstj. megi, ef allir fulltrúar þingflokkanna fallast á það, greiða hluthöfunum hærra verð, en nafnverð fyrir þessi hlutabréf. Þetta er höfuðbreytingin á mínu frv. frá því, sem hefur verið á undanförnum þingum. Af hverju geri ég þetta? Af því að ég sé, að ef sagan um þetta mat reynist rétt, þótt matið sé rangt, að það þarf að sjöfalda þessi hlutabréf að áliti ríkisskattanefndar eða skattstjóra eða hvaða aðilar það nú eru, sem meta svona, þá er strax verið að gera tilraun til að láta hlutabréf, sem að nafnverði eru 4 millj. kr., kosta 28 millj. kr. og þar með stefnt að því að láta þau kosta 80 millj. kr., sem sé að féfletta almenning í landinu með þessu móti í helmingaskiptum á milli Framsfl. og Sjálfstfl. samkvæmt sérstökum yfirlýsingum ráðh. Framsfl.

Ég álít, að það þurfi að stöðva þessa starfsemi á því stigi, sem hún er nú. Mér er það ljóst, að því fleiri ár sem líða, því dýrara verður það. Hefði verið farið að mínum ráðum, strax og ég flutti þessi frv. hér, hefðu eigendur þessara hlutabréfa þakkað fyrir að fá sínar 4 millj. og sína vexti. Nú koma þeir til með að færa sig upp á skaftið. Þó vil ég heldur semja við þá nú, meira að segja þó að það færi upp í það að tvöfalda þeirra upphaflegu hlutabréfaeign, þótt þeir ættu að fá einhvers staðar á milli 6 og 8 millj. fyrir þetta, heldur en bíða, ef svona verður haldið áfram eins og nú er stefnt með þessu ósvífna tiltæki, sem þessir helmingaskiptaflokkar, Framsfl. og Sjálfstfl., hafa haft í frammi um þetta fyrirtæki ríkisins. Þess vegna vil ég gefa ríkisstj. heimild til þess að greiða hærra verð, en þarna er tilgreint, að því tilskildu, að fulltrúaþing flokkanna fallist á þetta.

Ég vil alvarlega skírskota til hv. þm. þessarar d., — þessi d. hafði alltaf samþykkt áburðarverksmiðjuna, þegar lögin voru upphaflega samþykkt 1949, sem fyrirtæki ríkisins og það var aðeins þegar þessari d. var stillt frammi fyrir gerðum hlut, að Ed. hafði breytt þessu á síðustu dögum þingsins 1949, fyrir kosningar, að fallizt var á þetta hér í flaustri af tveimur flokkum, Framsfl. og Sjálfstfl., — ég vil nú alvarlega skírskota til þm. þessarar hv. d. að sjá sig um hönd og breyta þeirri afstöðu hjá þeim þeirra, sem hafa verið mótfallnir því fram að þessu að gera þetta fyrirtæki, eitt stærsta fyrirtæki, sem þjóðfélagið á sem sameign, að ótvíræðri eign ríkisins.

Ég vil svo leyfa mér, herra forseti, að leggja til að, að lokinni þessari umr. sé málinu vísað til 2. umr. og hv. fjhn.